Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Óháð framboð Guðmundar Besta

Guðmundur góði er þjókunn persóna og allir þekkja söguna um för hans út í Drangey til að hrekja óvætt úr eynni, en skildi þó eftir smápart af berginu, því "einhversstaðar verða vondir að vera".

Á Wikipedia hefst frásögnin af þessum góða manni svo: "Guðmundur Arason hinn góði fæddist á Grjótá í Hörgárdal 1161 en lést á Hólum í Hjaltadal 16. mars 1237. Hann var biskup á Hólum (1203 - 1237). Hann fékk fljótt orð á sig fyrir góðmennsku og þótti hafa til að bera mikla mildi og mýkt. Hann hlaut því viðurnefnið „góði“ sem merkir helgur maður og töldu sumir að í nálægð hans gætu gerst kraftaverk. Hann varð fljótt umdeildur biskup og átti alla sína biskupstíð í deilum við volduga höfðingja."

Þar sem Guðmundur Steingrímsson er að stofna stjórnmálaflokk með "óháðum" og "Besta flokknum" og hefur auglýst eftir nafni á þennan fyrirhugaða nýja flokk, liggur beinast við að stinga upp á að nafn hans verði "Óháður stjórnmálaflokkur Guðmundar Besta" og er það nafn hér með til afnota fyrir nýja flokkinn, sem þó hefur ekki ennþá komist niður á neina stefnuskrá, en lofar þó að gera allt fyrir alla, enda samansafn fólks sem er bæði umhverfisvænt, alþjóðasinnað, vistvænt og óhrætt.

Guðmundur góði átti í miklum erjum við ýmsa "flokksforingja" á sinni tíð og ekki þýðir fyrir Guðmund besta að reikna með nokkurri lognmollu í kringum sinn flokk og verður að reikna með með hörðum slag við alla þá flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi ásamt þeim nýju flokkum sem væntanlegir eru á næstunni.

Í næstu kosningum munu vafalaust einhverjir kjósa hinn "Óháða stjórnmálaflokk Guðmundar Besta", en flestir munu sjálfsagt halda áfram að kjósa þá flokka sem næstir hugsjónum þeirra standa, enda verða vondir einhversstaðar að vera. 

 


mbl.is Nýtt stjórnmálaafl kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég dríf hagvöxtinn áfram, en herði samt sultarólina

Hagvöxtur á tímabilinu júní-ágúst á þessu ári mældist 4.8% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Skýringin á þessu kemur að stórum hluta fram í eftirfarandi: "Munar þar miklu um 5,1% vöxt einkaneyslunnar sem vegur um helming landsframleiðslunnar. Þess að auki var 1,4% vöxtur í fjárfestingu á tímabilinu sem má einkum rekja til einkaaðila enda var samdráttur í fjárfestingu hins opinbera upp á rúm 28% á tímabilinu."

Hagvöxturinn er sem sagt drifinn áfram af einkaneyslu að stórum hluta og það leiðir hugann að eigin útgjöldum á þessum umrædda ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra.  Í fyrra eyddi ég einni milljón króna í neyslu mína, þ.e. mat, fatnað, rekstur bifreiðar og húsnæðis, læknisþjónustu, skemmtanir og ýmislegt annað tilfallandi.

Vegna verðhækkana á öllum sviðum reyndi ég að halda í við mig á þessu ári og keypti því minna af öllu, sparaði í mat og drykk, keypti engin föt, keyrði minna, fór sjaldnar til lækna og dró verulega úr skemmtunum og öðrum óþarfa.  Samt eyddi ég rúmlega einni milljón og fimmtíuþúsund krónum í þessa liði og til þess að eiga fyrir þessum auka fimmtíuþúsundkalli neyddist ég til að taka út úr séreignarlífeyrissjóði, sem ég hafði reyndar vonast til að geta notað til að njóta lífsins í ellinni.

Eins og á þessu einfalda reikningsdæmi sést, var það í raun ég sem dreif áfram hagvöxtinn á þessu ári og það þrátt fyrir að geta veitt mér mun minna en á síðasta ári.

Þetta kallar Steingrímur J. stórkostlegan árangur og í raun fjármálasnilli og um leið og ég herði enn sultarólina, klóra ég mér í höfðinu yfir því hvort mér muni einnig takast að auka hagvöxtinn á næsta ársfjórðungi með því að draga enn saman seglin í neyslunni. 


mbl.is Mesti vöxtur frá byrjun árs 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 var samþykkt með aðeins þrjátíuogeinu atkvæði, en þrjátíuogtveir þingmenn greiddu því ekki atkvæði sitt.

Þetta hlýtur að vera í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem "meirihlutastjórn" nær ekki að fá meirihluta þingmanna til að styðja fjárlagafrumvarp sitt, en venja er í öllum lýðræðisríkjum að ríkisstjórnir segi af sér, hafi hún ekki stuðning meirihluta þings við afgreiðslu fjárlaga.

Þetta, ásamt ýmsu öðru sem ríkisstjórninni hefur verið til háðungar undanfarnar vikur, leiðir vonandi til þess að hörmungarstjórnin hrökklist frá völdum á allra næstu dögum.


mbl.is Fjárlög samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta ríkisstjórnin til að svíkja eigin samninga

Einn harðasti stuðningsmaður Samfylkingarinnar í gegn um tíðina, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, virðist algerlega umpólaður gagnvart fyrrum samstarfsfólki sínu og nú orðið gagnrýna fáir ríkisstjórnina eins harkalega og einmitt hann.

Gylfi hefur látið þau orð falla að það sé alveg nýtt að ríkisstjórnir svíki ítrekað gerða samninga við aðila vinnumarkaðarins, en það hafi "norræna velferðarstjórnin" gert nánast undantekningalaust um leið og undirskriftir ráðherranna hafa þornað á pappírunum sem þeir undirrituðu.

Undanfarna áratugi hafa ekki verið gerðir neinir kjarasamningar án aðkomu og þátttöku ríkisstjórna og fram að þessu hefur verið hægt að treysta þeim samningum sem ráðherrar hafa lagt nafn sitt við.

Öryrkjabandalagið og samtök aldraðra hafa einnig marg lýst óánægju sinni með núverandi svikaríkisstjórn og formaður ÖÍ hefur bent á að kjör þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur frá hinu opinbera hafi aldrei verið verri en einmitt nú og hafi farið síversnandi frá því að sú norræna komst til valda.

Það er athyglisvert að formaður ÖÍ sem hefur verið dyggur félagi í Vinstri grænum og forseti ASÍ, Samfylkingarmaðurinn, virðast báðir sakna sárt þeirra tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórnartaumana, enda var þá hægt að treysta stjórnvöldum landsins til að standa við gerða samninga.


mbl.is Kjarabótunum fórnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmdarverk á lífeyriskerfinu

Skattabrjálæði Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar tekur á sig ýmsar og ótrúlegar myndir og þó af nógu sé að taka í þeim efnum, er líklega skammsýnasta og versta tillagan af þeim öllum að ætla að skerða séreignalífeyrissparnaðinn um 50% í þeim eina tilgangi að ná fram duldri skattahækkun á almenning.

Fram til þessa hafa launþegar haft leyfi til að leggja 4% af tekjum sínum í séreignarlífeyrissjóð og þá fengið 2% framlag á móti frá atvinnurekanda og ekki þurft að greiða skatt af þessum sparnaði fyrr en hann er nýttur til framfærslu, eða hvers sem er, eftir að launþeginn verður sextugur að aldri.

Nú á að skera þennan besta sparnað sem í boði er niður um helming í þeim eina tilgangi að reyna að leyna skattahækkun á almenna launþega í landinu.

Fulltrúar atvinnulífsins, launþegar og raunar allt þjóðfélagið hlýtur að mótmæla þessari aðför að besta sparnaðarformi landsmanna.


mbl.is „Mjög skammsýnisleg ráðstöfun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllingsfélagið Vantrú

Meðfylgjandi fréttaskýring um félagsskapinn Vantrú afhjúpar ótrúlega óheiðarleg vinnubrögð meðlimanna, einelti gagnvart þeim sem þeir telja andsnúna ógeðfelldum málstað sínum og hveint viðbjóðslegt orðbragð í skrifum sínum um menn og málefni.

Að sálfræðingur og fleiri háskólaborgar skuli viðhafa slíkt orðbragð og vinnubrögð er með svo miklum ólíkindum að því hefði ekki verið trúað, nema vegna þess að hægt er að lesa texta þeirra milliliðalaust og þó var ógeðslegasta orðbragðinu sleppt úr fréttaskýringunni af siðferðisástæðum.

Þetta er sami félagsskapur og nú rekur gengdarlausan áróður gegn hvers kyns umfjöllun um trú og trúariðkun í landinu og alveg sérstaklega í skólum landsins. Fram að þessu hafa ýmsir tekið þetta fólk alvarlega, enda ekki á almannavitorði fyrr hvers lags viðbjóður viðgengst innan þessa félagsskapar.

Óþverrinn sem vellur út úr þessum mönnum og skipulag óhróðursherferða þeirra minnir helst á svæsnustu glæpasamtök og gjörsamlega með ólíkindum að yfirvöld og lögfræðingur Háskóla Íslands skuli hafa ánetjast ruglinu og lyginni sem Vantrú setti fram í "ákæru" á hendur einum kennara skólans.

Vonandi verður þessi uppljóstrun til þess að aldrei verði aftur tekið alvarlega nokkuð sem frá félaginu Vantrú, eða einstökum félagsmönnum þess keumur.


mbl.is Heilagt stríð Vantrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður þolir ekki andstæðar skoðanir

Gísli Tryggvason, umboðsmaður neytenda, hefur sagt sig úr félagi lögfræðinga vegna þess að félagið hélt fund um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, þar sem fram komu efasemdir um tillögur ráðsins, sem umboðsmaðurinn átti sæti í.

Umbinn komst ekki sjálfur á þennan fund, en frétti af því að efasemdaraddirnar hefðu verði háværari en þær sem studdu tillögurnar og það þoldi hann ekki og hringdi umsvifalaust í lögfræðingafélagið og tilkynnti úrsögn sína og þar næst í fjölmiðlana til að kynna þessa fýlupúkalegu afstöðu sína.

Fólki er að sjálfsögðu frjálst að ganga í og úr félögum eins og því sýnist og eins getur það verið sammála eða ósammála hverju sem er, en varla getur það talist sérstakt fréttaefni þó einstaklingar segi sig úr einhverjum félagsskap vegna ósættis við einstök mál sem rædd eru á félagsfundum.

Varla skapar þessi frétt neina sérstaka spennu um hvort umbinn segi sig úr fleiri félögum eða gangi í einhver ný.


mbl.is Sagði sig úr Lögfræðingafélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stelpurnar okkar" í stuði

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann frækilegan sigur á Svartfjellingum á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í dag, eftir æsispennandi leik sem lauk með sigri íslendinganna sem skoruðu 22 mörk gegn 21 svartfjellsku.

Þetta var óvæntur sigur, þar sem Svartfjellingar eru með sterkt lið og hefur verið spáð verðlaunasæti á mótinu. Þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið í handbolta kemst á heimsmeistaramót var í sjálfu sér ekki reiknað með að liðið næði að skipa sér á bekk með þeim bestu, en þessi úrlit auka þó vonir um gott gengi liðsins á mótinu.

Stelpunum er óskað góðs gengis í leikjunum sem eftir eru og nú sameinast þjóðin að baki stelpnanna okkar.


mbl.is Ísland vann fyrsta leik á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn í hvernig stórríki vill Össur innlimast?

ESB stendur á miklum tímamótum núna og allir málsmetandi menn eru sammála um að nú sé orðið bráðnauðsynlegt að ganga skrefið til fulls og stofna formlegt stórríki Evrópu, með einni yfirstjórn og breyta núverandi ríkisstjórnum aðildarlandanna í héraðsstjórnir.

Takist ekki að ná fram nauðsynlegum breytingum á "stjórnarskrá" ESB verður a.m.k. að stofna nýtt efnahagsbandalag evruríkjanna með einum fjármálaráðherra og einum samræmdum fjárlögum fyrir þau öll og náist ekki heldur samkomulag um slíkt yrði þrautalendingin að skipta myntbandalaginu í tvennt, þ.e. í sambandsríki fjárhagslega sterkra og ábyrgra ríkja og svo hinna veiku og óábyrgu.

Allir virðast vera sammál um að evran muni ekki standast sem gjaldmiðill til framtíðar nema miklar breytingar verði á efnahagsstjórn myntbandalagsins og vonandi tekst að bjarga henni fyrir horn, enda hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálakerfi heimsins ef evran springi í frumeindir sínar og ríkin neyddust til að taka upp sína gömlu gjaldmiðla.

Þar sem allt er í lausu lofti með framtíð ESB og ekki síður evrunnar, er algerlega óskiljanlegt að áformum um innlimun Íslands í þennan veikburða þurs, sem ESB er nú um stundir, skuli ekki hætt eða a.m.k. slegið á frest þangað til séð verður hvernig úr rætist fyrir ESB og myntsamstarfinu.

Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, sem raunverulega eru allsráðandi í ESB munu ákveða sín á milli eftir helgi hvað aðrir verða látnir samþykkja varðandi björgunaraðgerðirnar.

Afar ólíklegt er að þau muni ráðfæra sig við Jóhönnu, Össur eða Steingrím J. áður en þau ákveða hvað gera skuli.


mbl.is Delors gagnrýnir evrusamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur og Steingrímur J. innleiða ESB-spillingu

Össur Skarphéðinsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi staðfesti samning sem hann undirritaði við ESB í júlí s.l. og kveður á um skattfrelsi þeirra sem taka munu að sér að reka áróður fyrir innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB.

Í fréttinni segir m.a: "Samningurinn byggist á þessum sömu grundvallarsjónarmiðum. Þannig skulu einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af IPA-aðstoð ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Að meginstefnu er því hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og almennt gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Hinu sama gegnir um önnur opinber gjöld."

Svona hundakúnstir í lagasetningu leiðir að sjálfsögðu til þess að allir einstaklingar, sem taka að sér þessi skítverk fyrir Össur, munu flytja lögheimili sitt til Brussel á meðan á vinnu þeirra við áróðursstörfin stendur yfir.  Það verður þar að auki að teljast með ólíkindum að nokkrum manni skuli detta í hug að innleiða slíka spillingu inn í íslensk lög og stuðla þannig að tilkomu nýrrar ESBelítu í landinu, sem æðri verður lögum sem almenningur verður að lúta.

Steingrímur J. hefur lofað Össuri ESB-bróður sínum að flytja frumvarp til breytinga á skattalögum til þess að innleiða ESB-spillinguna endanlega.

Verður því virkilega trúað að stuðningsmenn ESB á Íslandi séu samþykkir innleiðingu svona spillingar og mismunun þegnanna? 


mbl.is Samþykki rammasamning um fjárhagsaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband