Erlendar skuldir óreiðumanna

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde bjargaði því sem bjargað varð í íslensku efnahagslífi við bankahrunið og með því að láta gömlu bankana fara sína leið, voru óábyrgar erlendar fjármálastofnanir látnar taka á sig yfir sjöþúsundmilljarða króna tap, í stað þess að velta þeirri upphæð yfir á skattgreiðendur, eins og Írar gerðu og ESB er nú að neyða Grikki til að gera.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert þrjár tilraunir til þess að koma erlendum skuldum óreiðumanna í gamla Landsbankanum yfir á íslenskan almenning, sem í tvígang harðneitaði í þjóðaratkvæðagreiðslum að taka á sig slíkar óreiðuskuldir fjárglæframanna. Steingrímur J. hefur þó lýst því yfir að hann sé ekki ennþá búinn að gefast upp í því máli og hefur einsett sér að koma a.m.k. einhverjum milljarðatugum yfir á herðar kjósendanna, sem hann hefur hugsað þegjandi þörfina frá því þeir niðurlægðu hann á þennan hátt í tvígang.

Í hefndaræði sínu gagnvart pólitískum andstæðingum, beittu Vinstri grænir sér fyrir því að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins, en reyndar eru tvær grímur farnar að renna á þá ólánsþingmenn sem greiddu atkvæði með þeim ótrúlega gjörningi.  Meira að segja Steingrímur J. virðist vera kominn með einhvern vott af samviskubiti, því nú lætur hann hafa það eftir sér á AFP fréttaveitunni að enginn haldi því fram að Geir hafi getað komið í veg fyrir bankahrunið. Hins vegar hafi hann getað brugðist betur við til að draga úr áhrifum þess.  Aldrei hefur Steingrímur þó bent á hvernig hefði átt að bregðast við á annan hátt en gert var.

Í viðtali við fréttaveitu AFP er t.d. eftirfarandi haft eftir Geir H. Haarde: "Bankahrun varð víða um allan heim. En af hverju var enginn annar stjórnmálaleiðtogi dreginn fyrir dóm?"  "Svarið er að engum hefur svo mikið sem dottið slíkt í hug því bankahrunið var ekki verk einstakra pólitískra leiðtoga."

Á þetta sama hefur verið bent margoft undanfarin ár á þessu bloggi.  Alls staðar annarsstaðar en á Íslandi er viðurkennt að bankahrunið í heiminum hafi verið á ábyrgð fjárglæframanna og hér á landi varð hrunið meira en sums staðar annarsstaðar vegna þess að fjárglæframennirnir íslensku voru stórtækari í gerðum sínum en flestir aðrir og rökuðu nánast öllu eingin fé þeirra fyrirtækja, sem þeir komust yfir, í eigin vasa.

Á þetta benti Rannsóknarnefnd Alþingis og væntanlega mun það staðfestast enn frekar, þegar rannsóknum Sérstaks saksóknara lýkur. 


mbl.is „Þetta er pólitískur farsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Axel, Það getur verið að þeir hafi bjargað því sem bjargað varð, en það var ansi seint í rassinn gripið þegar allt var komið á hvínandi kúpuna vegna aumingjaskapar sömu ríkisstjórnar og algjörs vanmáttar til þess að taka á bönkunum.  Ríkið var ekkert annað en smáútibú frá bönkunum sem réðu öllu á Íslandi.  Mín skoðun er sú að ALLIR sem sátu í ríkisstjórn Geirs OG allir þeir sem sátu á þingi 2006-2008 hefðu átt að vera ákærðir fyrir landráð.  Aumingjaskapurinn var algjör.  Ekkert var gert af viti til þess að stemma stigu við bankaglæpunum þó svo að það væru sterkar vísbendingar strax 2006 að þessi fyrirtæki voru ekki rekin á neinn eðlilegan hátt.  Bankarnir voru allir gjaldþrota síðla árs 2007 en ríkisstjórnin og eftirlitsstofnanir, FME og Seðlabankinn gerðu ekkert til þess að bregðast við vandanum.  Ríkisstjórnir bara hummaði og fór í herferð til þess að hjálpa upp á ímyndarvanda bankanna!  EF Lehman Brothers bankinn hefði ekki farið á hausinn í september 2008 og stoppað þar með mikið til flæði á fjármagni og Fannie Mae og Freddie Mac hefðu ekki nánast farið á hausinn sumarið 2008, þá er líklegt að íslensku glæpamennirnir hefðu getað rekið ponze félögin sín í ár eða jafnvel meira til viðbótar og sópað inn skuldum og á endanum sett allt á Íslandi á hausinn.  En ekkert var gert.  Og sparigrísirnir eru nú komnir á fulla ferð aftur til að byggja upp nýtt hrun með dyggri aðstoð VG sem fylgja vel og dyggilega í fótspor Sjálfstæðisflokksins - það er sami rassinn undir öllu þessu liði.  Ætli einhver annar taki eitthvað öðru vísi á þein?  Það finnst mér afskaplega ólíklegt enda spillingin á Íslandi með ólíkindum!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 3.7.2011 kl. 16:38

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Arnór, þín greining á málunum passar ekki almennilega við niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis. Ég hallast helst að því að meira sé að marka nefndina, enda rannsakaði hún þessi mál öll ofan í kjölinn í tæp tvö ár og komst ekki að þeirri niðurstöðu að ákæra bæri nokkurn einasta stjórnmálamann vegna þessara mála.

Mörgum atriðum vísaði hún til Sérstaks saksóknara og öll tengdust þau banka- og útrásargengjunum. Vonandi nær réttlætið fram að ganga áður en yfir lýkur, gagnvart þeim sem það eiga skilið.

Axel Jóhann Axelsson, 3.7.2011 kl. 17:54

3 identicon

Ef að bankarnir hefðu fallið 2007 að þá hefði það alfarið verið á íslensku þjóðina. Í því samhengi væri IceSave aðeins klink og ísland hefði í raun fallið í heild.

Þegar þeir féllu svo á endanum var það í miðju alþjóðlegs hruns sem gerði okkur kleyft að láta fleiri en okkur sjálf taka fallið.

Óskar G (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband