Skemmdarverk á lífeyriskerfinu

Skattabrjálæði Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar tekur á sig ýmsar og ótrúlegar myndir og þó af nógu sé að taka í þeim efnum, er líklega skammsýnasta og versta tillagan af þeim öllum að ætla að skerða séreignalífeyrissparnaðinn um 50% í þeim eina tilgangi að ná fram duldri skattahækkun á almenning.

Fram til þessa hafa launþegar haft leyfi til að leggja 4% af tekjum sínum í séreignarlífeyrissjóð og þá fengið 2% framlag á móti frá atvinnurekanda og ekki þurft að greiða skatt af þessum sparnaði fyrr en hann er nýttur til framfærslu, eða hvers sem er, eftir að launþeginn verður sextugur að aldri.

Nú á að skera þennan besta sparnað sem í boði er niður um helming í þeim eina tilgangi að reyna að leyna skattahækkun á almenna launþega í landinu.

Fulltrúar atvinnulífsins, launþegar og raunar allt þjóðfélagið hlýtur að mótmæla þessari aðför að besta sparnaðarformi landsmanna.


mbl.is „Mjög skammsýnisleg ráðstöfun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða flokkur lagði fram eftirfarandi tillögur? Vísbending, Tryggvi Þór Herbertsson er í þessum flokk.

138. löggjafarþing 2009–2010.

Þskj. 3 — 3. mál.

"Flutningsmenn tillögunnar hafa því bent á

aðrar leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs. Bent hefur verið á þann möguleika að skattleggja

inngreiðslur í lífeyrissjóðakerfið í stað útgreiðslna eins og nú er. Tekjur ríkissjóðs aukast um

á bilinu 30–40 milljarða kr. á ári við þessa aðgerð sem er um helmingur fyrirhugaðrar bættrar

afkomu ríkissjóðs."

Sjá: http://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/0003.pdf

Jonas kr (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 21:41

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ef þú heldur að þetta sé eitthvað sambærilegt við það að eyðileggja til hálfs möguleika fólks á að leggja í séreignarsjóð til elliáranna, þá vantar mikið upp á skilning þinn á þessu máli. Það er allt annar handleggur að skattleggja inngreiðslurnar og hafa svo útgreiðslurnar skattfrjálsar en að koma í veg fyrir að fólk geti lagt inn í sjóðina, nema verða þá tvískattað, þ.e. fyrst við inngreiðsluna og síðan aftur þegar farið verður að taka út lífeyrinn.

Athugasemdin er svo fáránleg að því verður varla trúað að hún sé sett fram í alvöru.

Axel Jóhann Axelsson, 5.12.2011 kl. 21:48

3 identicon

"Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lagðar verða fram ýmsar breytingar á lögunum, m.a. í

tengslum við tekjuöflunargerðir ríkisstjórnarinnar. Má þar nefna að heimilaður frádráttur frá

tekjum vegna greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar verður lækkaður úr 4% í 2%. Þá verður

gildistími auðlegðarskatts framlengdur út árið 2015 og frá og með álagninu 2012 verður

hann lagður á í tveimur þrepum. Loks verða fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns hækkuð um

3,5% í upphafi tekjuársins 2012 í stað hækkunar miðað við launavísitölu eins og lögin gera

ráð fyrir að óbreyttu."

Sjá: http://www.althingi.is/altext/140/s/pdf/0001.pdf

og : http://www.althingi.is/lagas/139a/2003090.html

Hvar stendur að það eigi að greiða tekjuskatt af útgreiðslum? Væntanlega verður greiddar fjármagnstekjuskattur af virðisaukanum.

Jonas kr (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 22:42

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jónas, veistu virkilega nákvæmlega ekki neitt um hvað þú er að tala? Síðasta setningin í athugasemd nr. 3 sýnir að þú veist a.m.k. ekkert um lífeyrissjóðsgreiðslur eða skattlagningu þeirra. Eins virðist þú alls ekki skilja hvað felst í þessari setningu: "Má þar nefna að heimilaður frádráttur frá tekjum vegna greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar verður lækkaður úr 4% í 2%."

Þú ættir að fá einhvern til að útskýra þessi mál fyrir þér áður en þú lætur ljós þitt skína um þau aftur.

Axel Jóhann Axelsson, 5.12.2011 kl. 22:49

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Lífeyrir, hvort sem hann er örorkulífeyrir, ellilífeyrir eða þá sá lífeyrir sem einstaklingur safnar sér á starfsævinni í gegnum sinn lífeyrissjóð, er skattlagður sem laun, þ.e. tekinn af honum tekjuskattur. Gildir þar einu, hvort um sé að ræða, þennan hefðbundna eða séreignar eða viðbótar.

Núna eru skattskyld laun reiknuð út frá heildarlaunum mínus sú upphæð sem dregin er af heildarlaununum í lífeyri. Því skattur af lífeyrinum á að greiða við útgreiðslu hans.

Ef að ég man rétt, þá er hefðbundið framlag launamanns í lífeyrissjóð 4% af heildartekjum.  Sé launamaður með 200.000 kr. í tekjur, eru 8.000 kr. dregnar af laununum , sem framlaga í lífeyrissjóð og skattskyld verða eru 192.000 kr.

Kristinn Karl Brynjarsson, 5.12.2011 kl. 23:32

6 identicon

Greiddur er almennur tekjuskattur af viðbótarlífeyrissparnaði við útgreiðslu, með sama hætti og af öðrum lífeyri. Þetta er vegna þess að framlag til viðbótarlífeyrissparnaðar er frádráttarbært frá skatti. (stolið af vef Landsbankans).

Ég held að ég skilji lífeyriskerfið alveg sæmilega. Hvar í tillögum Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar er talað um tvísköttun? Hvaðan hefur þú það að greiðslur launamanns umfram 2% verði skattlagðar sem tekjur við útgreiðslu, en ekki sem sparnaður?

Hver er skillingur þinn á tillögum Sjálfstæðismanna? frá 2009? Átti engann skatt að greiða við útgreiðslu, eða kannski fjármagnstekjuskatt?

Jonas kr (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 23:37

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Í tillögum Sjálfstæðisflokksins fólst að skattleggja inngreiðslurnar, en ekki útgreiðslurnar.  Enda voru þeir sakaðir um að ..eyða" framtíðartekjum ríkissjóðs, með þessari tillögu.   Hafi staðið til að tvískatta, þá hefðu nú varla þessar ásakanir varðandi framtíðartekurnar komið fram.

Kristinn Karl Brynjarsson, 5.12.2011 kl. 23:47

8 identicon

Steingrímur er iðinn við sitt en það eru fleirri sem eru einnig aðrir sem rugla í hlutunum.  Verkalýðshreyfingin og samtök atvinnulífsins eru stjórnendur lífeyriskerfisins og eru að velta yfir 10 milljörðum á ári.  Það eina sem heyrist frá þeim er gjammið í forkólfunum ef einhver leyfir sér að gagnrýna lífeyrissjóðina eða þá sjálfa.  ASÍ og VSÍ sem hafa t.d. verið á móti því að skattur sé tekinn strax af lífeyrissjóðsgreiðslum en ekki eftir á og segja m.a. að lífeyrissjóðirnir hafi þá ekki eins mikið fjármagn til að stunda þær fjárfestingar sem þeir gera til að ávaxta peningana og það muni koma niður á lífeyrisgreiðslum í framtíðinni.En það er lítið rætt um hvað mundi sparast ef lífeyrissjóðirnir yrðu sameinaðir.  Í þessu litla 300þús manna þjóðfélagi eru í dag 33 lífeyrissjóðir sem taka við iðgjaldi.  Til hvers í ósköpunum að reka alla þessa sjóði sem gera nánast það sama?  Þetta er furðulegt miðað við vinsældir sameininga og hægræðinga á mörgum öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Þetta er reyndar óskiljanlegt og skilur þetta engin nema hagsmunaklíkur sjóðanna.

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna árið 2009 var rúmlega 3,3 milljarðar (3.300.000.000 kr.) á ári, sem jafngildir iðgjöldum um 11.400 einstaklinga með 200.000 kr. í laun á mánuði.  erlend fjárfestingagjöld eru tekin með í reikninginn má áætla að kostnaður við rekstur sjóðanna gæti verið um 4 milljarðar (4.000.000.000 kr.) á ári.Hvað ætli sparist mikið ef hér á landi væri bara einn lífeyrissjóður en ekki 33?   Væru skerðingarnar á lífeyrisgreiðslunum s.l. 2-3 ár eins miklar ef rekstrarkostnaðurinn væri 6-8 sinnum minni en hann er í dag?

Jóhannes (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 01:30

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jonas, þar sem allar útgreiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar liggur algerlega í augum uppi að þeir sem halda áfram að greiða 4% í séreignarsjóð munu verða tvískattaðir vegna helmings inngreiðslna sinna.

Þetta er svo augljóst að ekki ætti að þarfnast nánari útskýringa.

Axel Jóhann Axelsson, 6.12.2011 kl. 11:47

10 Smámynd: Jón Óskarsson

Ég veit ekki hvaðan Jónas og sumir aðrir hafa þá "draumsýn" að fjármagnstekjuskattur verði greiddur af "virðisaukanum í ellilífeyri".   Hingað til hafa engar tillögur komið fram um slíkt, né slíkt komist í framkvæmd.

Aðferðin sem tillagan 2009 gekk út var að skattleggja inngreiðsluna sjálfa.  Útfærslan átti ekki að vera sú að þetta væri íþyngjandi aðgerð fyrir launþega heldur lækkaði greiðslan til sjóðanna einungis sem næmi skattinum. 

Steingrímur Joð var fljótur að eyðileggja þennan skattstofn með því að setja á 3 þrepa skattkerfi og þannig gera þetta nánast ómögulegt vegna flækjustigs.   En við því má hæglega bregðast, enda ekki réttlátt að mismunandi skattur sé af lífeyri.

Það hefur lengi verið hins vegar baráttumál félags eldri borgara að við töku lífeyris á efri árum væri einungis greiddur fjármagnstekjuskattur af honum og þá eingöngu af þeim hluta sem annars vegar ekki hefur verið greiddur af skattur áður sem og af ávöxtun fjármunanna.   Ég er þessu mjög fylgjandi.

Gallinn við okkar kerfi (eins og allt annað í skattamálum) er að það er búið að hringla með þetta kerfi.   Lengi vel var greiddur skattur af öllum launum þar með talið frádrættinum í lífeyrissjóð.   Ég man ekki nákvæmlega hvenær farið var að draga frá 4% greiðslu í lífeyrissjóðinn af skattskyldum tekjum og ef mig misminnir ekki þá kom þessi frádráttarheimild í nokkrum áföngum (2%, 3%, 4% og svo mismiklar heimildir vegna séreignarlífeyrissjóðs til viðbótar þar til samanlagt 8% var náð.  Nú ætlar Steingrímur að bakka með þetta og skattleggja 2% af séreignarsjóði við útborgun launa og þar með að lækka útborgun manna verulega.

Eina ráð launþega er að hætta að láta taka af sér meira en 2% í séreignarsjóð og það ætlast ríkisvaldi til.

Hugmyndin frá 2009 var að eldri borgarar þyrftu ekki að greiða tekjuskatt af útborgun lífeyris.

Vegna flækjustigsins sem er í þetta kerfi komið þá á málið komið í hnút.  Búið er að greiða skatt af sumum inngreiðslum lífeyrissjóða, öðrum ekki.  

Að mínu mati væri hið eina réttláta kerfi þannig:

1. Heimild væri til frádráttar upp að 8% áður en staðgreiðsla skatta er reiknuð. (eins og verið hefur síðasta áratug).

2. Greiddur væri tekjuskattur og útsvar af inngreiðslu í lífeyrissjóð sem lífeyrissjóðirnir sjálfir sæju um að skila.   Þarna væri flöt prósenta á alla landsmenn þannig að allir sætu við sama borð.

3. Við útborgun lífeyris sé greiddur fjármagnstekjuskattur af ávöxtunarhluta hans, (sambærilegt við sölu á verðbréfum), en enginn skattur af grunnlífeyrishlutanum.

4. Með þessu kerfi þá væri örorkulífeyrir sem frá lífeyrissjóðum kemur einnig skattfrjáls, að því leyti sem hann er ekki greiddur af ávöxtun.

Ég er þeirrar skoðunar að hvorki eigi að skattleggja eldri borgara eins og launþega né eigi þeir að greiða hinn svokallaða auðlegðarskatt.  Jafnfram að hætta öllum skerðingum sem stafa af fjármagnstekjum fólks á ellilífeyrisaldri.  

Að sjálfsögðu þyrfti að koma í veg fyrir svindl í þessu kerfi og það er afar einfalt í framkvæmd.

Auðlegðarskatturinn á eldri borgara er hreinasta svívirða.   Hvers að eftirlifandi maki að gjalda þegar maki fellur frá og viðkomandi hafa verið ráðdeildarsöm um ævina.

Jón Óskarsson, 6.12.2011 kl. 18:32

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón, í raun má um það deila hvort inngreiðslur í lífeyrissjóði hafi nokkurn tíma verið skattlagðar, því við upptöku staðgreiðsluskatts var persónuafslátturinn hugsaður sem einn heildarafsláttur sem innifæli lífeyrissjóðsgreiðslurnar og allan annan frádrátt sem var í gamla skattkerfinu. Persónuafslátturinn átti að vera verðtryggður og hækka tvisvar á ári í takt við hækkun verðlags.

Tiltölulega fljótlega var síðan farið að fikta með persónuafsláttinn og hann aftengdur við vísitöluna og í stað þeirrar hækkunar sem hefði átt að koma á persónuafsláttinn var farið að veita "viðbótarafslátt" vegna frádráttarins í lífeyrissjóði og var það tekið upp í þrem skrefum, eins og þú sagðir réttilega.

Alla tíð síðan hefur þetta tímabil, þar sem lífeyrissjóðsgreiðslurnar voru ekki dregnar frá sérstaklega en voru innifaldar í heildarafslættinum, verið deiluefni en þetta voru þó ekki nema fáein ár og skipta svosem ekki sköpum á heilli mannsævi.

Eins og þú bendir réttilega á, þá er búið að eyðileggja skattkerfið sem var upphaflega einfalt, auðskilið og réttlátt. Alveg hefur svo keyrt um þverbak með skattabrjálæði Steingríms J. og nú er flækjustigið orðið svo mikið í kerfinu að almenningur getur engan veginn skilið upp eða niður í því, eða hvernig bætur skerðast vegna tekna og eigna.

Þegar landið losnar við þessa ríkisstjórn og ný tekur við, þarf fyrsta verk hennar að vera að stokka allt skattkerfið upp á ný og einfalda það og gera það skilvirkt og auðskilið, eins og var við upptöku staðgreiðslukerfisins.

Axel Jóhann Axelsson, 6.12.2011 kl. 23:34

12 Smámynd: Jón Óskarsson

Það er líka fróðlegt að rifja það upp að fyrsta ríkisstjórnin sem rústaði góðum fyrirætlunum um persónuafsláttinn var einmitt með Steingrím jarðfræðing innanborðs..

Jón Óskarsson, 8.12.2011 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband