Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Eina rétta leiðin

Rök þeirra stjórnmálamanna sem ætla að greiða Icesave III atkvæði sitt á Alþingi hafa helst verið þau, að samþykkt þrælasamningsins myndi liðka til fyrir endurreisn atvinnulífsins í landinu og að mikil áhætta fælist í því að fara með málið fyrir dómstóla.

Allir eru hinsvegar sammála um að fjárkúgunarkrafa Breta og Hollendinga sé ólögvarin og ekkert í tilskipunum eða regluverki ESB skyldi ríkissjóði til að ábyrgjast tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta í Evrópulöndum, heldur þvert á móti banni í raun slíkar ábyrgðir vegna samkeppnissjónarmiða.  Þetta hafa ráðamenn innan ESB staðfest og það fleiri en einn ásamt því að allir lögspekingar, sem um málið hafa fjallað eru á sama máli.

Af þeim sökum er vandséð í hverju sú áhætta á að vera fólgin að fara með málið fyrir dómstóla, enda hefur enginn stjórnmálamaður reynt að útskýra hvar sú áhætta liggur.  Ekki hefur heldur verið útskýrt með viðhlýtandi hætti hvernig það myndi stuðla að endurreisn atvinnulífsins og liðka til fyrir með erlendar lántökur að ríkissjóður tæki á sig tuga eða hundraða milljarða skuldbindingar vegna gjaldþrota einkabanka.

Allt þetta gæfist tóm til að ræða og útskýra fyrir þjóðinni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, ásamt því að leggja fram og ræða þær skattahækkanir og þá nýju skatta sem leggja þyrfti á íslenska skattgreiðendur til að standa undir greiðslu þessara auknu útgjalda ríkissjóðs. 

Með málefnalegri umræðu og útskýringum gætu kjósendur gert upp hug sinn hvort þeir væru tilbúnir til að leggja fram það fé sem til þarf til greiðslu þrælaskattsins og engir eru bærari til að ákveða um það, aðrir en þeir sem sjálfir þurfa að þola svipuhöggin frá þrælahöfðingjunum.

Á hátiðar- og tyllidögum er vinsælt hjá stjórnmálamönnum að tala um lýðræðið og aukna þátttöku almennings í afgreiðslu stórra mála með beinni aðkomu í þjóðaratkvæðagreiðslum.  Nú hafa þeir tækifæri til að standa við fögru orðin með því að samþykkja á morgun að vísa Icesave III til kjósenda til endanlegrar afgreiðslu.

Til þess að sýna samhug með slíkri afgreiðslu málsins er nauðsynlegt fyrir almenning að skrá sig á undirskriftalista kjosum.is strax í dag, því á morgun getur það verið orðið of seint.  Fljótlegt er að skrifa nafnið sitt á þennan áskorendalista, sem finna má HÉRNA

 


mbl.is Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaatlaga Alþingis að þjóðinni hafin

Í eitt og hálft ár hefur Steingrímur J. reynt ítrekað að hafa milligöngu um  að selja íslenska skattgreiðendur í áratugaþrældóm í þágu erlendra fjárkúgara, en í tvígang hefur tekist að hrinda slíkum atlögum, þ.e. Icesave I og Icesave II.

Á morgun á að keyra í gegnum Alþingi svokallaðan Icesavesamning III, sem auðvitað er ekki samningur um annað en þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga, eins og hinir fyrri tveir, en nú á að ljúga Icesave III inn á þjóðina með því að þessi þrælasamningur sé svo miklu betri en hinir tveir og því muni ekki svíða eins sárlega á þrælabökunum undan svipuhöggunum.

Undirskriftasöfnunin á kjosum.is er í fullum gangi, enda málinu flýtt á Alþingi til þess að ekki náist að safna nægum fjölda undirskrifta í tíma og því verður að benda fólki að hafa hraðar hendur við að skrá sig á listann og sýna þannig í verki að þjóðin láti ekki selja sig í þrælavist baráttulaust.

Ekki tekur nema eina mínútu að skrá sig og það er gert HÉRNA 


mbl.is Icesave á hraðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum á kjosum.is

Mikil örvænting hefur gripið um sig á Alþingi vegna undirskriftasöfnunarinnar á netinu með áskorun á forsetann að neita þrælalögunum um Icesave III staðfestingar og það svo, að reiknað er með að fundað verði fram á kvöld á morgun, en það er ekki algengt að svo sé gert fyrr en nær dregur þingslitum.

Þór Saari mun hafa lagt fram tillögu í Fjárlaganefnd um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en enginn studdi þá tillögu í nefndinni nema Höskuldur Þórhallson. Þór segist ætla að flytja tillöguna aftur á þingfundi á morgun við þriðju og síðustu umræðu um þrælasölufrumvarpið.

Ekki verður öðru trúað en að meirihluti þingmanna muni samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og setja þannig í hendur þjóðarinnar sjálfrar hvort hún samþykki að setja sjálfa sig í skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara til næstu áratuga.

Þingmönnum og forseta til hvatningar er vissara fyrir kjósendur að snúa bökum saman strax og skrifa sig á áskorunarlistann, því varla getur nokkur verið á móti því að efla lýðræðið í landinu með þjóðaratkvæðagreiðslum, enda spara þingmenn ekki lofsyrðin um opnari stjórnsýslu með meiri og beinni aðkomu kjósenda í stórum málum sem smáum.

Nú þegar hafa tæplega fimmtánþúsund manns tekið þátt í undirskriftasöfnuninni. Tíminn er naumur og því ástæða til að hvetja fólk til að taka þátt í baráttunni fyrir auknu lýðræði, áður en það verður of seint.


mbl.is Icesave afgreitt af fjárlaganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm?

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Gísla Tryggvasonar um endurupptöku úrskurðarins um kosningu til stjórnlagaþings, en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna hefði verið svo illilega ábótavant og ekki staðist lög og lágmarkskröfur um kosningar og því væri ekki annað hægt en að vísa öllu saman út í hafsauga.

Þar sem úrskurður Hæstaréttar í þessu tilfelli skoðast sem stjórnvaldsaðgerð en ekki dómur og lögin gölluðu um stjórnlagaþingskosningarnar gerðu ekki ráð fyrir áfrýjun til æðra dómstigs, en Hæstiréttur er auðvitað æðsta dómstig réttarríkisins, fer málið að vandast fyrir þá sem ekki eru ánægðir með niðurstöðu Hæstaréttar í þessu stórgallaða máli.

Eina leiðin til að fá úr þessu skorið er að stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm og krefjast þess að Hæstaréttarúrskurðurinn verði ógiltur.  Niðurstöðu Héraðsdóms, hver sem hún verður, verður svo auðvitað áfrýjað til Hæstaréttar til endanlegrar afgreiðslu.

Þar með yrði vitleysisgangurinn vegna þessarar óvönduðu lagasetningar og lélegrar framkvæmdar hennar kominn á endastöð.

 

 


mbl.is Endurupptöku synjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur í boði lífeyrisþega

Fyrir allmörgum árum var almenningi gert kleift að leggja í séreignarlífeyrissjóði til elliáranna og átti sú viðbót að koma sjóðfélögunum til góða í ellinni sem viðbót við þær greiðslur sem fólkið fengi frá Trygggingastofnun og sameignarlífeyrissjóðunum. 

Munurinn á lífeyrissjóðakerfunum tveim er aðallega sá, að í sameignarsjóðunum eru félagarnir í raun að greiða iðgjald, líkt og hjá tryggingafélögunum, og fá ákveðin réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur sínar, en í séreigarlífeyrissjóðunum safnast upp séreign sjóðfélagans, eins og nafn sjóðanna segir til um, og inneignin erfist beint, sem ekki er raunin með samtryggingarsjóðina.

Til þess að létta ríkissjóði róðurinn í kreppunni og ekki síst til að halda uppi einhverri eftirspurn og eyðslu í þjóðfélaginu, fékk ríkisstjórnin þá snilldarhugmynd að láta væntanlega eftirlaunaþega standa undir hvoru tveggja, með því að eyða strax þeim sparnaði sem fólk hafði ætlað til að létta sér lífið í ellinni.

Allar ríkisstjórnir á vesturlöndum hafa látið í algeran forgang að efla atvinnulíf og minnka atvinnuleysi í löndum sínum og engum dottið í hug að láta þegnana snúa hagkerfinu með væntanlegum ellilaunum sínum og er íslenska ríkisstjórnin algerlega sér á báti varðandi ræfildóm í atvinnumálum og örugglega sú eina sem beinlínis berst með öllum ráðum gegn hvers konar aukningu og nýmælum í þeim efnum, en stuðlar þess í stað að fólksflótta úr landinu og auknu atvinnuleysi.

Steingrímur J. getur þakkað verkalýðshreifingunni og ríkisstjórn Davíðs Oddsonar fyrir að hafa komið séreignarlífeyriskerfinu á, því vandséð er hverning Steingrímur J. hefði bjargað sér fyrir horn núna, hefði hann ekki getað opnað fyrir eyðslu þessara sjóða.

 


mbl.is 52.000 taka út séreignasparnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marðarmútur

Mörður Árnason, Samfylkingarþigmaður, er frægur að endemum vegna ýmissa ummæla sem hann hefur látið falla um menn og málefni í gegnum tíðina. Flest hefur það auðvitað verið tóm vileysa, enda Mörður ekki hátt skrifaður í huga fólks sem þingmaður, heldur endalaus uppspretta spaugs og gamanmála.

Í þætti Egils Helgasonar í dag, mun Mörður hafa sagt að þátttaka Landsvirkjunar í greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags Flóahrepps væri ekkert annað en mútur og til að leggja sérstaka áherslu á þá skoðun sína sagði hann kokhraustur, eftir spurningu frá Agli um hvort hann væri virkilega að gefa í skyn að um mútugreiðslu væri að ræða:  "En úr því að þú spyrð þá segi ég mútur og skrifa mútur".

Það er alvarlegt lögbrot að bera mútur á menn og ekki síður að þiggja þær.  Nú verður Mörður að standa fyrir máli sínu og sanna ásakanirnar, því ekki verður við það unað að þingmaður á Alþingi ásaki fólk um glæpi í þeirri vissu að ekki sé hægt að kæra hann fyrir ummælin í skjóli þinghelgis hans.  Þjóðin á ekki skilið að sitja uppi með huglausa ómerkinga sem fulltúa sína á Alþingi og svona framkoma eins og Mörður sýndi þarna er algerlega óásættanleg.

Hvað segir Mörður um fjögurra milljarða króna greiðslu frá ESB til ríkisstjórnarinnar og ýmissa stofnana til nota í jákvæðan áróður fyrir ESBinnlimun þjóðarinnar?

Mörður verður að upplýsa þjóðina um það, hvort hann kalli þá greiðslu mútur og þar með sjálfan sig, ríkisstjórnina og fleiri sem þessar greiðslur þiggja, mútuþega. 


mbl.is Segi mútur og skrifa mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fésbókarbyltingar breiðast út

Barátta almennings í Túnis, sem endaði með því að ríkisstjórnin var hrakin frá völdum, hefur sumstaðar a.m.k. verið kölluð Fésbókarbyltingin, enda hófst hún og var skipulögð með boðum manna á milli á þeirri vefsíðu og reyndar fleirum, ásamt auðvitað með smáskilaboðum í gegnum farsíma.

Margar arabaþjóðir, sem og aðrar múslimaþjóðir, hafa búið við einræði og harðstjórn í áratugi og tekist hefur að halda almenningi niðri með aðstoð hers, lögreglu og annarra skipulagðra sveita sem haldið hefur verið við efnið með góðum launum og ýmsum fríðindum, sem hinn almenni borgari hefur ekki einu sinni getað látið sig dreyma um. 

Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessum ríkjum til að mennta þjóðinar, heldur hefur þeim verið haldið niðri með menntunarskorti, fáfræði og einhliða áróðri í fjölmiðlum reknum af yfirvöldum, eða a.m.k. þeim þóknanlegum.  Þetta gat gengið þangað til vasasímarinir komu til sögunnar og síðan Internetið með öllum sínum samskiptasíðum, ekki síst Fésbók, þar sem almenningi opnaðist skyndilega farvegur til að kynnast skoðunum annarra og koma sínum eigin á framfæri.

Þrátt fyrir almenna fátækt viða í veröldinni er aðgangur að Internetinu ótrúlega útbreiddur og þó tölvur séu ekki inni á hverju heimili, er víðast aðgangur að þeim á netkaffihúsum og vasasímaeign er orðin ótrúlega almenn, jafnvel í fátækustu þjóðfélögum.  Við þetta allt saman bætast sjónvarpsstöðvar sem senda fréttir um allan heim og einstök stjórnvöld hafa litla möguleika til að hindra greiðan aðgang að þeim. 

Múslimalöndin eru eins ólík og þau eru mörg og því ekkert hægt að alhæfa um þau, en a.m.k. í Norður-Afríku og arabalöndunum mörgum er komin í gang almenn krafa um frelsi og lýðræði, sem ekki verður kveðin niður héðan af, nema þá í stuttan tíma í hverju því landi þar sem slíkt verður reynt.

Fésbókarbyltingin er rétt að byrja.


mbl.is Jemenar kalla eftir byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar Bónusgengisins afhjúpaðar

Undanfarin ár hefur Bónusgegnið brugðist ókvæða við öllum fréttum um að afskrifa þurfi tugi eða hunduði milljarða króna vegna glæpsamlegs fyrirtækjareksturs gengisins á árunum fyrir bankahrun, sem þetta sama gegni átti stóran hlut í að valda, með öllum þeim skaða sem þjóðin hefur orðið fyrir í kjölfarið.

Jóhannes, andlit Bónusgengisins, brást illur við fréttum af hugsanlegum afskriftum og sagði allar slíkar fréttir lygar og áróður og t.d. sagði hann í viðtali þann 04/11 2009 að ekki yrði afskrifuð ein einasta króna vegna Haga hf. eða 1988 ehf., sem var eignarhaldsfélag Bónusgengisins.  Það viðtal má sjá Hérna

Stuttu síðar, eða 13. nóvember 2009, tók Finnur Árnason, forstjóri Haga, undir lygar húsbænda sinna, en í frétt í Morgunblaðinu sagði hann m.a:  "Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir, að engar skuldir félagsins hafi verið afskrifaðar og  ekki standi til að afskrifa neinar skuldir á Haga.  Hagar séu þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins.  Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma.

Nú sé unnið að lausn á skuldum eignarhaldsfélagsins 1998, eiganda Haga.  Þar sé meginmarkmiðið að ekki komi til neinna afskrifta skulda, m.a. með því að erlendir fjárfestar leggi fram verulega fjármuni til félagsins í formi nýs hlutafjárUmfjöllun eða fullyrðingar um annað séu einfaldlega rangar."

Fullyrðingunni um erlendu fjárfestana var haldið að fólki mánuðum og árum saman til blekkinga um raunveruleikann og alltaf var neitað að gefa upp hverjir þessir væntanlegu erlendu fjárfestar væru og hvað þeir ætluðu að leggja marga milljarðatugi í svikamylluna.  Hins vegar var erfitt að draga þessa fullyrðingu í efa, enda byggðist öll framkoma Baugsgengisins á hroka og yfirlæti gagnvart öllum sem dirfðust að fjalla eitthvað um málefni sem tengdust genginu og svikamyllunni sem það rak.

Nú er komið endanlega í ljós að allar fullyrðingar Baugsgengisins undanfarin ár um fjárhagsstöðu Haga hf. og 1988 ehf. voru hreinar lygar og að afskirfa þurfi tuga milljarða króna vegna þessarar kjölfestustarfsemi klíkunnar.

Við bætast svo tugir og hudruð milljarðar, sem þarf að afskrifa vegna annarrar starfsemi þessarar stærsu svikamyllu Íslandssögunnar, bæði innanlands og utan.

 


mbl.is 35-40 milljarða afskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpir og túlkun laga

Svandís Svavarsdóttir, Umhverfisráðherra, forherðist dag frá degi í afneitun sinni á því að hún sé ekkert annað en ótíndur lögbrjótur og eigi að axla ábyrgð á staðföstum og einbeittum brotavilja sínum með afsögn úr ráðherraembætti.

Morgunblaðið hefur þetta eftir henni m.a: "Í samtali við Morgunblaðið segist Svandís ekki ekki hafa brotið lög heldur sé um túlkunarágreining að ræða milli ráðuneytisins og Flóahrepps. Ákvörðunin hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og hún hafi sömuleiðis verið borin undir helstu starfsmenn ráðuneytisins."  Mesti ræfildómur nokkurs ráðherra er að reyna að komast hjá ábyrgð á lögbrotum sínum með því að reyna að kenna undirmönnum um þau, eins og Svandís gerir með þessum orðum sínum. Ekki bætir hún málstað sinn með svona aumingjahætti.

Enn verra er að hún reynir að gera lítið úr lögbrotum sínum með því að kalla þau "túlkunarágreining", en hvaða glæpamaður sem er getur að sjálfsögðu afsakað glæpi sína með því að hann hafi í sjálfu sér ekki verið að fremja glæp, helur hafi málið snúist um "túlkunarágreining" milli sín annarsvegar og laganna varða og dómstólanna hinsvegar.

Sjálfsögð krafa er að þessi ráðherranefna láti af starfi sínu umsvifalaust og reyni að fá sér vinnu við "eitthvað annað", eins og einhver komst svo vel að orði hérna á blogginu, enda hefur hún barist fyrir því í mörg ár að koma í veg fyrir orkufrekan iðnað, en jafnframt prédikað að efla þyrfti atvinnu við "eitthvað annað".

Nú ætti Svandís að sýna gott fordæmi og ráða sig til starfa við "eitthvað annað". 

 


mbl.is Svandís segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbrot eru mín vinna, segir Svandís

Svandís Svavarsdóttir var í viðtali í fréttum sjónvarps RÚV í kvöld og sagði þar að lögbrot væru sín vinna og að hún ætlaði að halda þeim störfum áfram ótrauð.

Hún sagði að öll sín störf í ráðuneytinu byggðust á pólitík (og þá væntanlega ekki á lögum), en hún sæi samt ekki nokkra einustu ástæðu til þess að hún axlaði pólitíska ábyrgð á gerðum sínum.

Hortugri ráðherra hefur ekki sést í embætti hér á landi í manna minnum og á sér tæplega jöfnuð innan ríkisstjórnarinnar, nema ef vera skyldi að Jóhanna Sigurðardótir næði að standast henni jöfnuð í þessum efnum.

Jóhanna telur heldur enga ástæðu til að ráðherrar í hennar ríkisstjórn axli ábyrgð á gerðum sínum, jafnvel ekki ráðherrar sem greiddu því atkvæði að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdóm fyrir að "vinna vinnuna sína", eins og hún segist sjálf vera að gera.

Ómekilegheit ráðherra geta varla orðið meiri en þetta.


mbl.is Telur ekki þörf á afsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband