Fróðlegur fundur um Icesave

VÍB hélt afar fróðlegan fund um Icesave III, þar sem erindi fluttu þeir Jón Bjarki Bentsson, frá Greiningu Íslandsbanka, og Lárus Blöndal hrl., sem var í samninganefndinni um Icesave III, og fóru þeir yfir málið hvor frá sinni hlið, þ.e. Jón Bjarki skýrði kosti og galla þess að samþykkja lögin um Icesave, eða hafna, og Lárus útskýrði samninginn sjálfa, samningsferlið og áhætturnar sem fælust í því að hafna lögunum og hvað gæti gerst tapaðist mál fyrir EFTAdómstólsins í framhaldinu.

Frummælendur mæltu ekki fyrir því sérstaklega að samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslunni, heldur skýrðu málið mjög vel út frá báðum hliðum og hvaða kostir væru hugsanlegir í stöunni, eftir því hvernig málið færi þar.

Fyrir eindreginn andstæðing Icesave frá upphafi skýrðust ýmis mál á þessum fundi og það sem stendur uppúr eftir þessa kynningu er, hvílíkan glæp gegn þjóðinni var reynt að fremja með Icesave II, að ekki sé minnst á upphaflega Svavarssamninginn, Icesave I, sem engin orð ná að lýsa hvernig farið hefði með þjóðarbúið, sem aldrei hefði getað staðið undir honum.

Ríkisstjórnin, Svavar Gestsson og aðrir sem reyndu að þröngva Icesave I óséðum i gegnum þingið, ásamt þeim þingmönnum sem studdu málið á sínum tíma, skulda þjóðinni afsökunarbeiðni og ef snefill af sjálfsvirðingu er eftir í hugum þessa fólks, myndi það draga sig út úr allri opinberri þjónustu umsvifalaust og láta lítið á sér bera á næstu árum.

Hvað sem annars er um málið að segja, þá er í raun og veru verið að fjalla um alls óskylda hluti núna eða þá var.


mbl.is Húsfyllir á opnum fundi um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Axel. Þar sem þú hefur staðið réttilega að því að blogga um Icesave og ekki verið að taka þátt í þessu áróðursbulli, langar mig til að spyrja þig, finnst þér rétt að samþykkja þann samning sem liggur fyrir?

Geir (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 22:03

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég hef verið alveg eindreginn andstæðingur þess að greiða þessar ólögvörðu kröfur, enda hefðu "samningarnir" nr. I og II haft svo skelfilegar afleiðingar fyrir þjóðina að hún hefði aldrei borið þess barr og í raun hefði Ísland ekki verið sjálfstætt ríki lengur, hefði tekist að svíkja þá gjörninga inn á skattgreiðendur.

Nýjasti samningurinn er gjörólíkur þeim fyrri og miklu viðráðanlegri fjárhagslega, en eftir sem áður stendu sú staðreynd að krafan á sér enga lagastoð og því undrast maður hræðsluna við dómstólaleiðina, þar sem allir viðurkenna núorðið að lög eða tilskipanir ESB nánast banni ríkisábyrgðir á tryggingasjóðina. Miðað við álit allra sérfræðinga og ráðamanna ESB skil ég ekki hræðsluna við að fara með málið fyrir dómstóla, því borðliggjandi hlýtur að vera, að málið vinnist þar.

Svo þarf að velta fyrir sér þeim rökum Lárusar Blöndal o.fl., í þá veru að best sé að ljúka ágreiningsmálum með samningum og sé það vilji manna, þá verði hagstæðari samningi ekki náð um Icesave.

Einnig þarf afð velta fyrir sér fordæminu sem samþykkt laganna yrði gagnvart bönkum í framtíðinni, ekki síst íslenskum bönkum í eigu útlendinga, eins og raunin er nú með stóran hluta bankakerfisins.

Öllu þessu veltir maður fyrir sér og mun gera næstu daga og vikur, en niðurstaðan er a.m.k. ennþá neikvæð gagnvart samþykkt.

Axel Jóhann Axelsson, 2.3.2011 kl. 22:22

3 identicon

Takk fyrir fróðlegan pistil og greinargóð svör....................

thin (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 22:28

4 identicon

Ps.  Þú mættir gjarnana deila með okkur niðurstöðum þínum og af hverju þú  fékkst hana. Menn eru í svipuðum sporum og þú að vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og síst efir lestur á hinum ýmsu bloggum þar sem öfgvamenn sem eru bæði með og á móti, ríða húsum.

Takk fyrir

thin (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 22:41

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er skuggalega ógæfulegt í eyrum aðgætinna að heyra Bjarna Ben. jr. orða hlutina svona: "Ég hef ekki verið fylgjandi því að við göngum í ESB ..." eða: "Ég hef ekki talið, að það sé í þágu okkar hagsmuna ..." o.s.frv." – Næstum því eins ógæfulega lízt mér á þetta orðalag þitt, Axel Jóhann: "Ég hef verið alveg eindreginn andstæðingur þess að greiða þessar ólögvörðu kröfur ..."

Ég veit, að þú stendur á því fastar en fótunum, að krafan er ólögvarin, enda er það alveg rétt hjá þér. Þú sérð líka hættulegar afleiðingar þess að skapa hér fordæmi að gefast upp fyrir hinum ólögmætu kröfum. Og niðurstaða þín er "a.m.k. ennþá neikvæð gagnvart samþykkt."

En Lárus Blöndal er farinn að veikja varnir þinar. Það er ógæfulegt, ekki sízt með hliðsjón af því, að hann talar einhæft um málið og þegir um vissar staðreyndir (sjá vef minn). Þar að auki veit hann minna um eignasafn Landsbankans gamla en brezk endurskoðunarskrifstofa!

Af hverju höfnuðu Bretar 48 milljarða kr. eingreiðslu? Þeir höfðu kannski aðgang að þeirri brezku endurskoðunarskrifstofu, sem ein fekk aðgang að gögnum skilanefndarinnar, gögnum sem jafnvel eiðsvarnir fjárlaganefndarmenn okkar fengu EKKI aðgang að! Bretar veðja greinilega á, að þeir fái mun meira út úr þessu en skilanefndar- og samninganefndarmenn okkar láta í veðri vaka ...

Áhættan er ennþá upp á mörghundruð milljarða króna.

Treystirðu skilanefndunum? Og hverjir sitja í skilanefnd Landbankans auk Steinunnar Guðjónsdóttur?

Treystum engu gambli, engri russneskri rúllettu. Af hverju lá þeim svona rosalega á? Af hverju gátu þeir ekki beðið sumarsins og úrslita dómsmála?

Og Icesave-III er jafnmikið stjórnarskrárbrot og I+II.

Ísland MÁ EKKI einu sinni borga fyrir Icesave, sagði okkur norskur prófessor í þjóðréttarfræði. Af hverju er ekki hlustað á hann?

Lárus Blöndal samdi um að láta Tryggingasjóð innstæðueigenda (TIF) borga í pundum og evrum, þótt lög okkar nr. 98/1999 (byggð á ESB-tilskipun 94/19/EC) taki fram í 9. gr., að TIF megi ævinlega endurgreiða innstæður í íslenzkum krónum, jafnvel þott stofnað hafi verið til innstæðnanna í öðrum gjaldeyri.*

Lárus Blöndal er því EKKI maður sem stendur á rétti þjóðarinnar í þessu máli. Treystum ekki slíkum.

Og í hvaða vinnu er hann núna? Var hann ekki búinn að ljúka sínum störfum í samninganefndinni – EÐA HVAÐ?

* Gengisáhættan á 35 árum er GRÍÐARLEG. – Væri hins vegar borgað á 5 árum, væru tekin önnur gríðarleg lán fyrir því – og þeir vextir kæmu ofan á. Af hverju er fattarinn svona stuttur í þeim, sem líta alveg fram hjá því? Og þetta væru GJALDEYRISLÁN – og enn með mikilli gengisfellingaáhættu.

PS. Þessi hr./fröken/frú "thin" er nýuppvakinn Icesave-sinna-skæruliði, sem dreifir persónuárásum og slúðri.

Jón Valur Jensson, 2.3.2011 kl. 23:06

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það verður án vafa mikið fjallað um þetta mál, fram og aftur, fram að kosningum og skoðanir manna mótast endanlega fram á síðasta dag. Ég mun örugglega blogga um þetta áfram og velta þessu fyrir mér frá öllum mögulegum sjónarhornum á þessum vikum fram að kjördegi.

Hins vegar mun ég ekki taka þátt í þeim öfgum sem víða koma fram í bloggum og menn ásaka hvern annan um, svik og landráð ætli þeir að samþykkja, eða heimsku, þjóðrembu og einangrunarstefnu vilji menn hafna lögunum.

Afstaðan verður að byggjast í staðreyndum og mati á þeim, en ekki afstöðu til forsetans, ríkisstjórnarinnar, stjórnmálaskoðana eða annars en samningnum sjálfum og spurningunni hvort réttlætanlegt sé að veita ríkisábyrgð á tryggingasjóðinn.

Axel Jóhann Axelsson, 2.3.2011 kl. 23:07

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eru það ekki SVIK, Axel, að láta sig hafa það að brjóta stjórnarskrána í viðleitni til að gefa eftir fyrir ólögvörðum kröfum stærri og öflugri ríkja? Hafa ekki þingmenn svarið eið að stjórnarskránni?

Ég nota orðið 'svik' sannarlega ekki á ódýran hátt, spreða þvi ekki út um allt eða um stóran hóp manna að lítt hugsuðu ráði.

Svo geta menn hugleitt, hvað HÉR ÁTTI SÉR STAÐ og lagt eigin dóm á það. Og aftur skal tekið fram, að þetta síðarnefnda, sem hér um ræðir, er ekki dæmi um, að ég spreði hörðum dómum um marga – þarna á einn maður eða tveir í hlut.

Jón Valur Jensson, 2.3.2011 kl. 23:59

8 identicon

Sæll Axel og takk fyrir flottan pistil.

Ice-save er í hverri þeirri mynd sem enn hefur komið glæpur sem eitt af iðnríkjum heims er að reyna að pinna uppá smáríki undir stöðugri kúgun og hótunum um frekari aðgerðir.

 Samningurinn er einnig eina leið Breta út úr kreppunni enda hrynur Breska heimsveldið ef málið færi fyrir dóm þar sem að ef að þeir "vinna" er komið fordæmi fyrir því að þeir sjálfir þurfi að greiða út alla bankana sem þeir hafa sett í þrot. Og ef að þeir tapa að þá þarf enginn að greiða neitt og þá heldur ekki PIGS (Portugal Írland Grikkland Spánn) og Evran þar með í raun kominn á leiðarenda.

Hasýnissjónarmið okkar að ganga frá málinu til að "byrja upp á nýtt" er því miður eitthvað sem þarf að skoða og er ekki hægt að líta framhjá þar sem að ef ekki hefði verið ráðist í að klára Hörpu (menningarhöll kommanna í WC) aðþá væri ekki verið að tala um annað en örfáa milljarða.

1, 2 og 3 í IceSave ætti síðan að vera nóg sem fordæmi í næstu kosningum um að það egi eftir að koma út af Alþingi og úr ríkisstofnunum (sem n.b. hafa ekki skorið rassgat niður ef LS er tekinn útfyfrir sviga (grunnþjónustan)) þaulsetnasta og spilltasta liðinu.

Ef að okkur er alvara með orðunum "Nýtt Ísland" er ekki nóg að skipta bara út nokkrum jakkaláfa-101-mokkalattedrekkandi rottum heldur verður að gera gagngera uppstokkun í kerfinu (lesist ríkinu) til að byggja upp aftur tiltrú fólksins á því. Ef svo verður ekki gert er annað hrun framundan og þá verður ekki barið í potta og pönnur heldur höggin látin dynja á spillingarliðinu beint.

Nú horfir svo fram í að Jóhanna ætli að fara að hringla í stjórnarskránni með einhverjum "sleifum" sem hún á á endanum eftir að handvelja og N.B. setja fyrir verkefnalista (því annars fer fólkið jú ekki eftir "hugsjón" f(l)okksins hennar) og ofaná ætla þessir sandkassajólasveinar að koma í gegn fjölmiðlalögum sem Kim Il Sjúng gæti verið stoltur af.

Það sem við þurfum nú og ekki seinna en strax eru kosningar þar sem að ef það tefst mikið lengur kemur gullfiskamynni okkar kjósenda okkur í klípu þar sem að við föllum í sömu gryfju og venjulega og grípum lygar f(l)okkanna á lofti sem heilagann sannleik.

Vilji er vopn. Það er vopn sem við þurfum að nota NÚNA! 

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 00:10

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að nýjasti samningur er betri en þeir fyrri.  Enda sparkaði Icesave I Versalasamningunum úr fyrsta sæti yfir verstu samninga allra tíma og Icesave II eflaust farið langt með að ýta Versalasamningunum í þriðja sætið.

 Hingað til hefur bara skilanefndin metið eigur þrotabúsins.  Hingað til hefur birting á heimtuhorfum eingöngu  verið birtar þegar afla þarf þeim Icesavesamningi, sem fyrir liggur fylgis.

 Ástæða þess að Bretar og Hollendingar höfnuðu tilboðinu um 47 milljarða eingreiðslu + heimtur úr búinu gegn afnámi ríkisábyrgðar,  hlýtur að byggjast á því að þeir hafi metið eigur þrotabúsins og heimtuhorfur.  Miðað við stöðuna um áramót, sem fór þá stöðugt batnandi, samkvæmt skilanefndinni, þá hefðu Bretar og Hollendingar komið út á sléttu miðað við tilboðið.  

 Á meðan Bretar og Hollendingar viðhalda kröfunni um ríkisábyrgð, þá hlýtur að vera að þeirra mati, líkur á því að heimtur úr búinu verði ekki á þann hátt sem skilanefndin spáir, eða þá að þeir telji líkur á því að neyðarlögunum verði hnekkt, því verði þeim hnekkt, þá hverfur forgangurinn í þrotabúið.   Verði neyðarlögunum hnekkt, þá verður ríkisábyrgðin virk og allt að 1200 milljarðir geta fallið á Ríkissjóð (skattgreiðendur).   Til samanburðar má geta að innistæður í íslenskum bönkum, nú um stundir, eru taldar vera um 1500 milljarða.

  Hvað sem horfum og spám um betri heimtur vindur fram, þá er það svo að á meðan ríkisábyrgð fylgir samningum um Icesave þá er svar undirritaðs NEI, NEI, NEI.

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.3.2011 kl. 07:35

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er rétt að það komi fram, að mér hefur alls ekki snúist hugur í þessu máli, heldur hef aðeins verið að hlusta á hugmyndir manna um kosti og galla þess að samþykkja lögin.

Þó þessi samningur sé snöggtum skárri en þeir fyrri er hann jafn ólögvarður og hinir og ég bíð ennþá eftir að heyra útskýringar Steingríms J. og félaga um þær skattahækkanir og nýju skatta sem munu fylgja í kjölfar samningsins, því ríkissjóður er algerlega blankur og getur ekki einu sinni farið í sex milljarða flýtiframkvæmdir í vegamálaum án þess að legga á nýja skatta fyrir því.

Þess vegna er maður að kalla eftir ÖLLUM upplýsingum um málið, líka þær sem hafa verið leynilegar fram að þessu og þá fyrst er hægt að ætlast til að fólk móti sér endanlegar skoðanir á því hvernig á að greiða atkvæði í kosningunum.

Málið má ekki fara bara niður í skotgrafirnar og ræðast eingöngu með stóryrðum um þá sem eru með eða móti og svikabrigslum. Út úr slíkri umræðu kemur ekki neitt annað en að fólk festist í afstöðu sinni, sem byggist þá jafnvel á afstöðu til einhvers alls annars en málefnisins sjálfs.

Núna þarf að koma af stað umræðunni um skattahækkanirnar sem óhjákvæmilega fylja samþykktinni, en fram að þessu virðist algerlega vera horft fram hjá þeirri staðreynd og ég hef ekki séð marga bloggara eða fjölmiðla fjalla um þann þátt málsins.

Axel Jóhann Axelsson, 3.3.2011 kl. 08:50

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón Valur, það er rétt að taka það fram, að svari mínu nr. 6 var alls ekki beint til þín, heldur skrifað í tilefni athugasemdanna þar á undan. Þín athugasemd kom hins vegar inn á milli á meðan að ég var að skrifa þetta umrædda svar, nr. 6.

Axel Jóhann Axelsson, 3.3.2011 kl. 09:18

12 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 

Stöðugur og yfirvegaður Axel að vanda ! og lætur ekki draga sig í neina öfga né heift, en það vill alltaf vera eitthvað af því á báða bóga í stórum málum og undirritaður hefur einnig látið rífa sig með í ytri kantana af umræðunni, þessvegna er gott að kíkja við hjá fólki eins þér Axel ! og koma aðeins "niður á jörðina".

Ég er eins og þú sannfærður, eftir að hafa gert mitt besta til að kynna mér álit sérfræðinga, erlendis sem innanlands (á Íslandi), að það finnst ekki lagalegur grunnur fyrir samningnum, hinsvegar ef menn vilja horfa fram hjá því og gera samning við B/H þrátt fyrir það, vegna þess (vona ég allavega) að flestir stuðningsmenn samnings, telja að það gagnist þjóðinni best eins og er, þá vantar miklu betri fræðslu um og staðreyndir fyrir því, og þær verða vera betri en það sem boðið hefur verið upp á hingað til, ég og örugglega margir með mér/okkur bíða eftir því.

En þetta gildir þá aðeins, varðandi hvað best væri fyrir Ísland í augnablikinu, því slíkur samningur myndi samt sem áður verða dæmdur ógildur seinna vegna augljóss ólögmætis, séð í víðara samhengi, er ég miklu meira ákveðinn andstæðingur þess að skattgreiðendur, reyndar allur almenningur sé látinn enn og einu sinni taka á sig mistök óábyrgra einkafyrirtækja, sem spenna bogann alltaf til hins ýtrasta, reikna ekki með niðursveiflum og er svo "bjargað" með "hjálparpökkum" teknum frá skattgreiðendum á kostnað velferðar og atvinnuuppbyggingar.

En hvort Ísland á ríða á vaðið með þetta, er svo ein spurningin enn, en finn, les og heyri að það er fylgst með Icesave málinu í ofvæni, almenningur í Evrópu, ekki síst þeim löndum sem harðast hafa orðið úti í kreppunni, Grikkland, Spánn, Portúgal og nú ekki síst Írland eru að upplifa hrikalegt atvinnuleysi, gífurlegann niðurskurð í heilbrigðismálum, félagsmálum og annarri velferð, vegna mistaka eigin stjórnvalda og óábyrgra "hvíflibba" þessi lönd eru að mörgu leyti í erfiðari aðstöðu en Ísland, vegna þess að hafa ekki möguleikann á að fella gengið (eru með evru) eins og Ísland gat gert með sína krónu, en gengisfelling er ekki langframa verkfæri, þó það hjálpi upp á útflutning og bæti gjaldeyrisstöðuna, þá er mikil kjaraskerðing hjá almenningi samfara slíkum aðgerðum, allt þó eftir hversu vel og fljótt gengur að fá hjólin í gang.

Tek að lokum (með leyfi) undir þessi orð þín Axel ! í síðasta innlegginu:

"Þess vegna er maður að kalla eftir ÖLLUM upplýsingum um málið, líka þær sem hafa verið leynilegar fram að þessu og þá fyrst er hægt að ætlast til að fólk móti sér endanlegar skoðanir á því hvernig á að greiða atkvæði í kosningunum."

MBKV að utan en með hugann heima

KH 

Kristján Hilmarsson, 3.3.2011 kl. 09:50

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið sérstaka til mín, Axel.

Hef verið og er upptekinn.

Jón Valur Jensson, 3.3.2011 kl. 22:19

14 identicon

  

Það er heimskulegt að tala um það sem öfgar að taka afstöðu í einhverju máli. Eru það þá öfgar að kjósa JÁ eða NEI í þjóðaratkvæðinu 09. apríl 2011 ? Þeir sem ekki hafa tekið afstöðu með eða móti Icesave hljóta að vera óvenju tregir, svo ekki sé meira sagt. Þetta mál er búið að þraut-ræða í tvö ár. Eftir hvaða upplýsingum eru þeir óákveðnu alltaf að bíða ?

Sama er hvort menn eru að tala um Icesave-I, Icesave-II eða Icesave-III. Enginn efnislegur mismunur er á þessum samnningum. Þeir snúast allir um að niðurlægja Íslendinga og krefja okkur um fjárgreiðslur sem engar lagalegar forsendur eru fyrir. Ef Icesave-kröfurnar væru ekki ólöglegar væru nýlenduveldin fyrir löngu búin að fara með kröfur sínar fyrir dómstóla.

Ef bera á saman Icesave-samninganna, þá blasir við að Icesave-III er lang versti samningurinn. Samninga ber að meta út frá aðstæðum, þegar þeir eru gerðir og Ísland hefur ekki verið í jafn góðri pólitískri stöðu, síðan um mitt ár 2008. Að auki hefur verið gerð afdrifarík breyting til hins verra á Icesave-III, miðar við fyrri samninga.

Icesave-III gerir ekki bara ráð fyrir afsali lögsögu landsins, heldur er nýlenduveldunum fært sjálfsdæmi um allt það sem Icesave-málið varðar. Í stað alvöru dómstóla í Bretlandi, hefur verið samið um gerðardóm. Í Icesave-III er sett ákvæði sem beinlínis hafnar »Því sem er réttlátt og sæmandi« (Ex aequo et bono). Jafnframt er dómurum gerðardómsins bannað að sýna linkind (amiable compositeur) vegna »erfiðra og fordæmislausra aðstæðna Íslands«.

Með öðrum orðum þá er dómurum gerðardómsins í Haag gert að fylgja lögsögu Bretlands (Hollands) hvað sem líður réttlæti, sæmd eða mannúð. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland setji nýtt heimsmet í undirlægjuhætti. Ríkisstjórnin hefur samið þvert á Brussel-viðmiðin og þar með gegn yfirlýstri stefnu Evrópusambandsins varðandi Icesave-deiluna.

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband