Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Svartar horfur

Gylfi Zoega telur að erfitt verði fyrir íslendinga að fá lán í útlöndum á næstu árum ef þeir bæti ekki samband sitt við umheiminn.  Málið er bara það, að það eru ekki bara íslendingar sem munu eiga erfitt með að fá lán í útlöndum á næstu árum, útlendingar verða líka í vandræðum með að fá lán í sínum heimalöndum næstu árin, því það er banka- og efnahagskreppa um allan heim.

Bankastarfsemi heimsins undanfarin ár hefur ekki byggst á neinum eðlilegum hagfræðilögmálum, heldur hefur "nýja hagkerfið" byggst upp á Matadorspili með allskyns fjármálagerningum sem engin verðmæti voru á bakvið.  Snillingarnir lærðu ekkert á netbólunni en fóru þess í stað að selja hver öðrum allskyns vöndla sem þeir á endanum skildu ekkert í sjálfir og þá hrundi "nýja hagkerfið".

Þetta kallar á uppstokkun peningakerfisins í heild og milliríkjaviðskipti verða ekki eins og áður, allra síst á fjármálasviði.  En þegar sæmilegt skikk kemst á fjármálakerfið aftur er það eðli peninganna að leita þangað sem vextir eru hæstir hverju sinni og þá þarf traust auðvitað að vera fyrir hendi.

Vinstri stjórn á Íslandi mun ekki skapa það traust sem Ísland mun þarfnast á erlendum fjármálamörkuðum.

 


mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smákóngakerfi

Heilbrigðiskerfið er hið mesta smákóngakerfi og hafa heilbrigðisráðherrar undanfarna áratugi ekki náð miklum árangri við að hemja útþensluna, enda hefur verið afar auðvelt að æsa almenning upp gegn hvers kyns breytingum á kerfinu.

Allt kerfið þarfnast uppstokkunar og endurskipulagningar, en það verður ekki auðvelt, þar sem læknar hóta því jafnan að flytjast úr landi, ef hróflað verði við veldi þeirra.

Ögmundur var fullfljótur á sér að tilkynna að hann ætlaði að hætta við lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.  Þegar hann fór síðan að kynna sér málið blöskraði honum greiðslurnar sem læknunum hefur tekist að krafsa til sín, jafnvel fyrir hlutastörf.

Ætli sama sagan sé ekki um allt heilbrigðiskerfið?


mbl.is Eignarhaldsfélög í veikindaleyfi.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagshrun?

Alltaf versna fréttirnar af efnahagsmálum heimsins.  Obama skrifar undir "yfirgripsmestu efnahagsaðgerðir" veraldarsögunnar og nú koma fréttir af miklum samdrætti í landsframleiðslu OECD ríkjanna.  Athyglisvert er að samdráttur landsframleiðslunnar er 50% meiri í ESB löndunum en í Bandaríkjunum, en ekki berast fréttir af sérstökum neyðarlögum frá ESB.

Mesti samdráttur landsframleiðslu í OECD síðan mælingar hófust auka alls ekki bjartsýni á að kreppan leysist alveg á næstunni.  Fróðlegt verður að fylgjast með hvort þetta gengur af ESB dauðu.

Kannski lagast þetta allt saman, þegar "aðgerðastjórnin" verður búin að koma Davíð Oddssyni úr seðlabankanum, enda á hann sök á efnahagsvanda heimsins, eins og allir vita.


mbl.is Mesti samdráttur hjá OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankahrun í Evrópu

Þýska ríkisstjórnin ætlar að setja lög sem heimila henni að þjóðnýta þýska banka vegna yfirvofandi bankahruns þar í landi.  Skyldu þeir sækja fyrirmyndina til Íslands, sem lenti illa í bankahruni, en brást hratt og skelegglega við, til að bjarga því sem bjargað varð, svo venjuleg bankaviðskipti gætu gengið áfram.

Einnig er að koma í ljós að Evran er veikur gjaldmiðill og hefur hríðfallið undanfarna daga gagnvart dollar.  Ekki eru það gæfulegar fréttir fyrir þá sem ekkert sjá annað en Evruna sem bjargvætt.  Annað sem Evrusinnar og ESB aðdáendur ættu að hugsa um, er hvar er nú Evrópski seðlabankinn, sem menn halda að sé lánveitandi til þrautavara í ESB.  Evrópski seðlabankinn kemur engum til hjálpar, hvorki bönkum né ríkisstjórnum.  Það eru ríkissjóðir viðkomandi ESB landa sem þurfa að taka skellinn alveg eins og íslenski ríkissjóðurinn við íslenska bankahrunið.

Nokkur ESB lönd eru að guggna á Evrunni og munu hugsanlega taka aftur upp sinn gamla gjaldmiðil og ef af því verður mun styttast í að Evrópusambandið fari á límingunni.

Íslendingar ættu að einbeita sér að mikilvægari málum en umsókn um aðild að þessu skrímsli, sem líklega er í dauðateygjunum.

 


mbl.is Ætla að þjóðnýta banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónubréfin

Þrátt fyrir sífellt tal um opna umræðu og gegnsætt upplýsingaflæði virðist aldrei vera hægt að fá á hreint um hvaða upphæð er að ræða í svokölluðum krónubréfum.  Ekki kemur heldur almennilega fram hver er skuldarinn að þessum bréfum.  Eru það gömlu bankarnir, seðlabankinn, ríkissjóður eða fyrirtæki sem seldu útlendingunum þessi skuldabréf. 

Hafi það verið gömlu bankarnir hljóta krónubréfin að lenda í uppgjöri þeirra þrotabúa, en sá hluti sem er útgefinn af seðlabankanum eða ríkissjóði hlýtur að vera skráður og upphæðir þekktar, þó ekki sé nákvæmlega vitað hverjir eigendur skuldanna eru.  Auðvelt hlýtur að vera að auglýsa eftir þeim, þannig að hægt sé að gera sér grein fyrir hve stór hluti er í eigu erlendra aðila.  Það er í raun ótrúlegt að þetta sé ekki vitað.

Þegar þetta lægi ljóst fyrir væri sjálfsagt auðveldast að lífeyrissjóðirnir keyptu þessi skuldabréf, enda eru þeir eign okkar, almenningsins sem situr í súpunni, enda fengju þeir ríkistryggð skuldabréf (verðbætt) í staðinn og innleystu um leið mikinn gengishagnað af erlendum eignum sínum.


mbl.is Vill semja um krónubréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar og tryggingafélög

Smátt og smátt kemur upp á yfirborðið hversu gífurleg skuldsetning útrásarvíkinganna hefur verið.  Lánsupphæðirnar eru svo háar að almenningingur, með sín húsnæðis- og bílalán, meðtekur ekki með góðu móti slíkar upphæðir.

Athyglisvert er að ekki nægði þessum köppum að gína yfir öllu hugsanlegu í venjulegum fyrirtækjarekstri, heldur þurftu viðskiptablokkirnar þrjár að eiga banka til að hafa óþrjótandi aðgang að lánum, enda hefði enginn heilvita maður lánað slíkar upphæðir til "venjulegra" viðskiptamanna.

Hitt er ekki síður athyglisvert, sem ekkert hefur verið fjallað um, hvers vegna þessar blokkir "þurftu" líka að eiga sitt tryggingafélagið hvert.  Ætli það hafi ekki verið til þess að komast í bótasjóðina, sem voru fullir af peningum fyrir nokkrum árum?  Einnig hafa þeir ráðið fjölmiðlunum, sem ekkert hafa spurst fyrir um bótasjóðina eftir að tryggingafélögin komust í hendur "útrásarvíkinganna".

Það er orðið tímabært að fletta endanlega ofan af þessu Matadorspili öllu.

 


mbl.is Bjóða milljarða inn í Moderna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðgerðasinnar"

Alveg er makalaust hvað fjölmiðlar hlaupa eftir þessum lýð sem kallar sig "aðgerðasinna".  Hvaða vitleysu sem þeir láta sér detta í hug, hlaupa fjölmiðlar upp til handa og fóta og fjalla um delluna eins og um stórfrétt væri að ræða.

Nú orðið virðist allt vera leyfilegt ef það er framkvæmt af "aðgerðasinnum".  Ef fólk kallar sig "aðgerðasinna" virðist það komast upp með að halda útisamkomur í miðborg Reykjavíkur, með varðeldum og trommuslætti, hvort sem er að nóttu eða degi, án þess að nokkuð sé aðhafst.  Jafnvel virðist leyfilegt að kasta gangstéttarhellum í lögregluþjóna og stórslasa þá ef það er gert af "aðgerðasinnum" sem segjast vera að mótmæla, án þess að skilgreina mótmælin neitt nánar.  Enda eru þetta ekki mótmæli, heldur einfaldlega skrílslæti.

Það eru allir orðnir fullsaddir af þessum skrílslátum, nema hvað fjölmiðlamenn virðast ekki hafa annað þarfara að gera en að fjalla um þessa endaleysu.  Nú er nóg komið.


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF ekki ánægt með "verkstjórann"

Á meðan bæði atvinnulífið og almenningur bíður eftir einhverjum vitrænum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er hefndarfrumvarpið gegn Daví Oddssyni það eina sem stjórnarsinnar geta verið sammála um þessa dagana.

Ein besta grein sem um þetta seðlabankamál hefur verið skrifuð, birtist á vef amx.is nýlega og hana má lesa hér

IMF gerði svo alvarlegar athugasemdir við seðlabankafrumvarp "verkstjórans" Jóhönnu, að líklega þarf að semja nýtt, nánast frá grunni, í viðskiptanefnd Alþingis.

Betra væri fyrir stjórnarflokkana að láta hefnigirndina ekki hlaupa algerlega með sig í gönur.


mbl.is Ábendingar IMF styrkja frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið enn og aftur

Enn reyna kratar að halda því fram að afstaða til Evrópusambandsaðildar sé eitthvert vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Áður hefur verið bent á að menn skyldu lesa álit Bjargar Thorarensen, þjóðréttarprófessors, og þá ætti öllum að skiljast hvers vegna hugsandi mönnum hugnast ekki að tengjast sovétinu í ESB nánari böndum.

Sjá þessa frétt:

http://feeds.mbl.is/~r/mbl-frettir-innlent/~3/537426262/


mbl.is Eitt hænufet til Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrota ungmenni

Það er einhver dapurlegasta birtingarmynd kreppunnar að 664 ungmenni yngri en 22 ára skuli vera komin á vanskilaskrá.  Þar af hefur verið gert árangurslaust fjárnám hjá 343 þeirra, en árangurslaust fjárnám er venjulega undanfari gjaldþrots.

Að verða gjaldþrota á unga aldri, þegar framundan er stofnun heimilis, barneignir og húsnæðiskaup er það versta sem nokkur getur lent í.  Bankarnir gerðu þennan aldurshóp að sérstökum markhóp sínum og gerðu allt til þess að lokka hann í viðskipti með loforði um tölvulán, bílalán og yfirdráttarlán.  Margir létu glepjast af þessu og kunnu sér ekki hóf og sitja því nú í súpunni.

Þetta eru sjálfsagt krakkar sem aldrei hafa þurft að neita sér um neitt og alltaf getað fengið peninga hjá foreldrunum fyrir því sem hugurinn girntist hverju sinni.  Líklega hafa foreldrarnir orðið fegnir að blessuð börnin gætu auðveldlega útvegað sér peninga á auðveldan hátt hjá bönkunum.


mbl.is Rúmlega 660 ungmenni á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband