Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Pétur Blöndal er alltof tilætlunarsamur

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, missti út úr sér á Alþingi, væntanlega í hita leiksins, kröfu um að ráðherrar skildu það, sem þeir væru að tala um, eða eins og fram kemur í fréttinni:  ""Hann er að borga frá 22. apríl 40 milljarða meiri skuld og hann borgar á hverjum degi 100 milljónir í vexti. Það vex og vex hjá innlánstryggingasjóði og hver skyldi borga það: ríkissjóður. Og ég krefst þess að ráðherrar sem standa í þessu máli skilji þessa hluti,“ sagði Pétur og barði í ræðupúltið."

Þarna var Pétur að tala um innistæðutryggingasjóð í tilefni af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um algera uppgjöf gagnvart þrælahöldurunum, vegna Icesave skulda Landsbankans.

Að ætlast til þess, að ráðherrarnir skilji það sem þeir eru sjálfir að tala um, er náttúrlega alger tilætlunarsemi af Pétri Blöndal.

Hann ætti að temja sér meira umburðarlyndi gagnvart ríkisstjórninni, því hún er hvort sem er óskiljanleg.


mbl.is 100 milljónir í vexti á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grínari með uppistand

Össur Skarphéðinsson, grínráðherra, var með eitt af sínum uppistöndum á Alþingi í dag og reitti af sér sína venjulegu og lélegu brandara fyrir þingheim.

Afar misvísandi tölur hafa verið nefndar um hugsanlegar endurheimtur Landsbankans upp í Icessaveskuldir sínar, allt frá 35% og nú síðast um 90%, eftir að Nýji Landsbankinn var látinn gefa þeim gamla um 300 milljarða króna í gengistryggðu skuldabréfi, til tíu ára.  Eftir það kom fjármálajarðfræðingurinn fram með þá von sína, að endurheimturnar yrðu allt að 90% og þar með yrðu skattgreiðendur aðeins látnir borga 75 milljarða króna, að viðbættum 250 - 300 milljarða vöxtum.

Í sínu uppistandi segir grínarinn Össur, að endurheimturnar verði líklega betri en nokkurn hafi látið sér detta í hug áður og hlýtur hann þá að meina að þær fari yfir 100%, en það er tala sem hvorki fjármálajarðfræðingurinn eða forsætisráðherralíkið hafa látið sér detta í hug að ljúga að nokkrum manni, ekki einu sinni sjálfum sér.

Það er óborganlegt að hafa slíkan skemmtikraft sem Össur á þingi á þessum erfiðu tímum.

Hann hefur þann fágæta hæfileika, að fá fólk til að hlægja, meira að segja áður en hann byrjar að tala.


mbl.is Mun léttari pakki en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaða VG

Stjórnarandstæðingurinn Lilja Mósesdóttir, þingmaður ríkisstjórnarflokksins VG, ræðst fram á ritvöllinn í Mogganum í dag og segir bráðnauðsynlegt að endurnýja samstarfssamninginn við AGS, enda hafi sjóðurinn, einhliða, sagt upp samstarfinu við Ísland.

Lilja segir að AGS hafi svikið afgreiðslu allra mála, ekki síst lánaafhefdingar, á árinu og því verði að semja að nýju og segir m.a. í greininni:  "Semja þarf um verulega vaxtalækkun, að lánum sjóðsins verði breytt í lánalínur sem aðeins verða notaðar í neyð og að niðurskurður verði mildaður til að tryggja fulla atvinnu. Jafnframt þarf AGS að aðstoða íslensk stjórnvöld við að endursemja við erlenda lánardrottna um lægri vexti og afskriftir til að forða ríkissjóði og þjóðarbúinu frá greiðsluþroti strax á næsta ári."

Fyrir tveim dögum mótmælti Gylfi Magnússon, viðskipta- og efnahagsmálaráðherra, því harðlega, að skuldastaða þjóðarbúsins væri slík, að nokkur hætta væri á greiðsluþroti í framtíðinni, enda væru mörg ríki á vesturlöndum miklu skuldsettari en Ísland.  Allar raddir um greiðsluþrot væru því út úr kú og til þess eins að blekkja þjóðina og hræða.

Nú segir Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og þingmaður VG, að forða verði þjóðarbúinu frá greiðsluþroti strax á næsta ári.

Er ekki kominn tími til að stjórn og stjórnarandstaða í ríkisstjórnarflokkunum fari að koma sér saman um málin og tala einni röddu?  Ekki væri síðra,  að stjórnin færi að segja þjóðinni satt.

Það gæti orðið til að minnka hræðslu þjóðarinnar við framtíðina og gæti jafnvel eflt kjark hennar.


mbl.is Gera þarf róttæka breytingu á efnahagsáætlun AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birta bréfin möglunarlaust

Ólafur Ragnar Grímsson, stuðningslaus forseti, hefur fram að þessu haldið því fram, að hann geti ekki birt meðmælabréf sín með banka- og útrásargörkunum, sem hann sendi í allar áttir á þeim tíma, sem hann var aðalklappstýra í liði þeirra.

Nú, eftir mikla gagnrýni á þetta purkur með bréfin, segir Ólafur að hann sé að hugsa um að birta helming bréfanna og þá eru væntanlega engin lagaákvæði, sem banna honum það lengur.

Í spjallþætti Sölva á Skjá 1 mun Ólafur segja að hann sé ennþá að hugsa og hugsa um hvort hann eigi að birta þennan helming bréfanna, eða eins og segir í fréttinni:  "Forsetinn sagðist ekki hafa tekið þessa ákvörðun enn. "En mér finnst ekki þægilegt, hvorki persónulega eða fyrir forsetaembættið að sitja undir ásökunum, tortryggni og öðru af þessu tagi," segir Ólafur Ragnar."

Tortryggnin í garð klappstýrunnar mun ekkert minnka við að birta nokkur útvalin bréf.

Það eina, sem dugir, er að birta öll bréfin möglunarlaust.

Ekki er einu sinni víst, að það dugi, til að bæta mannorð þessa sjálfumglaða einkaþotufarþega.

 


mbl.is Íhugar að birta bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Ögmundur lífeyrissjóðinn?

Lífeyrissjóðir landsmanna, aðrir en séreignarsjóðirnir, eru ekki "eign" þeirra sem greiða í þá, heldur eru þeir í raun risastór tryggingafélög, þar sem fólk kaupir sér tryggingu fyrir elli- og örorkulífeyri, en falli menn frá fyrir aldur fram og eigi ekki fjölskyldu, þá fara iðgjöldin í sameiginglega pottinn og nýtast einhverjum öðrum.

Þetta er nánast nákvæmlega sama kerfið og að kaupa brunatryggingu á húsið sitt, maður greiðir tryggingariðgjaldið alla ævi, en brenni húsið ekki, þá fær tryggingatakinn ekkert frá tryggingafélaginu, en iðgjöldin hans nýtast til að greiða tjón annarra. 

Þeir sem fara t.d. á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði ungir að árum, fá greitt út úr lífeyrissjóðnum miklu hærri upphæð, en þeir greiddu nokkurn tíma til hans og sama má segja um þá sem lifa mjög lengi og fá þá meira greitt úr sjóðnum, en þeir höfðu greitt til hans.

Þetta á formaður í verkalýðsfélagi að vita og því er alveg ótrúlegt að heyra frá Ögmundi Jónassyni, að hann vilji að lífeyrissjóðirnir fari að lána peninga til reksturs ríkisins og hvað þá svona orðalag:  „Þetta er mín krafa um mína peninga." 

Ögmundur er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og verður því að axla þá ábyrgð sem því fylgir.

Eigi ríkissjóður ekki fyrir rekstrarútgjöldum, verður hann að draga úr þeim og spara í rekstrinum, þannig að skatttekjurnar dugi.

Það er mín krafa um mína peninga.  Það er að segja mína skattpeninga.


mbl.is Lífeyrissjóðir láni í velferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýkjur um vanskil

Mikið hefur verið gert úr greiðsluvanda heimilanna og ávallt gefið í skyn að stór hluti þeirra sé í gífurlegum vanskilum og að þau úrræði, sem í boði eru til að létta greiðslubyrðina, séu til lítils nýt, því þau hjálpi í raun ekkert til að bjarga fólki frá gjaldþroti.

Um miðjan október voru tæplega 20 þúsund einstaklingar, 18 ára og eldri, á vanskilaskrá, eða um 6,7% allra fjárráða einstaklinga á landinu.  Þetta er há tala og auðvitað hefði maður haldið að kreppan ætti hér stóran hluta að máli, en því fer víðsfjarri, eins og sést í fréttinni, en þar segir:  "Greining Íslandsbanka segir, að þrátt fyrir þær miklu efnahagslegu breytingar sem hér hafi orðið á undanförnum misserum hafi fjölgun á vanskilaskrá verið merkilega lítil. Á síðustu 5 árum hafi hlutfall fjárráða einstaklinga á vanskilaskrá ekki farið niður fyrir 5% þrátt fyrir það góðæri sem þá ríkti."

Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að Íslendingar hafa aldrei kunnað með peninga að fara og sannar þá kenningu, að á meðan margar aðrar þjóðir kaupa það sem þær geta sparað fyrir, þá kaupa Íslendingar allt, sem þeir geta fengið lánað fyrir.  Afborganir og vextir hafa hingað til ekki haldið vöku fyrir Íslendingnum, því mottóið hefur alltaf verið:  "Þetta reddast einhvernveginn".

Nú er hinsvegar komið að skuldadögunum og hlutirnir reddast ekki einhvernveginn lengur.  Lánaæðið er liðið, sérstaklega erlenda lánaæðið og allur vöruskiptajöfnuður þjóðarinnar og raunar meira til, mun fara í erlendar afborganir og vexti næstu áratugina.

Það mun kalla á gjörbreyttan hugsunarhátt hjá okkur vesælum mörlöndum.


mbl.is Fjölgar á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin framlengir kreppuna

Oft hefur verið um það fjallað hvernig ríkisstjórnin berst fyrir því með oddi og egg, að framlengja kreppuna og dýpka hana.  Nú er aðeins rúm vika þangað til að flest allar aðgerðir sem ríkisstjórnin lofaði að framkvæma, samkvæmt stöðugleikasáttmálanum, rennur upp, en ekkert er farið að gerast ennþá.  Fyir viku var fjallað um þetta á þessu bloggi, sjá hérna og síðan hefur ekkert gerst.

Nú stendur yfir fundur SA og þar sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a:  ,,Þessi stöðugleikasáttmáli hangir eingöngu á óskhyggjunni.”   Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði einnig:  „Það er mjög auðvelt að sjá fram á það, að ef fjárfestingarnar gangi ekki fram á næsta ári, þá munum við ekki horfa á 2% samdrátt heldur 6% samdrátt eða meira. Við erum að tala um kreppu - töku tvö."

Orð þessara manna eru gífurlegur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og jafn stórar og alvarlegar yfirlýsingar hafa komið fram af hálfu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar.  Ábyrgð ráðherranna er mikil og er grunurinn um að þeir séu viljandi að lengja og dýpka kreppuna, ekki lengur grunur heldur fullvissa.

Lokaorð fréttarinnar segja allt sem segja þarf um þessa ríkisstjórn:  "„Stöðugleikasáttmálinn frá því í júní er ónýtur. Ríkisstjórnin er búin að svíkja hann og hún er búin að rífa hann. Allra síst megum við, sem samtök, fara að ljúga að sjálfum okkur,” sagði Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, á fundinum, eftir framsögur þeirra Vilmundar og Vilhjálms."


mbl.is „Kreppa - taka tvö“ framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulag lögreglu og glæpahópa

Nú er til rannsóknar stór skipulagður glæpahringur, sem virðist hafa stundað mansal hérlendis, ásamt mörgum öðrum óskilgreindum glæpum, þar á meðal þjófnuðum og fjársvikum og sitja um tíu manns í gæsluvarðhaldi vegna þessa.

Í meðfylgjandi frétt segir m.a:  "Lögreglan á Suðurnesjum telur að þetta sé skipulagður hópur sem sé í skipulegri brotastarfsemi og hefur rökstuddan grun um að starfsemin sé ekki nýtilkomin hérlendis." 

Það verður að teljast merkilegt, að í svo fámennu landi, sem Íslandi, skuli skipulögð glæpastarfsemi geta þrifist í langan tíma, án þess að lögreglan geti rönd við reist og kæft slíka starfsemi í fæðingu.  Upphaf þessa umrædda máls virðist mega rekja til þess, að fórnarlamb mansals nánast datt upp í fangið á lögreglunni, eða eins og segir í fréttinni:  "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er rökstuddur grunur um að ferð stúlkunnar frá Litháen, sem kom til landsins 9. október, framvísaði fölsuðum skilríkjum og hvarf eftir að hafa verið í umsjá lögreglu en fannst síðan aftur nokkrum dögum síðar, tengist þessari meintu, skipulögðu glæpastarfsemi."

Þetta leiðir hugann að skipulagi lögreglunnar, sem reyndar hefur stundum haft uppi á glæpastarfsemi að eigin frumkvæði, en þegar svona skipulagðir hópar ná að stunda starfsemi sína í langan tíma án þess að upp komist, vekur það spurningar um skipulag rannsókna hjá lögreglunni.

Skyldu margir slíkir hópar vera starfandi hérlendis um þessar mundir?


mbl.is Mansal, þjófnaður og fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg léttúð í umræðu um hundruð milljarða

Það hefur margoft komið fram frá stjórnarliðum, sérstaklega Samfylkingunni og stuðnigsmönnum hennar hér á blogginu, svo og annarsstaðar, að það verði ekkert mál fyrir Íslendinga, að borga Icesave skuldir Landsbankans, ekki síst þar sem búið er að blekkja almenning með því að 90% fáist upp í kröfurnar úr þrotabúi Landsbankans.  Það var reiknað út eftir að nýji Landsbankinn var látinn leggja 300 milljarða skuldabréf til gamla bankans, til þess að dæmið liti betur út í áróðrinum.

Jafnvel þó 90% fengjust upp í Icesaveskuldina án blekkinga, þá standa alltaf útaf nokkur hundruð milljarðar vegna vaxta og að láta eins og nokkur hundruð milljarðar séu bara smámál, er algert ábyrgðarleysi og að ekkert mál verði að borga það, er helber lygi.

Nóg er að vitna til Guðlaugs Þórs, þingmanns, er hann segir:  "Með 200 milljarða áætluðum vaxtagreiðslum af Icesave hlyti stuðningur VG við samninginn að vera í uppnámi. Hér væri á ferð upphæð sem jafngilti fjórum nýjum háskólasjúkrahúsum."  Hér er vægast sagt varlega áætlað, þegar "aðeins" er talað um 200 milljarða í vexti, því líklega verður upphæðin nær 400 milljörðum.

Til að setja upphæðina í annað samhengi, má vitna til Péturs Blöndals, þingmanns, þegar hann segir:  "Ísland þyrfti að greiða vexti af Icesave-skuldinni þótt enginn hagvöxtur væri í landinu á greiðslutímabilinu, eða árlega 15 til 50 milljarða króna, samanborið við 10 milljarða árlegt framlag ríkisins til Háskóla Íslands."

Að ræða þessar upphæðir af þeim hálfkæringi, sem stjórnarsinnar gera, er algerlega út í hött og eintómt ábyrgðarleysi, ekki síst í því ljósi, að samkvæmt ESB tilskipuninni ber íslenskum skattgreiðendum ekki að borga eina einustu krónu af þessu.

Líklega fara menn að skilja þetta, þegar skattahækkanir vegna Icesave skella á, eftir fimm ár, eða fyrr.


mbl.is Gleymdu 200 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan ekki á villigötum

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, mótmælir málflutningi Gunnars Tómassonar, hagfræðings, og annarra, sem telja skuldastöðu þjóðarbúsins orðna svo slæma, að í óefni stefni, jafnvel að stefni í þjóðargjaldþrot.

Gylfi segir þennan málflutning á algerum villigötum og að engin hætta sé á slíku og nefnir að álíka skuldastaða sé hjá Bandaríkjamönnum og Dönum.  Ekki er hægt að líkja ástandinu hérlendis við Bandaríkin, því dollarinn er heimsgjaldmiðill og hann hefur verið að falla upp á síðkastið og það léttir á erlendri skuldabyrði Bandaríkjanna, en Íslendingar verða að treysta á vöruskiptajöfnuð við útlönd, til þess að geta greitt niður erlendar skuldir.

Það sem skapar erlendan gjaldeyri hérlendis er aðallega sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaiðnaður og undanfarna áratugi hefur ekki verið mikill afgangur af vöruskiptajöfnuði við útlönd, enda hafa Íslendingar stöðugt aukið við erlendar skuldir sínar og gekk það algerlega út yfir öll mörk á síðustu árum.

Íslendingar geta ekki reiknað með að taka nánast nein ný lán í útlöndum á næstu áratugum, enda þjóðarbúið svo skuldsett, að engar erlendar lánastofnanir munu þora að lána stórar upphæðir hingað til lands, nem þá helst til orku- og stóriðju.

Tími lánaniðurgreiðslu er kominn og fyrir því mun íslenska þjóðarbúið finna verulega næstu áratugina.


mbl.is Umræða um erlendar skuldir á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband