Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Köttum misþyrmt af mönnum og hundum

Mikið fjölmiðlafár hefur undanfarið geysað vegna árásár hunds á kött, enda týndi kötturinn lífinu í þeim ójafna og grimma slag. Allt frá því að kettir og hundar urðu fylgjendur mannsins í gegnum súrt og sætt, hefur þessum dýrategundum komið illa saman í flestum tilfellum og þegar þeim lýstur saman fer allt í "hund og kött".

Það ætti því ekki að vera mjög fréttnæmt þó hundur elti kött, jafnvel ekki þó hundur slasi eða drepi viðkomandi kött, þar sem þetta ósamkomulag er árþúsundavandamál og hvorki hundar eða kettir taldir sérstaklega siðmenntaðir, en það á hins vegar við um eigendur þeirra og húsbændur, mennina.

Því ætti það að vera tilefni stórfrétta þegar fólk misþyrmir og drepur dýr algerlega að tilefnislausu og að því er virðist sér til skemmtunar og jafnvel með því að kvelja dýrin og pína þar til líftóran slökknar. Oft er þess getið í fréttum að dýr hafi fundist dauð á víðavangi eftir pyntingar, mismikið særð eða skilin eftir í kössum eða pokum og jafnvel urðuð lifandi undir grjótfargi.

Sjaldnast er þó gert stórmál úr slíkum atburðum og aldrei hefur frést af því að nokkur maður hafi verið dæmdur fyrir slíkt dýraníð, en þegar hudur drepur eða slasar aðra skepnu er þess tafarlaust krafist að hann verði aflífaður samstundis og í síðasta slíka tilfelli kom jafnvel fram krafa í netheimum um að eigandi hundsins yrði umsvifalaust settur í gæsluvarðhald.

Hunda-, katta- og manngæska á sér greinilega ýmsar mismunandi myndir.


mbl.is Fann læðu í kæliboxi við Kúagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg viðbrögð Samherja

Þau viðbrögð Samherja og erlendra dótturfyrirtækja félagsins, að hætta viðskiptum sín á milli á meðan að á rannsókn Seðlabankans á gjaldeyrisskilum fyrirtækjanna stendur, eru bæði afar skiljanleg og í hæsta máta eðlileg.

Samherji fær ekki upplýsingar frá ákærendum um á hvaða grun rannsóknin er byggð, né hvaða greinar gjaldeyrislaga fyrirtækin eru sökuð, eða grunuð, um að brjóta og þar af leiðandi er ógjörningur að halda viðskiptunum áfram á sama grunni og áður og auðvitað alls ekki ef ásakanirnar eru á rökum reistar.

Sá sem stendur í viðskiptum og er ásakaður um svindl og svínarí hlýtur að slá öllum slíkum viðskiptum á frest, eða hætta þeim alveg, a.m.k. á meðan á rannsókn og kærumeðferð stendur.

Allt annað væri algjörlega út í hött.


mbl.is Krefjast þess að fá að sjá gögnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stefnir að eigin endalokum

David Campbell Bennerman, breskur ESBþingmaður, telur að Bretar eigi og muni segja sig úr sambandinu, fyrr eða síðar, enda hafi þeir aldrei samþykkt aðild að pólitísku sambandi, heldur einungis viðskiptabandalagi.

Þróun í átt að stórríki sé í fullum gangi og segir um það m.a:  „Það kom til að mynda fram skýrsla í Evrópuþinginu í síðustu viku sem ég tók þátt í umræðum um þar sem kallað var eftir sameiginlegu skattkerfi, sameiginlegu velferðarkerfi og bótakerfi, sameiginlegu lífeyrissjóðakerfi og jafnvel sameiginlegum lögum um hjónaskilnaði fyrir allt Evrópusambandið. Þetta var samþykkt af þinginu þótt sjálfur hafi ég greitt atkvæði gegn því eins og aðrir í þingflokknum mínum.“

Þrátt fyrir þessa tilburði til stofnunar stórríkis ESB, sem yrði undir stjórn Þjóðverja, telur Bennerman að sambandið muni líklega frekar sundrast en sameinast frekar, enda sé evruvandamálið stærra og meira en svo að við verði ráðið.  Líkir hann þeirri leið sem farin er til "björgunar" evrunni við ástandið eins og það var í Weimarlýðveldinu, en þar endaði peningastefnan með því að fólk þurfti hjólbörufylli af seðlum til að kaupa eitt brauð.  Telur hann að endalaus seðlaprentun til bjargar evrunni muni leiða til hins sama í ESB.

Bennerman er annar ESBþingmaðurinn sem fram kemur á nokkrum dögum og lýsa því sem sínum skoðunum að algjört glapræði yrði fyrir Íslendinga að láta innlima landið í stórríkið væntanlega og slíkt myndi hafa hörmulegar afleiðingar fyrir þjóðina til lengri tíma litið.

Íslendingar ættu að hlusta grannt á þá sem þekkja innviði ESB af eigin reynslu. 


mbl.is Evruvandinn ennþá óleystur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband