Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Valdabarátta innan ASÍ og árás á lífeyrisþega

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er greinilega í kosningaham og vill verða forseti ASÍ og velta þar með Gylfa Arnbjörnssyni úr embættinu.  Vilhjálmur réðst með miklu offorsi á Gylfa í ræðu sinni á ársfundi ASÍ og fann honum flest til foráttu og þá helst að hafa ekki viljað láta elli- og örorkulífeyrisþega lífeyrissjóðanna niðurgreiða húsnæðislán.

Það verður að teljast með ólíkindum að Vilhjálmur, sem forystumaður í verkalýðsfélagi, skuli láta sér detta í hug að velta vanda húsnæðislánaskuldara yfir á það fólk, sem lokið hefur starfsævi sinni og farið er að fá útborgaðan þann lífeyri, sem það hafði áunnið sér rétt til um ævina og þá sem örkumlast hafa á yngri árum og því notið örorkulifeyris frá þeim lífeyrissjóði, sem þeir höfðu greitt iðgjöld til meðan þeir voru vinnufærir. 

Ekki skulu Gylfi, eða störf hans innan ASÍ, varin hér sérstaklega, en ekki verður orða bundist yfir svo lágkúrulegum brögðum sem Vilhjálmur notar, til þess að koma sjálfum sér til meiri metorða innan sambandsins.  Fyrir utanaðkomandi er algerlega ótrúlegt að fylgjast með verkalýðsleiðtoga leggjast svona lágt í áróðri sínum og framapoti.

Vonandi sjá fulltrúar á ársfundi ASÍ og aðrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar í gegn um þessa lágkúru og árás á kjör elli- og örorkulífeyrisþega almennu lífeyrissjóðanna, því ekki myndi þessi árás á lífskjör þessa hóps ná til þeirra sem fá greiðslur frá opinberu lífeyrissjóðunum, því þeir njóta ríkisábyrgðar og því myndu kjör frá þeim ekkert skerðast.

Vilhjálmur er því að mæla með hreinum skemmdarverkum á lífeyrissjóðum launþega á almennum vinnumarkaði og varla hefur hann verið kosinn til formennsku í sínu félagi til að stunda slíkt.


mbl.is Hvatti Gylfa til að íhuga stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnusköpun eða ríkisstjórnina frá

Bæði Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. hafa marg lýst því yfir að kreppunni sé lokið og mikill hagvöxtur sé framundan og það án þess að nokkurt einasta átak verði gert í atvinnumálunum.  Skýringar á því hvernig töfraformúla ríkisstjórnarinna eigi að virka án átaks í atvinnusköpun hefur ekki verið útskýrt, enda skilur enginn hvernig hún á að ganga upp.

Enginn hagfræðingur er sammála ráðherrunum og hvorki hafa verkalýðshreyfingin eða samtök atvinnurekenda trú á henni heldur.  Á þingi ASÍ sagði Ólafu Darri, hagfræðingur ASÍ, að nú hilli undir að botni verstu efnahagskreppu lýðveldistímans verði náð og miðað við óbreytt ástand myndi hagvöxtur verða afar hægur á næstu árum.  Hann hvatti til að framkvæmdum við álver í Helguvík yrði komið af stað strax, enda gætu þær framkvæmdir tvöfaldað hagvaxtaspá ASÍ fyrir árið 2011.

Í fréttinni af ræðu Ólafs kemur þetta fram í fréttinni, m.a:  "Ólafur Darri sagði engan vafa leika á að það myndi skipta mjög miklu máli ef vinna við álverið í Helguvík færi í fullan gang. Reiknað væri með að um 1300 manns fengju vinnu meðan á framkvæmdum stæði."  Þessi eina framkvæmd gæti þannig útvegað 11% þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskránni atvinnu á framkvæmdatímanum.

ASÍ spáir því að atvinnuleysi verði 6% á árinu 2013, þannig að þá verði um 10.000 manns á atvinnuleysisskrá og þá mun einnig fjöldi fólks verða dottið út úr kerfinu vegna þess að það hafi verið atvinnulaust í þrjú ár, eða meira og þar með verður neyð þess enn meiri en nú er.

Að lokum skal þessi skoðun Ólafs Darra undirstrikuð:  "Hann sagði ljóst að það væri ekki hægt að „svelta sig út úr vandanum“ eins og hann komst að orði. Við yrðu að auka tekjur okkar með aukinni atvinnusköpun."

Engar líkur eru á því að ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir þessum staðreyndum.  Hún er því að vinna viljandi og skipulega að því að framlengja kreppuna og eymd þjóðarinnar, með öllum þeim eitruðu meðulum sem hún hefur yfir að ráða.

 


mbl.is Erum að ná botninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti ASÍ rassskellir VG

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í ræðu sinni á ársfundi ASÍ ríkisstjórnina hafa svikið öll sín loforð, sem hún gaf og undirritaði í stöðugleikasáttmálanum í júní 2008.  Átaldi Gylfi ríkisstjórnina fyrir þann óheiðarleika sem hún hefur sýnt aðilum vinnumarkaðarins, t.d. með því að koma ekki hreint fram og segja sáttmálanum upp formlega, en svíkja hann hinsvegar grímulaust allan tímann frá undirritun.

Gylfi tók vinstri græna hreinlega á hné sér og rassskellti þá vegna skemmdarverka þeirra varðandi atvinnumál þjóðarinnar, en samkvæmt fréttinni sagði hann m.a, eftir að hafa farið yfir óheiðarleika stjórnarinnar í garð launþega:  "Það á við um loforð stjórnvalda um náið samráð í veigamiklum málum sem varða hagsmuni launafólks, en alvarlegast og sárast hefur þó verið ótrúlegt framtaksleysi stjórnvalda í atvinnumálum og nauðsynlegar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir. Það er mikið áhyggjuefni að svo virðist sem málaflokkurinn atvinnumál hafi verið tekinn í gíslingu fámenns hóps og ríkisstjórnin í raun misst forræði á málinu."

Þetta eru engar smáásakanir af hálfu forseta  ASí í garð "fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnarinnar", eins og hún kallar sig og segist jafnvel vera "norræn velferðarstjórn".  Stjórn sem ekki skilur að atvinnumálin séu undirstaða velferðar, getur aldrei orðið velferðarstjórn.

Slík stjórn getur eingöngu orðið ríkisstjórn kreppu og örbirgðar til langrar framtíðar.  Þannig er ríkisstjórnin sem Íslendingar sitja uppi með núna.


mbl.is Tóku atvinnumálin í gíslingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Már afhjúpar blekkingar ríkisstjórnarinnar

Í stefnuræðu sinni á Alþingi gerði Jóhanna Sigurðardóttir mikið úr þeim árangri sem hún sagði að stjórnin hefði náð í efnahagsmálunum og gerði mikið úr því að hagvöxtur hefði orðið á öðrum ársfjórðungi og fyrirséð að hann yrði mikill á næstu misserum.  Undir þetta tók Steingrímur J. og gerði ekki minna úr en Jóhanna og sagði allar hagtölur vísa uppávið og framtíðin væri skínandi björt í fjármálum heimilanna og þjóðarbúskaparins í heild.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hélt ræðu á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York og þar kvað við allt annan tón, samkvæmt viðhangandi frétt, en þar segir:  "Engar hagtölur benda til þess að hagvöxtur hafi farið á stað á síðari helming ársins. Þetta kom fram í ræðu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York. Már sagði að vísbendingar væru þó um að viðsnúningur hagkerfisins væri hafin en hinsvegar er hann hvorki kröftugur né mikill." 

Steingrímur J. lagði einnig fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011, sem gerir ráð fyrir 3% hagvexti, sem aðallega byggist á því að ráðist verði í framkvæmdir við álver í Helguvík, sem Steingrímur berst svo gegn af öllum sínum kröftum með dyggum stuðningi ofstækiskonunnar í Umhverfisráðuneytinu og öðrum vinstri grænum.

Már sagði einnig að endurskipulagning skulda heimilanna væri grundvöllur kröftugs hagvaxtar og fjárfestingar.  Hvað skyldi ríkisstjórnin hafa afrekað í þeim efnum, ótilneydd, fram að þessu?


mbl.is Engar beinharðar vísbendingar um hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófsteinn á persónukjör

Fyrirhuguð kosning til stjórnlagaþings verður prófsteinn á það hvernig persónukjör, þar sem landið allt verður eitt kjördæmi, mun reynast, en háværar raddir hafa verið uppi um breytingar á kosningafyrirkomulagi til sveitarstjórna og Alþingis í þá átt að merkt verði við einstaka frambjóðendur en ekki lista og jafnvel frambjóðendur af fleiri en einum lista.

Kosningin til stjórnlagaþingsins verður hins vegar talsvert þung í vöfum fyrir marga, því kynna þarf sér hundrað blaðsíðna bækling um frambjóðendurna og velja sér að hámarki tuttugu og fimm til að kjósa.  Kjörseðillinn verður auður, að öðru leyti en því að á honum verða tuttugu og fimm rammar til að skrifa inni í fyrirfram gefin númer frambjóðendanna og verður að raða þeim í rétta röð, því atkvæði í fyrsta sæti er meira virði fyrir frambjóðendur heldur en atkvæði í aftari sæti.

Þetta fyrirkomulag verður ákaflega erfitt fyrir sjóndapra og aldraða, sem erfitt eiga með að sjá og sérstaklega skrifa allar þessar tölur á kjörseðlana og einnig gæti þetta reynst mörgum öðrum erfitt, sem erfitt hafa átt með að kjósa í venjulegum kosningum, þrátt fyrir að hafa gert það oftar en einu sinni.

En hvað um það, þetta verður prófsteinn á persónukjörin og takist þessi kosning ekki eins vel og til er ætlast, mun varla nokkur maður heimta persónukjör í öðrum kosningum.


mbl.is Bæklingurinn stærri en reiknað var með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níðingsskapur gagnvart öldruðum sjúklingum

Almenningur greiðir fyrir heilbrigðiskerfið með sköttum sínum alla ævina, hvort sem hann nýtir þjónustu þess meira eða minna um dagana, en við bætast komugjöld og önnur smærri gjöld vítt og breitt um kerfið, sem ríkisstjórnir hafa klínt á sjúklinga í gegn um tíðina, þegar létta hefur þurft kostnaði af ríkissjóði og hefur það verið kallað að spara í ríkisrekstrinum.  Ríkið notast mjög oft við þá auðveldu sparnaðarleið að koma kostnaði yfir á aðra, en auðvitað sparast ekkert við slíkar aðgerðir, greiðslan er aðeins flutt beint yfir á sjúklingana í stað þess að innheimta hana með almennum sköttum.

Það allra ósanngjarnasta og níðingslegasta sem viðgengist hefur lengi í heilbrigðiskerfinu er sú aðgerð að haldleggja nánast allar elli- og lífeyrisgreiðslur þeirra öldruðu, þegar heilsan fer að gefa sig á seinasta hluta ævinnar og þeir þurfa virkilega á þjónustu þess heilbrigðiskerfis að halda, sem þeir hafa greitt til alla sína ævi með skattgreiðslum sínum.  Hér er auðvitað átt við það rán, sem viðgengst á hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra, en þá telur "kerfið" réttlætanlegt að innheimta fullan sjúklingaskatt af þessum öldruðu sjúklingum.

Í fréttinni kemur þetta fram um þennan öldrunarsjúkdómaskatt:  "Í ár gildir að ef mánaðartekjur íbúa á öldrunar- og hjúkrunarheimilum eru yfir 65.005 kr. á mánuði, eftir skatta, þá tekur hann þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem umfram eru. Greiðslurnar verða þó aldrei hærri en 281.871 kr. á mánuði, en greiðsluhámarkið hefur hækkað um 70.000 krónur frá árinu 2007. Á sama tíma hefur öldrunarrýmum fækkað um rúmlega 350."

Getur það verið að þetta sé það réttlæti sem yngri kynslóðirnar vilja sýna foreldrum sínum og öðrum öldruðum og sjúkum ættingjum?


mbl.is Hærri gjöld og fleiri borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt fyrir þá ógæfusömu

Það er gríðarleg ógæfa fyrir einstaklinga að verða gjaldþrota og hjá því reyna allir með snefil af sjálfsvirðingu að komast ef þeir hafa nokkra möguleika því.  Allt heiðvirt fólk reynir allt sem í þess valdi stendur til þess að greiða skuldir sínar og leggur allt í sölurnar til þess, en stundum fara menn óvarlega í lántökum, eða aðstæður breytast vegna ófyrirséðra atvika, þannig að viðkomandi einstaklingur getur ekki með nokkru móti greitt skuldir sínar og eignir hans duga ekki til uppgjörs á þeim lánum, sem tekin hafa verið og þá verður ekki hjá því ömurlega hlutskipti komist að lýsa yfir gjaldþroti.

Fram til þessa hefur sá einstaklingur, sem í slíkri ógæfu hefur lent, getað átt á hættu að skuldheimtumenn elti hann fram í rauðan dauðann vegna þeirra skulda, sem hann gat með engu móti greitt fyrir gjaldþrotið og þannig var hægt að koma í veg fyrir að sá sem einu sinni hafði orðið gjaldþrota eignaðist nokkurn tíma raunverulegt líf á ný, þar sem hann gæti byggt sig upp að nýju með eðlilegri og löglegri vinnu og fasteign, eða aðrar veraldlegar eignir gat hann aldrei látið skrá á sitt nafn framar.

Þetta leiddi til þess að viðkomandi var nánast útlægur úr samfélaginu, a.m.k. frá allri eignamyndun og margar fjölskyldur hafa sundrast í kjölfar gjaldþrotahörmunganna, því ekki er það allra að standast það álag, sem lífi eftir gjaldþrot hefur fylgt.

Sú breyting sem nú er fyrirhuguð á gjaldþrotalögunum í þá veru að ekki sé hægt að viðhalda kröfum nema í tvö ár er því mikil bót fyrir þá sem svo ógæusamir verða, að neyðast til að lýsa sig gjaldþrota.  Enginn lýsir sig gjaldþrota að gamni sínu og ekki trúlegt að það breytist þó auðveldara verði fyrir fólk að koma fótum undir sig að nýju eftir algjöran eignamissi.  Þó má reikna með að sá sem gjaldþrota verður komi til með að eiga í vandræðum með að fá lán að nýju í einhver ár eftir hörmungarnar, því nöfn þeirra verða vandlega skráð í tölvukerfi allra lánastofnana og rautt ljós mun kvikna á skjánum, þegar kennitölunum verður flett upp.

Eftir sem áður er þetta bót fyrir þá sem verst brenna sig á fjármálavafstri sínu og eitt af því fáa jákvæða sem frá ríkisstjórninni hefur komið.


mbl.is Frumvarpið mannréttindabót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflagangur í Jóni Gnarr eins og venjulega

Í dag fóru fram umræður í borgarstjórn um þá tillögu Jóns Gnarrs að koma af sér flestum skyldum borgarstjóra og láta skrifstofustjóra borgarinnar um þær "næsta árið til reynslu" eins og það er orðað.  

Þegar Júlíus Vífill spurði Jón Gnarr, sem ennþá tiltlar sig borgarstjóra, hvort það væri í undirbúningi að gera Dag Eggertsson að borgarstjóra, svaraði svonefndur borgarstjóri á þennan veg:   "Spurningin hvort að Dagur B. Eggertsson sé að verða borgarstjóri. Það er ný hugmynd. Hún hefur ekki komið upp áður. Ég mundi ekkert útiloka það frekar en eitthvað annað, en það hefur ekki staðið til."

Manninum virðist gjörsamlega ómögulegt að tala eins og maður og algerlega fyrirmunað að koma frá sér nokkurri hugsun sem viðkemur því starfi sem hann hefur tekið að sér að gegna, en margsýnt að hann er gjörsamlega óhæfur til.

Hvað ætla borgarbúar að láta bjóða sér þennan fíflagang lengi?


mbl.is Útilokar ekki að Dagur verði borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakúgun og ógnarstjórn Besta flokksins

Fyrir kosningar og raunar fyrst eftir þær, boðaði Jón Gnarr opnari stjórnsýslu og meira samráð við borgarbúa, t.d. með atkvæðagreiðslum um einstök mál, en eftir að hann uppgötvaði að hann réði ekkert við borgarstjórastarfið og nennir ekki einu sinni að setja sig inn í málefni borgarinnar og stofnana hennar og komið öllum helstu verkefnum yfir á annan, þá er ekki minnst á íbúalýðræði lengur.

Þvert á þessar yfirlýsingar um aukið lýðræði virðist nú eiga að taka upp stjórnarhætti kúgunar og ótta, því t.d. er starfsmönnum OR nú haldið nánast í gíslingu hótana um uppsagnir, því stjórn fyrirtækisins tilkynnti í upphafi mánaðar að um næstu mánaðarmót yrði áttatíu starfsmönnum sagt upp, án þess að tilgreina hvaða starfsmönnum né úr hvaða deildum eða starfsgreinum þeir ættu að koma.  Svona vinnubrögð ala á ótta og óöryggi allra starfsmanna og leikurinn sjálfsagt verið til þess gerður.  Hafi þetta ekki verið skipulagt til að valda þessum ótta og óöryggi og stjórnendur fyrirtækisins ekki gert sér ljósar afleiðingar svona tilkynninga, þá eru þeir algerlega óhæfir til að stjórna fyrirtæki og hafa mannaforráð.

Þegar stjórnarmaður í OR óskar eftir fundi með trúnaðarmönnum fyrirtækisins til að ræða við þá um tillögur þeirra til sparnaðar í mannahaldi án uppsagna, þá ærist meirihlutinn og skammast út í stjórnarmanninn og trúnaðarmennina og segja það allsendis óviðunandi að einstakir stjórnarmenn séu að kynna sér tillögur starfsmanna og senda forstjórann til að hafa áhrif á umræðurnar á fundi þessara aðila, sem auðvitað urður þvingaðri vegna nálægðar hans og þeirrar ógnununar sem troðningur hans inn á fundinn olli.

Allt ber þetta vott um nýja stjórnarhætti Jóns Gnarrs og félaga og ekki lofar þetta góðu um framhald þeirrar hræðslu- og ógnarstjórnar sem starfsmenn borgarinnar mega eiga von á í framtíðinni.


mbl.is Óviðeigandi nærvera forstjórans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindaráð treður á réttindum meirihlutans

Fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram tillögu um að fótum troða skoðanir meirihluta landsmanna, sem tilheyrir þjóðkirkjunni og öðrum kristnum trúfélögum og samkvæmt þessari dæmalausu tillögu skal úthýsa öllu, sem minnir á kristna trú úr leik- og grunnskólum borgarinnar.

Banna skal heimsóknir presta í leik- og grunnskóla, sem og allt samstarf við kirkjuna í sambandi við fermingarfræðslu og annað barna- og unglingastarf á vegum kristinna safnaða og einnig skal úthýsa öllu föndri og leikjum, sem byggjast á kristnu siðferði, sem grunnskipun þjóðfélagsins byggist þó alfarið á.

Allt er þetta gert í nafni einhvers jafnréttis, en pólitískur rétttrúnaður í þessu sambandi gengu þó allt of langt, þegar farið er að troða á rétti og skoðunum 95% þjóðarinnar til að þóknast hinum 5%, sem annaðhvort hafa lýst sig trúlausa, eða eru innflytjendur frá öðrum menningarheimi en þeim kristna. 

Þeir sem hingað flytja frá öðrum menningarsvæðum vita fullvel inn í hvers konar þjóðfélag þeir eru að flytja og því ætti að vera lágmarkskrafa að þeir aðlöguðu sig þeim siðum og venjum sem þar gilda, en geti ekki gert tilkall til þess að öllu þjóðfélaginu verði umbylt í nafni "fjölmenningar".

Þó við séum ekki öll trúuð að neinu marki, er þjóðfélagið byggt upp á kristilegri siðfræði og gildum og mesta rugl sem heyrst hefur, er að breyta skuli skólastarfi kringum jólin úr kristilegri umfjöllun í föndur og leiki kringum jólasveinana, eins og ein leikskólastýran sagði að gert yrði framvegis á hennar leikskóla.


mbl.is Gengur þvert á anda meirihlutasamstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband