Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Ótrúlegt að verið sé að ræða gagntilboð til fjárkúgara

Það verður að teljast algerlega ótrúlegt, að yfirleitt sé verið að hugleiða að gera fjárkúgurum gagntilboð vegna ólölgegrar kröfu á hendur íslenskum skattgreiðendum, í stað þess að hafna slíkri lögleysu með öllu og vísa henni alfarið til heimahúsanna.

Landsbankinn var einkahlutafélag og starfaði samkvæmt lögum og reglum, sem alfarið voru í samræmi við tilskipanir ESB, þar á meðal um tryggingasjóði innistæðueigenda og ef Bretar og Hollendingar þurfa að ræða við einhvern hérlendis um uppgjör á Icesavereikningum, þá er það stjórn og framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun sem ekki má veita ríkisábyrgð.

Þar sem sjóðurinn má ekki njóta ríkisábyrgðar, er ríkissjóður ekki samningsaðili fyrir hans hönd og hefur heldur ekki leyfi til að taka að sér vaxtagreiðslur fyrir hann.

Því verður ekki trúað, fyrr en í fulla hnefana, að stjórnmálaflokkarnir ætli að sammælast um gagntilboð, því ekki verður séð, að þeir hafi yfirleitt umboð til að ræða málefni tryggingasjóðsins, hvað þá að yfirtaka skuldbindingar hans.  Skattgreiðendur munu ekki láta bjóða sér slíka afarkosti aftur og alls ekki á að svara kúgurunum einu eða neinu, fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verði um lítilsháttar breytingar að ræða á fyrri fjárkúgunarsamningi, verður að grípa til nýrrar undirskriftasöfnunar til að skora á forsetann að synja nýjum uppgjafarlögum staðfestingar.


mbl.is Jafnvel gagntilboð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gott útlit með evruna

Fjárfestirinn George Soros, sem mikið mark er tekið á í fjármálalífi alls heimsins, telur framtíð evrunnar vægast sagt óvissa.  Helstu rök hans eru þau, að á bak við gjaldmiðil þurfi að standa ríkissjóður og seðlabanki, þ.e. ein ákveðin stefna í ríkisfjármálum.

Til þess að evran geti gengið sem gjaldmiðill í Evrópu, þarf að setja öll löndin undir eina efnahagsstjórn og einn seðlabanka.  Til þess að svo verði, þarf ESB að breytast og verða að einu stórríki, með eina stjórn, einn fjármálaráðherra og einn seðlabanka.  Soros er ekki sá fyrsti, sem heldur þessu fram, því undanfarið hefur hver sérfræðingurinn á fætur öðrum komið fram með þessi sömu rök, eigi að vera einhver framtíð fyrir evruna.

Ýmsir hafa haldið því fram, að kreppan hérlendis hefði ekki orðið eins mikil, ef hér hefði verið notast við evru í stað krónu, en þeir sömu hafa hins vegar ekki getað útskýrt hvers vegna Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland eru þá í eins djúpri kreppu og raun ber vitni, þrátt fyrir evruna, að ekki sé talað um ríki, sem þegar hafa bundið gjaldmiðil sinn við evruna og bíða þess að taka hana upp.

Hér á þessu bloggi var því einhverntíma slegið fram, að krónan yrði að öllum líkindum langlífari gjaldmiðill en evran og virðist það vera að koma æ betur í ljós, að sú spá gæti komið fram fyrr en búast hefði mátt við.

Soros telur að jafnvel þó hægt verði að bjarga Grikklandi fyrir horn núna, þá séu Spánn, Portúgal og Írland of stór efnahagskerfi, til að hægt sé að bjarga þeim á sama hátt, enda engar líkur á að evran stæðist næstu fjármálakreppu, með óbreyttu skipulagi hennar.

Ef til vill verður ekki svo langt þangað til að aftur fari að sjást Drökmur, Pesetar, Mörk, Frankar o.frv.


mbl.is Óvissar framtíðarhorfur evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin efnahagsstjórn

Launavísitala er sögð hafa hækkað um 0,1% í janúar, og þó það sé ekki mikil hækkun, virkar hún svolítið einkennilega, þar sem ekki er vitað um nokkra einustu launahækkun, a.m.k. ekki á frjálsa markaðinum.  Eins er með lækkun vísitölu neysluverðs, en hún lækkaði í janúar um 0,3%, sem nánast eingöngu byggist á útsölum í mánuðinum.

Nú þegar útsölunum er lokið og hækkunarbrjálæði óbeinna skatta kemur að fulli til framkvæmda, en það gerist ekki að fullu fyrr en í apríl, þá mun verðbólga aukast á ný, en um þessar mundir er ekkert sem knýr áfram verðbólgu, annað en skattahækkunaræði hins opinbera.

Það er gjörsamlega óskiljanleg hagstjórn sem kyndir undir verðbólgu í kreppu og nánast algeru eftirspurnarleysi í þjóðfélaginu.

Þetta skýrist auðvitað af því, að hér á landi er alltaf gripið til öðruvísi efnahagsráðstafana, en í öðrum löndum, en t.d. eru stýrivextir hérlendis 9,5%, en frá 0-2,25% í nágrannalöndum og þar eru skattar lækkaðir, á meðan að þeir eru hækkaðir hérlendis.

Erlendis er líka reynt að koma atvinnulífinu á snúning á ný, en hér berst a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar gegn öllum hugmyndum um ný atvinnulækifæri.


mbl.is Kaupmáttur eykst lítillega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða er einmitt það sem þarf

Jóhanna Sigurðardóttir segist vonast eftir samsöðu allra stjórnmálaflokkanna um áframhaldandi viðræður við fjárkúgarana, bresku og hollensku.  Því ætlar hún að trúa, þangað til annað kemur í ljós.

Það er undir Jóhönnu sjálfri og Steingrími J. komið, hvort samstaða helst um aðgerðir gegn yfirgangi kúgaranna, því málið á ekki að ræða á neinum öðrum nótum en lagalegum, en það þýðir að vísa kröfunni algerlega til Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, sem að vísu á ekki fyrir skuldbindingum sínum, en getur innheimt þær sem forgangskröfur úr þrotabúi Landsbankans.

Bjarni Benediktsson hefur rétt fyrir sér, að ekki verði rætt frekar um fjárkúgunarkröfurnar, heldur eingöngu verði fjallað um málið á lagalegum grundvelli.  Á bak við þá málsmeðferð getur þjóðin staðið heilshugar.

Engin ástæða er til að flýta þessu máli.  Kjósendur munu lýsa stuðningi sínum við nýja samninganefnd í þjóðaratkvæðagreiðslunni, með því að segja NEI.


mbl.is Held í vonina um samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætt að hafna boðinu kurteislega

Nýtt "tilboð" er komið frá fjárkúgurunum bresku og hollensku og ef marka má fréttir snýst það um að lækka vexti af kúgunarkröfum sínum vegna tilbúinnar "skuldar" íslenskra skattgreiðenda, sem þeim kemur auðvitað ekkert við, enda tilkomin vegna gjaldþrots einkahlutafélags.

Bjarni Benediktsson kýs að ræða "tilboðið" kurteislega, en gefur í skyn að það sé tæplega til umræðu, en Sigmundur Davið svarar því afdráttarlaust, að þetta nýja útspil kúgaranna sé ekki einu sinni innlegg í neinar frekari viðræður.

Það er í sjálfu sér í lagi að svara ruddum kurteislega, en þó þarf svarið að vera ákveðið og afdráttarlaust.  Í þessu tilfelli er svarið meira að segja einfalt, en það er að benda ruddunum á að snúa sér til rétts aðila með kröfur sínar, en ekki íslenskra skattgreiðenda.

Að því leyti er hárrétt hjá Sigmundi Davið, að svarið verði sent eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og það svar verður risastórt NEI.


mbl.is Vill skoða tilboðið betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarinu verður svarað í þjóðaratkvæðagreiðslunni

Fjárkúgararnir, Bretar og Hollendingar, eru ekki af baki dottnir í herferð sinni gegn íslenskum skattgreiðendum, ef rétt reynist, að nýtt "tilboð" þeirra snúist um að lækka vexti af "skuld" sem kemur íslenskum skattborgurum, sem skattpíndir eru fyrir, nákvæmlega ekkert við.

Þessu svari þrælapískaranna á ekki að ansa fyrr en í fyrsta lagi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og þá eingöngu með tilkynningu um niðurstöðu hennar, sem án nokkurs vafa verður risastórt NEI.

Eftir að svar þjóðarinnar liggur fyrir, geta fjárkúgararnir snúið sér að réttum viðsemjanda, sem er tryggingasjóður innistæðueigenda og saman geta þeir unnið að innheimtu hjá þrotabúi Landsbankans, eins og íslensk lög og tilskipanir ESB gera ráð fyrir.

Ef gefið er eftir gegn kröfum fjárkúgara verða þeir eingöngu forhertari og ósveigjanlegri í kröfum sínum.  Við slíka aðila á alls ekki að semja, heldur koma yfir þá lögum, með öllum ráðum.

Stefna vestrænna ríkja hefur verið sú, að ekki ætti að semja við hryðjuverkamenn.  Sama á að gilda um ríki, sem reyna að beita önnur sjálfstæð ríki yfirgangi og fjárkúgun.


mbl.is Svar komið vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik við þjóðina - ef satt reynist

Vegna þeirra frétta, að Bretar og Hollendingar séu að setja saman tilboð um þá einu breytingu á samningjum um Icesave, að breytilegir vextir komi í stað fastra vaxta, segir mbl.is að stjórnarandstöuna sé farið að gruna, að fóstbræðurnir Steingrímur J. og Indriði H. séu komnir í einkaviðræður við kúgarana og það á bak nýju samninganefndarinnar.

Sé þetta rétt, eru þetta þvílík svik við þjóðina, að Steingrímur J. á engan annan kost, en að segja af sér embætti tafarlaust og að sjálfsögðu taka Indriða H. með sér út í ystu myrkur íslenskrar stjórnmálasögu.

Vissulega komu fréttirnar af "tilboði sem Íslendingar geta ekki hafnað" á óvart, eftir viðræðurnar sem samninganefndin hafði átt við fjárkúgarana í vikunni, en að hinir þrælslunduðu fóstbræður, Steingrímur J. og Indriði H. væru á bak við þetta útspil, er reyndar svo ótrúlegt, að því verður ekki trúað fyrr en í fulla hnefana.

Steingrímur J. hlýtur að sverja þetta af sér strax, en geri hann það ekki og í ljós kæmi, að fótur væri fyrir þessum grun, ætti hann sér engrar uppreisnar von hjá þjóðinni.

Þetta er svo alvarlegt mál, að upplýsa verður það strax í dag.


mbl.is Grunur um leynimakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ræðir útvarpið við Þórólf Matthíasson?

Útvarpið hefur það fyrir reglu, að ræða nánast eingöngu við Þórólf Matthíasson, hagfræðing, um Icesave, en hann er einn alduglegasti baráttumaður Breta og Hollendinga hér á landi og hefur tekið að sér að skrifa stuðnigsgreinar fyrir þá í ýmis blöð, innanlands og utan.  Ef til vill telja Bretar og Hollendingar sig eitthvað græða á þessum talsmanni sínum, en eitt er þó víst, að enginn tekur mark á honum hér á landi.

Ef boðað tilboð kúgaranna, bresku og hollensku, snýst eingöngu um einhverja lækkun á vöxtum, þá á auðvitað ekki að taka við pappírnum, slíta öllum viðræðum og leyfa þjóðinni að sýna hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Fyrr í dag kom frétt, höfð eftir einhverjum embættismanni, að Bretar og Hollendingar ætluðu að gera Íslendingum nýtt fjárkúgunartilboð, sem þeir gætu ekki hafnað.  Þar sem sú frétt er farinn út af vefnum, en búið var að blogga um hana, vísast á það blogg hérna


mbl.is Tilboð berst á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð sem ekki er hægt að hafna????

Sagt er að þegar Mafían í Bandaríkjunum setti mönnum þá úrslitakosti að gera eins og hún segði, eða týna lífinu ella, þá hafi slíkt verið kallað að gera mönnum tilboð, sem þeir gætu ekki hafnað.

Bretar og Hollendingar hafa ástundað vinnubrögð Mafiunnar gagnvart íslenskum skattgreiðendum og reynt að beita þá fjárkúgun til að greiða skuld annars aðila og ekki nóg með það, heldur okurvexti að auki, en Mafían var einmitt líka fræg fyrir háa vexti af "skuldum" sem hún bjó til og ætlaðist til, að óviðkomandi menn greiddu henni.

Samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar innan úr stjórnkerfi Breta, eru Bretar og Hollendingar nú að undirbúa "tilboð sem Íslendingar geta ekki hafnað".  Þar með eru þeir sjálfir búnir að sýna fram á tengsl sinna vinnubragða við kollega sína í bandarísku Mafíunni.

Við fjárkúgara á ekki að semja og ætli þeir að setja fram nýja kröfu um að skattborgarar hérlendis taki á sig greiðslu á skuldum óskyldra aðila, ásamt léttbærari vöxtum, þá á ekki einu sinni að taka við þessu nýja fjárkúgunarbréfi, heldur benda þeim á að snúa sér að réttum skuldara og beita kröftum sínum að innheimtu hjá honum.

Álit sitt á þessari grímulausu fjárkúgun, munu kjósendur sýna í þjóðaratkvæðagreiðslunni, með risastóru NEIi.


mbl.is Undirbúa nýtt Icesave tilboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samorkumenn eru bjartsýnir að halda að VG vilji atvinnuuppbyggingu

Franz Árnason, formaður Samorku, sagði í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í dag, að það hlyti að vera krafa, að stjórnvöld vinni með atvinnulífinu, en ekki gegn því, að uppbyggingu orkufreks iðnaðar og annarrar atvinnustarfsemi.

Þetta lýsir mikilli bjartsýni hjá formanninum, því að á meðan VG er í ríkisstjórn, mun flokkurinn berjast af alefli gegn hvers konar áformum um eflingu atvinnulífs og uppbyggingu iðnaðar hvers konar, enda líta menn þar á bæ svo á, að nóg sé að gert í atvinnumálum með því að fjölga um þrjátíu manns á listamannalaunum.  Það er það eina, sem stjórnin hefur gert í atvinnumálum á því ári sem hún hefur lifað og vonandi verður ekki langt framhald á því lífi.

Ekkert mun gerast í atvinnumálum á meðan Svandís Svavarsdóttir og Álfhildur Ingadóttir hafa örlög atvinnu þúsunda manna í höndum sínum.  Þeim finnst ekkert athugavert við að atvinnuleysi aukist, enda vorkenna þær ekki fólki, sem þær telja að fári greiddar ríflegar atvinnuleysisbætur úr ríkissjóði.

Ef Vinstri grænir vildu gera átak í uppbyggingu atvinnulífs og heimila, gerðu þeir það best með því að segja sig úr ríkisstjórninni.


mbl.is Fæla fjárfesta frá landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband