Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Stopp á innlimunina í ESB, strax.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ráðuneyti hans muni ekki taka upp lög og reglugerðir ESB fyrr en eftir að innlimun Íslands í stórríkið hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, en Samfylkingin er farin að vinna að því öllum árum að lauma laga- og regluverki stórríkisins upp á Íslendinga, án þess að láta sér detta í hug að bera slíkt undir þjóðina.

Beiðni Samfylkingarinnar til ESB um að innlima Ísland í stórríkið var aðeins þessi eina setning: 

 "Tillaga til þingsályktunar

um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning."

Þetta er það, sem Samfylkingunni tókst að ljúga VG til að styðja, en þarna er hvergi minnst á að Íslendingar skuli taka upp laga- og reglugerðarfargan ESB áður en hugsanlegur samningur um innlimunina lægi fyrir.  Þvert á móti var látið líta svo út, að þjóðin ætti að hafa síðasta orðið um væntanlegan samning, þegar fólk sæi hvað "væri í pakkanum".

VG og sjálfsagt fleiri, sem héldu að þeir fengju að kíkja í einhvern "pakka" áður en þeir gerðu upp hug sinn, eru nú að vakna upp við vondan draum og uppgötva óheiðarleika Samfylkingarinnar í öllu þessu ferli og eru að byrja að tjá sig um svikin, sem þeir hafa verið beittir í þessu máli.

Það verður að taka undir með Jóni Bjarnasyni, að þessa svikamyllu verður að stoppa strax.

 


mbl.is Kominn tími til að segja stopp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á líka að fella niður persónulegar skuldir Jóns Ásgeirs?

Fyrirtæki Bónusgengisins skulduðu þúsund milljarða króna þegar þau fóru í þrot og stór hluti þessara skulda verður afskrifaður, vegna þess að rekstur fyrirtækjanna var með þeim endemum, að tiltölulega lítið mun innheimtast upp í kröfur við gjaldþrotaskipti þeirra.

Nú eru að koma upp á yfirborðið fréttir af því, að Jón Ásgeir og félagar hafi skuldað Baugi eitt þúsund milljónir króna vegna hlutafjárloforða, en slík upphæð hefur fegrað eiginfjárstöðu félagsins að miklum mun og villt um fyrir lánadrottnum og birgjum félagsins.  Í sjálfu sér þarf enginn að vera hissa á þessum kúnstum við að fegra eiginfjárstöðu Baugs, miðað við annað sem komið hefur fram um rekstur fyrirtækja Bónusgengisins og persónuleg fjármál meðlima þess.

Alveg væri það með ólíkindum, ef þessar persónulegu skuldir Jóns Ásgeirs og félaga vegna hlutafjárkaupanna verða felldar niður, án þess að reyna innheimtu til fullnustu og ganga að öllum eignum þeirra, áður en nokkuð verði afskrifað.

Slíkar afskriftir eru ekki réttlætanlegar, nema viðkomandi skuldarar lýsi sig persónulega gjaldþrota áður.  Allt annað er móðgun við þá skuldara þessa lands, sem þurfa að glíma við afleiðingar hrunsins sem þetta sama gengi átti stóran hlut í að valda.


mbl.is Skulda milljarð vegna hlutafjárkaupa í Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 18 þúsund manns að mótmæla atvinnuuppbyggingu?

Nú hafa rúmlega átján þúsund manns skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald og nýtingu orkuauðlindanna, án þess að nánar komi fram um hvað verði spurt í atkvæðagreiðslunni, t.d. hvort ríkið skuli eiga og nýta allar orkuauðlindir, bæði ár og jarðhita, eða hvort sveitarfélög teljist til opinberra aðila í þessu sambandi og enn síður er útskýrt hvað átt er við með nýtingu orkuauðlindanna.

Skyldi hópurinn sem stendur fyrir þessari undirskriftasöfnun vera á sömu skoðun og núverandi stjórnendur OR, að orkuauðlindir skuli einungis nota til að framleiða rafmagn og hita til heimilisnota, eða á ef til vill að leyfa orkusölu til smáfyrirtækja, svo sem prjónastofa og gróðurhúsa, en heyrst hafa raddir um að stórátak megi gera í atvinnumálum þjóðarinnar með rósarækt í gróðurhúsum og þannig megi jafnvel skáka Hollendingum út af blómamarkaði heimsins.

 

Það sem græningjum virðist vera lífsins ómögulegt að skilja, er að þegar rætt er um atvinnumál, þá er verið að tala um fasta vinnu til margra ára fyrir tugþúsundir manna og kvenna, en ekki útgáfu bókar, uppsetningu málverkasýningar eða skipulagningu á tónleikaferðum.  Næsta vetur munu a.m.k. 16.000 manns vera atvinnulaus hér á landi, fyrir utan þá sem þegar hafa flutt erlendis, en nú stefnir í að fólksflutningar frá landinu verði þeir mestu í Íslandssögunni.  Árlega bætast 3 - 5000 manns á atvinnumarkaðinn og þarf að skapa fasta varanlega vinnu fyrir allt þetta fólk sem og þá sem bætast á vinnumarkaðinn á hverju ári í framtíðinni og þetta fólk skapar sér ekki allt framtíðarstörf með eigin listagáfu og ekki tekur ferðamannaiðnaðurinn við þeim öllum og ekki vinna við tilraunir með græna orku heldur.

Það þarf að efla allar greinar atvinnulífsins og fjölga störfum í öllum geirum, ekki bara fyrir mennta- og listaklíkur, heldur ekki síður (og miklu frekar) fyrir verkafólk, iðnaðar- og tæknimenntað fólk, menntafólk á öllum sviðum, sem sagt almenning í landinu, en ekki eingöngu þá, sem geta skapað sér eitthvað sjálfir og staðið undir sér, með eða án listamannalauna.

Þegar vinstri sinnað menntafólk kemst í samband við þann veruleika sem þjóðin lifir í og fer að gera sér grein fyrir þörum annarra en sjálfs sín, færist umræðan vonandi á vitrænna plan varðandi atvinnu- og efnahagsmálin, sem og önnur brýn hagsmunamál almennings í landinu.

Skyldu mörg nöfn vera bæði á þessum undirskriftarlista og á lista yfir atvinnulausa?


mbl.is 18 þúsund undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygin um að "skoða í pakkann"

Samfylkingin hefur fram á þennan dag logið því í þjóðina, að með inngöngubeiðni í ESB verði til uppkast að samningi, þannig að hægt verði "að skoða í pakkann" og sjá hvað í honum verði, áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn fari fram.  Meira að segja tókst Samfylkingunni að ljúga þessu að VG í stjórnarmyndunarviðræðunum í fyrra og eins grænir og þeir eru í flestum málum, trúðu þeir lygasögunni og samþykktu innlimunarbeiðnina sem Össur afhenti fulltrúum ESB tvívegis í gleði sinni með vel heppnaðar blekkingar.

Nú eru að renna tvær grímur á þingmenn VG, enda er æ betur að koma í ljós hvernig þeir voru blekktir, enda ekki um neinn "samningspakka" að ræða sem hægt verður að kíkja í og skoða frá öllum hliðum, heldur eingöngu aðlögunarferli að regluverki stórríkisins væntanlega og ekkert sem Íslendingum stendur til boða, annað en að taka upp þau lög og reglur sem gilda í stórríkinu, með hugsanlegri aðlögun í örfá ár.

Nú virðist eiga að taka við fjögurra milljarða mútum frá ESB, sem nota á til að samræma íslensk lög við lög stórríkisins, þannig að þegar "samningar" verði frágengnir, þá verði Íslensk lög orðin algerlega samræmd lögum og regluverki ESB og ekkert verði eftir annað en að staðfesta inngönguna formlega á Alþingi.

Margir hafa verið samþykkir því, að fara í "samningaviðræður" við ESB til að sjá hvað sé í "pakkanum", en nú er komið í ljós að í pakkanum er ekkert annað en regluverk ESB ómengað og Íslendingar verða að þiggja "pakkann" eins og hann kemur fyrir, því ekki er hægt að velja úr honum það sem mönnum sýnist og skilja annað eftir.

Er ekki tími kominn til að Samfylkingin fari að ræða þessa innlimun í ESB sannleikanum samkvæmt og fari að koma heiðarlega fram gegn þjóðinni?


mbl.is ESB leggur milljarða í aðlögun Íslands að stofnana- og regluverki þess
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartstakkar og þögnin

Geir Waage, foringi Svartstakka innan þjóðkirkjunnar, segir að prestar verði að þegja yfir þeim glæpum, barnaníði sem öðrum, sem þeir komist á snoðir um í viðtölum sínum við þá glæpamenn sem til þeirra leita og skýra þeim frá glæpaverkum sínum.  Geir bendir á að dómara sé heimilt að skylda lækna, endurskoðendur, félagsráðgjafa, sálfræðinga o. fl. til að upplýsa um það sem skjólstæðingur hefur trúað þeim fyrir, en sérstakt bann sé við því að prestar vitni um slíkt.

Guðsmaðurinn segir einnig að forsendur skrifta og sálusorgunar presta séu brostnar ef trúnaðurinn sé ógiltur og þá muni prestum aldrei verða trúað fyrir einu eða neinu.  Þetta stenst nú varla skoðun hjá manninum, því allir hljóta að geta haldið áfram að trúa presti sínum fyrir hverju sem er, væntalega öðru en stórglæpum, alveg eins og þeir treysta læknum, endurskoðendum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum fyrir sínum málum, þrátt fyrir skyldu þeirra stétta um að tilkynna þá glæpi, sem þær verða áskynja um.

Trúnaður presta við skjólstæðinga sína getur aldrei réttlætt þögn um stórglæpi, enda getur enginn prestur með sómatilfinningu talið það sér til framdráttar að hylma yfir með glæpamönnum.  Barnaníðingar og aðrir glæpamenn eiga heldur ekkert sérstakt erindi við aðra opinbera starfsmenn en lögregluna og í sumum tilfellum heilbrigðisstarfsmenn einnig.

Aðrir opinberir starfsmenn eiga ekki að sinna glæpamönnum og allra síst á laun.

 


mbl.is Ríkari trúnaðarskylda samkvæmt lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningardrykkja unglinga

Mennignagrnótt er frábært framtak borgarinnar og einstaklinga sem sameinast um að gera dgskrána bæði fjölbreytta og bráðskemmtilega.  Allir geta fundið atburði og skemmtiatriði við sitt hæfi og kynnast ýmsu nýju, sem fólk hefur ekki haft hugmyndaflug til  láta sér detta í hug að væri til í borginni.

Það sem þó skyggir á daginn, eða réttara sagt nóttina eftir að dagskránni er lokið , er unglingadrykkjan sem er mikið vandamál, en í bænum eru drukknir unglingar alveg niður í tólf ára aldur, þó þeir séu, sem betur fer tiltölulega fáir, en hins vegar er mikill fjöldi drukkinna unglinga frá 15 ára aldri, sem setur ljótan blett á lok þessa annars skemmitlega dags.

Það sem einna helst dregur þessa unglinga í bæinn þetta kvöld eru stórtónleikar Rásar 2 og nú einnig Bylgjunnar, en þeir eru settir síðast á dagskrána, næst á undan flugeldasýningunni.  Ef þessir tónleikar yrðu fluttir fram á miðjan daginn og jafnvel á Klambratún, er mjög líklegt að draga mætti úr þessari unglíngadrykkju í miðbænum , langt fram á nótt.

Unglingadrykkjan á ekki og  má ekki vera aðalfréttaefni vegna Menningarnætur.


mbl.is Annasöm nótt hjá lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sækja perrar í prestsstörfin?

Guðrún Ebba Ólafsdóttir skýrði kirkjuþingi frá því að faðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega sem barn og ásakanir komu fram á hendur honum um kynferðislegt áreiti á meðan hann gegndi prestsstörfum, en ekkert var gert í þeim málum á meðan hann var biskup og kirkjuþing virðist ekki hafa haft nema takmarkaðan áhuga á að hlýða á frásögn Guðrúnar Ebbu og hvað þá að það hafi ályktað nokkuð um málið, eða virðist ætla að gera lítið annað með upplýsingarnar, en að þegja um þær.

Meira að segja Karl Sigurbjörnsson, biskup, gefur allt að því í skyn að Guðrún Ebba segi ekki satt um förður sinn, eins og líklegt sé að fólk ljúgi slíku upp á látið foreldri sitt, en aðspurður um málið, segir hann:  "Ólafur biskup stendur frammi fyrir þeim dómstóli sem um síðir mun dæma okkur öll, hvert og eitt. En fyrir mannlegum augum er hver saklaus uns sekt er sönnuð og þessi sekt verður aldrei sönnuð."  Þetta eru ekki merkileg huggunarorð frá biskupi Íslands til Guðrúnar Ebbu, sem sýndi mikinn kjark og andlegan styrk með því að skýra frá þessum hroðalega kafla í lífi sínu fyrir æðstu stofnun kirkjunnar.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að dæmi séu um að ásakanir um kynferðisbrot kirkjunnar manna séu þögguð niður, því þau þykji óþægileg og því sé lítið gert úr þeim.  Það eru í sjálfu sér stórmerkileg og alvarleg tíðindi, að slík mál skuli yfirleitt koma upp í þessari stétt manna og hvað þá ef þau eru hreint ekki óalgeng.  Prestastéttin í landinu telur ekki meira en um 150 manns og þar af er nokkur fjöldi kvenna, svo ef ásakanir um kynferðisbrot koma ósjaldan upp innan þessa fámenna hóps, þá er meira en lítið að innan kirkjunnar.

Sé þetta rétt, virðist ekki vera vanþörf á að rannsaka hvort perrar sæki í prestsstörfin.

 


mbl.is Kynferðisbrot þögguð niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes í Bónus er "óháður" stjórnarformaður Haga

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, gagnrýndi Arion banka harðlega í viðtali við Viðskiptablaðið, vegna ótrúlegrar þjónkunar bankans við Bónusfeðgana Jóhannes og Jón Ásgeir, sem rökuðu að sér auðæfum bankanna á þeim tíma, sem Jón Ásgeir var skuldakóngur Íslands, en samtals skulduðu félög honum tengd um eittþúsundmilljarða króna á velmektardögum útrásargengisins.

Helga Þóra Eiðsdóttir, forstöðmaður á skrifstofu bankastjóra Arion banka, harðneitar öllum ásökunum um að Arion banki hygli þeim feðgum á nokkurn hátt og segir m.a.  "Við megum ekki samkvæmt Samkeppniseftirlitinu skipta okkur af daglegum rekstri félagsins. Hagar eru sjálfstætt eignarhaldsfélag og í stjórn Haga sitja óháðir aðilar. Við komum ekkert að því hvernig þeir nota sitt auglýsingafé, hvar þeir eru að auglýsa"

Óháða stjórnin í félaginu er svo skipuð samkvæmt heimasíðu Haga:

Stjórn

Jóhannes Jónsson

Steinn Logi Björnsson

Svana Helen Björnsdóttir

Guðbrandur Sigurðsson

Erna Gísladóttir

Varamenn

Kristín jóhannesdóttir

Sigurjón Pálsson

Eignarhlutur

Arion banki á 95,7% í Högum.

Eins og sjá má þá er Jóhannes Jónsson stjórnarformaður og dóttir hans er varamaður í stjórn, ásamt því að Steinn Logi Björnsson er í stjórn, en hann var forstjóri Húsasmiðjunnar á meðan Baugur átti það fyrirtæki, en eins og allir vita, þá var Högum komið undan gjaldþroti Baugs á sínum tíma.  Að kalla þetta óháða stjórn, er annaðhvort mikið grín hjá Helgu, eða hún er hreinlega að hæðast að blaðamanninum, sem við hana talaði og þar með lesendum fjölmiðilsins.

Það er þessi algerlega "óháða" stjórn, sem beinir öllu auglýsingafé Haga til 365 miðla, sem eru í eigu hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs, en 365 miðla eignuðust þau hjón fyrir einstakan velvilja bankans, sem lét þau hafa fjölmiðlana á slikk, en afskrifaði um leið milljarða skuldir sem Jón Ásgeir skildi eftir vegna eldra félags um þann rekstur.

Af þessu öllu má ráða, að ekki er nóg með að Bónusgengið sé algerlega óháð öllum lögmálum viðskiptalífsins, heldur er Arion banki það líka.


mbl.is Vísar ummælum Páls á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðsstjórinn og klappstýran

Klappstýra útrásargengisins nr. 1 og einn af liðsstjórum gengisins virðast vera komnir í hár saman vegna ágreinings um það, hvort liðsstjórinn hafi ótilkvaddur látið svo lítið að skjótast á þotu sinni hingað á skerið í bankahruninu, eða hvort það hafi hann gert að frumkvæði klappstýruliðsins, sem dansað hafi og sungið svo fagurlega, að hann hafi ekki staðist mátið og hraðað sér til landsins við taktfastan dans "grúppía" sinna.

Erindið til landsins var að sögn liðsstjórans að bjarga Landsbankanum frá hruni, en sú björgun átti að felast í því, að fá Glitni gefins og sameina hann Landsbankanum, en með því átti að steypa saman tveim gjaldþrotum og gera úr þeim ekkert gjaldþrot, enda var inni í áætluninni að Seðlabankinn legði þessum sameinuðu gjaldþrotum til nokkur hundruð milljarða króna af skattfé landsmanna.

Vegna illmennsku þáverandi seðlabankastjóra heppnaðist rústabjörgunin ekki sem skyldi, enda hefur því verið vandlega haldið á lofti síðan, hversu illilega liðsstjórinn misskildist við björgunarstörfin og hvernig allt sem miður hefur farið í viðskiptum í gegnum tíðina, hefur verið öðrum að kenna, en þeim sem viðskiptin stunduðu.

Nú verður líklega að kalla út rannsóknarnefnd til að upplýsa hver hrindi í hvern og hvenær og hver sagði hvað og hvað ekki, ásamt því að finna út hvort og hvenær klappstýrurnar dönsuðu og hvort það hafi verið að þeirra eigin frumkvæði eða aðeins eftir pöntunum.

Danskort klappstýranna er ekki fullkomin heimild að þessu leyti og því nauðsynlegt að setja rannsóknarnefnd í málið.   Íslandssagan verður að vera rétt skráð. 


mbl.is Hringdi ekki til Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur Thor farinn að sleikja loppuna

Eins og allir vita felst kattarþvottur í því, að kisan sleikir á sér loppuna til að bleyta hana og nuddar svo á sér snoppuna og á bak við eyrun, en þvotturinn sem slíkur, er í sjálfu sér ekki talinn hreinsa kisugreyið svo neinu nemi.

Björgólfur Thor opnaði einkabloggsíðu í dag, þar sem hann reynir að þvo af sér allt kám vegna bankahrunsins hér á landi og bendir á alla aðra sem sökudólga, jafnt seljendur Landsbankans sem starfsmenn hans.  Björgólfur segir að þeir einu sem tandurhreinir séu í þeim efnum, séu þeir feðgar, hann sjálfur og pabbi, en þeir hafi bara ekki stjórnað einu eða neinu í bankanum.  Hvað sem var um aðkomu júniorsins að stjórn bankans, voru þeir feðgar drjúgir viðskiptavinir bankans síns og fengu þar lán til ýmissa hluta, misgáfulegra, t.d. kaupa á knattspyrnufélagi í Englandi og fleira slíkt, sem kom pabbanum í gjaldþrot, þó sonurinn hafi sloppið við það hingað til.

Allir sem með Björgólfi Thor störfuðu, virðast hafa unnið að því hörðum höndum að koma honum og fyrirtækjum hans á hausinn, t.d. Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, en það fyrirtæki fór ekki að ganga að sögn Björgólfs, fyrr en hann var búinn að reka Róbert og bjarga fyrirtækinu þannig fyrir horn.  Á sínum tíma var sagt að Björgólfur Thor væri að kaupa alla aðra fjárfesta út úr Actavis, en segir nú að fyrirtækið sé gríðarlega skuldugt vegna þeirrar yfirtöku, þannig að hann virðist þá hafa látið fyrirtækið lána sér peninga til kaupanna, því ekki hefur Actavis keypt sjálft sig, fyrst Björgólfur Thor segist eiga það.

Björgólfur segir líka að nánast allir sem á annað borð höfðu símanúmerið hans, hafi hringt til að fá hann til að koma til landsins og bjarga bankakerfinu frá hruni, en líklega hefur Björgólfur bara komið deginum of seint, til að möguleiki væri að redda hlutunum, enda allir hinir sem að málinu komu hreinustu aumingjar í samanburði við snillinginn.  Þó er afar athyglisvert að heyra af því að Ólafur Ragnar hafi verið að vasast í þessari bankabjörgun og verið í símasambandi við Björgólf og hvatt hann eindregið til að bregða undir sig þotunni og skjótast á klakann til björgunarstarfa.  Víða hefur sú klappstýra dansað og sjálfsagt ekki frést af öllum danspöllunum ennþá.

Kattaþvottur Björgólfs Thors er rétt að byrja.  Hann er varla byrjaður að sleikja loppuna.


mbl.is Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband