Snillingurinn Lars reyndist sannspár um frestun starfsloka sinna

Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson hafa náð ótrúlegum árangri með íslenska landsliðið í knattspyrnu og auðvitað eiga liðsmennirnir sjálfir stóran þátt í þeim ótrúlegu úrslitum sem náðst hafa í aðdraganda EM og á mótinu sjálfu.

Lars mun láta af störfum sem þjálfari eftir EM en reyndist sannspár um að leikurinn gegn Austurríki yrði ekki lokaleikur hans með liðinu, svo sannfærður var hann um að strákarnir næðu að komast í sextán liða úrslit keppninnar, en að það skuli hafa gerst er í raun lyginni líkast.

Í fréttinni er m.a. haft eftir þjálfaranum um liðið:  "Minn­umst þess að þetta er þeirra fyrsta stór­mót og and­legi styrk­ur­inn í liðinu er al­gjör­lega magnaður."  

Auðvitað eiga leikmennirnir sjálfir stærsta þáttinn í stórkostlegum árangri liðsins, en hlutur þjálfaranna er líka stór enda vinnast sigrarnir ekki nema með góðri leiðsögn og forystu þjálfarateymisins.

Árangum liðsins og þjálfaranna vakti mikla athygli í knattspyrnuheiminum strax og tekist hafði að tryggja þátttökuréttinn á HM og Lars og Heimir taldir með bestu þjálfurum ársins 2015, eins og sjá má hérna:  http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2015/12/31/lars_og_heimir_a_medal_theirra_bestu/

Næsti leikur liðsins verður á mánudaginn gegn Englandi og án efa munu strákarnir berjast eins og ljón í þeim leik, þó varla sé raunhæft að reikna með sigri þeirra. Úrslitin á mótinu til þessa eru svo stórkostleg að hvernig sem fer í næsta leik verður frammistaða liðsins og þjálfaranna í minnum höfð meðan fótbolti verður spilaður í landinu.


mbl.is Lars: Ekki lokaleikur minn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veglegar vöggugjafir

Það hefði mátt halda að ekki væri hægt að koma Íslendingum á óvart lengur með frásögnum af þeim bröskurum og banksterum sem ollu því að alþjóðlega bankakreppan varð mun meiri og hafði verri áhrif á almenn lífskjör hér á landi en víðast hvar annarsstaðar.

Braskaragengin, sem í mörgum tilfellum voru líka bankaeigendur, hreinsuðu allt eigið fé út úr þeim fyrirtækjum sem þeim tókst að komast yfir, greiddu sjálfum sér það út sem arð og fluttu síðan peningana úr landi og virðast hafa skráð þá sem eign skúffufélaga á svokölluðum aflandseyjum og reynt síðan að fela þá á leynilegum bankareikningum vítt og breitt um heiminn.

Sagan um að börn Sigurðar Bollasonar skuli hafa byrjað að lána félögum föður síns hundruð milljóna króna um leið og þau skutust úr móðurkviði og verið honum og braskfélögum hans fjárhagslegir bakhjarlar öll sín leik- og barnaskólaár slær þó út flest það sem áður hefur komið fram um framferði aurapanna árin fyrir og eftir hrunið.

Menn sem leika svona fáránlegar fléttur við svokallaðar "fjárfestingar" sínar geta varla verið með allt sitt á hreinu og að öll þeirra "viðskipti" þoli dagsins ljós.

Eins vaknar spurning um hver hafi gefið blessuðum börnunum svona ótrúlega ríflegar vöggugjafir.


mbl.is Dagsgamalt barn lánaði aflandsfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðfelldur aðdragandi forsetakosninga

Níu manns bjóða sig fram til að gegn embætti forseta Íslands og verður kosið milli þessara frambjóðenda þann 25. júní n.k.

Frambjóðendurnir sjálfir hafa verið tiltölulega málefnalegir og reynt eftir besta megni, hver um sig, að benda á sína eigin kosti til að gegna embættinu án þess að stunda skítkast og róg um hina frambjóðendurna.

Stuðningsfólk átta frambjóðendanna hafa hins vegar stundað ótrúlega ógeðslegan málflutning gegn níunda frambjóðandanum og ekki sparað illmælgi, róg og í mörgum tilfellum hreinar lygar um gerðir hans og/eða aðgerðarleysi í fortíðinni.

Þeir sem styðja þennan frambjóðanda, sem kosningabaráttan hefur að mestu snúist um að níða og taka ekki þátt í níðskrifum og rógsumræðum um hann eru þá kallaðir öllum illum nofnum af stuðningsmönnum hinna átta og yfirleitt sagðir hálfvitar, dusilmenni og glæpamenn.  

Þeir sem lengst ganga spara ekki gífuryrðin og kalla jafnvel frambjóðandann sjálfan og stuðningsmenn hans nautheimskan glæpalýð sem nánast engan tilverurétt eigi í þjóðfélaginu.

Varla verður því trúað að nokkur hinna átta frambjóðenda kæri sig í raun um eins ógeðlegan stuðning, ef stuðning skyldi kalla, og þeir sýna sem mest hafa sig í frammi í þessu efni.

 


mbl.is Guðni Th. með 56,6% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband