Engin tengsl við þjóðfélagið

Nú eru um 18.000 manns á atvinnuleysisskrá og nánast allir sem ennþá hafa störf á hinum frjálsa vinnumarkaði hafa þurft að taka á sig mismiklar kjaraskerðingar.  Yfirvinna hefur verið dregin saman, laun beinlínis lækkuð og ýmsum starfstengdum kjörum verið sagt upp.  Enginn er ánægður með skerðingu kjara sinna, en fólk reynir að þreyja þorrann í von og vissu um að efnahagslífið taki við sér og tekjur fyrirtækjanna aukist á ný og þar með tekjur launþeganna.

Ekki er vitað til þess að nokkrum einasta opinberum starfsmanni hafi verið sagt upp vegna samdráttar og þeir eru fámennir, ef nokkrir, á atvinnuleysisskrá.  Þrátt fyrir það eru helstu félög æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar að senda frá sér ályktun, þar sem segir m.a:

"Félagsfundurinn mótmælir harðlega þeim launalækkunaraðgerðum sem Reykjavíkurborg hefur nú enn gripið til gagnvart starfsmönnum sínum. Með aðgerðum sínum ræðst Reykjavíkurborg nú í annað sinn á stuttum tíma á launasamsetningu, sem lögð var til grundvallar við ráðningu fjölmargra starfsmanna borgarinnar og hefur því í raun verið svipt öllum forsendum undan ráðningu þeirra."

Þessir embættismenn virðast ekkert hafa frétt af því varðandi launamenn á almennum markaði að það "hefur því í raun verið svipt öllum forsendum undan ráðningu þeirra".  Flestir, ef ekki allir, réðu sig til vinnu á allt öðrum  forsendum en nú ríkja á vinnumarkaði. 

Þessir embættismenn hafa hins vegar á takteinum lausn á sínum launavandamálum, en þeir vilja einfaldlega láta hækka skatta, eða eins og segir í ályktun þeirra:

"Borgarstjórn hefur meðal annars hafnað því að nýta lögbundna tekjustofna sína s.s. heimildir sínar til hækkunar útsvars."

Til viðbótar kjaraskerðingum og atvinnuleysi á sem sagt að bæta á almenna launþega hærri sköttum til þess að embættismenn Reykjavíkurborgar geti haldið óbreyttum launakjörum.

Þetta fólk er ekki í neinum tengslum við það þjóðfélag sem það vinnur fyrir.


mbl.is Mótmæla kjaraskerðingu hjá Reykjavíkurborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þó það nú væri að stéttarfélög reyni nú aðeins að gæta hagsmuna sinna félagsmanna. Ef þú lest alla tilkynninguna að þá sérðu að þau eru fyrst og fremst að mótmæla því að samningum sé breitt einhliða en slíkt væri aldrei gert gagnvart fyrirtækjum (sérðu fyrir þér hvað sagt yrði ef borgin álveddi að lækka greiðslur sínar til verktaka um 10% án samráðs við viðkomandi verktaka?). Mér finnst líka ver mjög skiljanlegur punkturinn þeirra um að lægri laun opinberra starfsmanna hafi verið rökstudd á góðæristímum með auknu starfsöryggi og því sé ekki réttlátt að hafa af þeim
þetta starfsöryggi þegar á reynir.

Undir öllum kringumstæðum væri skynsamleg ráðstöfun hjá borginni að framkvæma niðurskurð í samvinnu við starfsmenn sína og ekki í illdeilum við starfsmenn sína. Það verður mjög erfitt að skera niður kostnað ef starfsmennirnir vinna gegn því.

Héðinn Björnsson, 3.4.2009 kl. 18:17

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Samningum við starfsmenn á almenna markaðinum hefur verið breytt einhliða og kjör lækkuð án þess að starfsfólk hafi getað mótmælt því á nokkurn hátt og þeir sem hafa ennþá vinnu verða að sætta sig við það á meðan ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er. 

Það er alveg hægt að ímynda sér hvað myndi gerast á almenna vinnumarkaðinum, ef starfsmenn ynnu gegn sparnaði í fyrirtækjunum.  Þeim yrði umsvifalaust sagt upp störfum.

Axel Jóhann Axelsson, 4.4.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband