Björgólfur Thor farinn að sleikja loppuna

Eins og allir vita felst kattarþvottur í því, að kisan sleikir á sér loppuna til að bleyta hana og nuddar svo á sér snoppuna og á bak við eyrun, en þvotturinn sem slíkur, er í sjálfu sér ekki talinn hreinsa kisugreyið svo neinu nemi.

Björgólfur Thor opnaði einkabloggsíðu í dag, þar sem hann reynir að þvo af sér allt kám vegna bankahrunsins hér á landi og bendir á alla aðra sem sökudólga, jafnt seljendur Landsbankans sem starfsmenn hans.  Björgólfur segir að þeir einu sem tandurhreinir séu í þeim efnum, séu þeir feðgar, hann sjálfur og pabbi, en þeir hafi bara ekki stjórnað einu eða neinu í bankanum.  Hvað sem var um aðkomu júniorsins að stjórn bankans, voru þeir feðgar drjúgir viðskiptavinir bankans síns og fengu þar lán til ýmissa hluta, misgáfulegra, t.d. kaupa á knattspyrnufélagi í Englandi og fleira slíkt, sem kom pabbanum í gjaldþrot, þó sonurinn hafi sloppið við það hingað til.

Allir sem með Björgólfi Thor störfuðu, virðast hafa unnið að því hörðum höndum að koma honum og fyrirtækjum hans á hausinn, t.d. Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, en það fyrirtæki fór ekki að ganga að sögn Björgólfs, fyrr en hann var búinn að reka Róbert og bjarga fyrirtækinu þannig fyrir horn.  Á sínum tíma var sagt að Björgólfur Thor væri að kaupa alla aðra fjárfesta út úr Actavis, en segir nú að fyrirtækið sé gríðarlega skuldugt vegna þeirrar yfirtöku, þannig að hann virðist þá hafa látið fyrirtækið lána sér peninga til kaupanna, því ekki hefur Actavis keypt sjálft sig, fyrst Björgólfur Thor segist eiga það.

Björgólfur segir líka að nánast allir sem á annað borð höfðu símanúmerið hans, hafi hringt til að fá hann til að koma til landsins og bjarga bankakerfinu frá hruni, en líklega hefur Björgólfur bara komið deginum of seint, til að möguleiki væri að redda hlutunum, enda allir hinir sem að málinu komu hreinustu aumingjar í samanburði við snillinginn.  Þó er afar athyglisvert að heyra af því að Ólafur Ragnar hafi verið að vasast í þessari bankabjörgun og verið í símasambandi við Björgólf og hvatt hann eindregið til að bregða undir sig þotunni og skjótast á klakann til björgunarstarfa.  Víða hefur sú klappstýra dansað og sjálfsagt ekki frést af öllum danspöllunum ennþá.

Kattaþvottur Björgólfs Thors er rétt að byrja.  Hann er varla byrjaður að sleikja loppuna.


mbl.is Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið ert þú bitur maður Axel Jóhann. „Kattaþvottur Björgólfs Thors er rétt að byrja. Hann er varla byrjaður að sleikja loppuna.“ Hvað viltu að menn kalli þinn málflutning?

Halldór (IP-tala skráð) 19.8.2010 kl. 15:25

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þessi færsla Axel, er snilld, engu við þetta að bæta. Kveðja

Finnur Bárðarson, 19.8.2010 kl. 15:29

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Halldór, þar sem ég er nú ekki búinn meiri gáfum en Guð gaf, þá skil ég ekki almennilega hvað þú átt við með spurningu þinni.  Viltu ekki vera svo vingjarnlegur að útskýra hana betur?  Í leiðinni væri gott að fá útskýringu á biturleikanum, sem þú ert búinn að uppgötva í fari mínu.

Axel Jóhann Axelsson, 19.8.2010 kl. 15:36

4 identicon

Mér virðist sem Halldór sé vellauðugur hluthafi í einhverju stórfyrirtæki sem pabbi hans átti og hafi aldrei migið í saltan sjó; ,,pabbastrákur".

Dennis (IP-tala skráð) 19.8.2010 kl. 15:50

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Þegar Björgólfur var í viðtali, fyrir utan Ráðherrabústaðinn, þegar Landsbankinn og Kaupþing voru í andarslitrum, þá sagði Björgólfur það tilviljun að hann væri hér á landi.  Hann hafi komið hingað uppeftir til þess að vera við brúðkaup vinar síns og hafi eiginlega verið "truflaður" frá því, til þess að fara á fundi vegna bankana.

Kristinn Karl Brynjarsson, 19.8.2010 kl. 16:03

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sjálfhverfa er það sem skín í gegn á þessari vefsíðu Björgúlfs, ekkert nýtt við það.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.8.2010 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband