Réttarríkið í pólitískri gíslingu?

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi þingmaður og núverandi yfirfangavörður, reynir að benda á málefnaleg rök fyrir því, að það muni ekki samrýmast mannréttindaákvæðum að stefna ráðherrum fyrir Landsdóm, því lögin um hann séu löngu úrelt og uppfylli engin nútímaskilyrði um rannsóknir og ákærur.

Í fréttinni kemur m.a. eftirfarandi álit Margrétar á þeim þingmönnum, sem stefna vilja ráðherrum fyrir Landsdóm:  "Hún sagði að þingmenn sem það styðji viti ekki hvað þeir geri og verði af ákærunum sé brotið á rétti fyrrverandi ráðherranna fjögurra, Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvins G. Sigurðssonar. Búast megi við því að málið endi fyrir mannréttindadómstólum." 

Margrét hefur einnig bent á, að ráðherrarnir hafi ekki fengið stöðu grunaðra manna og engin opinber rannsókn hafi farið fram af þar til bærum rannsóknaraðilum, en ríkisvaldið á að vera þrískipt og því skýtur afar skökku við, að Alþingi skuli taka sér ákæruvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu, en dómsvaldið skuli ekki koma þar nærri.

Að sjálfsögðu falla málefnalegar umræður ekki í kramið, þegar fjallað er um þessi mál, frekar en mörg önnur, enda virðist ríkisstjórnin og meirihluti þingmanna vera í pólitískri gíslingu þeirra öfgaskoðana, sem nú tröllríða þjóðfélaginu og blóðþorstanum sem engin leið virðist vera að slökkva.

Nú tíðkast að skjóta fyrst og spyrja svo, sérstaklega ef pólitískir andstæðingar eiga í hlut.


mbl.is Fráleitt að sækja ráðherrana til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er þá stjórnarskráin marklaust plagg? Svona málflutningur er náttúrulega ekki boðlegur. Ákærur fyrir Landsdómi eru sértækt úrræði sem ekki er hægt að bera saman við önnur sakamál. Þessvegna eiga þessar athugasemdir um réttarstöðu sakborninga ekki við. Og þessvegna er ekki heldur hægt að viðhafa hina almennu reglu um að aðeins skuli ákæra ef meiri líkur en minni séu á sýknu. Landsdómur mun  byggja sinn úrskurð jafnt á sanngirni og réttlæti eins og lagatúlkun...vonandi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.9.2010 kl. 20:47

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hvað, sem annars má segja um þessi mál, þá hlýtur það að vera grundvallaratriði að ákæra engan, hvorki fyrir Landsdómi eða annarsstaðar, nema meiri líkur séu á sektardómi en sýknu.  Allt annað er algerlega óviðunandi og ósæmandi vinnubrögð.

Axel Jóhann Axelsson, 12.9.2010 kl. 20:51

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er misskilningur Axel. Þingnefndin reyfar mjög vel þau lög sem voru brotin. Og það er meira í anda réttarríkisins að menn fái að hreinsa sig af áburði frammi fyrir dómi heldur en vera brennimerktir til aviloka af almenningi ef menn eru saklausir. Þetta hljóta allir menn að skilja. Það fær enginn uppreisn æru nema fyrir dómi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.9.2010 kl. 20:57

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhannes, þú segir:  "Og það er meira í anda réttarríkisins að menn fái að hreinsa sig af áburði frammi fyrir dómi heldur en vera brennimerktir til aviloka af almenningi ef menn eru saklausir."

Það hljóta allir að skilja, að það er engan veginn eðlilegt í réttarríki, að fólk þurfi að fara með mál fyrir venjulega dómstóla til þess að áfrýja dómum dómstóls götunnar.

Það væri nú endanleg upplausn réttarríkisins, ef dómstólar ættu endalaust að afmá brennimark almennings af fólki.  Þeir gerðu þá ekki mikið annað.

Axel Jóhann Axelsson, 12.9.2010 kl. 21:15

5 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Stjórnarskráin kveður á um það að ráðherrar séu ábyrgir fyrir Alþingi. Þetta ábyrgðarákvæði er grundvöllur Landsdóms, sem skipaður er að mestu leyti af Alþingi. Það er ekkert að því að einstaklingar séu ákærðir og fái þá uppreisn æru sinnar fyrir slíkum dómi eigi þeir það skilið.

Svo er alveg út í hött að halda því fram að dómsvaldið komi hvergi nærri landsdómi. Þar eiga sæti margir reyndustu hæstaréttardómararnir, dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur og sá dómari sem lengst hefur setið í embætti við þann dómstól. Auk þess lögfræðiprófessorar við Háskóla Íslands og svo framvegis. Vægi þingflokka sem slíkra er lítið sem ekkert í þessum dómi. Svo að það er alveg fráleitt að lýsa því yfir að dómsvaldið komi hvergi nærri meðhöndlun málsins þegar allir snjöllustu menn landsins úr lögfræði- og dómsmálageiranum mynda meira en helming landsdóms.

Magnús Óskar Ingvarsson, 12.9.2010 kl. 21:25

6 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Lögin um Landsdóm hafa eflaust verið mjög góð.  En hafi frá þeim tíma er þau voru sett, sett önnur og nýrri lög sem jafnvel gætu orðið til þess að Alþingi, tapi málum fyrir Mannréttindadómstólnum, þá er betur heima setið.

Svo er afgreiðsla nefndarinnar, eða þess hluta hennar er vill Landsdóminn verulega ábótavant.  Úr því að hluti nefndarinnar kallar á Landsdóm, þá þarf sá hluti nefndarinnar að skila inn samhljóða lista yfir þá sem skal ákæra.  Segja má, að í raun hafi fulltrúar Samfylkingar í nefndinni klúðrað Landsdómi, með því að vilja sleppa Björgvini G.  

Hvorug þessara tveggja tillagna um Landsdóm hefur þingmeirihluta.  Ekkert frekar en tillaga Sjálfstæðisfloksins um engan Landsdóm.  

 Hvað er þá til ráða?  Að semja um hvora tillöguna eigi að samþykkja?   Samfylkingunni, eða í það minnsta forystu hennar er í mun að Björgvin sleppi, þannig að það er hæpið að tillagan, þar hann er á lista verði samþykktur af Samfylkingu.  Eins hljóta fulltrúar hinna flokkana að vera á móti því að Björgvin sleppi, annars hefðu þeir ekki haft hann á listanum.  Hvernig leysa menn þá málin?  Hótar Jóhanna kannski stjórnarslitum, svo hægt verði að kalla saman Landsdóm, til að sefa reiði almennings, án þess þó að Björgvin komi fyrir dóminn?   Verður það svo lokahnykkurinn í réttlætinu og sefjun almennings, þegar Björgvin hefur á ný störf á þingi í októberbyrjun, með syndaaflausn frá Alþingi upp á vasann?

 Er það ásættanlegt að samið verði um það hverjir mæti fyrir Landsdóm?   

Kristinn Karl Brynjarsson, 12.9.2010 kl. 21:29

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Magnús, sem betur er það hæft fólk, sem situr í Landsdómi og mun dæma, þegar þar að kemur.  Það eru ákærendurnir og hugsanleg hrossakaup pólitíkusa um að stefna fólki fyrir dóminn, sem setur spurningamerkið á ferilinn.

Verði einhverjum stefnt fyrir Landsdóm, verður að sjálfsögðu að reikna með að dómsniðurstaðan verði algerlega fagleg.  Það réttlætir hins vegar ekki, að fólki væri stefnt fyrir dómstólinn eingöngu til að hreinsa sig af niðurstöðum dómstóls götunnar.

Axel Jóhann Axelsson, 12.9.2010 kl. 21:35

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Axel það má skilja að þú teljir meiri líkur á sýknu en sekt og teljir jafnvel þau lög sem sem kveða á um landsdóm séu úrelt.  Því sé það samfélagsleur múgsefjun að kalla þessa ráðherra fyrir dóm. 

Samanber; "Að sjálfsögðu falla málefnalegar umræður ekki í kramið, þegar fjallað er um þessi mál, frekar en mörg önnur, enda virðist ríkisstjórnin og meirihluti þingmanna vera í pólitískri gíslingu þeirra öfgaskoðana, sem nú tröllríða þjóðfélaginu og blóðþorstanum sem engin leið virðist vera að slökkva."

Þessir ráðherrar, töldu m.a. þjóðinni trú um að hér væri alls ekkert í vændum sem gæti orsakað það hrun sem síðan varð.  Þetta fólk gerði sér jafnframt ferð austur og vestur um haf með sama málflutning.  Nú þegar allt er orðið eins og það alls ekki átti að vera, þá er því jafnvel haldið fram, til að fría sig ábyrgð, að ekkert hafi getað komið í veg fyrir fall bankanna frá árinu 2006.

Ef ekki er ástæða fyrir þessa einstaklinga til að gangast undir þau lög sem þó eru til  "prívat" fyrir þá, er þá nokkur ástæða fyrir nokkurn mann að gangast við þeim lögum sem í þessu landi gilda?

Magnús Sigurðsson, 12.9.2010 kl. 21:39

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikil himnasending var þetta grunnfærnislega álit frú Margrétar fyrir lafhrædda náhirð vanhæfra pólitíkusa.

Voðalegt er víst einelti þessa hrunda samfélags velferðar og öryggis sem vanhæfir pólitíkusar rústuðu og neita svo að bera ábyrgð.

Og fórnarlömbin eru niðurlægð með því að kallast "dómstóll götunnar!"

Þvílíkur dj. hundingjaháttur sem hér hefur verið gróðursettur.

Nú á bara að sættast á að enginn axli ábyrgð á heimsmetinu í pólitískum sofandahætti og vaktmennirnir njóti ríkulegra ávaxta "farsællar stjórnsýslu á erfiðleika - og átakatímum" í formi bólginna eftirlauna.

Og svo verða "begravelsin" að líkindum kostuð af ríkinu og alvöruþrunginn heiðursvörður með þjóðfána Íslands og ef heppni er með þá verður líka viðraður stjörnuprýddur fáni ESB.

Svei attan! 

Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 22:51

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það getur varla talist viðunandi að "saksóknararnir" standi í pólitískum hrossakaupum um það, hvort og þá hverja á að ákæra.  Það er atriðið, sem fólki finnst úrelt og hvorki standast tímans tönn réttarfarslega og út frá mannréttindasjónarmiðum.

Miklu eðlilegra væri, að þeir sem rannsaka málin og ákveða hvort ákæra skuli eða ekki, séu óháðir Alþingi og byggi sína afstöðu algerlega út frá venjulegum réttarfarslegum forsendum.

Axel Jóhann Axelsson, 12.9.2010 kl. 23:05

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

"Og fórnarlömbin eru niðurlægð með því að kallast "dómstóll götunnar!""

Ekki gleyma skrílsnafnbótinni sem var svo rausnarlega úthlutað af hinum sömu á sínum tíma!

Þessum aumingjum er engin vorkunn að því að vera eftir atvikum, dæmdir eða sýknaðir eftir eftir þessum meintu úreltu lögum. Það voru jú þeir sem höfðu það í hendi sér að færa þau til nútímans. Það eru líka hraksmánarlega léleg rök að ósangjarnt sé að þeir sitji í súpu, sullaðri saman af óhæfum ráðamönnum sem á undan þeim sátu. Þeir hefðu þá átt að hunskast til að draga forvera sína fyrir dóm...!

Merkilegur andskoti að enn sé fólk þarna úti sem styður þetta lið.

Haraldur Rafn Ingvason, 12.9.2010 kl. 23:18

12 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Vandamálið er bara það, að þeir sem kalla á blóð, heyra ekki málefnalegar röksemdir fyrir öskrunum í sér.  Ég er hundfúll út af þessu hruni öllu því sem að var gert og ekki gert..................... En Það þjónar engum tilgangi að velja með pólitísku plotti, einhverja til þess að verða kastað fyrir ljónin................... Heldur fólk virkilega að það hægt að sakfella og dæma fólk fyrir dómstóli sem að hugsanlega stenst ekki nútíma réttarfarsreglur?  Bara af því að reiðin í þjóðfélaginu er svo mikil?  

Á meðan það er hinn minnsti vafi á því hvort að Landsdómur standist nútíma réttarfarsreglur, þá á ekki ljá máls því að kalla nokkurn mann fyrir hann fyrr en sá vafi er að baki.

Kristinn Karl Brynjarsson, 12.9.2010 kl. 23:32

13 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Er eitthvað pláss á Hrauninu hjá Margréti?

Sigurður I B Guðmundsson, 12.9.2010 kl. 23:50

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það á ekki að vera álitaefni hvernig eigi að nota Landsdóm. Landsdómur er vel skilgreint dómsvald hvað varðar tilgang og málatilbúnað. Við það skulum við bara sætta okkur enda þótt einhverjir pólitíkusar sem við höfum svarið hollustueiða verði kannski fórnarlömb.

Það er svo önnur umræða en þessari skyld að greinilega eru núna ótrúlega margir óttaslegnir vegna þeirra óvæntu tíðinda að stjórnmálaklanið geti ekki bara afgreitt sín mál sjálft með hefðbundnum yfirlýsingum: "Ég hef ekkert brotið af mér!"

Ég gleymi ekki hversu marga sjálflærða lögspekinga þessi þjóð átti þegar Ólafur Ragnar forseti synjaði fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar og vísaði þeim til þjóðarinnar.

Þetta stjórnarskrárákvæði hafði aldrei haft neina stoð í lögum; það hafði aldrei verið skilgreint og eiginlega hafði aldrei nokkur maður vitað af því hvað þá skilið það né gert ráð fyrir því. Það var að lokum orðin spurning hvort þetta ákvæði væri bara ekki prentvilla, brandari eða þá tekið beint úr sharialögum svona til ábendingar um heimsku múslima.

Þetta urðu sammála um heiðraðir emerítusar, prjónakerlingar af Langanesi, hestageldingamenn úr afskekktum sveitum norðanlands auk fjölmargra forðagæslumanna og virtra trilluformanna. Af einhverri undarlegri tilviljun var allt þetta fólk tengt Sjálfstæðisflokknum.

Raunasaga íslenskrar þjóðarheimsku af flokkspólitíkri rót hefur sterka tilhneigingu til að halda sér við og endurnýjast. 

Árni Gunnarsson, 12.9.2010 kl. 23:53

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Mönnum hér, öðrum en Kristjáni Karli, virðist algerlega fyrirmunað að ræða á málefnalegan hátt um þá spurningu, hvort það sé réttlætanlegt að pólitísk hrossakaup eigi að ráða því hverjir verði dregnir fyrir dómstóla og hverjir ekki.

Ég ítreka það sem fram kom í færslu nr. 10, að eðlilegra hljóti að vera að það séu aðilar óháðir Alþingi, sem rannsaki mál og ákveði hvort og þá hverjir séu ákærðir.

Ef fólk heldur að með slíkum réttarfarslega aðferðum verði enginn kallaður fyrir dómstól, þá er eitthvað annað en sanngirni og sannleiksást, sem stjórnar hugarfarinu.

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 06:46

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er ekki Landsdómur grundvallaður á skilgreindum aðdraganda?

Er þá rannsóknarskýrslan um bankahrunið í 7 bindum ekki trúverðugur undirbúningur fyrir rannsóknarnefnd þótt þar hafi verið að verki virtur prófessor í lögum og fyrrverandi umboðsmaður Alþingis svo tveir af þremur séu tilgreindir?

Man ég það ekki rétt að á þessa skýrslu hafi verið borið meira lof en Flateyjarbók?

Mér er farið að skiljast að allir sem að þessu ferli koma séu illgjarnir skíthælar með heift og pólitískan hefndarhug í farteskinu og ámælisverðast þó að öllu samanlögðu að leita ekki álits hjá bloggurum Mbl. áður en lagt var af stað í þessa vegferð.

Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 09:17

17 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Núna bendir flest til þess að Samfylkingin muni verða sé út um næg atkvæði úr röðum Vinstri grænna, til þess að Björgvin G. sleppi við ákæru.  Hverju skildi það nú sæta?   Er það gert í nafni réttlætis eða í nafni þess að halda ríkisstjórninni saman? Eða er það gert til þess að hægt verið að kalla einhverja fyrir Landsdóm, bara til að sefa reiði almennings?

Séu réttarfarsreglur brotnar með þessum ákærum fyrir Landsdómi, eða hinar minnstu líkur á slíku, þá munu lögmenn þeirra er kallaðir verða fyrir dóminn, örugglega krefjast þess að máli þeirra verði vísað frá.  Verði þeirri kröfu hafnað þá verði sá niðurskurður kærður til Mannréttindadómstólsins.  Það væri glapræði að láta Landsdóminn starfa á meðan Mannréttindadómstólinn fjallaði einnig um málið.  Falli dómur Mannréttindadómstólsins svo ráðherrunum í hag, þá væri sá dómur, sem nú þegar er fallinn á Alþingi og stjórnsýsluna hér, vegna hrunsins, barnaleikur miðað við það kjaftshögg sem dómur Mannréttindadómstólsins veitti þinginu.  Það  yrði til þess að þeir þingmenn sem, halda þessum kærum streitu, þrátt fyrir ábendingar löglærðra manna um að réttarfarsreglur gætu verið brotnar, varla sætt áfram á þingi.  Löggjafin gæti þá ekki setið undir því að þar sætu menn og konur er brotið hefðu á mannréttindum með þessum hætti.  

 Hvað yrði þá um þessa reiði sem sefa skal með pólitískum hrossakaupum?  

Kristinn Karl Brynjarsson, 13.9.2010 kl. 09:24

18 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rannsóknarnefnd Alþingis sendi allt sem henni þótti orka tvímælis lagalega, til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, en gaf ekki sjálf út neinar ákærur. 

Síðasta setningin þín, Árni, sýnir svart á hvítu, að þú virðist ekki vera fullfær í málefnalegar umræður.  Skítkastið og svívirðingarnar í annarra garð er nánast fastur liður í þínum athugasemdum.

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 09:31

19 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Væri skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis ígildi sakamálarannsóknar, þá væru sjálfsagt hafin hér réttarhöld yfir útrásarvíkingunum.  Embætti Sérstaks saksóknara mun minna í sniðum, því það þyrfti ekki að afla sér þeirra gagna sem að það hefur verið að gera síðan að embættið tók til starfa.

 Niðurstaða RNA, var í raun mun afdráttarlausari, gagnvart eigendum og stjórnendum bankana, en gagnvart ráðherrunum.  

Stjórnendur og eigendur bankana, fá hins vegar að njóta þess að, að þeirra mál eru rannsökuð og saksótt, eftir atvikum, samkvæmt nútíma réttarfarsreglum.  Það fá ráðherranir hins vegar ekki. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 13.9.2010 kl. 09:56

20 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhanna Sigurðardóttir hefur algerlega eyðilagt trúverðugleika þessarar umræðu um að stefna ráðherrum fyrir Landsdóm með svari sínu við spurningu fréttamanns útvarpsins um hvort hún teldi að slíkt myndi "róa almenning".  Svar Jóhönnu hljóðaði svona:  "Ég vona það, til þess var þetta nú sett á laggirnar."

Segir þetta svar ekki allt um það, að pólitísk hrossakaup séu stærri hluti málsmeðferðarinnar, en nokkuð annað?

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 10:08

21 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Hvað sem líður sekt eða sakleysi, er þetta alveg frábær ástæða til að fresta því enn og aftur að vinna þau verk sem brýnust eru, en það hlýtur að vera að koma efnahag þjóðar og heimila í betra horf.

Kjartan Sigurgeirsson, 13.9.2010 kl. 10:29

22 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Svo má líka benda á það, að í skýrslu sinni þá, nefnir þingmannanefndin að líklega væri rétt að endurskoða lög um Landsdóm.  Nefndin hefur varla lagt slíkt til nema einhver vafi væri á því að Landsdómur stæðist tímans tönn.

Engu að síður, þá vill nefndin, eða stærstur hluti hennar draga menn fyrir þennan dómstól, sem líklega þarf að nútímavæða.

Svoleiðis hringlandaháttur er Alþingi ekki sæmandi ofan á allt annað.

Kristinn Karl Brynjarsson, 13.9.2010 kl. 10:38

23 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Haft er eftir Lilju Mósesdóttur á pressan.is : "Pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggju en samt réttlæti.

Hversu oft ætli íslensk stjórnvöld og Alþingi hafi gagnrýnt og mótmælt pólitískum réttarhöldum í öðrum löndum?

Er meirihluti fyrir því á Alþingi Íslendinga, Alþingi þjóðar sem slær sér á brjóst fyrir forystu í mannréttindamálum, að standa fyrir pólitískum réttarhöldum?  

Er virkilega meirihluti meðal þjóðarinnar fyrir því að hér verði blásið til pólitískra réttarhalda?  

Kristinn Karl Brynjarsson, 13.9.2010 kl. 11:11

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er allt að þróast út í pólitískan skrípaleik, sem ekki er sæmandi vestrænu lýðræðisríki.  Nú fer þetta að minna á Sovétríkin, Norður-Kóreu, Kína og vanþróuð ríki í ýmsum heimshornum.

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 11:22

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Íslenska þjóðin hefur logað af heift vegna þess að ennþá hafa hvorki fjárglæframenn sem rændu og rupluðu hvarvetna sem þeir komu því við innanlands sem erlendis, né heldur fulltrúar sjórnsýslu þ.m.t. embættismenn hefur verið dreginn til dómd hjá ákæruvaldinu.

Nú, loksins hefur lögfest ákæruleið verið virkjuð og nafngreindir ráðherrar verið kallaðir til þess dóms.

Þessi vinnubrögð eru mér ekki að skapi og mér er ekki launung á því að öll ríkisstjórnin hefði átt að sæta þessari meðferð en ekki úrtak sem aldrei getur orðið annað en afrakstur af matsniðurstöðum fulltrúa pólitískra flokka.

Þennan ágalla ræð ég ekki við en fagna því að heldur en að senda þau skilaboð að ráðherrar komist upp með að segja: Þetta var ekki á minni ábyrgð! þá sé þessi leið virkjuð öðrum til viðvörunar.

Óréttlætið varð staðreynd og ef við þurfum að neyðast til að beita óréttlæti til að hefja viðreisn pólitísks siðgæðis þá sætti ég mig við að því verði beitt sem neyðarúrræði í trausti þess að afleiðingin skapi ótta við að valdníðslu og pólitísku andvaraleysi verði beitt hér eftir sem hingað til.

En hvað það áhrærir að umræðustíll minn sé á svo lágu siðferðisplani að síðueigandi hafi stöðu til að setja ofan í við mig er önnur saga sem hvorugur okkar mun leggja á endanlegan úrskurð.

Það mál er nefnilega svoleiðis í laginu.

Ég mun hinsvegar skoða hug minn rækilega áður en ég tek til máls á þinni bloggsíðu hér eftir Axel Jóhann. Mér finnst þú eiga afdráttarlausan rétt til að fá þar frið fyrir gestum með nærveru og háttsemi sem þér hugnast ekki. Mér er ljóst að ég er bæði orðhvatur og hættir til að vera jafnframt orðskár.

Mér er líka ljóst að hvorugt er lofsverður eiginleiki. 

Kv.

Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 13:01

26 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, væri ekki ráð að taka þá sem okkur fynnst hafa sýnt af sér vanrækslu og/eða yfirsjónir í starfi og hýða þá opinberlega, öðrum til viðvörunar, og alls ekki gefa þeim kost á að verja sig sem grunaða menn, áður en hýðingin fer fram.

Við bætum varla lögin og siðferðið með lögleysu og siðferðisbresti.  Hér hefur verið bent á að óréttlætanlegt sé að pólitísk hrossakaup ráði því, hvort og hverjum skuli stefnt fyrir dóm.  Fyrst ákæra á einhverja ráðherra, þá hefði verið eðlilegt að bæta a.m.k. Jóhönnu og Össuri á listann, ef ekki öllum ráðherrunum sem sátu í síðustu ríkisstjórn.  Miðað við það sem Jóhanna sagði, þá hefðu þeir allir átt að verða yfir sig glaðir fyrir tækifærið til að hreinsa mannorð sitt, eins og hún orðaði það.

Eins er virðingarvert, að þú skulir vera svona vel meðvitaður um skapgerðargalla þína.  Betra væri þó, ef þú gætir hamið þá betur, fyrst þú gerir þér svona góða grein fyrir þeim.  Það er nefninlega ekkert sniðugt, að ásaka aðra bloggara í sífellu um glæpamennsku og heimsku, eingöngu vegna þess að þeir eru ekki á sömu og þú, um menn og málefni.

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 13:28

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eg ætla að vera afar hógvær núna. Mér sýnist ég merkja álösun um að hér sé ákveðið að hefja refsingu án þess að gefa sakborningum kost á aðverja sig sem grunaða menn! Þetta vissi ég auðvitað ekki enda gengur þessi ályktun þvert á, í það minnsta greinargerðir sakborninga í blöðum auk þess sem ég hafði fram til þessa trúað því að sakborningar hefðu brugðist við mjög alvarlegum ásökunum rannsóknarnefndar Alþ. ef þeir hefðu haft haldbærar varnir á takteinum. Það væri líka einsdæmi ef Landsdómur sakfelldi umrædda ráðherra án þess að þeim gæfist tækifæri á að taka til varna. Þetta hlýtur að vera rétt hjá þér því nú veit ég að þú ert málefnalegur og orðvar.

Málsgrein nr. 2 í #26 er ekki hægt að andmæla með rökum.

Síðasta málsgreinin er ályktun byggð á stóiskum afburðum í siðfræði skoðanaskipta þar sem ég sit í hlutverki þolandans. Ég hlýt að sæta úrskurðinum.

Það er víst ekki hægt að bera nokkrum manni á brýn að hann fari yfir hófsamleg mörk í málflutningi þegar hann líkir ákvörðun Alþingis um beitingu sértækra íslenskra laga við réttarfar í Sovétríkjunum, Kína, Norður -Kóreu og vanþróuðum ríkjum í ýmsum heimshornum.

Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 15:09

28 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Því sem líkt var við réttarfarshugsunina í Sovétríkjunum, Kína, Norður -Kóreu og vanþróuðum ríkjum í ýmsum heimshornum voru þetta svar Jóhönnu Sigurðardóttur við spurningunni um hvort hún héldi að þessar stefnur fyrir Landsdóminn myndu róa almenning, en þá sagði hún:   "Ég vona það, til þess var þetta nú sett á laggirnar" og þau orð, sem Kristján Karl sagði í athugasemd nr. 23, að Pressan hefði haft eftir Lilju Mósesdóttur, en þau voru þessi:  "Pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggju en samt réttlæti".

Mitt svar við spurningum Kristjáns Karls koma í beinu framhaldi af þeim (nr. 24) og allir, sem ekki leggja sig sérstaklega fram um að snúa útúr, eða setja hlutina viljandi í vitlaust samhengi, hafa örugglega skilið tengslin á milli spurninganna og svarsins.

Axel Jóhann Axelsson, 13.9.2010 kl. 15:37

29 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það má alls ekki skilja orð mín hér að ofan svo að ég andvígur því að fólk sé sótt til saka og látið sæta ábyrgð.   Hins vegar geri ég athugasemdir, við þær aðferðir sem viðhafðar eru.

Sú staðreynd að ekki tókst að skila einni samhljóða tillögu um Landsdóminn, sem hefur meirihluta á Alþingi, gerir í raun Alþingi ómögulegt að samþykkja tillögu um Landsdóm, án pólitískra hrossakaupa.  Viljum við búa við réttarfar og réttlæti, sem fylgir pólitískum duttlungum Alþingis hverju sinni?  Viljum við búa við umsemjanlegt réttarfar og réttlæti, sem jafnvel er þvingað fram með hótunum um stjórnarslit?

 Lög um Landsdóm kveða á um að Landsdómur, dæmi eingöngu í því sem Alþingi biður hann um að dæma í.  Þetta þýðir það, að komi eitthvað fram í vitnisburði einhvers fyrir Landsdómi, sem klárlega bendir til sakar einhvers ráðherra sem ekki er fyrir dómi, þá getur Landsdómur ekkert aðhafst.  Ef við gerum ráð fyrir því að Geir, Ingibjörg og Árni verði kölluð fyrir Landsdóm, þá mun ekkert í vitnisburði þeirra, geta leitt þess að t.d. Björgvin, Össur, Jóhanna eða nokkur annar ráðherra, verði ákæður einnig og kallaður fyrir dóminn.  Til þess að svo yrði, þá þyrfti Alþingi að höfða nýtt mál gagnvart þeim aðilum og taka í raun pólitíska ákvörðun um það, hvað skuli ákært fyrir og dæmt.

 Það má ganga út frá því sem vísu, þar sem nútíma réttarfarsreglur mæla gegn því réttarformi sem Landsdómur er, að þeir ráðherrar sem fyrir hann koma, krefjist frávísunar, vegna  brots á réttarfarsreglum.  Verði dómurinn við því, þá erum við sem þjóð og svo Alþingi á mun verri stað í uppgjörinu á hruninu og endurreisninni.  Þá verða þeir þingmenn sem samþykkja Landsdóminn, uppvísir af því að brjóta íslenskar réttarfarsreglur.  Mun tala þeirra þingmanna ekki verða undir 32.  Auk þess þarf ekki að spyrja að niðurlægingu þessara þingmanna er samþykkja Landsdóm og fá dóm Mannréttindadómstólsins í andlitið.  Verður þá þessum rúmlega þrjátíu þingmönnum vært á Alþingi?  Verður þeim þá treystandi til setu á löggjafarþingi þjóðarinnar? 

 Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá verður þing og þjóð að opna augun fyrir því, að hugsanlega er verið að setja af stað óafturkræfa atburðarás, þar sem pólitísku afli verður beitt, til þess að handvelja sakborninga til dóms til þess að sefa reiði almennings.  Er þetta virkilega sú atburðarrás sem almenningur kýs?  Hverskonar ólgu gæti þurft að sefa ef að málum þessara ráðherra verður vísað frá, eða ef að Mannréttindadómstóllinn í raun gerir rúmlega 30 þingmenn á Alþingi afturreka með pólitískar ofsóknir sínar?

Kristinn Karl Brynjarsson, 13.9.2010 kl. 16:41

30 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er orðið deilumál sem greinilega er sótt og varið að miklu leyti með flokkspólitískum viðhorfum sem eiga ekki erindi í deilur um réttarfar.

Í þá umræðu á ég ekki erindi því enginn stjórnmálaflokkur í fjögurra flokka deildinni er mér kærari en annar. Á hvern þeirra ég deili mest hverju sinni met ég eftir málefnum og málflutningi.

Árni Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 18:34

31 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ætli allir þeir lögfræðingar, háskólaprófessorar og sérfræðingar í sakamálarétti, sem hafa verið að tjá sig um þessi mál undanfarið og lýst efasemdum sínum, bæði um að Landsdómur stæðist nútíma mannréttindaákvæði og að hæpið sé að sakargiftir á hendur ráðherrunum myndu leiða til sakfellingar, séu að ræða málin á flokkspólitískum línum, en ekki fræðilegum?

Axel Jóhann Axelsson, 14.9.2010 kl. 08:28

33 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er í rauninni helber barnaskapur og vitleysisgangur að halda því fram að þessi lögfræðinguinn eða hinn sé að gefa sín álit samkvæmt einhverjum flokkslínum.   Landslög, lög og reglur um réttarfar, eru eins allstaðar, hvar í pólitík sem þú ert.

Ef að eitthvað er eftir pólitískum línum þá er það listi sakborninga.  Það þykir nokkuð víst að hann hafi verið fenginn fram með "aðstoð" annarra þingmanna, er í nefndinni voru.    Nefndin á ekki að setja einstakling á lista sakborninga, nema hún teljir meiri líkur á sekt en sakleysi.   Ef að nefndin, hefur sannfæringu fyrir sekt Ingibjargar, afhverju hefur hún þá enga sannfæringu, fyrir sekt Össurar?  Össur var jú staðgengill hennar, þegar hún veiktist.  

 Þegar að Alþingi hefur gefið út ákærur á þessa þrjá eða fjóra ráðherra, þá verður engum bætt við, engu bætt við eða fellt niður af sakargiftum, þó fram komi nýjar upplýsingar.  Verði Ingibjörg fundin sek, þá ætti Össur með réttu að vera það líka.

Verði hins vegar Ingibjörg sýknuð, t.d. samkvæmt þeim rökum er RNA, beitti við þá niðurstöðu sína við að kalla ætti ekki Ingibjörgu fyrir dóminn, þá má ætla að Björgvin G. sem líklegast verði ekki verður dreginn fyrir dóm sekur.  Hann getur samt, þrátt fyrir það sest á þing í októberbyrjun með hreint sakarvottorð, stimplað af Alþingi.  Sakarvottorð sem breytist ekkert sama hvað kemur fram í Landsdóminum.  Það eina sem að gæti breytt því er ný þingsályktunartillaga um að ákæra Björgvin.  Verður það að teljast meira en hæpið að slík tillaga verði lögð fram, sama hvað kemur fram í Landsdómi.

Að þessu sögðu í þessum ummælum og öðrum ummælum hér að ofan, þá er Landsdóms tillagan eða tillögurnar, pólitísktur hráskinningsleikur.  Dómhald á pólitískum forsendum, þjónar aldrei réttlætinu.  Hefði nefndin öll staðið að baki einnar tillögu um Landsdóm, þá hefði pólitíski stimpillinn að mestu verið afmáður af Landsdómi.

 Yfirlýsingar forsætisráðherra um sefjun almennings og yfirlýsing Lilju Mósesdóttur um pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggjuna, en samt réttlæti, gerir í rauninni ekkert annað en setja skærari lit á stimpilblekið, er notað er við til að gefa Landsdómnum pólitískan stimpil.

Kristinn Karl Brynjarsson, 14.9.2010 kl. 11:17

34 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Björgvin bæri ábyrgð á sínum málaflokki, en Ingibjörg Össur ekki, þó þau hefðu haldið frá honum upplýsingum og mætt á ýmsa fundi um bankamálin, sem honum hefði í raun borið að sækja.

Snýst ekki pólitíska fléttan hjá Samfylkingunni um það, að láta Björgvin sleppa við Landsdóminn, en stefna Ingibjörgu þangað í staðinn í þeirri von að hún yrði sýknuð, en Geir Haarde og Árni Matt. dæmdir fyrir eitthvað og þannig sæti Sjálfstæðisflokkurinn einn uppi með dæmda ráðherra?  Þar með gæti Samfylkingin hælst um af sýknudómi síns ráðherra, en eins og þú segir, Kristinn Karl, yrði ekki hægt að stefna Björgvini fyrir Landsdóminn síðar, þrátt fyrir að fram kæmi að hann væri "samsekur" hinum.

Svona pólitísk hrossakaup um sakamálaákærur eru algerlega óþolandi og engri þjóð sæmandi.  Ekki einu sinni til að "róa almenning".

Axel Jóhann Axelsson, 14.9.2010 kl. 11:50

35 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Hvorug þessara tillagna um Landsdóminn, er til þess að öruggt sé að allir þeir sem axlað gætu þurft ábyrgð, sé stefnt fyrir dóminn.  Sú tillaga sem lögð verður fyrir dóminn, er lokasvar Alþingis um ákærur.  Það mun engu máli skipta hvað kemur fram fyrir dómnum.  Það verða ekki fleiri sóttir til saka, nema Alþingi semji og samþykki nýja tillögu þess efnis.

Hverjar eru líkurnar fyrir því að þingmeirihluti verði fyrir því að t.d. Össur verði ákærður, vegna samsektar með Ingibjörgu?  Hverjar eru líkurnar á því að þingmeirihluti verði fyrir því að Jóhanna verði ákærð, komi fram í meðferð dómsins, að hún hefði brotið lög um ráðherraábyrgð, vegna einhvers, sem að hún hefði átt að gera, eða gera ekki?  

 Þingmannanefndin stóð sig mjög vel, þangað til að ákveðnir nefndarmenn ákváðu að taka með sér skóflur á nefndarfundi og grafa pólitískar skotgrafir, til þess eins að knýja fram pólitísk réttarhöld, til hvítþvottar á sínu fólki.  Væri það vilji þeirra nefndarmanna, er vilja Landsdóm, að réttlætið nái fram að ganga, á þann hátt sem því ber, án pólitískra afskipta, þá hefð tillagan um Landsdóm eining innihaldið nöfn Össurar Skarphéðinssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, auk hinna fjögurra.

Kristinn Karl Brynjarsson, 14.9.2010 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband