Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Hroki hjá Samtökum verslunar og þjónustu

Þegar samtök atvinnurekenda og reyndar önnur samtök halda þing sín er venjan að formaður viðkomandi samtaka ræði þau málefni sem að hans félagsskap snýr og ræðir jafnvel þjóðmálin í víðu samhengi og sendir skilaboð til ríkisstjórnar hvers tíma um þau atriði sem betur mættu fara frá sjónarhóli þeirra samtaka sem þinga í það og það skiptið.

Samkvæmt viðhangandi frétt virðist Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, ekki hafa haft margt að segja um hagsmunamál sinna eigin samtaka, heldur hafa varið ræðu sinni á fundi samtakanna aðallega til að úthúða bændum og þeirra afstöðu til sinnar eigin atvinnugreinar og ekki sparað til þess stóru orðin.

Að því loknu virðist hún hafa talið sig hafa vald til að endurskipuleggja stjórnmálaflokkana í landinu, ásamt því að skipa nýja ríkisstjórn, en m.a. kemur þetta fram í fréttinni: "Hún sagði einnig að breyta þurfi um í ríkisstjórnni og ríkisstjórnarflokkarnir þurfi að stokka upp í forystusveitinni. Hún sagðist sjá þá kosti helsta, að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn myndi nýja ríkisstjórn eða að Sjálfstæðisflokkur gangi til liðs við núverandi stjórnarflokka.Þá sagði hún, að forgangsverkefni þjóðarinnar nú sé að tryggja að þjóðin segi já í atkvæðagreiðslu um Icesave 9. apríl."

Ekki er fullljóst hvort formannsembættið í Samtökum verslunar og þjónustu hefur stigið Margréti svo til höfuðs að hún telji sig þess umkomna að stjórna öllu landinu og miðunum með, eða hvort þetta sé bara hroki og yfirgangssemi, ásamt afskiptasemi af því sem kemur hennar samtökum ekkert við. 

 


mbl.is Skjaldborg um kerfi sem allir tapa á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá Norræni með ógnanir

Norræna fjárfestingabankanum hefur verið beitt miskunnarlaust til að kúga Íslendinga til að taka á sig skattaáþján fyrir Breta og Hollendinga vegna krafna sem aldrei hafa komið íslenskum skattgreiðendum við, enda skuldir glæpsamlega rekins einkabanka sem fór á hausinn án nokkurrar aðkomu almennings.

Í tvö ár hefur sá Norræni neitað að afgreiða lánsloforð til Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar fyrr en búið yrði að ganga frá þrælasamningnum, sem skattgreiðendum ber alls ekki að borga og ekki verður hægt að borga, nema skera niður heilbrigðis-, mennta-, og velferðarkerfið tvöfalt meira en annars hefði þurft vegna kreppunnar.  Þar með yrði samþykkt þrælasölunnar til þess að lengja og dýpka kreppuna í mörg ár, jafnvel um áratugi.

Núna sendir Norræni fjárfestingabankinn frá sér tilkynningu um samþykkt á láni fyrir 1/3 af áætluðum byggingarkostnaði Búðarhálsvirkjunar með því að gefa til kynna að lánið verði ekki afgreitt nema skattgreiðendur á Íslandi samþykki sína eigin þrælavist í þágu erlendra kúgara.  Algerlega er óþolandi að ríkisstjórnir norðurlandanna, sem auðvitað ráða bankanum, skuli nota aðstöðu sína svona pukrunarlaust á pólitískan hátt til að reyna að hræða og kúga eina af aðildarþjóðum bankans.

Fyrst sá norræni er ennþá við sama heygarðshornið varðandi lánveitinguna, hefði hann átt að hafa rænu á að þegja og leyfa Íslendingum að kljást áfram við sína eigin framtíð í friði fyrir illa dulbúnum hótunum um efnahagsþvinganir.


mbl.is Landsvirkjun fær lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningsmönnum fjárkúgunarinnar fækkar.

Samkvæmt nýrri könnun MMR segjast 52% aðspurðra ætla að samþykkja að selja sjálfa sig, aðra Íslendinga, börnin sín og annarra í skattaþrældóm til næstu áratuga í þágu Breta og Hollendinga. Í sambærilegri könnun í síðasta mánuði sögðust 56% aðspurðra ætla að gangast undir skattakvöðina, þannig að heldur fjölgar þeim sem sjá fáránleikann við gangast undir slíkt sjálfviljugur.

Allir vita að ríkissjóður á í verulegum fjárkröggum um þessar mundir og getur t.d. ekki fjármagnað vegaframkvæmdir út frá Reykjavík á næstu fjórum árum, en áætlaður kostnaður við það er sexmilljarðar króna. Sparnaður og niðurskurður er mottó dagsins í ríkisrekstrinum, en samt hvetur fjármálaráðherra skattgreiðendur til að samþykkja ólögvarða skattakröfu á sjálfa sig, með fyrstu afborgun að upphæð kr. 26,1 milljarð króna,sem greiða skal í einni greiðslu strax 11. apríl n.k., samþykki almenningur skattaþrælkunina.

Ótal atriði er hægt að tína til sem mæla gegn samþykki þrælalaganna, en fá eða engin sem mæla með samþykkt, nema þá þrælslund og ræfildóm.

Að nokkrum skuli detta í hug að samþykkja skattaáþján á þjóðina til að greiða ólögvarða kröfu sem kemur almenningi á Íslandi ekkert við, er óskiljanlegt.


mbl.is Mjótt á mununum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaddafí á Alþingi

Utandagskráumræða mun verða á Alþingi á morgun þar sem ræða á stjórnun Gaddafís í Líbíu og meðferð hans á þegnum sínum. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mun þar verða til svara, en málshefjandi er Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þingmenn og ríkisstjórn Íslands hafa ekki getað stjórnað sínu eigin landi almennilega undanfarið og frá Alþingi hafa hver meingölluðu lögin á fætur öðrum verið afgreidd og mörg hver í andstöðu við stjórnarskrána, að ekki sé minnst á klúðrið við að reyna að koma saman hópi manna til að gera tillögur um stjórnarskrárbreytinga.

Óþarft er að rekja aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn eigin þegnum, svo sem með því að berjast með oddi og egg gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu, sem aftur magnar atvinnuleysið og brottflutning fjölskyldufólks úr landinu.

Á meðan Alþingi og ríkisstjórn geta ekki stjórnað skammlaust heima fyrir, ætti þingið ekki að gera sjálft sig að athlægi með afskiptum af málefnum annarra ríkja, jafnvel þó þeim sé stjórnað af harðstjórum og illmennum.

Dettur einhverjum í hug að afskipti Alþingis veki önnur viðbrögð hjá ráðamönnum í Líbíu en hæðnishlátur.

Það eru sömu viðbrögðin og þessar umræður vekja hér á landi.


mbl.is Rætt um Gaddafí á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöglegt verðsamráð?

Í öllum verðkönnunum reynist Bónus vera með lægst heildarverð á þeim vöruliðum sem kannaðir eru í hvert skipti og er í raun ekkert nema gott um það að segja, kæmu ekki upp í hugann spurningar um það, hvaða aðferðum Bónus notar til að verðleggja vörur sínar.

Sjálfur versla ég nánast eingöngu í Krónunni á Bíldshöfða og nánast í hvert einasta skipti sem þangað er komið, hvenær dags sem er og hvaða dag sem er utan Laugardaga og Sunnudag, er þar staddur starfsmaður frá Bónus með verðskanna og afritar þau verð sem Krónan býður sínum viðskiptavinum.  Sjálfsagt er sömu sögu að segja um aðrar verslanakeðjur, þ.e. að Bónus sé einnig með starfsmenn þar til verðkönnunar.

Í verðkönnunum kemur svo í ljós að í mjög mörgum tilfellum er vöruverð einni krónu lægra hjá Bónusi en Krónunni, þannig að augljóst er að Bónus stillir sínum verðum eftir verðum keppinautanna, en ekki eftir eigin útreikningum miðað við sitt innkaupsverð og annan kostnað.

Í ljósi umræðna um ólögleg verðsamráð og markaðsráðandi stöðu fyrirtækja vaknar sú spurning hvort svona aðferðir við verðlagningu söluvöru sé eðlileg, jafnvel þó ekki sé um eiginlegt samráð að ræða heldur einhliða njósnir um útsöluverð keppinautanna.

Að minnst kosti getur þetta varla kallast eðlileg samkeppni.

 


mbl.is Bónus oftast með lægsta verðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesavegrýlan að missa tennurnar?

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, hefur verið dyggur þjónn Jóhönnu, Steingríms J. og Icesavegrýlunnar og tekið undir svartagallsrausið um allt myndi fara í bál og brand, verði Icesavelögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hingað til lands myndu ekki fást neinir erlendir fjárfestar og alls ekki yrði hægt að endurfjármagna erlend lán og hvað þá að nýjar lántökur yrðu mögulegar.

Flest stærstu fyrirtæki landsins hafa þegar sannað að vandræði við endurfjármögnun erlendra lána eru alls ekki fyrir hendi og á blaðamannafundi í dag dró meira að segja Seðlabankastjórinn talsvert í land með sínar svartsýnisspár í þessum efnum.

M.a. kemur þetta fram í fréttinni: "Þá sagðist Már geta fullyrt, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin muni ekki tefja birtingu áætlunarinnar um afnám gjaldeyrishaftanna. Allir væru sammála um, að þegar þegar komin væri niðurstaða um áætlunina þá yrði hún birt. „Áætlunin mun einnig gefa mikilvægar upplýsingar fyrir markaðinn og almenning til að skilja hvernig Icesave gæti komið eða ekki komið inn í myndina."

Fram að þessu hafa ráðherrarnir og bankastjórinn margstaglast á því, að afnám Icesavelaganna myndi tefja allar áætlanir um afnám gjaldeyrishaftanna um ófyrirséðan tíma.

Icesavegrýlan er greinilega farin að missa tennurnar, eða a.m.k. er komin mikil skemmd í þær. 


mbl.is Áætlun um afnám hafta mun róa markaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og Icesavegrýlan

Jóhanna Sigurðardóttir hélt ræðu á Alþingi í dag aldrei þessu vant, og talaði bæði í eigin nafni og stöllu sinnar, Icesavegrýlunnar, og lofaði 2.200 störfum á næstu mánuðum gegn því að þjóðin samþykki fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga. Geri þjóðin það ekki, gaf Jóhanna í skin að í refsingarskyni yrði áfram haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu.

Samkvæmt fréttinni voru skilaboð Icesavegrýlunnar í gegn um Jóhönnu m.a. þessi: "Þá sagði hún að ef litið væri til þeirra framkvæmda, sem væru í undirbúningi og ef sátt næðist um fjármögnun þeirra, svo sem í vegamálum, þá yrðu fljótlega sköpuð 2.200-2.300 ársverk og 500-600 bein varanleg störf við framtíðarrekstur. Nefndi Jóhanna aukna afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík og natríumklóratverksmiðju á Grundartanga."

Þessi tilvísun Jóhönnu til sáttar um fjármögnun vegaframkvæmda er vægast sagt einkennileg, þar sem stutt er síðan að Innanríkisráðherra voru nýlega afhentar yfir 40.000 undirskriftir kjósenda, sem mótmæltu harðlega öllum fyrirhuguðum nýjum vegasköttum, sem boðaðir voru vegna nýrra vegaframkvæmda.

Engar af nefndum framkvæmdum tengjast Icesave á nokkurn hátt og ekki mun standa á fjármögnun þeirra vegna, sýni hagkvæmisreikningar að borgi sig að fara í þær á annað borð, því fjármagn leitar ávallt í góða ávöxtun og erlendum fjárfestum stendur nákvæmlega á sama um líf eða dauða Icesavegrýlunnar.

Það sem aðalalega vantar til að koma þessum framkvæmdum í gang er að ríkisstjórnin hætti að flækjast fyrir þeim. 


mbl.is Boðar 2.200 ársverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr borginni til skammar í Vín

Jón Gnarr mun vera staddur í Vínarborg til að fylgja eftir og kynna sýningu á heimildarmyndinni um framboð hans og Besta flokksins til borgarstjórnar Reykjavíkur á síðasta ári og sýnir enn og sannar óhæfni sína til þess að gegna borgarstjóraembættinu og að koma fram fyrir hönd borgarbúa, að ekki sé talað um þegar hann fer að tjá sig um landsmálin og mesta deiluefni undanfarinna missera.

Eftirfarandi eru tilvísanir til svara hans í viðtali við austurrísku fréttastofuna APA, þegar hann var spurður um Icesave:  "Ég ætla að greiða atkvæði með því, ekki vegna þess að ég skilji það eða ég telji að það sé rétt, heldur er ég einfaldlega orðinn frekar leiður á málinu. Ég ætla að kjósa það í burt." 

Jafn gáfulega lét sá óhæfi hafa eftir sér um gjaldmiðil þjóðarinnar:  "Krónan okkar er Mikkamúsarpeningur,“ sagði Jón og bætti við að hann væri persónulega hlynntari því að taka upp dollara. „Ekki þarf að ganga í Bandaríkin til þess."

Á meðan að tekist er á um stefnu meirihluta borgarstjórnar í mennta- og uppeldismálum fer "leiðtoginn" af landi brott til að kynna bíómynd um sjálfan sig og verður borginni, íbúum hennar og þjóinni allri til háborinnar skammar með fáránlegum yfirlýsingum um landsins gagn og nauðsynjar, sem hann segist sjálfur ekki hafa hudsvit á, en sé bara svo leiður á þeim.

Það er ekkert minna en stórskandall, þegar svokallaðir ráðamenn haga sér á þennan hátt.

Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda, að þurfa að sitja uppi með þessi ósköp í þrjú ár í viðbót?


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrársniðganga

Sigurður Líndal, fyrrv. lagaprófessor, komst vel að orði, eins og oft áður, þegar hann mætti fyrir þingnefnd vegna fyrirhugaðrar skipunar stjórnlagaráðs á grundvelli úrslita ógildra kosninga, að hann teldi slík vinnubrögð, væru þau ekki klárt brot á stjórnarskrá, þá flokkuðust slík vinnubrögð a.m.k.  sem STJÓRNARSKRÁRSNIÐGANGA.

Samkvæmt stjórnarskránni sjálfri fer Alþingi Íslendinga með umboð til að stjórnarskrárbreytinga og skulu þær bornar undir tvö þing, með Alþingiskosningum á milli og þó heimilt sé að skipa ráðgefandi nefnd til að undirbúa og vinna tillögur til þingsins um slíkar breytingar, eru þær eftir sem áður á ábyrgð þingsins og fram til þessa hefur verið talið nauðsynlegt að sæmileg sátt væri innan þingsins og þjóðfélagsins um hvers kyns breytingar á sjálfum grundvallarlögum landsins.

Nú ætlar meirihluti þingsins að skipa nefnd til tillögugerðar um stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran hluta þingmanna, niðurstöðu Hæstaréttar og í óþökk stórs meirihluta þjóðarinnar, sem algerlega hundsaði kosningarnar til stjórnlagaþings, sem enda voru síðan úrskurðaðar ólöglegar.

Þrátt fyrir að væntanlegir nefndarmenn hafi alls ekki verið kosnir á löglegan hátt til starfsins, hafa nokkrir þeirra sagt að þeir myndu ekki taka sæti í nefndinni nema á sínum eigin forsendum og myndu ekki hlýða neinum fyrirmælum frá Alþingi um hvernig þeir muni haga störfum sínum og þar til viðbótar krafist þess að væntanlegar tillögur nefndarinnar verði bornar undir þjóðaratkvæði áður en Alþingi fjalli nokkuð um þær.

Eins og flest annað sem núverandi meirihluti á Alþingi og ríkisstjórn láta frá sér fara, er þetta stjórnlagaráðsskrýpi algjört rugl, sem aldrei verður nein samstaða um og ekki verður tekið alvarlega af nokkrum manni.


mbl.is Ítreka andstöðu við tillögu um stjórnlagaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpafyrirtæki í eigu bankanna?

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar hvort Húsasmiðjan, Byko og Úlfsins (sem nú heitir Byggingavörur Dúdda) hafi haft með sér verðsamráð og markaðsskiptingu á ýmsum byggingavörum, sérstaklega svokallaðri grófvöru.

Eigendur fyrirtækjann eru eins og segir í fréttinni: "Húsasmiðjan er að fullu í eigu Vestia, sem er í meirihlutaeigu Framtakssjóðs Íslands. Áður átti Landsbankinn Vestia, sem tók fyrirtækið yfir vegna skuldavanda. Áður var fyrirtækið í eigu Haga. BYKO er að fullu í eigu Norvik, fjárfestingafélags Jóns Helga Guðmundssonar."  

Ef einhver minnsti fótur er fyrir þessari glæpastarfsemi þessara fyrirtækja, þá er það enn grafalvarlegra en ella vegna þess hver eigandi Húsasmiðjunnar er núna og ekki síður hver hann var þar áður, þ.e. Landsbankinn.  Ef bankarnir taka yfir fyrirtæki vegna skulda og reka þau svo áfram eins og hver önnur glæpafyrirtæki, verður að taka slík mál föstum tökum og draga ekki bara starfsmenn fyrirtækjanna til ábyrgðar, heldur einnig eigendurna sem hljóta að hafa umsjón og eftirlit með rekstri fyrirtækja sinna.

Sannist sakir í þessu máli hlýtur sú krafa að verða gerð, að stjórnendur Húsasmiðjunnar, Landsbankans, Vestia og Framtakssjóðs Íslands verði allir dregnir til ábyrgðar og verði einhverjir þeirra ekki dæmdir eins og aðrir lögbrjótar, þá a.m.k. hverfi þeir allir sem einn úr störfum hjá öllum hlutaðeigandi fyrirtækjum.

Mikið vantraust hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna markaðsstöðu fyrirtækjanna sem bankarnir hafa yfirtekið, gagnvart öðrum fyrirtækjum og sögur farið af því að "bankafyrirtækin" hafi mun greiðari aðgang að rekstrarfé en keppinautarnir.

Ef hrein glæpamennska bætist þar við verður að gera þá kröfu að "bankafyrirtækin" verði seld umsvifalaust, eða verði sett í gjaldþrot ella.  Allt er betra en að glæpastarfsemi fái að þrífast innan þeirra, jafnvel að selja þau á vægu verði til keppinautanna. 


mbl.is Öllum sleppt eftir yfirheyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband