Birgitta, Julian Assange, WikiLeaks og RÚV

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sagt frá aðkomu sinni og aðstoð við Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, við að koma í umferð myndbandi af árás bandarískrar herdeildar á íraka og starfsmenn RÚV munu hafa hjálpað til við vinnslu myndbandsins og sendi síðan fréttamann á staðinn til að ræða við aðstandendur þeirra sem féllu í árásinni.

Ekki skal þessi grimmdarlega árás varin á nokkurn hátt, en daglega berast fregnir frá Írak, þar sem innfæddir eru að sprengja hver annan í loft upp á viðbjóðslegan hátt hvar sem hópar fólks safnast saman í sakleysi sínu, t.d. á útimörkuðum, í verslunum og biðröðum við opinberar stofnanir.  Þessar morðárásir tengjast Bandaríkjamönnum ekki á nokkurn hátt, því þeir eru yfirleitt ekki á þeim stöðum, þar sem þessar sprengingar eiga sér stað, heldur eingöngu íraskur almenningur, sem ekkert hefur til saka unnið, annað en að tilheyra röngum trúarsöfnuði innan Islam, að því er virðist.

Aldrei hafa Birgitta og Julian "lekið" neinum myndböndum af þessum manndrápum á WikiLeaks og hvað þá að sjónvarpinu hafi þótt ástæða til að senda sína fréttamenn til Íraks, til þess að kanna bakgrunn sprenginganna og sprengjuvarganna, né tekið viðtöl við fórnarlömbin og ættingja þeirra þúsunda, sem látið hafa lífið í þessum voðaverkum.

Rétt er og skylt að benda á glæpsamlega framgöngu vesturlandabúa og þau voðaverk sem þeir fremja, en ekki er síður ástæða til að fordæma hryðjuverk, sem framin eru af öðrum af hreinni mannvonsku einni saman.

RÚV, sem hlutlaus, ríkisrekin sjónvarpsstöð á að minnsta kosti ekki að láta flækja sig í einhliða áróðursstríð.


mbl.is Stofnandi WikiLeaks kemur úr felum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Umfjöllun almennt í vestrænum fjölmiðlum hefur miklu meira verið í þá átt að ójafnvægis hefur gætt í þágu hernaðarbrölts Bandaríkjamanna. Þessvegna var umrædd umfjöllun bæði góð og nauðsynleg.

Um 1.3 milljónir manna hafa látið lífið í Írak síðan 2003. Leiddar hafa verið líkur að því að þónokkur hluti (les. einhver hundruð þúsunda) þeirra dauðsfalla séu á ábyrgð innrásarliðsins. Í þessu ljósi er vert að rifja upp að uppgefnar ástæður innrásarinnar voru tómt rugl, s.s. meint gereyðingarvopn Saddams sem aldrei fundust, þegar það var hrakið var skipt um skýringar o.s.fr.

Í ljósi pyndingastefnu Bandaríkjamanna og vörslu fanga í leynifangelsum á skjön við alþjóðalög, jafnvel fangelsun unglinga undir lögaldri árum saman, verður að telja að fulla samfélagsleg nauðsyn beri til að skjölum um leynibrölt þetta sé lekið. Við höfum flest meira gagn af því en ógagn, líka almenningur í Bandaríkjunum.  

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 14:02

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jafnvel þó færa mætti rök fyrir því að birting WikiLeaks/RÚV sé einhverskonar einhliða áróður, þá má ekki horfa framhjá þeim gríðarmikla einhliða áróðri sem kemur úr hinni áttinni, þ.e. úr bresk/bandaríska stjórnkerfinu og fjölmiðlum sem þeim eru hliðhollir. Að mínu mati þá er gagnáróður nauðsynlegt mótvægi, einmitt til þess að koma í veg fyrir að umfjöllunin verði of einhliða á heildina litið. Mér þykir framsetning WikiLeaks á slíku efni alls ekki mjög áróðurskennd heldur byggja fyrst og fremst á staðreyndum sem þeir hafa sannreynt með vandaðri rannsóknarblaðamennsku. Efnisvalið er hinsvegar vissulega gagnrýnið á yfirvöld og að því leyti kannski einhliða, en þá má líka benda á að gagnrýnin beinist jafnt að öllum sem fremja óhæfuverk hvort sem það eru Vesturlönd eða aðrir, og að því leyti sé nokkurs hlutleysis gætt.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2010 kl. 14:27

3 Smámynd: Elínborg

Þorgeir og Guðmundur; tek undir ykkar orð.

Tel að heimurinn hafi mikla þörf fyrir WikiLeaks.

Elínborg, 22.6.2010 kl. 15:02

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki var ég að gagnrýna það, að skýrt væri frá voðaverkum Bandaríkjamanna.  Ég var hins vegar að benda á mismunandi áherslur á frásagnir af atburðum, eftir því hver fremdi óhæfuverk á hverjum og ekki síður á þætti RÚV, sem sendir leiðangur til fjarlægra landa til að taka viðtöl við fórnarlömb eins aðila að skelfingunum.  Fyrst þeir fóru á staðinn á annað borð, hefðu þeir getað kannað aðstæður og líðan fleiri fjölskyldna, sem orðið hafa fyrir barðinu á sínum eigin löndum.

Axel Jóhann Axelsson, 22.6.2010 kl. 15:10

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Axel, þú hefur nokkuð til þíns máls, ég neita því ekki. Á móti má þó benda á að RÚV flytur líka mikið af fréttum sem koma úr "hinni áttinni" gegnum vestrænar fréttaveitur.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2010 kl. 15:20

6 Smámynd: Jón Óskarsson

Hlutverk RUV á ekki að vera að taka þátt í æsifréttamennsku né stunda samstarf við VikiLeaks og aðra álíka.  Það er hlutverk fjölmiðla af sama sauðahúsi og DV, en ekki ríkisrekinnar stofnunar.  Hverju má maður búast við næst hjá RUV ?  Að þetta verði einhverskonar "áróðursstöð" eins og þekkst hefur víða í heiminum að ríkisreknir fjölmiðlar hafi verið notaðir af einræðisherrum og öfgafullum stjórnvöldum.  RUV er stöð sem allir skattgreiðendur taka þátt í að reka í gegnum nefskattinn og það er áríðandi fyrir okkur skattgreiðendur alla að sú stöð flytji ábyrgar og vandaðar fréttir og algjörlega óháðar.  Á tímum samdráttar og niðurskurðar er það líka athugunarvert hvers vegna þessi stofnun er að eyða fjármunum í að senda fréttamenn út um allan heim til þess að nálgast fréttir sem hægt er að ná í með ódýrari hætti.

Jón Óskarsson, 22.6.2010 kl. 18:16

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Axel,

Ég þekki lítið sem ekkert til þessa máls, en vil benda á að Wikileaks opinberaði lánabók Kaupþings sem hafði verið kyrfilega stungið undir stól af núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnum til að verja með öllum leiðum glæpsamlegt athæfi eigenda bankanna á Íslandi og bankanna sjálfra.  Fyrir það eiga Íslendingar að vera þakklátir stjórnendum Wikileaks þó maður sjái endalaust ruglið um þetta eins og svo margt sem kemur frá Íslandi og er allt málað með sömu gömlu pólitísku sauðalitunum.  Glæpsamlegt athæfi er allt gert pólitískt svo menn geti grafið sig dýpra í skotgrafirnar og stungið höfðinu í afturendann svo ekki sé nokkur hætta á að menn verði að takast á við raunveruleikann.  Nú eru allir á útopnu við að redda fjármálafyrirtækjunum sem urðu uppvís að því að nota ákvæði í lánasamningum sem standast ekki lög.  Hér í Bandaríkjunum eru svona kompaní  kölluð glæpafyrirtæki og kærð til lögreglu.  Á Íslandi er sussað á alla, talað um vandamál og hvernig eigi að leysa þau svo glæpafyrirtækin geti haldið áfram í ruglinu.  Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á þetta utan frá!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 23.6.2010 kl. 01:54

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

WikiLeaks hefur gert marga góða hluti og alls ekkert út á þá að setja sem slíka.  Mín gagnrýni beindist aðallega að RÚV, sem,að því er manni skilst, annaðist myndvinnsluna í þessu tilviki og sá um dreifingu til annarra sjónvarpsstöðva.  Það í sjálfu sér var í lagi, en mér fannst fullmikið af því góða, að senda fréttalið alla leið til Írak, til þess að taka viðtöl við örfá fórnarlömd þess hildarleiks, sem þar er háður og eingöngu aðstandendur fólks, sem féll í þessari árás.  Hundruð þúsunda manna í Írak á um sárt að binda, vegna ógnarverka sinna eigin landa og RÚV hefur ekki sýnt þeim fórnarlömbum neinn sérstakan áhuga.

Hvað varðar fjármálafyrirtækin og "gengislánin" er með ólíkindum, að enginn einasti lögfróður aðili í landinu skyldi nokkurn tíma véfengja þetta lánaform og lánunum var einnig þinglýst algerlega athugasemdalaust af sýslumönnum landsins.  Einnig hefur forstjóri Fjármálaeftirlitsins komið fram í fjölmiðlum og sagt að tugir, eða hundruð, lögfræðinga hefðu skoðað þessa lánaskilmála og allir talið þá fullkomlega löglega. 

Þetta mál er allt með ólíkindum, eins og margt annað í okkar annars ágæta þjóðfélagi.

Axel Jóhann Axelsson, 23.6.2010 kl. 12:46

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Axel, talandi um athugunarleysi yfirvalda vegna gengistryggingar, þá má benda á t.d. þá þingmenn sem fjölluðu um vaxtalögin á sínum tíma og hljóta að hafa lesið athugasemdirnar með frumvarpinu þar sem skýrt kemur fram að tenging krónulána við gengi erlendra gjaldmiðla skuli óheimil. Aldrei hefur heyrst múkk frá þessum þingmönnum jafnvel á þeim tíma þegar myntkörfulán urðu á allra vitorði og sumir þingmenn voru meira að segja með myntkörfulán sjálfir að því mér skilst. En kanínuholan er samt miklu dýpri hvað glæpsemi og vanrækslu varðar.

SP Fjármögnun (og hugsanlega Frjálsi Fjárfestingarbankinn líka) hafði ekki einu sinni starfsleyfi til að stunda viðskipti með gjaldeyri eða gengistryggð verðbréf. Þetta kemur skýrt fram í þremur aðskildum en samhljóða yfirlitum sem Fjármálaeftirlitið gaf út árið 2007. Síðan þetta uppgötvaðist í fyrra hefur verið kallað eftir gögnum og skýringum frá FME um starfsleyfið, en lítið hefur verið á svörunum að græða og ýmis fyrirsláttur og útúrsnúningar verið viðhafðir. Í kjölfarið upphófst svo kostulegur feluleikur þar sem síður með tenglum á þessi skjöl voru fjarlægðar af vef eftirlitsins og þau svo fjarlægð úr skjalavistunarkerfinu í framhaldi, sem gerist ekki nema tæknilegur umsjónarmaður kerfisins hafi fengið um það skipun sérstaklega. Sem betur fer náðu aðilar utan stofnunarinnar með talsverðu harðfylgi og útsjónarsemi að afrita þessi gögn áður en þau hurfu en þau eru nú vistuð á öruggum stað og einnig víðsvegar um veraldarvefinn þar sem þau nýtast vonandi sem flestum í komandi málaferlum.

Eitt sem vill gleymast í öllu fárinu út af hugsanlegum réttaráhrifum hinna nýföllnu dóma, en það eru stjórnendur þessara glæpasamtaka sem ég kalla nú fjármögnunarfyrirtækin, sjálfir höfuðpaurarnir. Þeir sitja enn að störfum sínum þrátt fyrir að bera ábyrgð á, ef ekki stórfelldum lögbrotum þá a.m.k. vanrækslu af áður óþekktri stærðargráðu. Á sama tíma eru þúsundir vel menntaðra og heiðvirðra Íslendinga atvinnulausir. Enn dýpra er á því að skoðað verði hvað varð um hagnaðinn af starfseminni, en er ekki venjan að gera upptækan hagnað af lögbrotum, sérstaklega ef um ránsfeng er að ræða? Svo má líka bæta því við að í bókhald þessara fyrirtækja vantar hundruðir ef ekki þúsundir sölureikninga sem þeim var skylt að gefa út vegna kaupleigusamninga sem eru virðisaukaskattsskyld viðskipti. Hvers vegna þau kusu að versla nótulaust og hvort þau stóðu nokkurntíma skil á skattinum er ekki vitað að svo stöddu.

Nýlega var gerð lögreglurassía í söluturni í Reykjavík þar sem höfðu líklega verið stundaðir margvíslegir smáglæpir. Eigandi sjoppunnar var handtekinn og fyrirtækið innsiglað einn tveir og bingó. Afhverju er ekki lögreglan búin að fara inní SP Fjárkúgun, Flýsingu og Ávant, og loka hreinlega þessum glæpahreiðrum? Þau hafa sannanlega unnið íslensku samfélagi tjón sem er líklega óbætanlegt nema að hluta, og brotaviljinn var einbeittur. Ég fór til SP fyrir réttu ári síðan með greinargerð sem ég hafði skrifað og innihélt nákvæmlega sama rökstuðning og fram kemur í nýföllnum dómi hæstaréttar, benti þeim á að kaupleigusamningurinn væri þar með ógildur og skoraði á þá að semja við mig upp á nýtt. Þetta var lagt fyrir lögfræðing fyrirtækisins sem svaraði með því áliti að hann teldi samninginn löglegan í skjóli almenns samningsfrelsis. Hann vildi semsagt meina að það mætti brjóta landslög svo lengi sem maður gerði skriflegan samning um það!

Svo virðast fjármálafyrirtækin ekki einu sinni ætla að virða dóma hæstaréttar. Arion banki hefur meira að segja eftir að dómur féll gefið út opinberlega afstöðu á borð við þá sem SP sýndi mér í fyrra, þar sem því er beinlínis hafnað að lög og réttur eigi við í þeirra tilviki. SP Fjármögnun hefur meira að segja orðið uppvíst að því að bæta tilhæfulausum kostnaðarliðum á innheimtuseðla, eins og t.d. fyrir vörslusviptingu sem aldrei var framkvæmd og hefur ekki verið endurgreitt krónu af þrátt fyrir að dómur um ólögmæti vörslusviptingar án aðkomu sýslumanns eða dómstóla sé fallinn fyrir þónokkru síðan. Ungur maður norður í landi gekk nýlega inn á lögreglustöð og vildi fá að kæra fjármögnunarfyrirtæki fyrir slíkt, en lögreglan vildi ekki einu sinni rannsaka málið og gerðist þannig sjálf brotleg við landslög.

Hverskonar bananalýðveldi er þetta eiginlega orðið???

Guðmundur Ásgeirsson, 24.6.2010 kl. 03:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband