Kemur óorði á einkaframtakið

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að endurnýja ekki samstarfssamning sinn við Menntaskólann Hraðbraut vegna meðferðar rekstaraðila skólans á fjármunum og ekki síst framlögum ríkisins til skólastarfsins.

Miðað við þær fréttir sem af starfsemi skólans verða ekki aðrar ályktanir dregnar en að vægast sagt hafi verið farið frjálslega með rekstrarfé skólans, sem var í raun allt of hátt, þar sem greiðslur miðuðust við mun fleiri nemendur en stunduðu þar nám.

Eigendur skólans greiddu sér út tugi milljóna í arð á örfáum árum og lánuðu aðilum tengdum félaginu tugi milljóna til viðbótar, sem a.m.k. jaðrar við að vera brot á hlutafélagalögum og verður þessi fjármálastjórnun að teljast til afar slæmra viðskiptahátta og ekki nema von að Ríkisendurskoðun og yfirvöldum menntamála hafi blöskrað.

Eigendur fyrirtækja, sem rekin eru á eigin kennitölu, hafa ekkert leyfi til að umgangast fjármuni fyrirtækjanna eins og sína eigin og hafa alls ekki heimild til að veita sjálfum sér lán og ekki að greiða sér nema hóflegan arð í samræmi við afkomu félaganna. Allt annað flokkast undir sukk og svínarí í fyrirtækjarekstri og það var einmitt slík stjórnun, sem leiddi til gjaldþrota banka og útrásarfyrirtækja og enduðu með hruni efnahagslífsins.

Svona fjármálastjórn á ekki að sjást í fyrirtækjum, enda kemur hún óorði á einkarekstur og leiðir til vantrausts gagnvart öðrum rekstrarformun en ríkisrekstri, þó ríkisreksturinn sé nánast undantekningarlaust dýrari og spilltari en einkareksturinn.

Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar geta engu um kennt hvernig fór, öðru en eigin græðgi.


mbl.is „Ekki búin að gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sammála þessu!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.2.2011 kl. 21:41

2 identicon

Sammála líka

H (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 22:14

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Græðgin er að mínu viti einn ljótasti lösturinn. Það er líklega ákaflega óskemmtilegt að hitta sjálfan sig fyrir, eftir að hafa svikið og stolið í blindni og það af tómri græðgi.

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.2.2011 kl. 22:22

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í þessu tilfelli sem hér um ræðir virðist viðkomandi ekki sjá neitt athugavert við eigin gerðir, heldur eru viðbrögðin kunnugleg og dæmigerð, þ.e. allt saman tómur misskilningur og ofsóknir vondra manna.

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 22:44

5 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Fólk blindast, veit ekki muninn á réttu og röngu og finnst við hin bara fjári ómerkileg að styðja ekki við þetta af heilum hug. Mér virðist það raunin í flestum viðtölum við stærstu stórsvindlarana, þeir eru bara borubrattir og sjá ekkert athugavert í heimaranni, en við hin erum ljóti kallinn, skilningslaus og vitlaus.

Bergljót Gunnarsdóttir, 23.2.2011 kl. 23:57

6 identicon

það er spurning hvort að það er eigendum Hraðbrautar eða utanaðkomandi aðilum að kenna um að framtíðarplön skólans eru í molum? ... Ef að mönnum verður á, er góð regla að iðrast, biðjast afsökunar á mistökum sínum og fá þannig fyrirgefningu og síðan meðbyr, en ekki fara í vörn og láta eins og maður hafi ekkert gert rangt og kenna öðrum um.  Þetta mál er ekki pólitískara en það, en að mörgu hægri sinnuðu fólki líst ekki á blikuna og segir að fjármálaumsýslan hefði verið ámælisverð. Eftirlitið var líka í molum, en það var líka eftirlitsleysi þegar Þorgerður Katrín var Menntamálaráðherra og hélt svo áfram í tíð Katrínar Jakobs. þannig að ekki var hún að fylgjast með rekstrinum.  Stór hluti rekstrarfés kemur frá ríkinu og þá er auðvitað ekki ætlast til þess að ef að það verður afgangur að skólastjóri stingi því í vasann.

Helga (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 11:40

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

 Ef eftirlitið er í molum, fólk kann ekki að skammast sín, eða iðrast, og biðjast afsökunar  er ekki von á góðu. Þegar vasarnir standa svo galopnir og bíða eftir að molarnir, sem í þessu tilviki hafa nú fremur minnt á heil brauð en mola, falli af borðinu, hvað skal þá til varnar verða sómanum?

Bergljót Gunnarsdóttir, 24.2.2011 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband