Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Steingrímur J. hefur opnað hugann

Steingrímur J. segir við Bloomberg fréttastofuna að hann vonist til að Bretar og Hollendingar komi til viðræðna við Íslendinga með opnum huga, þrátt fyrir að hafa reynt að kúga fé af íslenskum skattgreiðendum síðast liðna 17 mánuði, með hótunum og hreinu ofbeldi.

Þetta er ákaflega fróm ósk af hálfu Steingríms J., en betra hefði verið, ef hann hefði ekki sjálfur verið með gjörsamlega lokaðan huga og fastur í baráttunni fyrir hagsmunum kúgaranna og jafn staðfastur í baráttunni gegn lögvörðum réttindum sinnar eigin þjóðar.

Hann hefur varið þrælasamning félaga sinna, Svavars og Indriða H., alveg fram í síðustu viku, þegar hann lokst viðurkenndi að hvergi í íslenskum lögum eða tílskipunum ESB, væri að finna stafkrók um ábyrgð ríkissjóða á tryggingasjóðum innistæðueigenda í Evrópu.

Baráttumenn fyrir réttindum og hagsmunum íslensku þjóðarinnar fagna auðvitað nýjum liðsmönnum, hvaðan sem þeir koma, ekki síst hverjum liðsmanni fjárkúgaranna, sem snýst hugur og yfirgefur herbúðir óvinanna.

Vonandi verður Steingrímur J. með opinn huga, alveg fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna og lætur ekki einkennilegar hugrenningar um að fella hana niður, loka huga sínum aftur.


mbl.is Komi til viðræðna með opnum huga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestir ábyrgð tryggingasjóðanna

Sé það rétt, að bankastjórar Landsbankans og yfirmenn fjármálaeftirlitsins í Bretlandi hafi verið að ræða flutning á Icesavereikninunum úr úitbúi Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag, til þess að ábyrgð á innistæðunum flyttust yfir í tryggingasjóð innistæðueigenda í Bretlandi, þá staðfestir það, að allt sem sagt hefur verið um að enginn hafi talið sjóðina ríkistryggða fyrir bankahrunið.

Ef þetta hefur verið svona í pottinn búið, hefur yfirmaður fjármálaeftirlitsins breska alls ekki reiknað með því að innistæðurnar ættu að falla á íslenska skattgreiðendur, heldur á tryggingasjóð innistæðueigenda og flutningur reikninganna undir tryggingasjóð Breta átt að vera til að tryggja innistæðurnar betur, enda breski sjóðurinn margfalt sterkari, fjárhagslega, en sá íslenski.

Hafi það átt að kosta Landsbankamenn aðein 40 milljarða króna, að flytja innistæðurnar í breska lögsögu, er algerlega ófyrirgefanlegt af stjórnendum bankans, að hafa ekki gengið frá málinu umsvifalaust, enda upphæðin sem til þurfti ekki hærri en þeir voru að ausa í algerlega ótrygg lán til útrásarmógúla, nánast á hverjum degi.

Hefðu þeir verið menn til að ganga frá þessu á sínum tíma, hefði það sparað þjóðinni mikinn tíma, mikið fé og mikla fyrirhöfn vegna fjárkúgunartilrauna Breta og Hollendinga vegna þessara reikninga.  


mbl.is Rannsóknarnefndin með upptöku af samtali bankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ættum að skammast okkar

Breski hagfræðingurinn John Kay segir í vikulegum pistli sínum í Financial Times, að Bretar ættu að skammast sín fyrir að ætla að kúga íslenska skattgreiðendur til að taka á sig mistök og glæfra einkabanka. 

Kay segir að engar lagalegar forsendur séu fyrir þessum kúgunum, eina ásæða þeirra sé sú einfalda staðreynd, að notuð séu rök allra kúgara, þ.e. ástæðn sé einfaldlega sú, að Bretar hafi afl til að beita aðra kúgunum.  Eina ástæðan fyrir framhaldi viðræðna nú, sé ótti þeirra við þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem muni sýna umheiminum að íslenskir skattgreiðendur láti ekki kúga sig baráttulaust.

"Við ættum að skammast okkar" segir Kay og ættu þeir Íslendingar, sem talað hafa máli Breta og Hollendinga gegn sinni eigin þjóð að gera það líka.  Vonandi verður þessi ádrepa Kay's til þess að herða upp huga þeirra, sem tilbúnir hafa verið til að samþykkja fjárkúgunarkröfurnar, til þess að sameinast hinum, í baráttunni fyrir réttlátri og löglegri meðferð málsins.

Við Íslendingar ættum að skammast okkar fyrir þá, sem vilja fresta, eða hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna, því hún er sterkasta vopn þjóðarinnar gegn fjárkúgurunum. 

Ekki síst ættu íslenskir baráttumenn fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga, en gegn eigin þjóð, að skammast sín, umfram alla aðra.


mbl.is Íslendingar hafa náð frumkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynir að lappa upp á "vörumerkið"

Jóhannes í Bónus hefur brugðist fljótt við birtingu skoðanakönnunarinnar, þar sem 80% svaremda lýstu sig andvíga þeim fyrirætlunum Arion banka, að veita honum sjálfum 10% forkaupsrétt að hlutabréfum Haga og öðrum, í kringum hann, 5% forkaupsrétt til viðbótar.

Til mikillar óheppni fyrir Jóhannes birti sjónvarpið í kvöldfréttum sínum útskýringu á því hvernig þeir Bónusfeðgar hafa spilað með annarra manna peninga í Matador spili sínu með Haga, en upphaflega átti eignarhaldsfélag feðganna, Gaumur, Baiug, sem aftur átti Haga, en seldi félagið rétt fyrir hrun til nýs félags Jóns Ásgeirs í Bónusi, 1998 ehf., sem fékk af því tilefni lánaða 30 milljarða króna frá Kaupþingi til að forða feðgunum frá því að taka á sjálfa sig tap vegna Baugs, sem var lýstur gjaldþrota nokkru síðar.

Jafnframt kom fram í sjónvarpsfréttinni að í haust myndi 10 milljarða króna kúlulán falla á Gaum, sem auðvitað er orðinn eignalaus, eins og öll önnur félög feðganna, sem orðið hafa gjaldþrota, enda líklegt að Gaumur verði lýstur gjaldþrota fljótlega.

Jóhannes segir í yfirlýsingu sinni, að hann  muni halda áfram að bera hag almennings fyrir brjósti, en sagan sýnir að eigin hagur hefur verið mest borinn fyrir brjósti, enda hefur ekki svo mikið sem ein króna faliið á þá feðga, þrátt fyrir hundruð milljarða króna töp, sem þeir hafa skilið eftir sig í gjaldþrotasögu sinni.

Jóhannes segist fá klapp á bakið og bros frá viðskiptavinum sínum í búðunum.  Það eru væntanlega fulltrúar þessara 20% svarenda, sem voru honum hliðholl í skoðanakönnunni og eru sennilega tilbúin til að styðja feðgana áfram á gjaldþrotabrautinni.


mbl.is Segir viðmót viðskiptavina Haga annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er ekki lengur góð auglýsing

Sú var tíðin, að almenningur elskaði Baugsfeðga jafn heitt og heimilisdýrin sín og vörumerkið "Jóhannes í Bónus" var aðall veldis þeirra, enda var Jóhannesi teflt fram hvar og hvenær sem tækifæri gafst til að koma því á framfæri, hvað þeir feðgar fórnuðu sér af mikilli elju í þágu almúgans.  Á þeim tíma trúði fólk því, að álagnig væri lág í verslunum þeirra og þrátt fyrir milljarða arðgreiðslur til feðganna gat Jóhannes alltaf talið fólki trú um, að vörurnar væru nánast gefnar í Bónusi.

Nú er sífellt betur að koma í ljós að þeir feðgar, sem voru brautryðjendur útrásarinnar og "nýja hagkerfisins", hafa aldrei lagt fram krónu af eigin fé, eða ábyrgðum, vegna kaupa á einu einasta fyrirtæki, snekkju, þotu, lúxusíbúðum, skíðahöllum, eða nokkru öðru, heldur voru tekin erlend lán fyrir öllum "fjárfestingum" og aldrei hefur þeim svo mikið sem dottið í hug, að endurgreiða eina einustu krónu af sínum hunduðmilljarða lánum.

Þessi lán, ásamt lánum sporgöngumanna þeirra í útrásinni, hafa nú komið þjóðarbúinu algerlega á hliðina og skapað mestu kreppu, sem yfir Ísland hefur gengið frá lýðveldisstofnun, en samt er enn reynt að spila á þetta gamla og snjáða vörumerki keðjunnar í þeirri von, að hægt verði að fá stuðning almennings til að koma fótunum undir feðgana á nýjan leik, eins og ekkert hefði í skorist.

Þegar feðgarnir hófu tilraun sína til að endurheimta Haga, með "tilboði" til Arion banka um að kaupa af honum fyrirtækið aftur, lýsti Jóhannes því yfir í sjónvarpsviðtali, að ekkert yrði afskrifað af skuldum þeirrra vegna þessarar nýju innkomu í fyrirtækið.  Í ljós er komið að þetta var alls ekki sannleikanum samkvæmt, því líklega verða afskriftir vegna 1998 ehf. ekki minni en 40-50 milljarðar króna og er þá ekkert minnst á þær hundruðir milljarða króna, sem áður eru tapaðar á viðskiptum þeirra feðga.

Er svo einhver hissa, þó almenningsálitið sé ekki hliðhollt þessum útrásartöpurum lengur?


mbl.is 80% vilja ekki Jóhannes í Bónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortugir Hollendingar

Þegar gengið er til samninga um eitthvað, leggja aðilar fram ítrustu kröfur í upphafi og setjast síðan niður og a.m.k. reyna að ná samningum, sem báðir aðilar geta sætt sig við, eða eru báðir standa upp frá borðum með samning, sem hvorugur er fyllilega sáttur við.

Nú berast þær fréttir frá Hollandi, að þarlend yfirvöld vilji að Íslendingar fallist á þeirra tilboð, a.m.k. í grundvallaratriðum, annars komi ekki til greina af þeirra hálfu, að koma til frekari viðræðna um málið.

Svona hortugheit getur enginn sætt sig við og eina svarið til Hollendinga er, að þar með sé öllum viðræðum slitið af hálfu íslenskra yfirvalda, enda sé málið ekki þeim viðkomandi að einu eða neinu leyti samkvæmt íslenskum lögum og tilskipunum ESB. 

Í fullri vinsemd má benda þessum hrokagikkjum á, að eftir að kjósendur hafa hafnað með afgerandi hætti að staðfesta þrælalögin um ríkisábyrgð á fyrri fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga, geti þeir snúið sér til rétts viðsemjanda, sem er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta og er sjálfseiganrstofnun með dómþing í Reykjavík.

Verði þeir ekki ánægðir með þau svör, verða þeir annaðhvort að láta málið niður falla, eða leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum.

Til þess að það sé hægt, verða stefnendur að vísa til laga, sem þeir telja að hafi verið brotin, en það mun reynast erfitt í þessu tilfelli.


mbl.is Ísland fallist á forsendurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegar hörmungar

Miklar hörmungar gegnu yfir íbúa Haití fyrir rúmum mánuði þegar jarðskjálftinn varð þar og lagði höfuðborgina og nágrenni hennar gjörsamlega í rúst og yfir tvöhundruðþúsund manns fórust.  Vegna vel þjálfaðra og vel útbúinna björgunarsveita hér á landi, varð íslenska rústabjörgunarsveitin fyrst erlendra hjálparsveita á staðinn og vann að rústabjörgun fyrstu vikuna eftir skjálftann og aðstoðaði við skipulagningu áframhaldandi aðstoðar við íbúana.

Þótt allt sé þetta ljóslifandi í minningunni, snertir það á ný viðkvæma taug, að lesa um störf Friðbjörns Sigurðssonar, læknis, sem starfaði í einn mánuð á Haití við erfiðar aðstæður við að lækna slasaða og sjúka, en allar aðstæður á staðnum eru hræðilegar, enda öll sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hrundar og ekki var heilbrigðiskerfið burðugt fyrir.

Fyrir þá, sem standa utan við atburðina, er í raun ekki hægt að gera sér grein fyrir þeim hörmungum, sem þarna ríkja og mörg ár mun taka að byggja upp lágmarksþjónustu við íbúana, svo sem opinberar stofnanir, skóla, heilbrigðiskerfi og samastaði fyrir fólkið til að skapa sér heimili að nýju.

Enn og aftur eru Íslendingar minntir á, hve gott þeir hafa það, þrátt fyrir dýpstu kreppu frá lýðveldisstofnun.


mbl.is Erfitt þegar úrræðin eru engin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háleynilegar yfirheyrsluskýrslur í sjónvarpi

Ríkisstjórnin lofaði gegnsæi og opinni stjórnsýslu af sinni hálfu, þegar hún var mynduð fyrir rúmu ári síðan, en líklega hefur aldrei verið meira pukur og leynimakk í opinberri stjórnsýslu, en efir að það loforð var gefið.

Aftur á móti fréttist nánast allt sem leynt á að fara, samanber lánabók Kaupþings og nú í kvöd var lesið orðrétt upp úr yfirheyrsluskýrslum Sérstaks saksóknara yfir eigendum og starfsmönnum Milestone og Sjóvár.

Eitthvað virðist á reiki, hvað á að vera opið og gegnsætt, fyrst það sem helst kemst fyrir almennigssjónir eru bankaleyndarmál og lögregluskýrslur.  Ekki að almenningi komi ekki við hvað til rannsóknar er hjá lögregluyfirvöldum, en venjan er nú samt sú, að slíkt á ekki að komast í hámæli fyrr en þá í réttarhöldum yfir viðkomandi, enda ekki til hagsbóta fyrir rannsóknir, að aðrir sakborningar og vitni frétti í fjölmiðlum hvað aðrir eru búnir að gefa upp fyrir rannsakendum.

Ríkisstjórnin ætti að taka þessa "upplýsingagjöf" þeirra, sem eiga að þegja, sér til fyrirmyndar og upplýsa almenning um hvort hún sé yfirleitt nokkuð að gera, annað en flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu og viðreisn efnahagslífsins.


mbl.is Yfirheyrslur vegna Milestone
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær kemst á eðlilegt samband við Bandaríkin?

Enginn ráðherra hefur sóst eftir viðræðum við helstu ráðamenn Bandaríkjanna um þvingunaraðgerðir Breta og Hollendinga gagnvart Íslendingum innan AGS og töf sjóðsins á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS.

Frá því að Össur Skarphéðinsson móðgaði bandarísku þjóðina með framkomu sinni við sendiherra hennar hér á landi, þegar hann lét afturkalla orðuveitingu til frúarinnar, þegar hún var á stödd á afleggjaranum að Bessastöðum á leið til þess að taka við orðunni, hefur samband landanna verið í algeru lágmarki.

Hvers vegna spyr enginn Össur út í þessa furðulegu framkomu við sendiherrann og hvers vegna ekki sé beðist afsökunar á henni, til þess að reyna að koma sambandi þjóðanna aftur í eðlilegt horf.  Bandaríkjamenn hafa verið einna nánastir bandamenn Íslendinga frá stofnun lýðveldisins og því er framkoma Össurar ennþá óskiljanlegri fyrir vikið.

Hvar eru allir rannsóknarblaðamennirnir núna?


mbl.is Fundir með bandarískum ráðamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senda bréf, en ekki gagntilboð

Bretar og Hollendingar sendu bréf með gagntilboði til samstarfsnefndar stjórnmálaflokkana á laugardaginn og eftir langa og stranga setu yfir gagntilboðinu, ákvað nefndin að senda bréf til baka án gagntilboðs.  Hvenær bréf er bara bréf, en ekki gagntilboð, er hins vegar flóknara mál, a.m.k. í þessu fáráðnlega deilumáli, þar sem annar deiluaðilinn er alls ekki aðili að málinu, en reynt að kúga hann til þess.

Eitt nýtt kemur þó fram í þessari frétt og það er, að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi séu óánægðir með gagntilboð kúgaranna, en alveg þangað til í síðustu viku voru bæði Samfylking og Vinstri grænir yfir sig ánægð með þann nauðungarsamning, sem þau höfðu samþykkt í júni í fyrra og höfðu lýst honum sem miklum sigri Íslendinga, enda væri hann "glæsilegur" og besti samningur, sem Íslendingar hefðu getað ímyndað sér að ná.

Í liðinni viku, játaði Steingrímur J. loksins, að engin ríkisábyrgð ætti að vera á innistæðutryggingasjóðnum, eftir að forstjóri innistæðutryggingasjóðsins í Noregi hafði upplýst um þá augljósu staðreynd, sem öllu læsu fólki hafði þó verið kunnugt frá upphafi.

Nú vantar að upplýsa hvað stóð í nýja bréfinu, sem þó innihélt ekkert tilboð og hvað þá gagntilboð.


mbl.is Tilboðið ekki ásættanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband