Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Við Austurvöll - eða úti á Austurvelli?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist tilbúin til að leiða fimm flokka ríkisstjórn, sem hún segir að sé sín óskaríkisstjórn, svo furðulega sem það hljómar.

Þriggja flokka ríkisstjórnir hafa yfirleitt ekki gefist vel hér á landi, jafnvel ekki tveggja flokka vinstristjórnir og nægir að benda á hina "einu sönnu og tæru vinstri stjórn" sem sat við völd á síðasta kjörtímabili með hörmulegum árangri.

Ýmsir vinstrisinnar eru byrjaðir að þylja áróðurinn um að allir flokkar sem fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki tapi á slíkri samvinnu, en þó hafa engir flokkar beðið annað eins afhroð og Samfylkingin eftir stjórnarsamstarf við VG, sem reyndar stórtapaði líka á því samkrulli.

Ýmislegt sem öfgvavinstrið hvefur látið frá sér fara á samfélagsmiðlunum eftir kosningar benda til þess að annaðhvort verði VG í meirihlutasamstarfi innan Alþingishússins við Austurvöll, eða leyniher vinstriöfgaaflanna verði kallaður út með sína potta, pönnur, lúðra og kröfuspjöld til þess að gera hverri þeirri ríkisstjórn lífið leitt sem VG myndi ekki eiga aðild að.

Samfylkingin er ein rjúkandi rúst eftir kosningarnar og ekki er hennar tap tilkomið vegna samstjórnar með Sjálfstæðisflokknum, enda var hún í stjórnarandstöðu allt kjörtímabilið og í mikilli og góðri samvinnu við VG, Pírata og Bjarta framtíð.  

Velgengni flokka og hrun þeirra ræðst eingöngu af eigin vinnubrögðum þeirra og trúverðugleika, en ekki hvort þeir eru innan eða utan ríkisstjórnar.  Sumir þurfa bara að kenna öðrum en sjálfum sér um útkomu kosninga.

Einmitt vegna þess að ýmsir þola ekki að aðrir flokkar en þeir sjálfir styðja starfi í ríkisstjórn er nánast öruggt að leyniherinn verður ræstur út til að standa fyrir óspektum á Austurvelli verði VG utan ríkisstjórnar, sem allt bendir raunar til að verði.


mbl.is Fimm flokkar fyrsti kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfið stjórnarmyndun framundan

Niðurstaða kosninganna leiðir af sér að líkur eru á stjórnarkreppu næstu vikur og mánuði, þar sem engir augljósir kostir eru í stöðunni um hvaða flokkar væru líklegir til að taka upp stjórnarsamstarf.

Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur, sem festir Bjarna Benediktsson í sessi sem áhrifamesta stjórnmálamann landsins, VG vann verulega á og Píratar fengu ótrúlega mikið fylgi þó það yrði langt frá því sem þeir sjálfir væntu og skoðanakannanir höfðu spáð þeim.

Píratar höfðu boðað vini sína úr sambærilegum utangarðsflokkum frá fimmtán löndum og boðað tugi erlenda fréttamenn til landsins og fyrir kosningar búnir að boða til blaðamannafundar í dag kl. 15:00, þar sem Birgitta ætlaði að gorta sig af því að hafa leitt stjórnarandstöðuflokka núverandi kjörtímabils til ríkisstjórnarmyndunar undir sinni forystu og þar sem hún sjálf yrði forsætisráðherra.

Annað eins rugl og framkoma Birgittu og flokks hennar fyrir kosningar hefur líklega orðið til þess að nú heyrir Samfylkingin nánast sögunni til og líklegasta niðurstaðan að afar erfitt verður að mynda starfhæfa ríkisstjón og erfiðir tímar framundan í þjóðarbúskapnum.

Erlendir fjölmiðlar eru þegar farnir að fjalla um flopp Birgittu og félaga og fróðlegt verður að sjá og heyra hvernig hún ætlar að snúa sig út úr eigin flumbrugangi á fundinum með hinum útlendu fréttamannanna.

 

 


mbl.is Lágmark þriggja flokka ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í stórsigur Sjálfstæðisflokksins

Miðað við þær tölur sem hafa birst núna (kl. 0:30) úr talningu atkvæða í kosningunum stefnir allt í stórsigur Sjálfstæðisflokksins.  Að sama skapi hljóta atkvæðatölur Pírata að teljast stórkostlegt áfall fyrir þá miðað við að "flokkurinn" var að mælast allt upp undir 40% í skoðanakönnunum fyrir tiltölulega fáum vikum síðan.

Í framboði voru allt að tólf stjórmálaflokkar og allir stefndu þeir að því að ná fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, sem miðað við þær tölur sem komnar eru hefur algerlega mistekist.  Hins vegar tókst að helminga fylgi Framsóknarflokksins og Samfylkingin býður algert afhroð.

Bjarni Benediktsson er ótvírætt sá stjórnmálamaður sem höfuð og herðar ber yfir aðra stjórnmálamenn landsins og næst honum hefur Katrín Jakobsdóttir mesta persónufylgið og nýtur flokkur hennar þess, enda á stefna hans engan sérstakan hljómgrunn meðal þjóðarinnar.

Viðreisn, sem er algerlega nýr flokkur sem stofnaður var sérstaklega til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, sem reyndar mislukkaðist algerlega, hefur nú í höndum sér hvort Birgitta Jónsdóttir og hennar lið verður leitt til ráðherrastóla í fimm flokka ríkisstjórn sem yrði ekkert annað en stórslys í íslenskri stjórnmálasögu.

Vonandi verður gæfa þjóðarinnar höfð í fyrirrúmi og stjórn mynduð fljótlega undir styrkri stjórn Bjarna Benediktssonar.

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 30%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyniríkisstjórn

Pírarar, Vinstri grænir, Samfylking og Björt framtíð hafa komist að samkomulagi um að REYNA að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum á laugardaginn, en neita að gefa nokkuð upp um hvaða stefnu slík ríkisstjórn myndi fylgja.

Það undarlega við þessa yfirlýsingu flokkanna er að sagt er að hér yrði um að ræða afgerandi mótvægi við núverandi ríkisstjórn þó ekkert sé útskýrt í hverju það lægi. Meira að segja er tekið fram að áhersluatriði væntanlegrar ríkisstjórnar séu ómótuð.

Birgitta pírataforingi hefur marg lýst því yfir að flokkur hennar setti það sem algert skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn að kjörtímabilið yrði ekki nema í mesta lagi átján mánuðir og sá tími yrði fyrst og fremst notaður til að breyta stjórnarskránni, sem fáir aðrir telja mikla nauðsyn vera á að breyta nema þá í fáeinum atriðum.

Nú er hins vegar allt annað hljóð komið í sjóræningjaflokkinn, eða eins og fram kemur í lok viðhangandi fréttar:  "Varðandi kröfu Pírata um styttra kjör­tíma­bil til þess að koma í gegn nýrri stjórn­ar­skrá og hvort samstaða sé um það seg­ir Ein­ar að það verði að koma í ljós. Pírat­ar hafi ekki út­fært það ná­kvæm­lega. Hins veg­ar séu all­ir sam­mála um að klára stjórn­ar­skrár­málið. Spurður um þjóðar­at­kvæði um Evr­ópu­sam­bandið seg­ir hann: „Við ákváðum að gefa ekki kost á nein­um upp­lýs­ing­um um nein mál­efni annað en það að orða þetta svona al­mennt. Að það sé sam­hljóm­ur í þess­um stóru mál­um.“"

Kjósendur hljóta að sameinast um að hafna þessum flokkum og boðaðri leynistefnuskrá þeirra í komandi kosningum.


mbl.is Ágreiningsmálin óafgreidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur sýni ábyrgð og réttsýni í kosningum til Alþingis

Líklega hefur aldrei verið betra að búa á Íslandi en einmitt núna, eftir að tekist hefur á lygilegan hátt að rétta þjóðarskútuna af eftir boðaföllin sem yfir hana gengu haustið 2008.

Núverandi stjórnarflokkar hafa unnið sannkallað þrekvirki við endurreisn lífskjaranna í landinu, enda sýna allar mælingar að hagur almennings hefur stórbatnað undanfarin ár og kaupmáttur sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt nú.

Kröfur eru háværar um að þingmenn sýni starfi sínu virðingu og fjalli um mál af alvöru og ábyrgð, en eyði ekki tíma þingsins í einskisvert karp um aukaatriði og hvað þá endalaust þvarg um "störf þingsins" eða "fundarstjórn forseta".

Kjósendur þurfa að sýna sömu ábyrgð þegar kemur að kosningum til Alþingis og kasta ekki atkvæði sínu á þá sem hæst hafa og mestu lofa upp í ermina á sér án þess að ætla sér að standa nokkurn tímann við fagurgalann og vita reyndar að það mun aldrei verða mögulegt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í störfum sínum á því kjörtímabili sem nú er að ljúka að honum er best treystandi til að stjórna þannig að stöðugleiki verði varanlegur, kjör almennings fari stöðugt batnandi um leið og skuldir ríkissjóðs verða minnkaðar svo verulega að vaxtakostnaður verði viðráðanlegur.

Stöðugleikanum og styrkri stjórn má ekki fórna með kæruleysi og trúgirni á fagurgala þeirra sem aldrei hafa sýnt annað af sér en ruglanda og háreysti.

Kjósendur hljóta að gera sömu kröfu til sjálfra sín og þeir gera til þeirra sem á Alþingi sitja hverju sinni, þ.e. ábyrgð og réttsýni.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarkreppa eftir kosnignar???

Miðað við skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar, sem er í takt við aðrar undanfarið, er varla útlit fyrir annað en að um alvarlega stjórnarkreppu verði að ræða eftir kosningarnar um næstu helgi og að jafnvel þurfi að kjósa aftur í vor.

Samkvæmt venju mun forseti fela núverandi ríkisstjórn að sitja sem starfsstjórn þangað til ný yrði mynduð, sem alveg öruggt er að mun taka langan tíma.  Líklegra er reyndar að það muni hreint ekki takast gangi spár um kosningaúrslitin eftir.

Starfsstjórn hefur ekki umboð til að leggja fram önnur þingmál en þau sem algerlega bráðnauðsynleg eru og skylda þingsins er að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Fjárlög núverandi stjórnarflokka, sem auðvitað eru löngu tilbúin, munu því verða nánast einu lögin sem samþykkt verða á næstu máuðum.

Viðreisn hefur sýnt lítinn áhuga á að starfa í vinstri stjórn og vinstri flokkarnir þykjast a.m.k. ekki vilja vinna með Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki.  Samkvæmt skoðanakönnunum yrði þá eini möguleikinn til að mynda stjórn með nægan þingmeirihluta vera stjórn Pírata, Vinstir grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar.  

Myndun slíkrar stjórnar hlýtur þó að vera ósennileg vegna þess að af fimmtán líklegum þingmönnum Pírata yrðu þrettán þeirra nýliðar á þingi og hópurinn þar með algerlega óreyndur, ósamstæður og flokkurinn lengi að taka ákvarðanir í stórum málum.

Skoði kjósendur ekki hug sinn betur en skoðanakannanir benda til núna, munu þeir sitja uppi með skelfilega fjögurra flokka vinstri óstórn eða það sem líklegra er, langvarandi stjórnarkreppu og nýjar kosntingar á vördögum.  


mbl.is Áfram sveiflast fylgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilja píratarnir sjálfa sig?

Fyrir nokkrum dögum sendu píratarnir nokkrum öðrum vinstri flokkum bréf sem þeir skildu ekki á nokkurn hátt öðruvísi en að þar væri verið að bjóða upp á stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar.  

Slík stjórnarmyndun hefði auðvitað verið algert nýmæli og sett kjósendur í þá stöðu að geta kosið hvern þessara vinstri flokka sem væri og alltaf verið vissir um að "sinn flokkur" fengi a.m.k. tvö ráðherrasæti eftir kosningar, jafnvel þó allir hefðu vitað fyrirfram að fimm flokka stjórnarsamstarf myndi aldrei endast nema í fáeinar vikur.

Eftir að sumir þessara nýju pennavina píratanna tóku erindinu fálega hafa píratarnir keppst við að neita því að um stjórnarmyndunarbeiðni hafi verið að ræða, heldur hafi þetta eingöngu verið vingjarnlegt boð um kaffispjall um daginn og veginn.  T.d. segir Smári McCarty, hugmyndafræðingur píratanna, á Facebook að þetta sé allt misskilningur:  "Við erum því ekki að boða til stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna, við erum að boða til sam­starfsviðræðna. Mun­ur­inn skipt­ir miklu máli - við erum að fara [sic] um mál­efni, ekki embætti," skrif­ar Smári.

Þetta stangast að vísu algerlega á við  það sem sagði í stjórnarmyndunartilboðinu sem píratarnir sendu frá sér fyrir stuttu, en þar sagði m.a.:  "Við munum ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosningar."

Þessa setningu gæti enginn misskilið aðrir en píratarnir sjálfir.


mbl.is Ræða um málefni, ekki embætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband