Frábær frétt

Nú hefur Norðurál gengið frá samningum við erlenda banka um umsjón með fjármögnun á byggingu álversins í Helguvík.  Þetta er stórfrétt, á þessum síðustu og verstu tímum, og nánast sú fyrsta jákvæða, síðan hrunið mikla varð fyrir ellefu mánuðum.

Í stöðugleikasáttmálanum lofaði ríkisstjórnin að flækjast ekki fyrir slíkri uppbyggingu eftir 1. nóvember næstkomandi og er það afar athyglisvert, að aðilar atvinnulífsins skuli þurfa að pína slíkt skriflegt loforð út úr nokkurri ríkisstjórn.

Nú þarf að setja virkjanamál á fulla ferð til þess að anna orkuþörfinni fyrir álverið í Helguvík og síðan þarf að leggja áherslu á að ná samningum um nýtt álver á Bakka við Húsavík.  Verður að gera þá lágmarkskröfu til ríkisstjórnarinnar, að hún hætti að flækjast fyrir því máli.

Þjóðin þarf að fá meira af svona fréttum, því ekki munu koma neinar sérstakar gleðifréttir um framkvæmdagleði ríkisstjórninni á næstu mánuðum.

Þaðan munu aðeins berast fréttir af frekari skattpíningu einstaklinga og atvinnulífs.


mbl.is Samið um fjármögnun álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Sæll Axel.  Mikið rétt, þetta er frábær frétt!

Sigurjón, 11.9.2009 kl. 10:18

2 Smámynd: Hilmar Heiðar Eiríksson

Sammála þér Axel loks fer eitthvað á stað þrátt fyrir dugleysi stjórnvalda.

Hilmar Heiðar Eiríksson, 11.9.2009 kl. 10:20

3 identicon

Á ekki eftir að fá rafmagn til að bræða saman duftið? Er landsvirkjun búin að tryggja fjármagn til virkjana? Hvar á að virkja? Þarf ekki að virkja í neðri þjórsá? Hvað með ríkisstjórnarflokkinn VG? Líklega gefa þeir það ekki eftir þó allt annað hafi verið gefið eftir síðustu vikurnar.  Er nægur mengunarkvóti til í landinu? Á ekki að láta þessa aðila borga fyrir hann núna þegar við erum að verða uppiskroppa með útblásturskvóta? Frakklandsstjórn var að setja 70 milljarða mengunarskatt í gær.

Svo væri nú alveg til tilbreytingar í lagi að selja raforkuna þannig að eitthvað væri út úr henni að hafa. Virkjanirnar sem er fyrir löngu búið að afskrifa virðast ekki skila neinu.

Kárahnnjúkavirkjun, stærsta framkvæmd Íslandssögunnar er nú ekki meiri fjárfesting en svo að Landsvirkjun er svo gott sem gjaldþrota.

Það er enn mörgum spurningum ósvarað. Gera þetta almennilega í þetta skiptið til tilbreytingar.

joi (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:21

4 identicon

Frábærar fréttir og þá ekki sízt fyrir Suðurnesjamenn.  Það ríkir breið samstaða á landinu um þessar framkvæmdir og þær sárafáu raddir sem eru á móti eru þvöglumæltar og rökþrota.  Virkja þarf neðri Þjórsá ef til vill en það er minni skaði en margan grunar.  Frábært að lesa svona jákvæðar fréttir til tilbreytningar og til hamingju með þetta öll saman

Baldur (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:39

5 identicon

joi.

Landsvirkjun er ekki gjaldþrota þrátt fyrir að einhverjir flautaþyrlar hafi sagt það til að reyna að koma í veg fyrir að virkjað verði meira í landinu.

Og hvernig getur virkjun eins og Kárahnjúkar ekki skilað neinu af sér þegar greitt er fyrir orkuna þaðan í erlendri mynt?  Til fróðleiks fyrir þig, að miðað við núverandi gengi gjaldmiðla, þá verður búið að greiða Kárahnjúkavirkjunina upp á næstu 16 árum, en ekki 40 eins og gert var ráð fyrir í upphafi.  Hér er átt við afborganir og vexti.  Þetta er haft eftir ekki ómerkari manni en Stefáni Svavarssyni, sem er prófessor í endurskoðun og reikningsskilarétti.

Að loknum þessum 16 árum, þá rennur orkusalan mínus 3% rekstrarkostnaður virkjunarinnar, beint til Landsvirkjunar.

Einar Guðni Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 11:08

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Einar Guðni, þakka þér þetta góða svar til Jóa.  Þú varst á undan mér að svara honum og komst með betri upplýsingar en ég hafði yfir að ráða, þar sem ég hafði ekki séð, eða heyrt, þetta frá Stefáni Svavarssyni, en það er maður sem veit hvað hann segir.

Jói, þú segir líka:  "Svo væri nú alveg til tilbreytingar í lagi að selja raforkuna þannig að eitthvað væri út úr henni að hafa. Virkjanirnar sem er fyrir löngu búið að afskrifa virðast ekki skila neinu."

Þetta eru náttúrlega þvílík öfugmæli, því raforkan hefur einmitt verið að skila gulli í kassann, að ekki sé talað um virkjanirnar sem fyrir löngu er búið að afskrifa.  Þær skila af sér skýra gulli áratugum saman.

Axel Jóhann Axelsson, 11.9.2009 kl. 11:16

7 identicon

Góð svör Einar og Axel.

Hver hugsandi maður veit það að umhverfisverndarsinnar hagræða sannleikanum i baráttu sinni, enda hafa þeir engin rök gegn þessu.  Sammála þér með Álver á Bakka, ömurlegt að sjá skíthátt ríkisstjórnar í því máli.  Við þurfum á þeim framkvæmdum að halda!

Baldur (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 11:24

8 Smámynd: Gerður Pálma

Ótrúlegt að lesa hverju ánægjulegt ykkur, þessum annars frábæru einstaklingum, finnst að grafa eigin gröf. 

Álverið í Helguvík er piss í nokkur pör af skóm í mjög stuttan tíma, síðan kemur lyktin og óþverrinn.  Álvinnsla þýðir eyðilegging mun stærri tækifæra sem myndu skila margföldum hreinum tekjum í þjóðarbúið.

Gerður Pálma, 11.9.2009 kl. 11:32

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gerður, frábært að fá athugasemd frá þér, þó við séum ekki sammála.

Við erum búin að bíða áratugum saman eftir þessu "öðru", sem á að skila gífurlegum tekjum í þjóðarbúið.  Að sjálfsögðu eigum við að fagna öllu "öðru" en álverum líka, um leið og einhver vill setja upp "annað" sem skilar atvinnu og tekjum í þjóðarbúið.

Axel Jóhann Axelsson, 11.9.2009 kl. 11:47

10 identicon

Gerður Pálma,

Gott að heyra hjá þér.  Værirðu til í að koma með einhverjar hugmyndir hjá varðandi þetta sem þú nefndir?

Hins vegar verðum við að hafa í huga, að við eigum einungis tvennar náttúruauðlindir; orku og fiskinn í sjónum.  Með þessum tveimur náttúruauðlindum, auk þess mannauð sem er hér á landi, er einungis hægt að skapa hér verðmæti.

Sammála Baldri.  Ríkisstjórnin hefur viljandi tafið fyrir framkvæmdum á Bakka og það er trú mín að núverandi stjórnvöld hafa engan áhuga á því að byggja þar upp atvinnustarfsemi af neinu tagi, enda eru ekki mörg atkvæði að sækja þangað fyrir stjórnarflokkana.

Einar Guðni Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 11:53

11 identicon

Hvar er allur hagnaðurinn af þessum virkjunum sem eru búnar að borga sig upp fyrir löngu? Af hverju er eigið fjár hlutfall Landsvirkjunar komið niður að hættumörkum ef hagnaðurinn af þessum virkjunum er svona rosalegur? Sigalda, Blanda og hvað þessar virkjanir allar heita voru byggðar fyrir tugum ára síðan og ættu fyrir löngu að vera búnar að borga sig upp og þar með að skila hagnað á hagnað ofan í kassann. Ekki er það að sjá á rekstarreikningum Landsvirkjunar að þeir peningar séu að skila sér.

Það talaði enginn um að Landsvirkun væri gjaldþrota, enda er hún með ríkisábyrgð og skuldum yrði að sjálfsögðu velt yfir á almenning í landinu svo hún gæti starfað áfram.

Ef greitt er fyrir orku Kárahnjúkavirkjunar ætti það að hafa gríðarlega jákvæð áhrif á rekstur Landsvirkjunar þar sem gengi erlendra miðla hefur verið í hæstu hæðum síðustu 24 mánuðina.

Tap landsvirkjunar 2008 var 345 milljón bandaríkjadalir. Það eru einhverjir 40 milljarðar. Ekki er nú hægt að segja að tekjur í erlendri mynt séu að skila sér í kassann? Ef tekjur af orkusölu að 16 árum liðnum rennur beint í vasa Landsvirkjunar, mínus 3% rekstrarkostnaðar, þá ætti Landsvirkjun að vera að græða mikla peninga, en ekki tapa þar sem flestar virkjanir eru orðnar meira en 16 ára gamlar. Hvernig stendur þá á öllu þessu tapi.

Hvaða gull er það sem raforkan hefur verið að skila í kassann? Hugsanlega hafa menn verið nokkuð sáttir við að geta skapað atvinnu á sínum tíma þegar álverið í straumsvík var byggt. Í dag eru aðrir tímar. Orka er að verða verðmætari. Orka sem mengar lítið enn verðmætari. Mengunarkvóti gengur á kaupum og sölu á háum fjárhæðum. Ríkið virðist ekkert vera að spá í þessum hlutum.

Ekki er ég alfarið á móti virkjunum. Heldur ekki stóriðju. Menn sem trúa á þetta sem einhverja patent lausn er hins vegar hópur fólks sem lifir í fortíðinni. Það eru aðrir möguleikar. Síðan verða menn líka að skoða hvaða áhrif þessi áliðnaður og virkjanastarfsemi hefur á aðra atvinnustarfsemi í landinu. Hvað ef t.d. ferðaþjónustan hefði fengið þó ekki hefði verið nema brotabrot af því lánsfé með þeim ríkisábyrgðum sem Landsvirkjun hefur fengið til að markaðssetja ísland og byggja upp? Eru ekki líkur á að þá væri enn meiri aukning í straumi ferðamanna til landsins? Það eru margar hliðar á þessu. Svona delar sem eru sífellt með einhverjar upphrópanir, menn eins og Einar Guðni og kverúlantar á hans bylgjulengd hafa ekki mikla vikt í svona umræðum. Þeirra málflutningur er of einhliða.

joi (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:42

12 identicon

Jói hvar getur maður nálgast þessa greiningu eftir Stefán Svavarsson.

Svo er hitt ég hélt að lánin til Kárahnjúkavirkjunar væru í erlendri mynt, og ef svo er þá breytast forsendur fyrir uppgreyðslu þessara lána ekkert við gengisfall Íslensku krónunar.

Aftur á móti hefur álverð allt með það að gera.

Með kveðju

Arthur

Arthur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:42

13 identicon

Arthur, grein Stefáns Svavarssonar var í Mogganum nú í vor.  Þar var ítarleg úttekt á þessu hjá honum.

Einar Guðni Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 14:28

14 Smámynd: Gerður Pálma

Axel minn og Einar Guðni.
Ísland sjálft og fólkið sem býr þar er hráefnið sem við eigum, ásamt orkunni að sjálfsögðu.  Ísland er náttúruundur sem milljónir manna vilja heimsækja.  En við erum ekki að undirbúa neitt til þess að taka við þessum hóp.
Það kallar á hótel og þjónustu... verið er að byggja hótel sem flest því miður gætu þessvegna verið staðsett hvar sem er í Evrópu, engin pæling í að gera algjörlega sérstakt ÍSLENSKT fyrirbæri sem dregur fólk frekar hingað en þangað.
Klakahallirnar sem Finnar hafa byggt upp dregur fólk um allan heim að...
ÍSLAND sjálft hefur meira aðdráttarafl en Klakahallirnar í Finnlandi, en það verður að skapa ÆVINTYRA viðverustaði líka, þar liggja atvinnutækifærin.
Eldfjallagarðar á Reykjanesi eru meiri tekjulind en álver í Helguvík.  
Örast vaxandi ferðamennska er í hópi fólks sem er forvitið um náttúru og leitar á ´hreinar´slóðir.  Þessi sami markhópur leitar að ´dekri´í hótelaðbúnaði og ´entertainment´ 
Vestmannaeyjar er gullmoli í ferðaiðnaði, hvar eru ævintýrin
Við eigum enn ekki til eitt ´barnvænt´ævintýraland sem byggist á vatninu okkar, heitt vatn í myrkri og snjókomu...algjört ævintýri..
Við viljum gráa myglu sem drepur ævintýrin sem heilla.
Það þarf fjármagn til þess að byggja upp áhugaverða hluti. 
Með blinda ráðamenn vegna hræðslu við framtíðina og snarblinda græðgissjúka eiginhagsmunapotara hinum megin eyðileggjum við tækifærin og mölum yfir gullið.
Við virðumst sjá ferðamennsku eingöngu andlit í rútum og ferðamenn með bakpoka, í stað þess að sjá ´uppselt´ á skipulagðar ferðir og ævintýri.
Við eigum gull í mannskapnum á Íslandi, þar leynist enginn smá kraftur og ótrúleg seigla. 
Meðan á platsveiflan var í gangi var engu fjármagni varið í uppbyggingu atvinnuveganna, því þar þurfti þolinmótt fjármagn og peningarnir voru ekki til í rauninni, fyrir ´uppganginn´ var ekki (ekki enn) skilningur fyrir þörfinni til uppbyggingar undirstöðu atvinnulífs þjóðfélagsins. 
Það hafa margar hugmyndir komið upp, en það þarf aðhlúun og stuðning ráðamanna landins til þess að koma ´gróðrinum´ upp. 
Löngu fyrir Kárahnjúka kom upp tillaga um að byggja upp ´GEIMSTÖÐVAR´hótel inni í óbyggðunum fyrir austan, koma upp alþjóðaflugvelli á Egilsstöðum til þess að þjóna þessu hóteli sem og ferðamannastraumi sem kæmi í kjölfarið..
Það var mikið hlegið að þessu..og flett yfir á næsta brandara.
Það voru feðgar sem leituðu til Iðnaðarráðuneytissins með ´ISVATN´ (man ekki alveg hvað það hét) mjög FLOTT glas og umbúðir, annað hláturskast í Iðnaðarbankanum.
Við seldum ullarflíkur í fyrir nokkrar milljónir, þurfum að leggja inn pantanirnar til þess að fá fyrirgreiðslu til framleiðslu, bankamaðurinn fór á bridgemót, datt í það í nokkrar vikur (túramaður) og pantanirnar týndust, engin afgreiðsla.
Það er heilmikið að gerast núna í nýverkefnum sem við vitum lítið um, mjög mörg ef ekki flest stranda á ótrúlega skrýtnum skerjum. 
Þessar AÐRAR lausnir fá ekki heyrn, ekki athygli fjölmiðla og ekki tækifæri til þess að opna tækifæri fyrir aðra í leiðinni.
Ef þið hafið ekki kynnt ykkur Hugmyndaráðuneytið og þau verkefni sem þar eru kynnt þá er þar af nógu að taka sem myndi fleyta Íslandi yfir á velferðarstandard ef tækifærin eru nýtt.
Menntun er 3ja stærsta útfluningsgrein Ástrala,
Ísland er skjól í hröðum heimi og þar eigum við tækifæri, skóli eins og BIFRÖST ætti að geta laðað til okkar stóran hóp erlendra nema. 
Með því að byggja upp alþjóða menntun hér á landi byggjum við sömuleiðis tengsl við menntastettir annarra landa sem skilar sér í flestum greinum ferðaiðnaðar.
... þetta er bara smá spjall... 
Við erum núna að selja HOT ICELAND ferðir á Hveravelli um jól og áramót.
Skoðið til gamans hótel aðstöðuna þar, segir margt um á hvaða stigi við erum, sem að sama skapi segir að til eru tækifæri.. 

Gerður Pálma, 12.9.2009 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband