Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Ófyndinn en hlægilegur borgarstjóri

Jón Gnarr er góður leikari þegar hann getur leikið fyrirfram skrifuð hlutverk, sem vinna hefur verið lögð í að fínpússa og æfa vel, áður en verkið er sett á svið fyrir áhorfendur.  Sérstaklega er hann góður í gamanhlutverkum og leikur þá gjarnan fyndnar eða grátbroslegar persónur, eins og leiksigur hans í Vaktamyndunum sannaði eftirmynnilega.

Leiksigur Jóns Gnarr í Vaktaseríunni hefur nú skilað honum í borgarstjórastólinn, en það hlutverk hefur sannað og sýnt, að hann getur ekki með nokkru móti leikið óæft hlutverk, þar sem spinna þarf textann jafnvel óundirbúið og flytja hann fyrir áheyrendum og áhorfendum óæfðan.  Slíkt hlutverk ræður Jón Gnarr engan veginn við og því hefur honum farnast afar illa í hlutverki borgarstjóra og virðist engan veginn geta náð tökum á því, enda sjaldnast hægt að styðjast við fyrirframskrifað handrit góðra höfunda.

Nýjasta dæmið um vanmátt Jóns Gnarr gagnvart hlutverki sínu, er sú óánægja sem hann lýsir af móttökum áhorfenda að leiktilburðum hans, en hann segir t.d. á dagbókarsíðu sinni:  "Mér finnst ég sýna auðmýkt en fá lítið á móti nema töffaragang, hroka og eða fálæti, ég brosi, en fæ lítið tilbaka."  Svo lýkur hann dagbókarfærslunni í örvæntingarkasti á þessa leið:  "Á ég að hætta líka að brosa eða reyna áfram að vingast við þetta fólk sem ber ekki virðingu fyrir mér og því sem við erum að reyna að gera. Ætla að sofa á þessu. Góða nótt."

Í hlutverki borgarstjórans í Reykjavík er leikarinn Jón Gnarr ekki fyndinn, bara hlægilegur og á auðvitað skilið að fá meðaumkun áhorfenda en ekki töffaragang, hroka og fálæti.

Það er þó bót í máli að þó sýningin hafi kolfallið, þá getur leikarinn hlægilegi brosað í gegnum tárin.


mbl.is Sýni auðmýkt en fæ töffaragang á móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árás á velgjörðarmenn

Mál Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttir, sem varð fyrir hræðilegri lífsreynslu vegna kynferðislegs ofbeldis af hálfu Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, tröllríður nú þjóðfélaginu á ný, ekki síst eftir að dóttir Ólafs kom fyrir kirkjuráð og skýrði frá barnaníði hans í sinn garð, þegar hún var barn og unglingur.

Við upprifjun málsins og endursýningar á viðtölum við Ólaf frá þeim tíma er málið kom fyrst upp, sést vel hvílíkur siðleysingi hann hefur verið, enda þrætti hann fyrir allar sínar misgjörðir fram í rauðan dauðann og gekk meira að segja svo langt, að kæra Sigrúnu Pálínu, aðra konu og Geir Waage til saksóknara fyrir ærumeiðingar.  Illu heilli felldi saksóknari málið niður og taldi ekki tilefni til að gera neitt frekar í málinu.  Hefði málið verið rannsakað almennilega á þeim tíma, gæti allt hafa farið á annan veg, en það gerði á sínum tíma.

Það sem hins vegar skyggir á allt þetta mál núna, eru árásir Sigrúnar Pálínu á velgjörðarmenn sína frá þessum tíma, þá séra Hjálmar Jónsson og Karl Sigurbjörnsson, biskup, sem hún leitaði til um að hafa milligöngu um afsökunarbeiðni frá Ólafi, sem hann hafnaði algerlega og brást reyndar ókvæða við.  Þessir menn, sem ekki mega vamm sitt vita, drógust inn í málið fyrir þrábeiðni Sigrúnar Pálínu og sæta nú ómaklegum árásum fyrir að reyna allt sem þeir gátu til aðstoðar henni í þessu skelfilega máli.

Hætt er við, að menn  veigri sér við að blanda sér í svona erfið og viðkvæm mál, ef þeir eiga það á hættu að verða fyrir árásum og ásökunum vegna heiðarlegra tilrauna sinna til að aðstoða fórnarlömb kynferðisofbeldis eða annarra glæpa.

Í þessu máli var aðeins einn sökudólgur og það var Ólafur Skúlason.  Að ásaka hjálparmennina og stofnunina sem þeir vinna hjá og var einnig vinnuveitandi Ólafs, er algerlega ómaklegt.


mbl.is Vísar á bug gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll gerir það ekki endasleppt

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur, svo ótrúlegt sem það er, skipað stjórn Íbúðalánasjóðs að setja á fót sérstaka valnefnd til að meta hæfi umsækjenda um framkvæmdastjórastöðu stofnunarinnar.  Enn ótrúlegra er, að stjórnin skuli taka við slíkum skipunum frá ráðherranum, en eitt af verkefnum stjórnarinnar er einmitt að ráða framkvæmdastjóra og lýsir það algerum aulaskap, að hafa verið að velkjast með málið mánuðum saman án þess að komast að nokkurri niðurstöðu.

Stjórnin hafði fengið ráðningarstofuna Capasent til að meta umsækjendur um stöðuna og var niðustaða stofunnar sú, að Ásta H. Bragadóttir væri umsækjenda hæfust í starfið, enda gengt stöðu framkvæmdastjóra unanfarna mánuði og verið aðstoðarframkvæmdastjóri til margra ára.  Vegna pólitískra afskipta Árna Páls af ráðningarferlinu hefur stjórnin ekki haft í sér manndóm til að ganga frá málinu og lýsir nú algerri uppgjöf með ákvörðun sinni um nýja valnefnd til að endurskoða álit Capasent og finna leið til að ráða þann, sem Árna Páli er þóknanlegur.

Þessum auma ráðherra, sem jafnframt er jafnréttisráðherra, virðist vera algerlega þvert um geð að ráða konur til stjórnunarstarfa, eins og hann hefur áður sýnt, t.d. við ráðningu umboðsmanns skuldara.

Svona afgreiðsla stjórnar ÍLS sýnir svart á hvítu að hún er ekki starfi sínu vaxin og ekki þarf að fara mörgum orðum um Árna Pál.  Hann hefur dæmt sjálfan sig út úr íslenskri pólitík til allrar framtíðar.

Enginn mun taka hann alvarlega framar og stjórnarmenn ÍLS haf jafnframt orðið sjálfum sér til ævarandi skammar.


mbl.is Ásta dregur umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlimunarferlið í ESB er hafið

Ráðherrar Samfylkingarinnar og nytsamir sakleysingjar, sem fylgja þeim að málum, hafa farið mikinn undanfarna daga og haldið því fram að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fari með tóma vitleysu, þegar hann heldur því fram að innlimunarferlið í væntanlegt stórríki ESB sé komið í fullan gang.  Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa gengið lengst í ósannindavaðlinum um hvað sé á seyði og segja að víst sé bara verið að gæjast í "pakkann" til að sjá "hvað upp úr honum muni koma".

Til að afhjúpa hvað er í gangi, er nóg að kynna sér hvað ESB segir sjálft um þetta ferli á vefsíðu sinni og má t.d. sjá það Hérna

Meðal annars segir um inngöngu nýrra ríkja á síðunni:  "In 1995 the Madrid European Council further clarified that a candidate country must also be able to put the EU rules and procedures into effect. Accession also requires the candidate country to have created the conditions for its integration by adapting its administrative structures. While it is important for EU legislation to be transposed into national legislation, it is even more important for the legislation to be implemented and enforced effectively through the appropriate administrative and judicial structures. This is a prerequisite of the mutual trust needed for EU membership."

Egill Jóhannsson rakti þetta ferli einnig lið fyrir lið á sínu bloggi, en það má lesa HÉRNA en þar flettir hann svo vel ofan af blekkingarleik Samfylkingarinnar, að varla verður betur gert og þarf enginn að velkjast í vafa um hvað er að gerast í samskiptum Íslands og ESB um þessar mundir.

Þingmenn og almennir flokksmenn VG eru að vakna upp við vondan draum og sjá þá að Samfylkingin hefur verið að draga þá og þjóðina á asnaeyrunum frá því ríkisstjórnin var mynduð, með þvaðrinu um að allt snerist þetta mál um "að skoða hvað væri í pakkanum".

VG getur hins vegar ekki vikist undan því, að þeir eru samábyrgir fyrir þessum blekkingum og geta ekki með nokkru móti skotið sér undan því, nema með því að sjá til þess að skollaleiknum verði hætt umsvifalaust.

 

 


mbl.is Funda um stöðu ESB-umsóknarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víti til varnaðar

Nafn Ásdísar Ránar, fyrirsætu og viðskiptasnillings, hefur verið misnotað undanfarið af einhverjum svindlara til þess að lokka ungar stúlkur til að senda sér nektarmyndir og fá þær til að sýna sig fáklæddar á vefmyndavélum og spila klámfengna leiki.

Á heimasíðu Ásdísar Ránar segir m.a:  "Hann notar nafnið mitt, myndir og allar réttar upplýsingar og basically veit allt um mig, svo það er erfitt að þekkja að þetta sé ekki ég. Samkvæmt heimildum mínum er hann búinn að plata margar stúlkur síðustu mánuði til að senda sér nektarmyndir, láta þær sýna sér í gegnum webcam brjóstin og aðra líkamsparta og spila allskonar dirty leiki. Hann er að lofa þeim myndatökum fyrir Playboy og önnur karlablöð og þykist þurfa að sjá hvernig þær líta út áður. Ef þær fatta að þetta er ekki ég að lokum, þá hótar þeim að gera myndirnar opinberar, senda manninum þeirra eða eitthvað álíka."

Þetta leiðir hugann að því, hvað auðvelt virðist vera orðið að fá unglingsstúlkur til að opinbera sig naktar í tölvusamskiptum, að því er virðist við hina og þessa, sem þær vita lítil sem engin deili á, í von um frægð og frama í tískuheiminum eða til að fá birtar af sér myndir í "karlablöðum".  Eins virðast alls kyns perrar eiga tiltölulega auðvelt með að komast í kynni við ungar stelpur á netinu og tekst stundum í framhaldinu að vinna þeim alls kyns tjón, andlegt og líkamlegt.

Þetta er skuggaleg þróun, sem berjast verður gegn með öllum tiltækum ráðum og er þá átt við fræðslu og umræður um þessi mál, en ekki boð og bönn við tölvu- og netnotkun.


mbl.is Nafn Ásdísar Ránar misnotað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikaflétta vegna Baugsbréfa afhjúpuð

BGE eignarhaldsfélag var stofnað á sínum tíma af Jóni Ásgeiri í Bónus og félögum hans í þeim tilgangi að sneiða fram hjá hlutafélagalögum, sem banna féagi að lána dótturfélagi fyrir hlutafjárkaupum í móðurfélaginu og því var BGE stofnað, sem einkahlutafélag til þess að komast fram hjá þessum ákvæðum hlutafélagalaganna við fegrun á eigin fé Baugs.  Það gekk þannig fyrir sig að BGE keypti hlutafé í Baugi með láni frá Baugi sjálfum og tók einnig lán hjá Kaupþingi og endurlánaði það fé til eigenda og starfsmanna Baugs og fjármagnaði þannig hlutabréfakaup þeirra í Baugi.

Öll fléttan gekk út á að starfsmennirnir myndu aldrei borga krónu fyrir bréfin, því væntanlega hefur hugsunin verið sú, eins og víðast annarsstaðar hjá Bónusgenginu, að arður af bréfunum ætti að greiða upp kaupverðið á nokkrum árum.  Við gjaldþrot Baugs raknaði öll svikafléttan upp og nú sitja þeir starfsmenn í súpunni, sem létu blekkjast af gylliboðum Bónusgengisins um auðfenginn gróða.

Skýringar Jóns Ásgeirs og félaga um að ekkert veð hefði átt að vera fyrir lánunum frá Kaupþingi stenst ekki skoðun, því Kaupþing lánaði ekki beint til eigenda og starfsmanna, heldur lánaði bankinn peninga til BGE, sem aftur endurlánaði þá til Baugsgengisins og starfsmannanna.  Þrotabú BGE er auðvitað ekki að innheimta vegna lánveitinga Kaupþings til þessara aðila, heldur vegna peninga sem BGE lánaði þeim til að leggja aftur inn í Baug til að fegra stöðuna þar.

Þetta er aðeins ein af minni svikamyllum Bónusgengisins í sambandi við brjálæðislegar lántökur á útrásartímanum, en heildarlántökur gengisins stóðu í um eittþúsund milljörðum króna, þegar spilaborgin hrundi.

Jón Ásgeir hefur gortað sig af því, að hafa gætt þess að setja sig hvergi í persónulegar ábyrgðir fyrir nokkrum hlut, vegna viðskipta á vegum Bónusgengisins og því verður fróðlegt að sjá hvort honum tekst að losa sig við greiðslu á þessari skuld, eins og öðrum.


mbl.is Skuldir starfsmanna innheimtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur ber ábyrgð

Minnisblað lögfræðinga, sem samið var undir ritstjórn fyrrum stjórnarformanns Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta og ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, en í því kemur fram sú lögfræðilega túlkun á tilskipunum ESB, að íslenska ríkið, f.h. skattgreiðenda, beri ekki nokkra ábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, heldur sé ábyrgðin einungis bundin við endurgreiðslugetu tryggingasjóðsins sjálfs.

Þetta eru ekki ný sannindi, heldur hefur þetta verið ljóst öllum þeim, sem læsir eru og hafa haft fyrir því að lesa tilskipanir ESB um innistæðutryggingar, en þar en nánast bannað að ríkissjóðir ábyrgist tryggingasjóðina vegna þess að slíkt myndi mismuna bönkum milli landa á samkeppnissviði afar gróflega, sem algerlega væri andstætt tilgangi ESB um fjórfrelsi og jafna stöðu fyrirtækja innan stórríkisins.

Steingrímur J. Sigfússon og raunar ríkisstjórnin í heild hefur tekið málstað Breta og Hollendinga í þessari deilu og stutt eindregið að Íslendingar verði hnepptir í áratuga skattaþrældóm fyrir þessa fjárkúgara og virðast ennþá vera á þeirra bandi, þrátt fyrir að þjóðin hafi hafnað allri undirgefni gagnvart þessum ofbeldisseggjum í eftirminnilegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur J. boðar nú nýja "samningalotu" við fjárkúgarana, þrátt fyrir öll þau lögfræðiálit sem hann hefur undir höndum og einnig hafa forystumenn bæði ESA og framkvæmdastjórnar ESB viðurkennt að engin ríkisábyrgð eigi að vera fyrir hendi vegna Icesave.  Steingrímur J. hefur því ekki um neitt að semja og ef eitthvað kemur út úr þessum nýju "samningaviðræðum" þá getur það aldrei orðið annað en nýr nauðasamningur um að selja skattgreiðendur hér á landi í ánauð erlendra kúgara.

Ríkið ber enga ábyrgð í þessu máli, en Steingrímur J. ber mikla ábyrgð, a.m.k. á eigin gjörðum.


mbl.is Ríkið ber ekki ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á að reka þá alla

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að Jón Bjarnason verði rekinn úr embætti fyrir að segja það sem hann meinar um svik Samfylkingarinnar varðandi innlimunarferlið að stórríki ESB og ekki síður vegna þess að hann segir umbúðalaust, að hann sé algerlega andvígur þessari innlimun.

Sóknarpresturinn í Laugarnessókn fékk góðar undirtektir víða við þeirri kröfu sinni að Geir Waage yrði rekinn frá Skálholti vegna þess að hann hafði sínar eigin skoðanir á túlkun þagnareiðs presta og dirfðist að tala um þær opinberlega.

Björgvin Björgvinsson, rannsóknarlögreglumaður, var rekinn úr starfi yfirmanns kynferðisafbrotadeildar vegna þess að hann sagði skoðanir sínar á því að fólk ætti einstaka sinnum að líta í eigin barm og taka ábyrgð á drykkju- og dópvenjum sínum.

Nú eru uppi háværar raddir um að Karl Sigurbjörnsson, biskup, eigi að segja sig frá embætti, eða vera rekinn ella, fyrir það sem hann hefur sagt og ekki sagt um þau skelfilegu afbrot sem Ólafur sálugi Skúlason, fyrrverandi biskup, er sakaður um að hafa framið fyrir fjörutíu árum. 

Svona mætti áfram telja kröfurnar um brottrekstra manna úr störfum vegna þess að viðkomandi leyfði sér að hafa skoðanir á einhverju og segja frá því opinberlega, eða jafnvel fyrir að hafa engar skoðanir og hafa ekki vit á að þegja um það.

Er ekki alveg sjálfsagt að reka alla sem hafa skoðanir, sérstaklega ef þær skoðanir eru andstæðar eigin skoðunum?


mbl.is Krefjast afsagnar Jóns Bjarnasonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir að bjarga Landsbankanum?

Kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum kom öllum á óvart, enda söluferlið allt hulið þoku og engar upplýsingar hvernig verðið var fundið út, en það nam um tuttugu milljörðum króna.  Í kaupunum á Vestia fylgdu átta stórfyrirtæki, sem öll höfðu nánast orðið gjaldþrota, en Landsbankinn yfirtekið og sett inn í eignarhaldsfélagið, sem séð hefur um að halda þeim í rekstri í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki á markaðinum, sem ennþá hafa náð að halda sér á floti, þrátt fyrir mikla erfiðleika.

Eitt af þessum átta fyrirtækjum er t.d. Húsasmiðjan, sem Bónusgengið var búið að keyra í þrot, þannig að Landsbankinn sá sér ekki annað fært en yfirtaka fyrirtækið, væntanlega fella niður af því einhverjar skuldir og síðan hefur fyrirtækið verið rekið í grimmri samkeppni við Byko og Múrbúðina, sem ekki hafa notið sambærilegrar skuldaniðurfærslu og Húsasmiðjan.  Ekki þarf að fjölyrða um það, að eins og markaðurinn er núna, er enginn rekstrargrundvöllur fyrir Húsasmiðjunni og ekki mun ástandið batna, ef og þegar Bauhaus kemur inn á byggingavörumarkaðinn.

Óskiljanlegt er með öllu, hvers vegna Vestia auglýsti fyrirtækin ekki til sölu í opnu og gagnsæju ferli, þannig að öllum sem bolmagn hefðu til, gætu boðið í þau, jafnt innlendir sem erlendir aðilar.  Fulltrúar lífeyrissjóðanna segja að Vestia verði rekið áfram í óbreyttu formi og þegar tímar líða og fyrirtækin verði söluhæf, verði þau seld á opnum markaði, þannig að hlutverk Vestia sé óbreytt, þrátt fyrir sölu félagsins frá Landsbankanum til lífeyrissjóðanna.

Ekki er hægt að draga aðra ályktun af þessu einkennilega máli en þá, að þessi kaup lífeyrissjóðanna á Vestia hafi verið í þeim eina tilgangi að bjarga Landsbankanum frá nýju hruni, því tuttugumilljarða innspýting í bankann hlýtur að vera mikil vítamínsprauta, eftir dóm Hæstaréttar um gengislánin.

Allt flokkast þetta undir stefnu ríkisstjórnarinnar um opna og gagnsæja stjórnsýslu, þar sem allt er "uppi á borðum".


mbl.is Viðskiptanefnd fundi um kaupin á Vestia
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna misskilur málið vitlaust

Jóhanna Sigurðardóttir skammar Jón Bjarnason fyrir að misskilja innlimunarferlið í ESB, þó í raun sé það hann sem skildi málið rétt, en Jóhanna misskildi allt saman vitlaust með því að halda að skilningur Jóns væri misskilningur.  Steingrímur J. skilur svo ekki upp eða niður í öllum þessum misskilningi og segist halda að ef Jón sé ekkert að misskilja, þá sé þörf á því að rannsaka málið nánar og komast að sameiginlegum skilningi ríkisstjórnarinnar í heild.

Til að auðvelda ríkisstjórninni að komast til botns í málinu, má benda henni á heimasíðu ESB, en þar er í raun öllum misskilningi eytt um það, hvað ríki þurfi að uppfylla áður en þau fá inngöngu í stórríkið.  Þá síðu má sjá Hérna

Meðal annars segir um inngöngu nýrra ríkja á síðunni:  "In 1995 the Madrid European Council further clarified that a candidate country must also be able to put the EU rules and procedures into effect. Accession also requires the candidate country to have created the conditions for its integration by adapting its administrative structures. While it is important for EU legislation to be transposed into national legislation, it is even more important for the legislation to be implemented and enforced effectively through the appropriate administrative and judicial structures. This is a prerequisite of the mutual trust needed for EU membership."

Þar sem vitað er að Jóhanna er ekkert sérstaklega sleip í ensku, væri ráð fyrir hana að láta einhvern þeirra tuga þýðenda, sem tekið hafa til starfa í ráðuneytunum renna yfir þetta og útskýra fyrir sér.

Þó þýðendurnir sitji sveittir við að þýða tug- eða hundruðþúsundir skjala frá ESB, hljóta þeir að geta rennt yfir þetta í kaffitímanum sínum.

 

 


mbl.is Telur að um misskilning sé að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband