Nóg komið af skattahækkanabrjálæðinu

Allt bendir nú til þess að hinn breiði og þögli meirihluti landsmanna sé búinn að fá algerlega upp í kok vegna skattahækkanabrjálæðis ríkisstjórnarinnar og allra þeirra nýju skatta, sem Indriði H. og aðrir skattauppfinningamenn Steingríms J. hafa látið sér detta í hug að bæta ofan á alla gömlu skattaflóruna, sem þó var nógu fjölbreytt fyrir.

Fram til þessa hafa vegaframkvæmdir í landinu verið fjármagnaðar með sköttum af bifreiðaeldsneyti og dekkjum ásamt bifreiðasköttum allskonar og sættu bifreiðaeigendur sig við þessa innheimtu þangað til að fjármálaráðherrum datt í hug að taka hluta þessara eyrnamerktu skatta í annan rekstur ríkissjóðs, sem þannig hefur sífellt bitnað meir og meir á vegaframkvæmdum, en þær hafa að sjálfsögðu farið minnkandi í samræmi við þær upphæðir sem "stolið" er af vegafénu árlega.

Nú láta skattabrjálæðingar ríkisstjórnarinnar sér detta í hug að "stela" nánast öllu vegafé sem innheimt er með sköttunum af bifreiðaeigendum  og ætla sér að skattleggja þá aftur með því að setja á vegatolla á öllum vegaslóðum í kringum Reykjavík og innheimta þannig tvöfalda vegaskatta af þeim bíleigendum sem búa sunnan- og vestanlands og láta sér detta í hug að keyra inn eða út úr höfuðborginni.

Á sólarhring hafa um tíuþúsund manns skráð sig á mótmælalista gegn þessu nýja skattaráni og sýnir það svart á hvítu, að fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er lengur og haldi svona áfram í nokkra daga í viðbót verður þetta með stærri undirskriftasöfnunum sem fram hafa farið.  Ekki eru þó líkur á að ríkisstjórnin taki mark á skriflegum mótmælum þjóðarinnar.  Hún hefur sýnt það, að á hana hrín ekkert nema risastórir og hávaðasamir útifundir. 

Með áframhaldandi yfirgangi ríkisstjórnarinnar gegn þjóðinni, bæði með skattabrjálæðinu og tilrauninni til að gera Íslendinga að skattaþrælum útlendinga vegna Icesave, er stórhætta á að slíkir fundir geti farið að enda með skelfingu.


mbl.is Um 10 þúsund mótmæla veggjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Leiðrétting, 15.700 hafa skráð sig

Brynjar Þór Guðmundsson, 4.1.2011 kl. 18:20

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er ótrúleg þátttaka í þessum mótmælum. Það er afar sjaldgæft að svona margir skrái sig á svo stuttum tíma.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi undirskriftasöfnun endar.

Axel Jóhann Axelsson, 4.1.2011 kl. 18:31

3 identicon

Ég bíð spenntur eftir næstu mótmælum.Ef ég mætti ráða þá væri ríksistjórninn lokuð inni í stjórnarráðinu af almenningi og ekki hleypt út fyrr en þessir skattageðsjúklingar draga til baka þessar hækkanir.

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 22:52

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Samkvæmt fjárlögum 2009 voru útgjöld til vegamála 32,4 milljarðar á því ári.Tekjur ríkisins af bifreiðum, bensíni og olíu námu 19,4 milljörðum. Sjá nánar hér.

Það er því rangt að verið sé að klípa af sköttum eyrnamerktum samgöngum. Þvert á móti er ríkið (við) heilmikið að borga með bifreiðeaeigendum.

Theódór Norðkvist, 4.1.2011 kl. 22:54

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Samkvæmt Vegaáætlun 2009 - 2012, sem samþykkt var á Alþingi þann 15. júní 2010 (ath. eftir að tölur vegna 2009 lágu fyrir) eru upphæðir til vegaframkvæmda þessar:

2009 2010 2011 2012 Samtals

Suður 3.302 2.661 1.618 814 8.395

Suðvestur 1.575 727 2.124 2.311 6.737

Norðvestur 5.178 3.082 1.620 1.619 11.499

Norðaustur 5.736 5.546 1.148 1.359 13.789

Samtals 15.791 12.016 6.510 6.103 40.420

Hvað sem fjárlög fyrir árið 2009 sýndu, þá varð framkvæmdin eins og kemur fram í Vegaáætlun 2009- 2012, enda oft og iðulega skorið niður í þessum framkvæmdalið eftir að fjárlög hafa verið samþykkt. Það á auðvitað við um framkvæmd fjárlaga vegna ársins 2009 og eins og sést á Vegaáætlun 2009 - 2012 er áætlað að nýta um helming þess fjár, sem mun innheimtast af bifreiðaeigendum á þessum fjórum árum og raunar tæplega helmingur, þar sem allir beinir skattar á bifreiðaeigendur hafa hækkað mikið s.l. tvö ár.

Flestir landsmenn eiga bifreiðar og mörg heimili fleiri en einn og allir þessir aðilar greiða alla aðra okurskatta og gjöld, sem ríkis- og sveitarstjórnum dettur í hug að leggja á landsmenn, þannig að jafnvel þó eitthvað færi í vegagerð, eitt og eitt ár, umfram sérstöku skattana sem í vegaframkvæmdir eiga að fara, þá eru það auðvitað sárafáir aðrir en bíleigendur sem borga fyrir það.

Eins er með bílastæði, gangstéttar og umferðarljós. Allt slíkt er fjármagnað með sköttum sem lagðir eru á bíleigendur, þannig að hið opinbera er ekki að gefa neinum neitt vegna þessa málaflokks.

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 00:08

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Taflan um vegaféð kom ekki nógu vel út í uppfærslunni, en vonandi skilja hana allir.

Þessar tölur má allar skoða betur á heimasíðu Vegagerðar ríkisins.

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 00:10

7 Smámynd: Morten Lange

Svar við athugsemd Theódórs væri vel þegin :-)

Morten Lange, 5.1.2011 kl. 00:39

8 identicon

Ég átta mig ekki á því hvort Theódór falsar þessar upplýsingar sjálfur eða hefur dottið inn á síðu hjá einhverjum falsara því tölurnar hans eru hreinn blekkingaleikur. Ríkið fer ekki í 21 milljarða stofnframkvæmd á hverju ári. Staðreyndin er sú að ríkið er að hala inn vel yfir 10 milljarðar árlega af bifreiðaeigendum (án vsk en að teknu tilliti til eðlilegra afskrifa af mannvirkjum). Svo getum við deilt um það hvort bifreiðaeigendur eigi að líða fyrir byggðarstefnu stjórnvalda með því að taka t.d. tugmilljarða jarðgöng í fámennum sveitafélögum inn í svona samaburð.

Björn (IP-tala skráð) 5.1.2011 kl. 00:52

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Björn, ég gef fullar heimildir fyrir því sem ég segi, lestu athugasemdina. Síðan vantar mikið inn í þessar tölur Axels, t.d. rekstur Vegagerðarinnar, Umferðarstofu o.fl.

Annars segir í greinargerð um fjárlög 2010 eftirfarandi og ekki ljúga stjórnmálamennirnir okkar, er það? Ekki nema þeir séu öruggir með að komast upp með það.

Þarna kemur skýrt fram að þó ekki séu allir markaðir tekjustofnar vegna vegasamgangna notaðir til vegaframkvæmda, vantar 800 milljónir upp á árið 2010, þá greiddi ríkið með vegakerfinu umfram markaða tekjustofna rúmlega 21 milljarð síðustu þrjú árin áður.

Gert er ráð fyrir að heildarfjárveiting til Vegagerðarinnar verði 19.170,5 m.kr. árið 2010. Hún er fjármögnuð í fyrsta lagi með 4.563,3 m.kr. greiðslu úr ríkissjóði sem skiptist þannig að 4.255,3 m.kr. er vegna jarðgangnaátaks og 308 m.kr. er vegna styrkja til innanlandsflugs. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að fjárveiting Vegagerðarinnar verði fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum að fjárhæð 14.532,2 m.kr. Reiknað er með að innheimtar markaðar tekjur verði 15.360 m.kr. og að frádregnum 20,9 m.kr., vegna afborgana af lánum, þá stendur eftir viðskiptahreyfing að fjárhæð 806.9 m.kr. sem færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Þannig er gert ráð fyrir að 806,9 m.kr. af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar verði haldið eftir í ríkissjóði en hér er í raun um endurgreiðslu að ræða á fyrirfram veittum mörkuðum tekjum síðastliðnu ára. Hin síðari ár hefur þessu þó verið öfugt farið og Vegagerðinni verið fyrirframgreiddar tekjur stofnunarinnar í framtíðinni. Í fjárlögum 2009 var t.a.m. 12.807 m.kr. veitt til Vegagerðarinnar umfram þær tekjur sem tekjustofnar Vegagerðarinnar skiluðu það ár. Í fjárlögum 2008 nam þessi fjárhæð 5.762,3 m.kr. og 2.755,4 m.kr. í fjárlögum 2007. Á síðastliðnum þremur árum hefur þannig um 21,3 milljörðum kr. verið varið með þessum hætti úr ríkissjóði.

Síðan vantar auðvitað inn í þessar tölur kostnað við bílastæðagerð, sem gætu verið um 3 milljarðar á ári (sjá tilvitnað blogg í fyrri athugasemd minni), kostnað heilbrigðiskerfisins vegna umferðarslysa og vegna þess að við söfnum of miklu spiki vegna lítillar hreyfingar og of mikillar bílanotkunar. Margt fleira mætti telja til.

Theódór Norðkvist, 5.1.2011 kl. 01:18

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sé núna að ríkið er í raun að greiða með Vegagerðinni 3,8 milljarða, þ.e. 4,5 milljarðar ríkisframlag - 807 milljarða sem haldið er eftir af mörkuðum tekjustofnum.

Síðan finnst mér alveg sjálfsagt að taka jarðgangnagerð inn í tölur um vegaframkvæmdir, því eru þau ekki fyrir ökutæki? Það er ekkert skilyrði að vegaframkvæmdir þurfi að vera gáfulegar, það þarf alltaf að borga þær.

Theódór Norðkvist, 5.1.2011 kl. 01:27

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Theódór, ég tók það fram að einstök ár kæmi fyrir að meira fé væri varið í vegaframkvæmdir en innheimtist með mörkuðum tekjustofnum. Önnur ár fer ekki nálægt því allt vegaféð til vegagerðar, eins og sést á Vegaáætlun 2009 - 2012, en ekkert þeirra ára verða mörkuðu tekjustofnarnir notaðir að fullu til vegagerðar, reyndar ekki einu sinni helmingurinn og þannig renna meira en þessir 22 milljarðar til baka í hítína. Svona hefur þetta gengið í gegnum áratugina og þegar allt er talið, þá hafa mörkuðu tekjustofnarnir hreint ekki allir gegnið til sinna afmörkuðu verkefna.

Þetta er orðinn plagsiður hjá ríkinu, eins og líka sést á útvarpsgjaldinu, sem hækkar á þessu ári, en ríkissjóður ætlar hins vegar að taka af því nokkur hundruð milljónir í ríkishítina, þó líklega sé það lögbrot að taka þjónustugjöld til annarra þarfa, en þeim er ætlað.

Mín vegna máttu verja þessa ótæku meðferð markaðra tekjustofna, en það breytir ekki því að þetta er subbuskapur í meðferð skattanna.

Röflið um gangstéttir og bílastæði er eins og að röfla um að fleiri greiði kostnað vegna skóla, heldur en þeir sem stunda þar nám hverju sinni, fleiri greiði rekstur spitalanna en þeir, sem þangað leggjast inn á hverju ári o.s.frv., o.s.frv.

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 12:47

12 Smámynd: Morten Lange

Takk kærlega fyrir að "grafa" þessum tölum upp, Theódór. 

Með því að gera netleit að hluti af textanum fann ég tengill :

 http://www.fjarlog.is/Fjarlagavefur-Hluti-II/GreinargerdirogRaedur/Fjarlagafrumvarp/2010/Seinni_hluti/Kafli_3-10.htm 

Til að sjá annað yfirlit (tengd 2011, ) sem virðist sýna að Vegagerðin fær framlag úr ríkissjóði umfram sérskatta :

http://hamar.stjr.is/Fjarlagavefur-Hluti-II/Fjarreiduyfirlit/Seryfirlit/2011/efni.htm 

http://hamar.stjr.is/Fjarlagavefur-Hluti-II/Fjarreiduyfirlit/Seryfirlit/2011/3_Seryfirlit-3.htm 

Séryfirlit 3  - Markaðar tekjur 2010
 

06-651 Vegagerðin

Sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni 7.630,0
Olíugjald 6.830,0
Þungaskattur af díselbifreiðum, km-gjald 740,0
Leyfis- og eftirlitsgjöld Vegagerðarinnar af flutningum á landi 4,0
Leyfisgjöld Vegagerðarinnar vegna leigubifreiða 6,0
Greitt úr ríkissjóði 15.449,4
Viðskiptahreyfing     -239,4
 

Sennilega vanta hér einhverja tekjuliði, en allavega sumt af þessu fer í rekstur Umferðarstofu :

06-657 Umferðarstofa

Skráningargjöld ökutækja 253,8
Umferðaröryggisgjald  112,2
Greitt úr ríkissjóði  193,8
Viðskiptahreyfing  172,2

E.S.  

Ég var ekki ekki búinn að gera reload á síðunni, þegar ég setti inn fyrri athugasemd mína. Afsakið...

Morten Lange, 5.1.2011 kl. 12:53

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki veit ég hvað þeim Theódór og Morten gengur til með athugasemdum sínum, en hvar sem maður skoðar tölur um þennan málaflokk ber allt að sama brunni.  Í desember s.l. var gefinn út ríkisreikningurinn fyrir fyrstu tíu mánuði ársins 2010 og samanburður við árin 2008 og 2009 og þar sést að tekjur af bifreiðunum eru þessar (fyrir utan virðisaukaskatt):

                                   2008      2009       Jan.-Okt. 2010

Vörugjöld af ökutækjum   7 130     1 571           1 289

Vörugjöld af bensíni         7 403     9 149           9 655

Skattar á olíu                  6 259     6 074           6 006

Samtals                                20.792    16.794             16.950 

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 13:53

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rétt til að sýna að lengi hefur verið rifist um hvernig ríkið "stelur" af bifreiðasköttunum má benda á orðaskak þáverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathíesen, og þáverandi þingmanns og síðar samgönguráðherra, Kristjáns Möller, haustið 2006, en það má sjá HÉRNA

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 14:07

15 Smámynd: Morten Lange

Axel : Það er auðvitað álitaefni hvað beri að telja með þegar kostnaði og tekjur samfélagins ( eða etv bara hins opinbera ) tengd bílanotkun eru reiknuð saman. 

En í Danmörku var reiknað út að bíllinn kosti samfélaginu rúmlega eina DKK á km, á meðan notkun reiðhjóls skilar 0,39 DKK á km ( vegna jákvæðs heilsuáhrifs, bætt skilvirkni ofl )

Morten Lange, 5.1.2011 kl. 16:46

16 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er sem ég segi, það er hægt að reikna allan andsk. út og fá hvaða útkomu sem maður vill.  Skyldu reiðhjólastígarnir og allur annar kostnaður vegna reiðhjólanna í Danmörku hafa verið inni í þessum útreikningum?

Jafnvel þó bæði Íslendingar og Danir vildu, þá gætu þeir ekki bannað alla bíla og tekið bara upp reiðhjól í staðinn.  Heilsuefling er af hinu góða, en í nútímanum verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að vöru- og fólksflutningar munu ekki fara fram á reiðhjólum og jafnvel var slíkum flutningum hætt með hestum fyrir allmörgum árum síðan.

Heilsusamlegast af öllu er líklega að fara allra sinna ferða gangandi, en ekki einu sinni sá góði samgöngumáti mun koma í veg fyrir bílanotkun.  Vistvænni bílar eru eina lausnin, en hverjum dettur í hug að skattar verði lækkaðir með vistvænni bílum.  Skattarnir verða bara látnir heita eitthvað annað, því aldrei hafa skattar sem búið hefur verið að koma á, verið felldir niður aftur, nema í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar.  Steingrímur og félagar eru nú að taka þá upp aftur með örlítið breyttum nöfnum, t.d. auðlegðarskattur í stað eignarskatts. 

Fólk sem haldið hefur verið skattaæði allt sitt líf, lækkar aldrei skatta en finnur endalaust upp nýja og nýja.  Á móti slíku verður að berjast með öllum ráðum.

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 17:00

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Axel gefst ekki upp! Veit ekki hvar hann fær þessar síðustu tölur. Sé reyndar að vörugjöldin samanlagt árið 2009 passa nákvæmlega við þá tölu sem ég fann og birti í athugasemd nr. 9, 14.532 milljónir, sem eru markaðar tekjur handa Vegagerðinni.

Síðan vantar alveg útskýringar á hvað er átt við með Skattar á olíu. Er það virðisaukaskattur? Ef svo er á samgönguráðuneytið enga heimtingu á að fá allan virðisaukaskatt af olíu eða bílum í sitt ráðuneyti. Ekki frekar en að iðnaðarráðuneytið eigi kröfu á VSK af öllum iðnaði í landinu, sem er ekki lítil fjárhæð.

Þannig að það er út í hött að taka með skatta á olíu til að geta skáldað upp meintan þjófnað á sköttum af samgöngum. Ég tel mig hafa sýnt ágætlega fram á að allar líkur séu til að ríkið sé að borga töluvert með notkun landsmanna á ökutækjum.

Gaman væri að fá dæmið reiknað út til enda, þó flókið sé. Til dæmis að taka heilsuáhrif, mengun og kostnað af henni, bæði á heilsu þjóðarinnar og vegna mengunarvarna, bílastæðabyggingar, snjómokstur (25 milljónir í Ísafjarðarbæ einn snjóþungan veturinn, á að giska 10.000 kr. á hvern bíl) o.s.frv.

Síðan vantar auðvitað inn í þetta kostnað sveitarfélaganna vegna innanbæjarvega.

Theódór Norðkvist, 5.1.2011 kl. 18:07

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hinsvegar tek ég undir að berjast verður gegn skattagleði allra ríkisstjórna, bæði þeirrar sem nú situr og ekki var minni ástæða til baráttunnar meðan Sjálfstæðisflokkurinn réði ríkjum og umsvif ríkisins jukust úr 20-25% af þjóðarframleiðslu í vel yfir 30% ef ég man rétt.

En ég ætla að láta þetta gott heita, hvaða villandi tölfræði sem menn vilja beita í umræðunni hér eftir til að komast að fyrirframgefnum niðurstöðum.

Theódór Norðkvist, 5.1.2011 kl. 18:11

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg rétt hjá þér að stoppa bara núna, Theódór, enda ekki nokkur leið að skilja hvað þú ert að fara með þessum málflutningi þínum.

Hins vegar er ánægjulegt að sjá að þú sért sammála um skattabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem hefur aukið skattpíningu á fólki og fyrirtækjum með þeim afleiðingum að svört atvinna hefur aukist mikið, að ekki sé talað um smyglið á áfengi og tóbaki, sem fer sívaxandi.

Sumir hafa sömu skoðanir á skattamálum, hvort sem þeir fylgja sitjandi ríkisstjórn eða ekki. Skattprósentur lækkuðu mikið í tíð Sjálfstæðisflokksins, en góðærið og tekjuaukning launamanna jók skatttekjurnar umtalsvert. Samkvæmt annarri frétt á mbl.is í dag liggur við að Steingrímur J. viðurkenni þessi sannindi, en líklega þarf nú aðeins meira til að lækna skattageðveikina sem hefur hrjáð hann í marga áratugi.

Vonandi áttar hann sig þó að lokum og best gæti ég trúað að fleiri sem sama veiki hefur hrjáð myndu hressast í kjölfarið.

Axel Jóhann Axelsson, 5.1.2011 kl. 19:04

20 Smámynd: Árni Davíðsson

Sæll Axel

Það er langlíf þjóðsaga hér á Íslandi að bílaeigendur séu að borga miklu meira en þeir kosti þjóðfélagið í vegaframkvæmdum og öðrum þáttum og ég held að það sé það sem Theódór er að benda á og gerir það bara nokkuð vel. Sá útreikningur er nú samt nokkuð flókinn og ætla ég ekki meira út í þá sálma. Mig langar samt að gera athugasemd við færslu þína nr. 5 hér að ofan þar sem þú segir að bílastæði og gangstéttir séu fjármagnaðar (sérstaklega?) af bílaeigendum. Ef ég er ekki að misskilja þig skil ég ekki hvernig hægt er að halda því fram að bílaeigendur greiði eitthvað sérstaklega fyrir þetta.

Fyrir utan þjóðvegi í þéttbýli er það þannig að allir stígar, gangstéttar og götur í þéttbýli og allir ljósastaurar og allt viðhald og snjómokstur er greitt af sveitarfélögunum, sem fá ekki hlut í eldsneytisgjaldi eða vörugjöldum af bifreiðum. Bílaeigendur greiða því ekki krónu í gerð eða viðhaldi stíga, gangstétta eða þessara gatna umfram aðra íbúa. Þetta er kostað annarsvegar (að hluta?) af gjaldtöku þegar hverfi er byggt og af almennu útsvari og öðrum gjöldum sem sveitarfélögin taka. Öll gjaldtaka á bifreiðaeigendur á sér stað hjá ríkinu eins og kemur fram hjá ykkur hér að ofan.

Þegar skattheimta á bílaeigendur er skoðuð kemur í ljós a.m.k. hvað varðar gjaldtöku á eldsneyti að hlutur ríkisins er minni en í helstu nágrannalöndum okkar og að eldsneytisverð er lægra hér hjá okkur í mörgum tilvikum sbr. það sem kom fram í athugasemdum við færslu hjá mér.

Sömuleiðis um svipað efni gæti ég bent á færslu um gjaldtöku af bílastæðum.

Árni Davíðsson, 6.1.2011 kl. 00:08

21 Smámynd: ThoR-E

Sammála þér þarna Axel.

Einu lausnirnar eru að hækka skatta og búa til nýja skatta. Síðan ef skattahækkunin skilar ekki því sem spáð var vegna þess að fólk kaupir minna, þá hækka þeir MEIRA!!???!!

ThoR-E, 6.1.2011 kl. 09:16

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, lestu aftur athugasemd nr. 5 og vittu hvort þú skiljir hana ekki þá ekki. Þar sagði ég einfaldlega að nánast allir skattgreiðendur væru bíleigendur og því greiddu bíleigendurnir alla aðra okurskatta, sem ríki og sveitarfélög leggja á, til jafns við þá fáu sem ekki eiga bíla.

Bíleigendur greiða því allar framkvæmdir, viðhald, gangstéttir og hvað sem nöfnum tjáir að nefna og snerta bílanotkun að fullu með sköttum sínum. Ríkið gefur bíleigendum ekki krónu, heldur þvert á móti greiða bíleigendur að sjálsögðu fyrir alla þjónustu sem þeir fá hjá opinberum aðilum, hvort sem skatturinn er nákvæmlega eyrnamerktur umferðar- og vegamálum eða ekki.

Hjólreiðamenn greiða hins vegar ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sína hjólastíga, umfram þau opinberu gjöld sem á alla eru lögð og þar með talda bíleigendur. Því má með sanni segja að bíleigendur borgi nánast allan kostnað sem samfélagið þarf að leggja út fyrir hjólafólkið, vegna þess að það er svo fátt í samanburði við bíleigendurna.

Þetta er nú ekki flókið.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2011 kl. 13:15

23 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Getur fólk bent mér á lönd svona í næsta nágreni okkar þar sem vegatollar eru ekki notaðir. Eða lönd þar sem eru lægri skattar eru á eldsneyti. Mér skilst að bensín sé dýrara á Norðulöndum en hér, þar eru vegatollar notaðir á stærri framkvæmdir og bílar skattlagðir meira en hér. Ekki það að mér finnist þetta í lagi en svona áður en við tölum um skattabrálæði þá bendi ég mönnum á að menn þurfa að borga sérstaklega fyrir að keyra um miðbæ London, þar þurfa menn og borga vegatolla og bensín er víst svipað dýrt og hér.

Svo talandi um skatta þá eru þeir lægri hér en í flestum ríkjum OECD ríkjum. A.m.k. skattar á fyrirtæki og tekjuskattur rétt undir meðallagi hér á einstaklinga.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.1.2011 kl. 18:37

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alltaf gaman að sjá skrif frá sauðtryggum aðdáendum skattabrjálæðinganna.

Hefur þú tekið laun og kaupmátt inn í þennan stórmerka útreikning þinn, Magnús.

Svo má geta þess að allsstaðar þar sem vegatollar eru lagðir á, þar hafa menn um aðrar leiðir, en þær tolluðu, að velja. Undantekningin er sjálfsagt miðborg London, þar sem skattlagningunni er ætlað að minnka bílaumferð, en varla á það við um fyrirætlanir skattabrjálæðinganna í íslensku ríkisstjórninni.

Axel Jóhann Axelsson, 6.1.2011 kl. 19:08

25 Smámynd: Árni Davíðsson

Sæll aftur

Samkvæmt þinni röksemdafærslu í nr. 22 Axel eru allir skattar bílaskattar vegna þess að þeir sem greiða þá eiga í flestum tilvikum bil. Ég hugsa að það sé hjól í flestum bílskúrum landsins. Eru þetta þá ekki hjólaskattar líka? Eða parkettskattar vegna þess að flestir eru með parkett.

Ég efast auðvitað ekki um að á endanum greiða skattgreiðendur útgjöld hins opinbera ríki og sveitarfélaga en það er þó  undir misjöfnum formerkjum. Það stendur það sem ég sagði í nr. 20. Bílaeigendur greiða ekki krónu sérstaklega til sveitarfélagana umfram aðra íbúa.

p.s. Gleymdu því ekki að næstum því allir hjólreiðamenn eru líka bílaeigendur

Árni Davíðsson, 7.1.2011 kl. 00:28

26 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, ég sé ekki annað en að við séum algerlega sammála um að bíleigendur greiða nánast alla skatta sem á þjóðina eru lagðir. Líka fyrir útgjöldum vegna hjólreiða. Þar með er það komið á hreint og þarf ekki að ræðast nánar.

Axel Jóhann Axelsson, 7.1.2011 kl. 04:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband