Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Svör ríkisstjórnar koma í dag eða á morgun eða hinn daginn

Ríkisstjórnin hefur aldrei svör á reiðum höndum um nokkurn skapaðan hlut, heldur er alltaf sagt að eitthvað muni gerast seinna í dag, á morgun eða í síðasta lagi fyrir næstu helgi.  Þetta hafa menn þurft að hlust á allt þetta ár, t.d. varðandi niðurstöðu í Icesavemálinu.

Á fundi með aðilum vinnumarkaðarins vegna stöðugleikasáttmálans, hafði ríkisstjórnin engar lausnir í farteskinu, en gaf það út að hún myndi líklega kynna sína afstöðu í kvöld, á morgun eða bara einhvern tíma seinna.

Þjóðin er löngu orðin hundleið á ráðaleysi þessa ríkisstjórnarlíkis og ráðherranefnanna, sem í því sitja.  Allir eru líka dauðleiðir á þeim svörum, að eitthvað muni gerast í kvöld, á morgun eða seinna.

Það þarf lausnir núna.  Ekki á morgun eða hinn.

Lágmarkskrafa er að ríkisstjórnarlíkið hætti að flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu og baráttu gegn atvinnuleysinu og kreppunni.

Nóg er að þessi ríkisstjórnarhörmung svíki þjóðina með Icesaveþrældómi, þó hún vinni ekki öllum árum að því að gera kreppuna sársaukafyllri, lengri og dýpri, en hún annars hefði orðið.


mbl.is „Þetta mjakast áfram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamaður á eftir tímanum

Áður fyrr var klukkunni breytt tvisvar á ári hérlendis, þ.e. klukkunni var breytt um eina klukkustund eftir vetrar- eða sumartíma.  Þessu er löngu hætt hérlendis, en er enn við lýði annarsstaðar í heiminum.

Hins vegar er þetta svolítið ruglingslegt og fólk ekki alltaf með það á hreinu, hvað klukkan er á hverjum stað og ekki bætir úr skák, þegar klukkan er færð fram og aftur eftir árstíma.  Á miðnætti s.l. var klukkan færð aftur um eina klukkustund í Evrópu, þegar vetrartími tók þar gildi.  Þetta ruglaði blaðamann mbl.is. í ríminu, eins og sést af þessu:  "Það þýðir, að klukkan er nú það sama á Íslandi og á Bretlandseyjum og einum klukkutíma á eftir íslenska tímanum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Þarna er blaðamaðurinn ekki alveg með tímaskinið í lagi, því í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er klukkan einum klukkutíma á undan íslenska tímanum en ekki á eftir.  Til að glöggva sig á hvað tímanum líður, vítt og breitt um veröldina, má t.d. skoða þessa síðu, sem sýnir hvað klukkan er á hinum ýmsu stöðum.

Ekki er vert að rugla fólk meira í ríminu með hvað tímanum líður á hverjum stað, en tímaflakkararnir bjóða sjálfir upp á.


mbl.is Vetrartími í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótfærni Alþingis

Alloft hefur komið fyrir að Alþingi afgreiði frumvörp til laga með þvílíkum hraða og hroðvirkni, að þau hefur þurft að taka upp og leiðrétta nokkrum vikum eða mánuðum eftir samþykkt þeirra.  Stundum hefur þetta hroðvirknislega vinnulag haft alvarlegar afleiðingar og þá hefur afsökunin verið, að þetta og hitt sé ekki í "anda laganna".

Andi laganna hefur ekkert gildi fyrir dómstólum, aðeins hinn ritaði og samþykkti texti.  Nú brá svo við, að við afgreiðslu laga um greiðslujöfnun lána, þurfti við lokaumræðu frumvarpsins, að fella út grein um skattfrelsi á niðurfelldum skuldum, vegna þess að greinin hefði opnað fyrir stórkostlegar skattfrjálsar niðurfellingar kúlulána bankajöfra og jafnvel útrásargarka.

Í fréttinni segir:  "Samkvæmt heimildum hefðu þessar tillögur óbreyttar heimilað skattfrjálsar afskriftir risastórra kúlulána, sem tekin voru vegna hlutabréfakaupa og koma tilgangi laganna ekkert við."  Frumvarpið hafði farið með slíkum hraða í gegnum nefndarvinnu, að enginn tími gafst til að lesa það, eða skilja, áður en því var vísað til lokaumræðu í þinginu.

Hefðu ekki komið til athugasemdir Péturs Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Þórs Saari, þingmanns hreyfingarinnar, hefði frumvarp Árna Páls, félagsmálaráðherra og atvinnulífsrógbera, farið óbreytt til lokaatkvæðagreiðslu.

Það verður að vera hægt að treysta því, að lög frá Alþingi séu með vitrænu innihaldi og í þeim standi það sem ætlast er til að þau nái yfir.

Andi laganna gufar fljótt upp, rétt eins og vínandi.


mbl.is Hætt við breytingu á skattalöggjöf í skyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir munu greiða að fullu

Lög voru samþykkt á Alþingi í gær um greiðslujöfnun lána, bæði húsnæðis- og bílalána og mun greiðslubyrði húsnæðislána lækka að meðaltali um 17% frá og með 1. desember n.k.  Jafnframt er gert ráð fyrir allt að þriggja ára lengingu lána, frá upphaflegum lánasamningi.

Líklegt er að með þessum aðgerðum, þ.e. að miða afborganir við greiðslujöfnunarvísitölu, muni flestir ná að greiða upp allt sitt húsnæðislán, jafnvel á upphaflegum lánstíma, sem í mörgum tilfellum er fjörutíu ár.  Annað verður líklega upp á teningnum varðandi bílalánin, þar sem þeirra lánstími er miklu styttri en húsnæðislánanna og því verður örugglega talsvert um afskriftir vegna þeirra, að liðnum þriggja ára lánalengingunni.

Ef ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar kemst í lag á næstu árum og þróunin verður svipuð og hún hefur verið undanfarna áratugi mun það misgengi, sem nú hefur orðið milli launa og neysluverðvísitölu, breytast til hins betra og laun hækka umfram verðlag, eins og var t.d. undanfarin tuttugu ár.  Um þennan mismun á milli launa- og neysluverðsvísitölu var t.d. bloggað hérna

Af samanburðinum í blogginu, sem vísað var til hér að framan, sést að greiðslubyrði verðtryggða lána léttist umtalsvert á þessum tuttugu árum, sem tekin eru til viðmiðunar, en margir virðast standa í þeirri trú, að verðtryggingin hafi verið allt að drepa á undanförnum árum.

Oft hefur orðið misgengi á milli launa og verðlags um skamman tíma, en launahækkanir hafa ávallt orðið meiri til langs tíma, enda ekki hægt að líkja kaupmætti núna við það sem var fyrir tuttugu árum.

Með skárri ríkisstjórn, en nú situr, kemst aftur á jafnvægi í þessu efni á nokkrum árum.


mbl.is Lenging greiðslujöfnunar að jafnaði 3 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri umboðsmenn, takk

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra og atvinnulífsrógberi, hefur hrakist úr einu víginu í annað frá því á vormánuðum, vegna afstöðu sinnar til skuldavanda heimilanna.  Í vor sagði hann að ekkert væri í raun hægt að gera til að létta greiðslubyrði heimilanna, annað en að lengja í húsnæðislánum um allt að 30 ár, þannig að þau yrðu til allt að 70 ára.

Smátt og smátt hefur hann þokast inná rétta braut í málinu og nú er búið að samþykkja ný lög um greiðslujöfnun afborgana, með tengingu við svokallaða lauajöfnunarvísitölu og lengingu um allt að þrjú ár, greiðist lán ekki upp á umsömdum lánstíma.

Þetta verður að teljast sanngjörn leið og munu flest lán greiðast upp á lánstímanum, eins og lög gera ráð fyrir, þegar lán eru tekin, því auðvitað er reiknað með að lán verði endugreidd að fullu, hvort sem lán er tekið í íslenskum krónum, eða erlendum gjaldeyri.

Davíð Stefánsson, þingmaður VG, sagði í umræðum um lagafrumvarpið, að hann hefði lagt til að stofnað yrði sérstakt embætti umboðsmanns skuldara og vel hefði verið tekið í það mál innan félagsmálanefndar.

Í núverandi niðurskurði ríkisútgjalda er algerlega út í hött að ætla að bæta við embættismannakerfið, sem þegar er risavaxið.  Nóg er af embættismönnum, sem geta fjallað um svona mál, t.d. er þegar fyrir hendi embætti umboðsmanns neytenda.  Í sparnaðarskyni ætti reyndar að leggja það embætti niður, enda óþarft.

Neytendastofa getur vel annast verkefni bæði umboðsmanns skuldara og umboðsmanns neytenda.


mbl.is Greiðslujöfnunarfrumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokið í öll skjól ríkisstjórnarinnar

Nú er ekki fokið í flest skjól ríkisstjónarinnar, heldur öll, þegar verkalýðshreyfingin er farin að senda frá sér harðorðar ályktanir, vegna svika stjórnarinnar í öllum málum er varða stöðugleikasáttmálann.

Verkalýðhreyfingunni er stjórnað af fólki, sem flest gefur sig út fyrir að vera stuðningsmenn stjórnarflokkanna og því eru það stórtíðindi þegar svo harkalega er ályktað gegn félögum sínum í ríkisstjórn.

Samkvæmt fréttinni mun þetta verð tónninn í ályktun ársfundar ASÍ:  "Minnt er á að með stöðugleikasáttmálanum skuldbundu stjórnvöld sig til að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda. Þau hafi nú með aðgerðum sínum sett þær í uppnám. „Slík framganga er óþolandi og er þess krafist að þau standi nú þegar við sitt,“ segir í drögunum að ályktun ársfundarins, sem reiknað er með að verði afgreidd upp úr hádeginu."

Í ályktunardrögunum er bent á fjölda verkefna, sem hægt væri að ráðast í á næstu vikum og mánuðum, ef vilji væri fyrir hendi að hálfu stjórnvalda og er það viljaleysi einnig gagnrýnt harkalega.

Þetta hefðu þótt hörð orð og stór, hefðu þau komið úr munni stjórnarandstæðinga.

 


mbl.is Stjórnvöld standi við sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið sveiflast eftir geðþótta

Jóhanna, forsætisráðherralíki, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, hafa marg lofað að gengið myndi styrkjast, fyrst þegar Davíð var rekinn úr Seðlabankanum, næst þegar umsóknin yrði send um inngöngu í ESB, svo þegar gengið yrði undir Icesavehelsið, við gerð stöðugleikasáttmálans o.s.frv.

Þar sem gengi krónunnar lýtur öðrum lögmálum en gaspri ráðherra, hefur nýjasti seðlabankastjórinn komið henni til hjálpar á ákveðnum gaspurtímabilum, t.d. núna síðast þegar fjármálajarðfræðingurinn kynnti nýjustu þrælaskilmála Breta og Hollendinga vegna Icesave.  Þá, eins og nokkrum sinnum áður, dælir Seðlabankinn gjaldeyri inn á markaðinn til þess að styrkja gengið um nokkur prómill, en hættir því svo aftur eftir tvo til þrjá daga, með þeim afleiðingum að gengið fellur aftur í fyrra horf.

Blekkingarleik ríkisstjórnarinnar og meðreiðarsveina hennar virðist aldrei ætla að linna.

Raunverulegar aðgerðir til að styrkja gengið láta standa á sér, enda er kröftunum eytt í að flækjast fyrir atvinnulífinu og lengja og dýpka kreppuna.


mbl.is Engin inngrip og gengi krónunnar lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg skriffinnska

Samfylkingin er nú búin að skila inn svörum til ESB, vegna umsóknar sinnar um inngöngu í sambandið og eru svörin, ásamt fylgiskjölum, engin smásmíði, eða eins og segir í fréttinni:  "Svörin telja 2600 blaðsíður auk fylgiskjala og er blaðafjöldi samtals 8870 síður. Unnu öll ráðuneytin að svörunum, auk fjölda undirstofnana."

Þessi ótrúlega skriffinnska var unnin á fáeinum vikum, enda sátu öll ráðuneytin við skriftirnar, ásamt undirstofnunum og verktökum utan úr bæ.  Einnig var blaðahrúgan lesin yfir af aðilum atvinnulífsins og fleiri áhugalausum aðilum um málið.

Fjórir mánuðir eru síðan skrifað var undir svokallaðan stöðugleikasáttmála, en samkvæmt honum átti ríkisstjórnin að afgreiða ýmis mál, sem áttu að verða til að greiða fyrir eflingu atvinnulífsins og fjölgun starfa, en stjórnin hefur ekki staðið við eitt einasta atriði, sem þar var samið um.

Í ljósi þess, að allt kerfið hefur verið í vinnu dag og nótt fyrir Samfylkinguna vegna inngönguþrár hennar í ESB, þá þarf engan að undra, að ekki hafi fundist nokkur starfsmaður á lausu í kerfinu, til að vinna að uppfyllingu stöðugleikasáttmálans.

Það verður a.m.k. ekki sagt um "kerfið" að það hafi skilning á því, hvar þörfin fyrir kraftana er mest, þegar kreppan  bítur sig stöugt fastar í þjóðlífið.


mbl.is Svör Íslands afhent í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipanir gefnar og þeim verður hlýtt

Nú er Mark Flanagan, landfógeti, búinn að leggja línurnar fyrir Seðlabankann og ríkisstjórnina fyrir næstu mánuði, bæði varðandi stýrivexti og aðrar efnahagsaðgerðir og eins og áður mun bæði Selabankinn og ríkisstjórnin láta eins og þau taki sjálfstæðar ákvarðanir á næstunni.

Landfógetinn setur skipanirnar fram eins og ráðleggingar, en allir vita að eftir þeim "ráðleggingum" verður farið í einu og öllu.  Stýrivexti má ekki lækka vegna þess að þá muni verðbólga rjúka upp og gengi krónunnar myndi hrynja.

Stýrivextir hafa verið háir og ekki hefur það haldið verðbólgu í skefjum fram að þessu, hvað þá að það hafi orðið til að styrkja krónuna.  Krónan styrkist ekki á meðan gjaldeyrisafgangur af útflutningstekjum verður minni en greiðslur vaxta og afborgana erlendra lána og það ástand mun haldast um mörg ókomin ár.

Það sem helst hefur valdið mikilli verðbólgu undanfarna mánuði, eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og hún hefur boðað brjálæðislega hækkun á sköttum á næsta ári, bæði á beinum og óbeinum sköttum, en þeir fara beint út í verðlagið og kynda undir verðbólgunni.

Eina "ráðlegging" AGS, sem ríkisstjórnin tregðast við að fara eftir, er að spara í ríkisrekstrinum og því verður verðbólga næstu mánaða í boði ríkisstjórnarinnar, því ekkert annað knýr verðbólgu núna, annað en aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Flanagan landfógeti segir að stjórntæki peningamála dugi ekki til að halda aftur af verðbólgunni.  Stýrivextirnir eru helsta tæki peningamála, svo í því ljósi er óskiljanlegt hvers vegna hann vill þá alls ekki leyfa lækkun þeirra.

Hann ætti að ráðleggja ríkisstjórninni að draga úr skattahækkunarbrjálæðinu.


mbl.is Vill varkárni í vaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óáreittir glæpahópar?

Upplýsingar lögreglunnar um að hér á landi starfi margir skipulagðir glæpahópar, bæði íslenskir og erlendir, vekja upp margar áleitnar spurningar.  Ef lögreglan hefur haft vitneskju um slík glæpagengi árum saman, hvers vegna ganga þau þá laus ennþá?

Á blaðamannafundi lögreglunnar í dag kom fram að:  "Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðað pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis." 

Hérlendis starfa sem sagt margir glæpahópar, en samkvæmt fréttum síðustu daga er aðeins verið að rannsaka starfsemi eins þeirra og snýst sú rannsókn m.a. um fjármunabrot, Þjófnaði, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti.  Áður höfðu tveir erlendir hópar verið upprættir, en þeir virtust hafa sérhæft sig í innbrotum, bæði á heimili og í fyrirtæki.

Þarna er þá samtals um að ræða þrjá glæpahópa, en ef margir í viðbót eru starfandi hérlendis og lögreglan veit um starfsemi þeirra, því eru þeir þá ekki teknir úr umferð samstundis?


mbl.is Margir glæpahópar með erlend tengsl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband