Fyrsti, annar og.......í varðhaldi?

Dagurinn í dag virðist ætla að vera annadagur hjá Sérstökum saksóknara, en fyrr í dag var óskað eftir gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Hreiðari Má, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og undir kvöld berast þær fréttir að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, hafi verið tekinn til skýrslutöku, vegna meintrar þátttöku í ýmsum lögbrotum tengdum Kaupþingi.  Miðað við atburðarásina fyrr í dag, má reikna með að Magnús fái svefnpláss við Hverfisgötuna í nótt.

Blaðamaður Moggans náði tali af Ólafi Ólafssyni í Samskipum fyrr í kvöld og kannaðist hann ekkert við þau mál, sem nú væru til rannsóknar, hvernig sem hann hefur talið sig vita hvaða mál það eru, og það eina sem hann hefði verið spurður um fyrir ári síðan væri um hlutabréfakaup Sheiks Al-Thani, en þau hefðu auðvitað verið fullkomlega eðlileg og sheikinn hefði staðfest það sjálfur.  Þar með þarf væntanlega ekki að rannsaka þau mál meira, því bæði Ólafur og sheikinn hljóta að segja allt dagsatt um þau viðskipti, sem önnur.

Ekki hefur reyndar frést af einum einasta banka- eða útrásarrugludalli, sem hefur talið sig sekan um nokkurn einasta hlut sem orsakaði bankahrunið og alls ekki átt nema í smávægilegum og stálheiðarlegum viðskiptum við bankana og sjálfa sig og hafi þar að auki gert þjóðinni stórkostlegt gagn með viðskiptum sínum.

Nóg er að lesa kurteisleg og hógvær skrif Jóns Ásgeirs í Bónus og leigupenna hans í blöðunum og á Pressunni til að staðfesta sakleysi þessara manna og sannfærast um ofsóknir Davíðs Oddsonar á hendur þeim, en þrátt fyrir að vera bara Moggaritstjóri, þá stjórnar hann öllu þjóðfélaginu á bak við tjöldin, eins og almenningur veit mætavel.

Sumir halda því reyndar fram að þessir menn séu svo siðblindir og samviskulausir, að þeir sjái ekkert athugavert við eigin athafnir og viðskipti, en það er auðvitað líka rógur og níð, ættað frá Moggaritstjóranum.

Sé það rétt, munu rannsóknir málanna væntanlega ekki taka langan tíma í viðbót og allir sem sökum hafa verið bornir sýknaðir.


mbl.is Annar í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eitt er sem ég vil tjá mig um í sambandi við þessar handtökur, það er ekki farið að handtaka NEINA VIRKILEGA stóra einstaklinga, jú Hreiðar myndi sennilega teljast vera nokkuð ofarlega í GLÆPAPÝRAMÍDANUM en hann er nokkuð langt frá TOPPNUM. Getur verið að það eigi að taka svona einn og einn, sem "við" álítum stóran, en láta svo gott heita??

Jóhann Elíasson, 7.5.2010 kl. 07:58

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhann, varla trúi ég því.  Líklegra er að það séu "minni" málin, sem séu komin nógu langt í rannsókn, til að hægt sé að fara að gefa út ákærur.  "Stóru" málin eru það flókin og tímafrek, að þau koma sjálfsagt til ákæru síðar, jafnvel eftir einhver ár. 

Eva Joly hefur talað um fjögur til fimm ár í viðbót a.m.k. og það með mikilli fjölgun starfsmanna Sérstaks saksóknara.  Við verðum að hafa í huga að þetta er ein stærsta glæparannsókn mannkynssögunnar, a.m.k. miðað við höfðatölu.  Reyndar þarf ekki að miða við höfðatölu, því gjaldþrot íslensku bankanna eru með allra mestu bankagjaldþrota í heiminum.

Axel Jóhann Axelsson, 7.5.2010 kl. 10:47

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Vonandi er þetta rétt hjá þér en ég treysti þessu ekki fyrr en ég sé það gerast.

Jóhann Elíasson, 7.5.2010 kl. 11:28

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Eitt er alveg hægt að bóka og það er að allar stærstu og helstu lögfræðistofur landsins eru komnar á fullt við að undirbúa vörnina fyrir þessa "stóru".  Það verður öllum ráðum beitt, eins og í Baugsmálinu fyrsta, t.d. áróðursmaskínum allskonar, leigupennum í blöðum og á vefsíðum (Pressunni ekki síst), almannatengslafyrirtækjum og öllu öðru tiltæku til að reyna að eyðileggja og sverta ákæruvaldið og fegra hlut sakborninganna.

Slík herferð gekk algerlega upp í Baugsmálinu fyrsta og þar tókst þetta fullkomlega og þjóðin stóð á öndinni með Baugsliðinu og hatrinu og svívirðingunum var beint að saksóknurunum og ekki síst Davíð Oddsyni, sem tókst að gera að hataðasta manni þjóðarinnar, eins og sést á bloggsíðum og víðar enn í dag.

Þessi leikur verður allur endurtekinn á næstu mánuðum og er reyndar byrjaður á Pressunni (Ólafur Arnarson, Bubbi Mortens, sem dæmi).  Það verður fróðlegt og gaman að fylgjast með þessu á næstunni.  Rannsakendum og ákæruvaldið verður skotspónninn og þá er að sjá hvort tekst að snúa almenningi.

Axel Jóhann Axelsson, 7.5.2010 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband