Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Evrópusambandið

Þessi grein og erindi Bjargar Thorarensen ætti að vera skyldulesning fyrir þá krata sem enga lausn sjá á nokkru máli, aðra en inngögnu Íslands í Evrópusambandið.

Óþolandi er sú síbylja kratanna að þeir sem eru á móti inngöngu í ESB geti ekki tekið afstöðu til málsins.  Nú síðast kyrjaði Jón Baldvin Hannibalsson um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki getað gert upp hug sinn síðastliðin fimmtán ár.  Þetta er auðvitað reginfirra, því Sjálfstæðisflokkurinn hefur margrætt þessi mál og alltaf komist að sömu niðurstöðu:  Það er hagur Íslands að standa utanvið skriffinnskubáknið.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður í lok mars, verður sú afstaða vafalaust staðfest.


mbl.is Fá atkvæði í hlut Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samdráttarskeið

Sífellt skýrari mynd af afleiðingum bankahrunsins er að koma í ljós og samkvæmt hagspá ASÍ mun ekki taka að glaðna til fyrr en á árinu 2011.  Í spánni er áætlað að atvinnuleysi á almennum vinnumarkaði verði um 10% a.m.k. næstu tvö til þrjú ár.

Athyglisvert er að ekkert er minnst á atvinnuleysi opinberra starfsmanna, en þar er um mikið dulbúið atvinnuleysi að ræða, því ekki seinna en við fjárlagagerð næsta árs verður að taka ákvarðanir um gífurlegan niðurskurð opinberra útgjalda og í raun uppstokkun á öllu kerfinu.  Tekjutap ríkisins verður svo mikið að óhugsandi er að standa undir óbreyttum opinberum rekstri.

Halli á fjárlögum ársins 2009 er áætlaður um 160 milljarðar króna og var þá búið að skera niður um 40 milljarða frá upphaflegum drögum að fjárlögum.  Samkvæmt samningi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn verður ríkissjóður að vera hallalaus eigi síðar en á árinu 2013, þannig að sá niðurskurður sem kynntur var í upphafi þessa árs er barnaleikur miðað við það sem koma þarf.

Þetta ætla stjórnmálamennirnir að koma sér hjá að ræða, þar til eftir kosningar.

 


mbl.is Mesta samdráttarskeið síðari ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður Jóhönnu

Ótrúlegt er að fylgjast með þeim þingmanni sem lengsta hefur þingreynsluna og lengstan starfsaldur í ríkisstjórnum klúðra hverju málinu á fætur öðru á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar.

Hér er auðvitað átt við Jóhönnu, verkstjóra, sem hleypur á sig með bréfum til seðlabankastjóranna og hrekur síðan formenn bankaráða Glitnis og NBI úr störfum sínum með gaspri á Alþingi, þvert á vilja Steingríms fjármálaráðherra.

Verkstjórinn þyrfti kannski að fara á verkstjóranámskeið.


mbl.is Mikilvægast að gengið styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innrætið afhjúpað erlendis

Merkilegt er að útlendingar skuli vera fljótir að greina innræti og eðli Ólafs Ragnars Grímssonar, en fæstir Íslendinga skuli hafa gert sér grein fyrir því öll þau ár sem hann hefur verið forseti og pólitíkus í nokkrum stjórnmálaflokkum þar áður.

Forseti sem ekki getur rætt við nokkurn erlendan fréttamann núorðið án þess að vera misskilinn og rangtúlkaður, verður að hætta að mæta í viðtöl eða a.m.k. að hafa með sér löggildan skjalaþýðanda.

Hitt er annað mál að þó hann tali íslensku veitti oft ekki af að hafa túlk með honum til þess að koma því sem hann er að segja yfir á skiljanlegt mannamál. 

Réttur skilningur á nánast öllu sem hann gerir og segir er að Ólafur Ragnar Grímsson sé stórkostlegur, glæsilegur, gáfaður og einstakur. 


mbl.is Skapstóri forsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð rokkar en Bubbi ekki

Davíð sá við mótmælendum með því að vakna á undan þeim í morgun.  Þrátt fyrir að tveir þekktir tónlistarmenn tækju sig saman um að smala mótmælendum á Arnarhólinn tókst  þeim ekki að laða að nema 60-70 manns og kallar þó annar popparinn sig kóng.

Ef ekki væri fyrir flautur vörubílstjórans tæki líklega enginn eftir þessum mótmælum, sem beinast þó að þeim manni sem sumir segja að sé hataðasti maður þjóðarinnar.

Sagan mun dæma hver telst vera kóngurinn eftir þessa orrahríð alla.


mbl.is Bubbi rokkar Seðlabankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óánægja Jóhönnu

Verkstjóri ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, lýsir yfir megnri óánægju með að bankaráð NBI (sem hún kallar Landsbanka) hafi ráðið Ásmund Stefánsson tímabundið í bankastjórastöðu og segist ætla að hirta bankaráðið af þessu tilefni.

Nú er Jóhanna alls ekki bankamálaráðherra og því vaknar sú spurning hvort hún sé að vasast í öllum málum sem heyra undir samráðherra hennar.  Ef svo er, þá tekur hún verkstjórahlutverkið full hátíðlega, a.m.k. er hún að niðurlægja viðskiptaráðherrann með þessum yfirlýsingum.

Ekki síður er það merkilegt ef ríkisstjórnin ætlar að fara að stjórna bönkunum frá degi til dags.  Þurfa viðskiptavinir bankanna bráðlega að fara að bíða á skrifstofu verkstjórans til þess að fá venjulega bankafyrirgreiðslu?

Þrátt fyrir að hér sé um ríkisbanka að ræða, þá á bankaráðið að starfa sjálfstætt, óháð pólitískum afskiptum, og þar með að ráða bankastjóra.

Ef þetta er ekki alveg skýrt má fara að búast við að Jóhanna fari að verkstýra öðrum ríkisfyrirtækjum.


mbl.is Óánægð með Landsbankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir seðlabankastjórnar

Oft hefur verið tilefni til að undrast málflutning Árna Páls Árnasonar, þingmanns Smáflokkafylkingarinnar, síðan hann komst á þing og ekki bætir hann úr skák núna með fullyrðingum sínum um að seðlabankastjórnin hafi tekið eigin hagsmuni fram yrir þjóðarhagsmuni.

Þingmaður getur ekki og má ekki komast upp með svona rakalausan málflutning.  Ef hann vænir menn um landráð verður hann að styðja slíkar ásakanir með einhverjum rökum. 

Þrátt fyrir að enginn taki fullt mark á þessum þingmanni verður að ganga eftir því að hann reyni að leggja fram einhverjar marktækar sannanir.

Svo hafa Raddir Harðar Torfasonar boðað til útifundar til þess að krefjast pólitískra ofsókna á hendur sér óþóknanlegs starfsfólks ýmissa stofnana.

Það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.


mbl.is Yfirstjórn Seðlabanka gætti ekki hagsmuna þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsóknarbrjálæði

"NÚ er nauðsynlegt að taka upp virkt lýðræði og losa þjóðina við útsendara flokkseigenda í fjármálafyrirtækjum, stjórnsýslunni, háskólum og fjölmiðlum.“ Svo segir í fréttatilkynningu frá Röddum fólksins sem boða til enn eins mótmælafundar á Austurvelli á morgun.

Hvað er um að vera í höfðinu á félaga Herði Torfasyni og öðrum vinstri ofstækisfélögum hans?  Eru þeir endanlega gengnir af göflunum? 

Þeir segjast ætla að losa þjóðina við "útsendara flokkseigenda" á öllum sviðum mannlífsins.  Á skoðanakúgunin nú að ganga svo langt að allir sem starfa á þessum sviðum og hafa einhverja pólitíska skoðun skuli flæmdir úr störfum?  Á ekki að vera skoðanafrelsi í landinu, eða verða eingöngu ákveðnar skoðanir liðnar?  Ef svo er, hver á þá að ákveða hvaða skoðanir eru réttlætanlegar?  Svarið er væntanlega:   Hörður Torfason.  En hver hefur kosið hann til að taka ákvarðanir?

Það hlýtur að vera kominn tími til þess að þessari vitleysu linni.  Annars verður að fara að boða til útifunda til þess að mótmæla Röddum Harðar Torfasonar.

 


Stærð Baugs í Bretlandi.

Einhversstaðar kom fram hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni að hjá Baugi í Bretlandi ynnu um 20 þúsund manns og honum væri umhugað um að þessir starfsmenn fyrirtækisins héldu vinnu sinni.  Ekki er nú víst að þeir yrðu allir atvinnulausir, þótt eignarhald á búðunum breyttist eitthvað.

Íbúar Bretlandseyja eru um það bil 61 milljón, þannig að starfmenn Baugs eru um 0,33% af fólksfjöldanum.  Það jafngildir tæpum ellefuhundruð íslendingum miðað við fólksfjöldann.

Vegna ævintýramennsku útrásarvíkingsins Jóns Ásgeirs og félaga eru nú fjórtánþúsun íslendingar atvinnulausir.


mbl.is Krefjast upplýsinga um Baug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IceSave

Glöggt kemur fram í bréfum Viðskiptaráðuneytisins til fjármálaeftirlits Bretlands að ríkissjóður muni standa á bak við Tryggingasjóð innistæðueigenda, svo hann geti staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum við Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. að greiða að hámarki EUR 20.887.  Það er því hrein svívirða af Bretum að beita hryðjuverkalöggjöf sinni gegn Landsbankanum til þess að pína Íslendinga til þess að greiða IceSave innistæður að fullu.

Höfuðið af skömminni bitu svo "samstarfsþjóðir" okkar á ESS með því að styðja Breta í þessari kröfu og nánast setja á okkur viðskiptabann þar til við gengjum að þessum afarkostum.  Meira að segja norðurlandaþjóðirnar, með Norðmenn innanborðs, studdu allar kröfur gegn Íslandi.

Undarlegt er að hér skuli vera til fólk og stjórnmálaöfl sem halda áfram að kyrja sönginn  um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.


mbl.is Lofuðu stuðningi ríkisstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband