Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Óhrein samviska?

Dómstóll í New York ætlar að taka aftur upp skaðabótamálið sem slitastjórn Glitnis höfðaði þar í borg gegn Bónusgenginu og helstu samverkamönnum þess vegna þess tjóns sem bankinn varð fyrir á meðan hann var í "eigu" þessara aðila, stjórn þeirra og/eða viðskiptum fyrirtækja þeirra við bankann.

Slitastjórnin stefnir í New York vegna skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum upp á tugi milljarða, sem taldir eru hafa verið nýttir af gengjunum að mestu í eigin þágu og þar með notað aðstöðu sína í raun og veru til að ræna bankann innanfrá.

Gengin mótmæltu harðlega að málið yrði rekið í New York og báru því m.a. við að enskukunnáttu þeirra væri svo ábótavant, jafn vel þó gengismeðlimir byggju flestir í London, að ómögulegt væri fyrir þá að verjast fyrir enskumælandi dómara.

Dómarinn var tilbúinn til þess að vísa málinu til íslenskra dómstóla gegn því skilyrði að gengisfélagar myndu ekki reyna að standa í vegi fyrir því að gengið yrði að eignum þeirra í Bandaríkjunum, færi svo að þeir töpuðu málinu fyrir íslenskum dómstólum.

Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson, sem meðal annars sölsaði til sín Iceland Expess og Asterus á vafasaman hátt út úr þrotabúi Fons, neituðu að ganga að þessum skilyrði, enda ættu þeir engar eignir í Bandaríkjunum og því er málið nú tekið upp að nýju af hinum bandaríska dómara.

Getur verið að félagarnir séu ekki alveg með hreina samvisku gagnvart leyndum eignum á erlendri grundu?


mbl.is Glitnismálið tekið upp að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur óorði á einkaframtakið

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að endurnýja ekki samstarfssamning sinn við Menntaskólann Hraðbraut vegna meðferðar rekstaraðila skólans á fjármunum og ekki síst framlögum ríkisins til skólastarfsins.

Miðað við þær fréttir sem af starfsemi skólans verða ekki aðrar ályktanir dregnar en að vægast sagt hafi verið farið frjálslega með rekstrarfé skólans, sem var í raun allt of hátt, þar sem greiðslur miðuðust við mun fleiri nemendur en stunduðu þar nám.

Eigendur skólans greiddu sér út tugi milljóna í arð á örfáum árum og lánuðu aðilum tengdum félaginu tugi milljóna til viðbótar, sem a.m.k. jaðrar við að vera brot á hlutafélagalögum og verður þessi fjármálastjórnun að teljast til afar slæmra viðskiptahátta og ekki nema von að Ríkisendurskoðun og yfirvöldum menntamála hafi blöskrað.

Eigendur fyrirtækja, sem rekin eru á eigin kennitölu, hafa ekkert leyfi til að umgangast fjármuni fyrirtækjanna eins og sína eigin og hafa alls ekki heimild til að veita sjálfum sér lán og ekki að greiða sér nema hóflegan arð í samræmi við afkomu félaganna. Allt annað flokkast undir sukk og svínarí í fyrirtækjarekstri og það var einmitt slík stjórnun, sem leiddi til gjaldþrota banka og útrásarfyrirtækja og enduðu með hruni efnahagslífsins.

Svona fjármálastjórn á ekki að sjást í fyrirtækjum, enda kemur hún óorði á einkarekstur og leiðir til vantrausts gagnvart öðrum rekstrarformun en ríkisrekstri, þó ríkisreksturinn sé nánast undantekningarlaust dýrari og spilltari en einkareksturinn.

Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar geta engu um kennt hvernig fór, öðru en eigin græðgi.


mbl.is „Ekki búin að gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Landsbankinn orðinn gráðugt útrásargengi?

Landsbankinn á 67% í verlsunarkeðjunni Iceland í Bretlandi, eftir að hafa yfirtekið hana upp í skuldir lánakóngs Íslandssögunnar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, foringja Bónusgengisins við framgöngu þess og annarra banka- og útrásargengja í eyðileggingu íslensks efnahagslífs. 

Bónusgengið, ásamt hinum, greiddi sér stjarnfræðilegar upphæðir í arð út úr þeim bönkum og fyrirtækjum sem það komst yfir, enda urðu þau flest gjaldþrota og gengin skildu eftir sig ótrúlegar upphæðir í skuldum um allar jarðir og Bónusgengið eitt og sér mun hafa skuldað a.m.k. þúsund milljarða króna, þegar loftbólan sprakk.

Verslunarkeðja Iceland er besta fyrirtækið sem Bónusgenginu tókst að sölsa undir sig og eitt fárra þeirra sem hefur verið vel rekið og skilað arði.  Ekki er vitað hvernig skuldastaða fyrirtækisins er um þessar mundir, en Jón Ásgeir gumaði af því um árið, að hann hefði náð öllu kaupverði fyrirtækisins út úr því með arðgreiðslum á undra fáum árum.  Til þess að greiða þann arð varð fyrirtækið að skuldsetja sig, en lifði þó af eignarhaldstíma Baugsgengisins.

Nú virðist Landsbankinn vera kominn í gamla góða útrásargírinn og ætlar að láta Iceland greiða sér og öðrum eigendum fyrirtækisins arð fyrir síðasta ár sem nemur þreföldum hagnaði félagsins fyrir skatt.  Arðgreiðslan á að nema 330 milljónum punda, en hagnaðurinn var hins vegar 110 milljónir punda fyrir skatt, þannig að þegar skatturinn verður búinn að taka sitt verði endanlegur hagnaður á bilinu 60-70 milljónir punda.  Sé það nálæt lagi verður arðgreiðslan fimmfaldur nettóhagnaður.

Að ganga svo freklega á eigið fé félaga var talið hafa liðið undir lok með gömlu banka- og útrásargengjunum.

Nú virðist nýji Landsbankinn vera kominn í sama gírinn og svæsnustu útrásargengin voru í áður.


mbl.is Iceland Foods greiðir út arð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óáreiðanlegt matsfyrirtæki

Moody´s segir að ef kjósendur hafni lögunum um Icesave muni lánshæfismat íslenska ríkisins "að öllum líkindum fara í ruslflokk", sem er með ólíkindum vegna þess að þá væri verið að auka á skuldabyrði ríkissjóðs og miðað við allar venjulegar efnahagslegar forsendur ætti slíkt að valda lélegra lánshæfismati, en ekki bæta það.

Moody´s er eitt þeirra matsfyrirtækja sem fram á síðasta dag gaf íslenskum bönkum hæstu einkunn og taldi þá með traustustu fjármálastofnunum heimsins, en eins og allir vita var ekki mikið að marka það álit matsfyrirtækjanna.  Núna passar Moody´s sig á því að setja þessu nýja áliti sínu alls kyns fyrirvara, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Hinsvegar er skýrt tekið fram í mati Moody's að mikil óvissa ríki  um ofangreint. Forsendur um gengisþróun og endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans kunna að reynast bjartsýnar. Einnig er nefnt að niðurstöður í ýmsum dómsmálum sem nú standa yfir kunni að hafa neikvæð áhrif á stöðu íslenska ríkisins og einkageirans."

Svona "álit" gefur undir fótinn með að ekkert sé að marka þessi svokölluðu matsfyrirtæki, enda hafa þau ekki úr háum söðli að detta eftir bankahrunið á vesturlöndum, enda stóð ekki steinn yfir steini í mati þeirra á fjármálageiranum og lítið mark tekið á þeim um þessar mundir.

Moody´s telur að höfnun laganna geti dregið á langinn að afnema gjaldeyrishöftin, en verður svo tvísaga þegar sagt er að afnám gjaldeyrishaftanna geti leitt til skyndilegrar lækkunar krónunnar með öllum þeim erfiðleikum sem því myndu fylgja.

Athyglisverðust eru þær vangaveltur Moody's að verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að slíkt myndi sennilega seinka greiðslum á lánum Norðurlandaþjóðanna og sýnir það enn og aftur hverjir eru helstu meðreiðarsveinar í þeirri skefjalausu og harkalegu fjárkúgun, sem beitt hefur verið af hálfu Breta, Hollendinga og ESB í þessu máli.

Þetta inngrip Moody's í umræðuna um kosti og galla þess að samþykkja eða hafna staðfestingu Icesavelaganna er vægast sagt ómerkilegt og að engu hafandi, enda með fyrirvörum í allar áttir.


mbl.is Moody's: Nei sendir ríkið í ruslflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar veitir páfa áheyrn

Páfinn hlýtur að hafa heyrt af því að Ólafur Ragnar ætti leið um Rómarborg í næstu viku og umsvifalaust óskað eftir áheyrn hans, a.m.k. hefur verið gefin út fréttatilkynning í Vatikaninu um að Ólafur muni gefa sér tíma til að ráðleggja páfanum í erfiðum úrlausnarmálum.

Ef til vill mun páfinn bjóða Ólafi að verða aðalráðgjafi sinn, enda hefur það spurst út um lönd, að Ólafur hafi yfirgripsmikla þekkingu á hvernig eigi að koma stjórnvöldum í skílning um hver það er, sem í raun ræður og að ekki þýði t.d. fyrir sömu ríkisstjórn að leggja fram svipuð mál tvisvar í röð, án þess að vera tekin til bæna fyrir athæfið.

Verið getur að Ólafur Ragnar taki páfann til bæna á einkafundi þeirra og komi honum í skilning um að ekki dugi að túlka biblíuna alltaf eins og gert hafi verið áður. Bráðnauðsynlegt sé að sýna fólki fram á, að gamli skilningurinn hafi alls ekki verið réttur og enginn sé páfi meðal páfa, nema gefa út sína eigin túlkun á ritningunni.

Verði páfinn nógu bljúgur á fundinum má fastlega gera ráð fyrir að Ólafur Ragnar veiti honum syndaaflausn, gegn loforði um erkibiskupsembætti.


mbl.is Forsetinn til fundar við páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannsögli fréttastofu 365

Í morgun fjallaði fyrsta frétt á Bylgjunni um að skuldatryggingarálag Íslands hefði "hrunið" úr 240 í 280 punkta um leið og fréttir bárust af því að Ólafur Ragnar hefði neitað lögunum um Icesave staðfestingar.

Það rétta í málinu er auðvitað að ástandið í Miðausturlöndum og þá alveg sérstaklega í Lýbíu olli því að skuldatryggingarálag nær allra vesturlanda hækkaði, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Skuldatryggingaálag allra evruríkjanna hafi þannig aukist í morgun. Skuldatryggingaálag Portúgals nálgist nú 480 punkta, og álagið á Spáni er yfir 250 punktar."

Veröldin tekur enga kippi vegna athafna Alþingis eða forseta Íslands og hvað varðar ófrágengin Icesavemál þá lækkaði skuldatryggingarálag Íslands verulega eftir að þjóðin hafnaði Icesave II, þó lílegast hafi Icesave ekki skipt nokkru máli, til eða frá, í því sambandi.

Óróinn sem skapast vegna óvissunnar um olíumál hefur áhrif á skuldatryggingarálag ríkjanna, en ekki nokkrum öðrum en fréttamönnum hér á landi dettur í hug að einhverjar sveiflur á Íslandi hafi áhrif á skuldatryggingarálag Evrópuríkja almennt.

Í fréttinni kemur einnig fram að; "Skuldatryggingaálag Íslands hækkaði líka lítillega í dag, en miðgildi kaup- og sölutilboðs er um 245 punktar."  Fréttamenn 365 miðla ættu að huga að því hvers vegna skuldatryggingarálag Spánar er hærra en Íslands og Portúgals nánast helmingi hærra.

Skyldi nokkurs staðar vera jafn mikið af óvönduðum fréttamönnum og hér á landi? 


mbl.is Skuldatryggingaálag flestra hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesavedeilan er ekkert flókin

Icesave deilan snýst um tiltölulega einfalt atriði og það er hvort ríkisábyrgð skuli vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta, eða ekki. Þar sem tilskipanir ESB gera ekki ráð fyrir slíkum ríkisábyrgðum eru Bretar og Hollendingar, með tilstilli ESB, að neyða Íslendinga til að setja sérstök lög um að íslenskir skattgreiðendur skuli bera ábyrgð á Icesave í Bretlandi og Hollandi og sjá allir að slík lagasetning væri hreinn óþarfi, væri einhver slík ábyrgð nú þegar fyrir hendi.

Nú orðið viðurkenna allir, þar á meðal embættismenn framkvæmdastjórnar ESB, að hvergi sé stafkrók að finna um skyldur íslenskra skattþegna til að greiða eitt eða neitt í þessu sambandi og að sú krafa sé eingöngu byggð á yfirgangi og hótunum valdamikilla þjóða í garð smáþjóðar. Samt sem áður láta þeir, sem ætla að kikna undan þessum þvingunum eins og um einhverja réttaróvissu sé að ræða og hætta geti verið á að dómur í málinu verði miklu meira íþyngjandi og dýrari fyrir Íslendinga en sá samningur sem nú liggur fyrir í þriðju tilraun.

Fari allt á versta veg fyrir dómi, getur dómurinn aldrei orðið verri en samningurin, því það eina sem EFTAdómstóllinn gæti hugsanlega gert, er að staðfesta ruglið í ESA um að tilskipun ESB hafi ekki verið réttilega tekin upp í íslensk lög, en lögspekingar hafa þegar hafnað þeirri kenningu alfarið.

Enginn hefur dregið í efa að breskir og hollenskir innistæðueigendur Icesve eigi rétt á að fá lágmarksbætur úr hinum íslenska Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta, enda snýst Icesavemálið ekkert um það atriði, heldur eingöngu er með honum verið að viðurkenna þá kröfu Breta, Hollendinga og ESB að íslenska ríkið skuli ábyrgjast þá greislu og sú íslenska ríkisábyrgð sé umfram og ekki í samræmi við tilskipanir ESB.

Þessi samningur hefur verið knúinn í gegn með hótunum og ofbeldi og nægir að vísa í ummæli hollensks þingmanns frá í gær, að lán frá AGS hafi verið veitt með því skilyrði að íslenska ríkið gengi að afarkostunum í Icesavemálinu.

Slíkt ofbeldi eitt og sér kallar á að Ísleningar snúist til varnar og hrindi þessum fjárkúgunum af höndum sér.


mbl.is Býst ekki við bótamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst um Icesave, ekki forsetann eða ríkisstjórnina

Nokkuð er farið að bera á þeim fullyrðingum að ef kjósendur hafni Icesavelögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá verði ríkisstjórnin að segja af sér en verði lögin staðfest, að þá verði forsetinn að víkja af Bessastöðum.

Sé það virkilegur vilji manna að auka beina þátttöku almennings að ákvörðunum í stórum málum, má alls ekki snúa umræðunni upp í einhverskonar uppgjör á milli sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni og þess forseta sem vísar málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, því slíkar kröfur munu aðeins leiða til þess að ekkert verður rýmkað til mað slíkar kostningar eða endalaus ríkisstjórnar- eða forsetaskipti.

Umræðan verður að snúast alfarið um það málefni sem kosningarnar eiga að fjalla hverju sinni og vera algerlega óháð afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar eða forseta. Í því tilfelli sem nú er um að ræða er það Icesave III og ekkert annað og álit kjósenda á því, hvort heillavænlegra sé fyrir land og þjóð að staðfesta þau lög eða hafna þeim.

Ekki er þetta sagt vegna stuðnings við núverandi ríkisstjórn, því sá stuðningur er minni en enginn og ekki er ástin brennandi heldur á núverandi forseta og seint kæmi til álita að greiða þeim atkvæði í nokkrum kosningum.

Atkvæði í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu á að ráðast af afstöðunni til þrælasamningsins sjálfs og hver sem niðurstaðan verður á enginn að segja af sér hennar vegna.


mbl.is 57,7% myndu samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himininn mun ekki hrynja

Í leiðara Financial Times er sagt að himnarnir hafi ekki hrunið þegar Íslendingar höfnuðu því að gerast skattaþrælar Breta og Hollendinga til margra áratuga vegna skulda einkabanka og ef þeir neiti nýjustu útgáfu samningsins gætu aðrir farið að fá ýmsar hugmyndir.

Ríkisstjórnin kepptist við að hræða þjóðina með alls kyns dómsdagsspám um framtíðina, yrði Icesave II felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og Ísland yrði Kúba norðursins og yrði algerlega einangrað á alþjóðavettvangi og enginn myndi skipta við Íslendinga framar, hvorki einkaðaila eða opinbera.

Allt reyndist þetta vera alger della og t.d. hefur skuldatryggingarálag á erlendar skuldir lækkað, íslensk fyrirtæki endurfjármagnað erlend lán sín svo hundruðum milljörðum nemur og erlendir fjárfestar ekki misst áhuga sinn á fjárfestingum hérlendis.

Icesave III er sannarlega miklum mun hagstæðari íslenskum skattaþrælum, en eftir sem áður er eina hættan sú, verði hann felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, að Bretar og Hollendingar fari í fýlu og reyni að koma í veg fyrir að Ísland veðrði innlimað í ESB og ekki er víst að margir muni harma það.

Ríkisstjórnin skuldar kjósendum upplýsingabækling um alla kosti og galla þess að samþykkja lögin og eins hverjar afleiðingarnar gætu hugsanlega verstar orðið við höfnun þeirra.

Nú eru kjósendur löggjafarvaldið og eiga heimtingu á öllum sömu gögnum og upplýsingum um málið og þingmenn og þingnefndir höfðu undir höndum við sína umfjöllun og afgreiðslu málsins.


mbl.is Aðrir gætu fengið hugmyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur áhættan?

Nú, þegar forsetinn hefur vísað lögunum um Icesave III til endanlegrar afgreiðslu þjóðarinnar, sem annars löggjafaraðila landsins, verður þjóðin að fá að kynna sér allar upplýsingar sem Alþingi hafði undir höndum við sína umfjöllun um málið.  Upplýsingum hefur kerfisbundið verið haldið frá þjóðinni og jafnvel hluta þingmanna, þ.e. alls kyns upplýsingar hafa verið lagðar fram í nefndum þingsins, sem stimplaðar hafa verið sem trúnaðarmál og þingmenn utan nefndanna ekki einu sinni fengið að sjá þær.

Strax eftir undirskrift Svavarssamningsins hroðalega í júní 2009 átti að keyra þann samning óséðan í gegnum þingið með þeim skýringum að Ísland yrði Kúba norðursins eða önnur Norður-Kórea yrði samningurinn ekki samþykktur samstundis á Alþingi, upplýsinga- og umræðulaust.  Sem betur fer tóku þingmenn stjórnarandstöðunnar í taumana í það skiptið og í annarri tilraun, árið eftir, felldi þjóðin þrælasamninginn, sem þá lá fyrir lítillega mildaður.

Því var haldið fram á þessu bloggi strax 22. júní 2009 að ríkisábyrgð ætti ekki og mætti ekki vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta og mun það líklega vera í fyrsta skipti sem sú skoðun var sett fram opinberlega, en það blogg má sjá Hérna og stóðu deilur um það efni lengi framan af, en nú viðurkenna allir að ekki hafi verið gert ráð fyrir ríkisábyrgðinni í lögum og tilskipunum ESB og meira að segja hafa fulltrúar Framkvæmdastjórnar ESB viðurkennt það.

Icesavelögin snúast fyrst og fremst um ríkisábyrgð á Icesave, sem auðvitað þyrfti ekki að samþykkja sérstaklega núna, hefði verið gert ráð fyrir henni áður í lögum og reglum ESB og Íslands og þar sem allir viðurkenna núna að um ólögvarða kröfu sé að ræða, á alveg eftir að útskýra í hverju hættan við dómstólaleiðina er fólgin.

Talsmenn þess, að þjóðin sem annar hluti löggjafarvaldsins, staðfesti lögin um Icesave hljóta nú að útskýra í hverju hættan af dómstólaleiðinni sé fólgin og hvort eitthvað hangi þar á spýtunni annað en Icesavereikningarnir sjálfir.  Kjósendur verða að fá ALLAR upplýsingar upp á borðið og þá er átt við ALLAR upplýsingar sem Alþingismenn reistu sínar ávarðanir á.

Boltinn er alfarið hjá þeim sem vilja að lögin verði staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslunni væntanlegu.


mbl.is Þjóðin kýs að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband