Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Að fæðast er stórhættulegt

Fræðingar af öllum gerðum og tegundum verða aldrei þreyttir á að rannsaka og upplýsa alþýðuna um hvað hættulegt sé að gera hitt og þetta og jafnvel gæti verið stórhættulegt að láta suma hluti ógerða.

Allir hafa heyrt af rannsóknum þar sem mýs voru látnar éta hangikjöt í alla mata mánuðum saman og niðurstaða rannsóknarinnar leiddi svo í ljós, að hangikjötsát gæti valdið krabbameini. Á sama hátt hefur verið sýnt fram á alls kyns heilbrigðishættur af nánast hverju sem er og sýnt hefur verið fram á að lífið er stórhættulegt.

Nýjustu rannsóknir merkra vísindamann hafa nú sýnt að ákveðin tegund kynmaka getur verið krabbameinsvaldandi, en þeirri spurningu er ósvarað hvort þeir sem algerlega sniðganga þannig kynlífsathafnir séu þá í bráðri hættu af því sem þeim dytti í hug að gera í staðinn.

Niðurstöður nákvæmra rannsókna, sem flestar eru kostaðar af opinberu fé, er að allt sem gott er sé stórhættulegt og eins er allt sem er skemmtilegt harðbannað. Það verður reyndar að teljast undarlegt að hræða líftóruna úr fólki með öllum þessum viðvörunum, því aðrir uppástanda að þá fyrst fari fólki að líða vel, þegar það er dáið.

Þessar rannsóknir sýna og sanna að langhættulegast af öllu er að fæðast í þennan heim og líklega væri bara langbest að fæðast steindauður.


mbl.is Valda munnmök krabbameini?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði fylgir ábyrgð

Ábyrgðin á Icesave liggur nú hjá þjóðinni, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri atvinnulífsins, og líta verður á það sem raunsærri afstöðu en ríkisstjórnin hefur sýnt, en hennar fyrstu viðbrögð við höfnun forsetans á staðfestingu Icesavelaganna einkenndust af fumi, fáti, hroka, klaufaskap og forundran, alveg eins og þegar forsetinn neitaði hörmungarniðustöðu stjórnarflokkanna staðfestingar í janúarbyrjun 2010.

Sjálfur mælir Vilhjálmur með því að þjóðin samþykki Icesave III, vegna þeirrar óvissu sem hann og aðrir þeir sem eru á sömu skoðun og hann telja að við taki, hafni þjóðin þessari þriðju tilraun til að þröngva málinu upp á þjóðina. Ekki síst er látið að því liggja að ekki fáist erlendir fjárfestar til landsins, eða erlent lánsfé, þrátt fyrir að hið gagnstæða hafi komið í ljós oftar en einu sinni og oftar en tvisvar undanfarna mánuði.

Ríkisstjórnin skelfist ekkert eins mikið og þjóðina og getur því ekki hugsað sér að spyrja hana álits á einu eða neinu og trú þeirri stefnu sinni er hún algerlega miður sín yfir afgreiðslu forsetans og treysta sér engan veginn til að útskýra fyrir kjósendum nauðsyn þess að þeir staðfesti gerðir hennar.

Kjósendur eru alveg fullfærir til að taka skynsamlega ákvörðun í þessu efni, sem öðrum, og nú er skylda stjórnarflokkanna að vinna sinni niðurstöðu fylgis og reyna að fá meirihluta þeirra til fylgis við sinn málstað.

Aðrir munu svo halda áfram að kynna sín sjónarmið í þeirri von að þau verði ofan á í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þannig á sannkallað lýðræði að virka.


mbl.is Ábyrgðin liggur hjá þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ ætti að styðja dómara í launamálunum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýrir Kjararáð harðlega fyrir að samþykkja auknar launagreiðslur til dómara vegna aukins vinnuálags á þá vegna efnahagsglæpanna sem um þessar mundir hrúgast inn til dómstólanna og fyrirsjáanlegt er að fjölgi mikið á næstu mánuðum og misserum.

Þar sem þetta er ekki hækkun fastra launa dómaranna, heldur greiðsla fyrir aukna yfirvinnu, verður þessi afstaða forseta ASÍ að vekja furðu, því varla ætlast hann til þess að launafólkt taki á sig að vinna lengri vinnudag, án þess að fá greitt fyrir það.  Það er furðuleg kjarabarátta fulltrúa launafólks og varla myndir Alþýðusamband Íslands samþykkja að á almennum vinnumarkaði yrði fólk skikkað til að vinna einn til tvo yfirvinnutíma, daglega, án þess að fá greitt fyrir þá yfirvinnu.

ASÍ ætti að fagna því að sanngirni sé sýnd og fólk í opinberri þjónustu fái greitt fyrir vinnu sína og ef það þarf að leggja á sig lengri vinnudag, þá sé sjálfsagt að greitt sé fyrir þá aukavinnu.  Á almennum vinnumarkaði hefur starfsfólk misst vinnuna þúsundum saman og flestir þurft að taka á sig algert yfirvinnubann og enn aðrir þurft að sætta sig við skert starfshlutfall og svo eru stórir hópar sem flúið hafa land í atvinnuleit. 

Engum myndi detta í hug og allra síst ASÍ, að samþykkja að starfsfólk á almenna markaðinum hefði verið skikkað til að vinna óskerta yfirvinnu áfram, en fá aðeins greidd laun fyrir dagvinnuna.

Einhver hefði nú talið, að samræmi ætti að vera í málflutningi forystumanna launþega, að þessu leyti og í staðinn fyrir að kvarta yfir þessum yfirvinnugreiðslum, hefði Gylfi átt að fagna því að þetta fyrirkomulag á vinnutíma ætti að leiða til þess að hraðar gengi að koma lögum yfir gengin sem efnahagshruninu ollu.

Þegar aftur dregur úr álagi á dómstólana, verður jafn sjálfsagt að minnka þessa yfirvinnu aftur og fækka dómurum.


mbl.is Forseti ASÍ gagnrýnir kjararáð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt vígið fallið

Mál og menning hefur verið lýst gjaldþrota og þar með hverfur af sjónarsviðinu enn eitt af þeim gamalgrónu fyrirtækjum sem settu svip sinn á þjóðlífið áratugum saman. Á kaldastríðsárunum var Mál og menning helsta vígi vinstrisinnaðra rithöfunda og Almenna bókafélagið gaf á hinn bóginn út verk hægrisinnanna í bókmenntaheiminum og voru litlir kærleikar þar á milli.

Almenna bókafélagið fór á hausinn fyrir mörgum árum og nú fellur hitt vígið frá þessum árum og þar með lýkur merkilegum kafla í menningarsögu þóðarinnar. Erlendis er algengt að fyrirtæki á öllum sviðum nái háum aldri, jafn vel nokkur hundruð ára, og nægir að nefna í sambandi banka, iðnfyrirtæki, bari og útgáfufyrirtæki.

Íslendingar hafa hins vegar sjaldan náð að reka nokkurt fyrirtæki nema í eina til tvær kynslóðir, en fæst lifa af þriðju kynslóðina og væri þarft verk að rannsaka þessa einkennilegu og sérstöku viðskipasögu íslenskra fyrirtækja.

Banka- og útrásargegnin náðu aðeins að reka sín fyrirtæki í 10-15 ár, áður en þau hrundu eins og spilaborg og þá aðallega vegna rána innanfrá, sem svo leiddi til þess að varla er nokkurt rekstrarhæft fyrirtæki efir í landinu.

Núlifandi Íslendingar munu varla lifa það, að nokkurt fyrirtæki sem kveði að muni ná eitthundrað ára aldri, enda virðast þeir sem taka við rekstri þeirra af stofnendunum og frumkvöðlunum aðallega hugsa um að ná sem mestum arði út úr fyrirtækjunum í eigin vasa, í stað þess að hafa rekstur, uppbyggingu og hag fyrirtækjanna sjálfra í fyrirrúmi.

Á meðan slíkur hugsunarháttur ríkir hérlendis munu fyrirtækin deyja ung, eins og raunin hefur verið fram til þessa.


mbl.is Bókabúð Máls og menningar gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárfestingar þrátt fyrir Icesave - auðvitað

Ríkisstjórnin hefur lengi haldið því fram að á meðan Icesaveþrælasamningar séu ófrágengnir verði ekki nein efnahagsuppbygging í landinu, enginn erlendur aðili muni vilja fjárfesta hér og engin erlend lánastofnun muni lána eina evru eða dollar til íslenska ríkisins, ríkisfyrirtækja eða annarra fyrirtækja, innlendra og erlendra, sem hér myndu annars vilja koma af stað nýjum fyrirtækjum.

Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár Jóhönnu og Steingríms J. eru áform um álverksmiðjur á Reykjanesi og á Bakka við Húsavík ennþá á fullu skriði, álþynnuverksmiðja er í burðarliðnum og viðræður í gangi um ýmsa fleiri kosti til atvinnuuppbyggingar.  Í dag var svo undirritaður samningur um kísilver, sem reist verður á Reykjanesi og er kostnaður við þá verksmiðjubyggingu áætlaður um 17 milljarðar króna.

Það vekur hins vegar athygli, að eins og fyrr eru það ekki fjárfestar frá ESBlöndum sem áhuga hafa á að fjárfesta hérlendis, heldur annarsstaðar frá og þá t.d. Kína og Bandaríkjunum, eins og reyndin er með kísilverksmiðjuna, en hana reisir og mun reka Íslenska kísilfélagið ehf., sem er í meirihlutaeigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals.  Ekki verður séð að innlimun landsins í ESB myndi breyta miklu um þessa staðreynd, því Ísland hefur verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu í tuttugu ár án þess að nokkurt fyrirtæki frá Evrópu hafi fjárfest hérlendis, svo nokkru nemi.

Það hefur marg oft komið í ljós að ríkisstjórnin hefur einungis beitt Icesave sem Grýlu á þjóðina í örvæntingarfullri baráttu sinni við að ljúga landinu inn í ESB, en þjóðin hefur fyrir alllöngu séð og skilið að Grýlusagan er bara skáldskapur, eins og flest annað sem frá ríkisstjórninni kemur.

Icesave hefur aldrei verið neinn dragbítur á fjárfestingar erlendra aðila eða lánveitinga til landsins.  Það er ríkistjórnin sjálf sem er það eina sem stendur í veginum fyrir efnahagsuppbyggingunni og minnkun atvinnuleysisins í landinu.

Því fyrr sem hún fer frá, því betra.


mbl.is 17 milljarða fjárfesting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Ólafur Ragnar sækjast eftir endurkjöri?

Í upphafi árs í fyrra, þegar Ólafur Ragnar neitaði lögunum um Icesave II staðfestingar, urðu alger vinslit með honum og fyrrum samstarfsmanna hans og félaga í stjórnmálunum til margra ára, þ.e, Steingríms J. og þó sérstaklega Össurar Skarphéðinssonar, og sendu þeir félagar forsetanum marga baneitraða pilluna vegna málsins.

Vegna þessarar forsögu munu ráðherrarnir ekki geta treyst á neinn góðvilja af hálfu Ólafs Ragnars, þegar hann leggst undir feld til að hugsa hvað muni koma honum sjálfum best í ljósi sögunnar, því það sem kitlar hégómagirnd Ólafs Ragnars mest er að hans verði minnst í sögunni sem forsetans sem gjörbreytti forsetaembættinu og nýtti sér fyrstur forseta heimildina til að synja lögum staðfestingar, þannig að þeim yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram að því hafði verið "dauður" bókstafur í stjórnarskránni.

Steingrímur J. sendir Ólafi Ragnari skýr skilaboð, þegar hann segir að lögin hafi verið afgreidd með "auknum meirihluta" á Alþingi og því sé mikil samstaða um lagasetninguna og þar af leiðandir algerlega út í hött að vísa þeim til endanlegrar afgreiðslu kjósenda.

Ekkert mun skipta máli við afgreiðslu forsetans annað en hans eigið egó og hvað hann sjálfur muni hafa út úr því að synja lögunum staðfestingar. Ólafur var einn óvinsælasti maður þjóðarinnar eftir hrun, en sneri því upp í að verða einn sá vinsælasti á einum degi, þ.e. með því að neita að skrifa uppá frumvarpið gríðaróvinsæla um Icesave II.

Afstaða Ólafs núna mun ráðast af því hvort hann hyggst bjóða sig fram til setu á forsetastóli eitt kjörtímabil enn. Sé það ætlunin mun hann neita lögunum um Icesave III staðfestingar og senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sé hann ákveðinn í að hætta í forsetaembættinu að þessu kjörtímabili loknu, mun hann staðfesta lögin og mun ekki skorta orðaforða og orðskrúð til að réttlæta þá gjörð.

Afgreiðala hans mun því væntanlega einnig gefa vísbendingu um hvað hann muni gera í næstu forsetakosningum.


mbl.is Afgreitt með „auknum meirihluta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur hafa ekki vit á "svona máli"

Úrslit í atkvæðagreiðslu Alþingis um Icesave III er lokið og það sama er að segja um breytingartillögur sem gerðu ráð fyrir að lögin tækju ekki gildi nema þau yrðu staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögin um ríkisábyrgð á skuldum einkabanka, sem rekinn var á glæpsamlegan hátt, var samþykkt með talsverðum meirihluta, en tillögurnar um að vísa endanlegri ákvörðun í málinu til þjóðarinnar var samþykkt með litlum mun, eða 33 atkvæðum gegn 30.  Helstu rök þingmanna fyrir því að hafna beinum afskiptum þjóðarinnar voru þau, að "svona mál" hentaði ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu og að þingmenn væru til þess kjörnir að afgreiða "svona mál" sjálfir.

Þessi afstaða er mikil móðgun við kjósendur, sem þessir þingmenn telja nógu góða og gáfaða til að kjósa þá sjálfa á þing, en hafi hins vegar ekkert vit á "svona málum" og geti því ekki tekið skynsamlega afstöðu til þeirra.  Með því að vísa málinu til þjóðarinnar hefðu talsmenn þeirra sem vildu samþykkja og hinna, sem vildu hafna frumvarpinu, haft gott tækifæri í aðdraganda kosninganna til þess að leggja öll spil á borðið og útskýra sína afstöðu og á hverju hún væri byggð.

Kjósendur eru ekki algjör fífl og hefðu vel getað meðtekið skýringar beggja fylkinga og lagt síðan sitt mat á það hvað rétt væri að gera í stöðunni.  Að halda því fram að kjósendur hefðu ekki forsendur til að meta "svona mál" eru algerlega fáránlegar og eingöngu til þess fallnar að lítilsvirða þá sem eiga að búa við þessi lög og greiða allan kostnað þeirra vegna, sem fljótlega mun koma fram í skattahækkunum, sem fylgja "svona máli".

Kjósendur munu ekki verða búnir að gleyma þessari framkomu í sinn garð í næstu Alþingiskosningum.


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarríkið vann, ofstopalýðurinn tapaði

Með dómi Héraðsdóms yfir "níumenningunum" staðfestist endanlega að hérlendis er ennþá réttarríki og dómstólunum algerlega treystandi til að kveða upp rétta dóma samkvæmt lögum landsins og að sama skapi opinberaðist endanlega fáránleikinn í framkomu "níumenninganna" og "stuðningsmanna" þeirra á meðan að á málarekstrinum stóð.

Samkvæmt fréttinni var niðurstaða réttarins sú, að "Andri Leó var ákærður fyrir að bíta tvo lögreglumenn og hrinda þingverði á ofn. Þór var m.a. ákærður fyrir að halda hurðinni opinni fyrir hópnum, sem fór inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. Tvær konur, Sólveig Anna Jónsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, voru dæmdar í 100 þúsund króna sekt en aðrir voru sýknaðir."

Með þessu virðist Héraðsdómur einungis dæma þá sem allra harðast gegnu fram í ofstopanum og sýknar alla hina, en stór hópur "stuðningsmanna" hefur látið öllum illum látum á meðan á réttarhaldinu stóð og m.a. margsinnis truflað störf réttarins með skrílslátum, upphrópunum og blaðaskrifum.

Vonandi verður þetta til þess að dómstólar landsins fái starfsfrið í framtíðinni til að fást við þau glæpa- og ofbeldismál sem til þeirra verður stefnt.  Dómstólarnir hafa sýnt það í hverju málinu á eftir öðru á undanförnum mánuðum, að þeim er algerlega treystandi til að kveða upp réttláta og sanngjarna dóma byggða á landslögum og öðru ekki.

Ofstopalýðurinn tapaði hins vegar stórt í dag og sýnir vonandi af sér meiri mannsbrag í framtíðinni. 


mbl.is 2 í skilorðsbundið fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkvæmt til skamms tíma

Í meistaraprófsverkefni frá RES-orkuskólanum, sem reyndar er kominn á hausinn, er komist að þeirri niðurstöðu að það marg borgi sig fyrir leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu að breyta bílum sínum úr því að nota bensín yfir í að nota metan sem eldsneyti.

Breyting bílanna ætti að borga sig upp á einu ári eða svo, vegna þess mikla munar sem er á verði metans miðað við bensín. Af verði hvers bensínlítra tekur ríkissjóður til sín um það bil 110 krónur á lítrann í alls kyns skatta og gjöld, þar með talda vegaskatta.

Engir vegaskattar eru lagðir á metanið núna, en að sjálfsögðu mun ríkissjóður ekki bíða lengi með að jafna þann mun og fara að leggja vegaskatta á metanbílana, enda spurning hvort eitthvert réttlæti sé í því að metanbílar aki um vegi landsins, án þess að leggja nokkuð til kostnaðarins við að leggja þá, eins og eigendur þeirra bíla þurfa að gera, sem nota annað eldsneyti til þess að knýja bíla sína á milli landshluta.

Hafi meistaraprófsverkefnið ekki tekið tillit til þessarar væntanlegu skattheimtu er niðurstaðan algerlega ómarktæk.


mbl.is Metanið margborgar sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlausasta verkfallsboðun sögunnar

Verkfalli sem hefjast átti í kvöld í fiskimjölsverksmiðjum hefur nú verið aflýst með þeim skýringum að vinnuveitendur hafi greinilega ekki ætlað að gefa eftir með að semja um fáránlegar launakröfur starfsmanna þessara fyrirtækja. 

Verkalýðshreyfingin ætlaði að nota þennan fámenna starfshóp, sem þó hefði getað valdið milljarða tjóni fyrir þjóðarbúið, sem tilraunadýr vegna þeirra viðræðna sem nú standa yfir um nýja kjarasamninga og áttu samningar við bræðslustarfsmennina að verða fyrirmynd annarra samninga, sem ætlunin var að knýja fram, með hótunum um að verkfallinu yrði ekki aflýst fyrr en kominn væri á heildarkjarasamningur.

Þetta verður að teljast vitlausasta og verst undirbyggða verkfallsboðun sem um getur, enda atvinnuástandið þannig í landinu að atvinnulausum fjölgar stöðugt og þá ekki síst þeim sem hafa verið atvinnulausir í ár, eða lengur.  Einnig hafa þúsundir manna flúið land í atvinnuleit þannig að skráning atvinnuleysisins segir ekki nema hálfa söguna um ástandið.

Það sem nú þarf að leggja áherslu á, eru hóflegar kauphækkanir en því meiri kraft þarf að setja í að greiða fyrir fjölgun starfa, ekki síst í orkufrekum iðnaði og þeirri þjónustu sem honum fylgir.  Þjóðarbúið bráðvantar fleiri verðmætaskapandi fyrirtæki, ekki síst útflutningsfyrirtæki því gjaldeyri mun skorta á næstu áratugum til greiðslu allra erlendu skulda þjóðarbúsins, þrátt fyrir að erlendir lánadrottnar hafi þurft að afskrifa mörg þúsund milljarða vegna bankahrunsins.

Brýnasta hagsmunamál allra landsmanna er að ríkisstjórnin og þá sérstaklega VG hætti að berjast gegn atvinnusköpun í landinu, því grunnurinn að bættum kjörum þjóðarinnar byggist á verðmætasköpun og öðru ekki.

Þegar Steingrímur J. og félagar fara að skilja þetta, þá mun kvikna von fyrir þjóðina.  Það mun ekki gerast með verkföllum og því tjóni fyrir þjóðarbúið sem þeim fylgir.


mbl.is Búið er að aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband