Jón Ásgeir lætur ekki bjóða sér neinar almúgagistingar

Fréttir berast nú af því að skilanefnd Landsbankans hafi leyst til sín lúxusíbúð Jóns Ásgeirs í New York og hafi nefndin leyst svítuna til sín á tvo og hálfan milljarð króna.  Íbúðin mun vera um 400 fermetrar að stærð og því leggur fermeterinn sig á rúmar sex milljónir króna og má benda á að fermeterinn í lúxusíbúðum hér á landi nær varla 10% af þessari upphæð.

Einnig hefur komið fram, að íbúðin var öll í skuld og fyrst skilanefndin er að hirða hana núna upp í skuldirnar hefur ekki verið greitt af þeim, frekar en af öðrum lánum sem Bónusgengið hefur tekið í gegnum tíðina.  Þá vakna líka spurningar um það, hvort Jón Ásgeir hafi greitt skatta af þeim hlunnindum sem hann hefur notið vegna afnota af þessu lúxussloti undanfarin ár, en venjulegir íslenskir skattaþrælar eru miskunnarlaust látnir greiða skatta af öllum hlunnindum sem þeir eru taldir njóta til viðbótar við laun sín.

Hafi lánið, sem hvíldi á íbúðinni verið á tiltölulega góðum vöxtum, t.d. 4%, hafa vaxtagreiðslur verið um eitthundrað milljónir króna á ári og þar sem Jón Ásgeir bjó ekki að staðaldri í þessari íbúð, því fasta búsetu hefur hann í lúxusvillu í London, hefur hver gistinótt kostað ótrúlegar upphæðir.  Ef miðað væri við að Bónusgengið hefði gist í íbúðinni í mánuð árlega hefur hver nótt kostað rúmlega 3,3 milljónir króna vegna vaxtanna einna saman og er þá annar rekstrarkostnaður ekki meðtalinn, en hann er án vafa verulegur.

Sem betur fer á Bónusgengið aðra lúxusíbúð í New York, þannig að þó hún sé ef til vill ekki eins dýr og þessi, sem nú var tekin upp í skuldir, verður að reikna með og vona að sæmilega fari um gengið þar, því ekki er hægt að reikna með að fólk sem vant er svona lúxus geti gist á hótelum þegar það á leið um stórborgina, eins og hver annar almenningur.

Að vísu eru til rándýr hótel í New York sem margir raunverulegir auðkýfingar láta sér nægja í heimsóknum sínum til stórborgarinnar, en íslenskar snobbfígúrur láta auðvitað ekki bjóða sér svoleiðis hótelsvítur, þótt rándýrar séu.

Enda ekki ástæða til að láta bjóða sér annað en það flottasta og dýrasta, þegar maður þarf aldrei að borga krónu fyrir það sjálfur, en það er einmitt mottó íslenskra auðróna, eins og þeir hafa verið kallaðir, algerlega að ósekju auðvitað. 

 


mbl.is Íbúð Jóns Ásgeirs í hendur Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Var ekki Árni Johnsen (afmælisbarnið) búinn að redda nýjum rúmum á Kvíabryggju.

Sigurður I B Guðmundsson, 1.3.2011 kl. 15:41

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jú, en miðað við þann lífsstandard sem Jón Ásgeir og hans líkar hafa tamið sér er ekki víst að þeir sætti sig við nýju dýnurnar.

Sjálfsagt kaupa þeir nýtt lúxusfangelsi undir sig, ef þeir geta þá fengið lánað fyrir því einhversstaðar.

Axel Jóhann Axelsson, 1.3.2011 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband