Hverjum er greiði gerður með því að taka tilboði upp á 57% af kostnaðaráætlun?

Við opnun tilboða í þau örfáu og tiltölulega smáu verkefni, sem boðin hafa verið út undanfarið, hafa lægstu tilboð verið ótrúlega lág, raunar svo lág, að lægstbjóðanda getur ekki verið greiði gerður með því að taka tilboði hans.

Tilboðsupphæðir hafa farið alveg niður í 45% af kostnaðaráætlun verks og nú var verið að opna tilboð í stækkun Mjólkárvirkjunar og þar reyndist lægsta tilboð vera 57% af áætlun verkkaupa, eða  70.383.000 en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 122.598.807.

Nánast algild regla er að taka lægsta tilboði í öllum útboðum, enda hefur það gerst æ ofan í æ, að verktakar ráða ekkert við að ljúka verkum á svona lágum verðum og endar sagan oftar en ekki með gjaldþroti verktakans og þar með auknum kostnaði verkkaupa, þegar hann þarf að ráða nýjan aðila til að ljúka verkinu.

Tiltölulega litlum verktökum er enginn greiði gerður með því að taka tilboði sem er á bilinu 45-90% af kostnaðaráætlun verkkaupa, því afar litlar líkur eru til þess, að hægt sé að ljúka verkinu án mikils taps, sem smáir verktakar geta alls ekki tekið á sig.

Reglum um útboð verður að breyta, þannig að ekki sé sjálfgefið að lægsta og venjulega óraunhæfasta tilboði sé alltaf tekið í útboðin verk.  Slíkt hefur stórskaðað verktakamarkaðinn og reyndar furðulegt að nokkrum detti í hug að drepa fyrirtæki sitt með svona rugltilboðum.

Útboðsreglum verður að breyta, til að koma í veg fyrir að svona óraunhæfum tilboðum sé tekið.


mbl.is Buðu 57% af áætlun í Mjólká
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gassi í Urð og Grjót veit alveg hvað hann er að gera. Hann er heldur ekki með öll sín tæki á bullandi myntkörfulánum

rz (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 21:31

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Og ætlar ríkistjórnin ekki að stoppa þessa framkvæmd.? Veit kannski ekki af henni.

Ragnar Gunnlaugsson, 23.3.2010 kl. 21:34

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Auðvitað ætlar enginn sér að tapa og fyrirtæki eru misvel rekin, satt er það, en kostnaðaráætlanir eru unnar upp úr verðbönkum, sem byggja á rauntölum, þannig að útilokað er að þessi lágu tilboð geti komið út öðruvísi en með tapi.  Stundum getur verið réttlætanlegt að taka eitt tapverk, til að fleyta fyrirtæki yfir dauðan tíma, en það geta auðvitað ekki nema fjársterk fyrirtæki.

Urði og Grjóti er óskað velfarnaðar með þetta verk og vonandi gengur upp hjá þeim að sleppa heilir frá þessu.

Axel Jóhann Axelsson, 23.3.2010 kl. 21:36

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ragnar, ríkisstjórnin myndi örugglega stoppa þessa framkvæmd, ef hún gæti.  Reyndar minnir mig að fram hafi komið í fréttum um daginn, að Orkubú Vestfjarða ætti fyrir þessari framkvæmd á bankareikningi.

Þeir eru greinilega hagsýnir þarna fyrir vestan.

Axel Jóhann Axelsson, 23.3.2010 kl. 21:41

5 Smámynd: Skúli Víkingsson

Það hlýtur að vera einhver skýring á því að ríkisstjórnin er ekki búin að stoppa þetta. Enn hefur sú skýring ekki komið fram.

Skúli Víkingsson, 23.3.2010 kl. 21:41

6 identicon

gassi i urð og grjót hefur alltaf klárað öll verk sem hann hefur tekið sama hvaða verð eru i gangi

gonnarinn (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 22:07

7 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Lenti einusinni í svona umræðu og hún leiddi af sér að menn voru sammála um að það ætti að setja þau tilboð sem hæst voru og svo lægsta tilboðið beint í pappírstætarann.

Lægsta tilboðoð vegna þess að það væri óraunhæft og það gæti ekkert fyrirtæki lifað það af að bjóða svona lítið, og hæsta tilboðið vegna þess að það væri úr takti við allt.

Svo má deila um hlutina að vild. Þegar ég sé tilboð sem hljóða uppá undir 75% af kostnaði þá held ég að bjóðandi ætti að fara að hugsa sinn gang.

Tilboð sem eru yfirleitt í kringum 100% (85-110%) eru í raun raunhæfust og ætti að meta sem slík.

Svo er að meta fyrirtækin sem bjóða þessar prósentutölur. Það fyrirtæki sem þykir líklegast til að ljúka verkinu er svo valið.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 23.3.2010 kl. 23:34

8 Smámynd: Hamarinn

Algerlega sammála þér Axel.

Hamarinn, 24.3.2010 kl. 01:15

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ólafur, mér hefur verið sagt að Danir fari þannig að við opnun tilboða í verk, að þeir hendi frá lægsta og hæsta tilboðinu og síðan sé því tilboði tekið, sem næst er meðaltalinu af þeim tilboðum sem eftir standa.

Með slíku kerfi vinnst það, að verktakar keppast við að gera sem raunhæfust tilboð og vonin um að ná í verk með miklum undirboðum verður að engu.  Slíkt kerfi þyrfti að taka upp hérlendis, því það er óviðunandi að fyrirtæki keyri sig á hausinn í hverju verkinu á fætur öðru, vegna slíkra undirboða, sem leiða síðan bara til aukins kostnaðar fyrir verkkaupa.

Axel Jóhann Axelsson, 24.3.2010 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband