Siðfræðing í formennsku VR

Bullandi ágreiningur og valdabarátta hefur verið grasserandi innan VR undanfarin tvö ár, eða síðan hálfgerð bylting varð í stjórn félagsins og nýtt fólk úr a.m.k. þrem stríðandi fylkingum náði kjöri og hefur verið með rýtingana á lofti síðan gegn hvert öðru.

Þannig má segja að þetta stærsta verkalýðsfélag landsins hafi verið nánast stjórnlaust í tæp tvö ár og má segja að ágreiningurinn hafi náð hámarki nýlega, þegar stjórnin samþykkti að segja formanninum upp framkvæmdastjórastöðu félagsins, en þau tvö embætti hafa verið nánast óaðskiljanleg í VR um áratugaskeið.

Formaðurinn lýsti því strax yfir að uppsögnin væri ólögleg og harðneitar að hætta sem framkvæmdastjóri og á framhaldsaðalfundi sem haldinn var í gær, þar sem afgreiða átti lagabreytingatillögur stjórnarinnar fór allt í háaloft og allar tillögur stjórnar voru dregnar til baka, en samþykkt tillaga utan úr sal um gjörbyltingu kosningafyrirkomulags stjórnarmanna, þ.e. breytt skyldi úr fulltrúakjöri í almennt kjör allra félaga í VR.

Við næsta formanns og stjórnarkjör munu því væntanlega allir fullgildir félagar í VR kjósa milli frambjóðenda beinni kosningu og þannig munu úrslitin endurspegla ótvíræðan vilja félaganna um hverjir gegna stöfum formanns og annarra ábyrgðarhlutverka innan félagsins.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur, hefur lýst yfir framboði til formennsku í félaginu og án þess að þekkja persónulega til mannsins, hlýtur að vera hægt að búast við að hann væri alveg upplagður til að taka að sér að sætta fylkingar innan VR, a.m.k. ætti hann að vera vel brynjaður siðferðislega til að gegna embættinu.


mbl.is Vill verða formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tel að útsendarar  stjórnmálaflokkana séu ekki bestu kandidatarnir til að ná sáttum í launþegahreyfingunni.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 13:59

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekkert veit ég um útsendara stjórnmálaflokkanna eða útsendarar hverra núverandi stjórnarmenn eru, en ekki hefur stjórnun félagsins a.m.k. verið gæfuleg undanfarin tvö ár. 

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2011 kl. 14:06

3 identicon

Er þessi ungi maður ekki Heimdellingurinn sem fyllti Fokker vél til Ísafjarðar til að gera hallarbyltingu á Heimdallarfundi?

Ef ég er að taka feil á mönnum, vinsamlegst leiðréttu mig.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 14:20

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég held að þetta sé líka sá sami og sagði sig úr stjórn SUS vegna styrkjanna sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá Baugsfélögum og Landsbankanum.  Mig minnir að honum hafi ekki þótt rétt að þiggja svo háa styrki frá einstökum aðilum, þó það væri alls ekkert ólöglegt við það í sjálfu sér.

Eins og ég sagði áður, þá þekki ég manninn ekkert og hef mína vitneskju um hann úr fjölmiðlum þar sem hann hefur komið afar vel fyrir og verið hinn frambærilegasti að sjá.

Hvað sem líður öllum stjórnmálaskoðunum, þá hefur stjórnun VR ekki verið upp á marga fiska undanfarið og getur alls ekki versnað.  Allar mannabreytingar geta varla orðið til annars en góðs.

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2011 kl. 14:52

5 identicon

Að kjósa siðlausan siðfræðing til foristu í VR er einmitt leiðin til að gera vont verra.  Hann er fulltrúi hinna svokölluðu " Skugga " sem hafa það sem aðalmarkmið að viðhalda eigin völdum í þessu félagi og hafa barist gegn öllum líðræðisumbótum.

Ég Læt hér fylgja með smá kafla úr grein eftir Teit Atlason um ofangreindan Stefán.

 "Stefán er líka formaður “Varðberg”, félags um vestræna samvinnu (NATO-félag) og líka formaður “Biblíufélagsins”.  Hann hefur haldið úti bloggi sem hann eyðir öðru hvoru því sumt sem þar er skrifað er alveg á mörkunum eins og amma mín hefði sagt.  Þó ber þess að geta að Stefán Einar skrifaði um stríðið í Írak að “það væri frábrugðið öðrum stríðum, því það væri háð á forsendum mannúðar*”.  Stefán er blóðugur upp fyrir haus í félagsmála-stússi sínu og nýtur takmarkaðrar virðingar þeirra sem til hans þekkja."

Ég hef greitt í VR í 30 ár en mun segja mig úr félaginu ef þessi Stefán verður formaður.

Brynjar (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 15:13

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Brynjar, finnst þér allt í lagi með stjórnun VR núna?  Hvers vegna hefur þú ekki sagt þig úr félaginu undanfarin tvö ár?  Ert þú ekki að reyna að kynda undir einhvers konar pólitísku ofstæki og einelti með svona skrifum?

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2011 kl. 15:16

7 identicon

Axel,  Ég hef verið eins og flestir félagsmenn VR - meðvitundarlaus.  Síðustu 2-3 mánuðina hef ég þó verið að kynna mér hvað er að gerast í félaginu mínu.  Mín skoðun eftir það er að Stefán er ekki réttur maður til að ná frið í félaginu. 

Nýja fólkið sem kom inn í stjórn VR síðast Þegar kosið var t.d Ragnar Þór Ingólfsson hafa sakað Stefán um lygar sjá http://www.dv.is/frettir/2010/12/22/visar-asokunum-stefans-bug-aldrei-talad-vid-hann-nema-ut-af-bloggfaerslu/   og hér http://ragnar73.blog.is/blog/ragnar73/entry/1127746/

Auk þess að maður sem telur stríðið í Írak sé háð á forsemdum mannúðar getur aldrei fengið mitt atkvæði

Brynjar (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 15:35

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það sem ég hef séð til Ragnars Þórs Ingólfssonar hefur ekki orðið til annars en að minnka álit mitt á honum, nánast í hvert sinn sem maðurinn lætur ljós sitt skína, svo ekki tek ég mikið mark á því sem hann segir um annað fólk.

Innlegg þitt hérna gefur hins vegar ágæta vísbendingu um hvers konar framboðsbarátta mun fara fram innan VR á næstu vikum og um hvað umræðan á eftir að snúast, þ.e. persónuníð og ærumeiðingar.

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2011 kl. 15:40

9 identicon

Axel.  Þú byrjaðir þetta á að mæla með manni í starfið, ég einfaldlega er að benda þér á að um þennan mann verður varla friður.  Ég held að það þurfi að skipta út öllu liðinu og þá sérstaklega gamla liðinu sem hefur stjórnað þarna lengi og umgengst þetta félag eins og þau eigi það.   Einnig þarf að hreinsa til í lífeyrissjóð VR.

Ég vil benda sérstaklega á að ekki fékkst samþykkt nú á aðalfundi að stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum myndi undirgangast hæfnismat hjá fjármálaeftirlitinu.   Þarna þarf að moka flór en núverandi forista stendur í vegi.  Þessi sama forista er með áðurnefndan Stefán sem sinn fulltrúa til formanns.

Brynjar (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 15:55

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Brynjar, ég byrjaði þetta ekki með því að mæla með ákveðnum manni í starfið eins og þú segir, heldur var ég aðallega að fjalla um óstjórnina í VR og klikkti út með þessari málsgrein:  "Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur, hefur lýst yfir framboði til formennsku í félaginu og án þess að þekkja persónulega til mannsins, hlýtur að vera hægt að búast við að hann væri alveg upplagður til að taka að sér að sætta fylkingar innan VR, a.m.k. ætti hann að vera vel brynjaður siðferðislega til að gegna embættinu."

Ég lít ekki á þessa klausu sem nein sérstök framboðsmeðmæli með Stefáni, en mun hins vegar fylgjast með því hverjir bjóða sig til formennsku- og stjórnarstarfa í félaginu og greiða svo atkvæði þegar þar að kemur eftir sjálfstætt mat á frambjóðendunum.

Axel Jóhann Axelsson, 12.1.2011 kl. 16:07

11 identicon

Ok Axel.  Við getum báðir verið sammála um að það þarf að kjósa þarna nýtt fólk til starfa.

Brynjar (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband