Verður Reykjavík að athlægi um víða veröld?

Ekki er hægt að segja að mikil lukka hafi fylgt mannlífinu hér á landi undanfarin ár og heimsbyggðin fylgdist með í forundran hvernig bankar, fyrirtæki og almenningur spiluðu Matador með lánsfé, sem fáir virtust hafa nokkrar áhyggjur af, hvernig skyldi endurgreiða. 

Inn í landið var ausið þúsundum milljara lánum frá útlöndum til að spila með í kaupum á öllu sem falt var, hvort sem þar var um að ræða íslensk eða erlend fyrirtæki og almenningur birgði sig upp af fasteignum, bílum, sumarhúsum og ýmsum fullorðinsleikföngum.

Erlendir aðilar, sem fylgdust agndofa með þessum dansi í kringum gullkálfinn, reyndu að vara við þessari hegðan, en voru hrópaðir niður af banka- og útrárargörkunum undir kórsöng almennings, sem dýrkaði þessi goð sín og dáði og allir vildu líkjast.  Þeir sem fylgdust með þessari hegðun utanfrá voru orðnir algerlega sannfærðir um að Íslendingar væru endanelga gengnir af göflunum og hristu höðuðið yfir þessari undarlegu þjóð.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun um úrslit borgarstjórnarkosninganna virðast a.m.k. Reykvíkingar ætla að staðfesta endanlega, að þeir séu a.m.k. ekki alveg með sjálfum sér og hvort viðbrögðin erlendis verða undrunar- eða meðaumkunarhlátur, skal ósagt látið.

En hávær hlátur verður það að minnsta kosti.


mbl.is Besti flokkurinn með 8 fulltrúa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Tja...eftir að hafa skoðað lista flokksins, þá er ljóst að þarna eru margir harðduglegir einstaklingar, sem hafa náð árangri sökum eigin ágætis, en ekki vegna pólitísks framapots eða í krafti ætternis eða eigna.

Ef Reykvíkingar verða að athlægi fyrir að kjósa þannig fólk, þá er það kanski bara ekki svo slæmt.

Púkinn, 21.5.2010 kl. 18:52

2 Smámynd: Njörður Helgason

Fulltrúar Besta flokksins eru úrvals kandidadar. Fyrir ykkur Reykvíkinga þá er rétt að fara að losna við sótið því borgin er ein rjúkandi rúst eftir meirihluta síðustu ára.

Njörður Helgason, 21.5.2010 kl. 18:56

3 identicon

Nei, líklegra er að val Reykvíkinga eigi eftir að vekja aðdáun um víða veröld. Það er ekkert sjálfgefið á vesturlöndum að valdaviðbjóðinum sé skóflað frá völdum með jafn afgerandi hætti.

Bjarki (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 18:57

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Njörður, heldur þú að spaugararnir séu bestu sótararnir?

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 18:58

5 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Hvað er að fólki sem hefur spjarað sig upp á eigin spýtur, fyrir eigin starfskröftum, sérstaklega samanborið við hyskið sem ORSAKAÐI þetta hrun úr valdastólum.

Og blessaður bíttu í hann á þér ef þú ætlar að halda fram að kórsöngur alþýðunnar hafi ómað til handa gerningsmönnunum. Maður horfði máttlaus á hörmungarnar sem enginn kjörinn fulltrúi gat tekið í tauminn á því þeir voru svo spilltir eða innviklaðir.

Við YRÐUM að athlægi um heim allan ef við kysum sama hyskið yfir okkur aftur. Eins og raunin varð í alþingiskosningunum. Ekki breytti VG/Samfylking neinu varðandi vanda heimilanna. Niðurlægjandi að hlusta á þetta lið sem hljómar næstum jafn illa og fíflin sem nú eru í stjórnarandstöðu.

Rúnar Þór Þórarinsson, 21.5.2010 kl. 19:15

6 identicon

Axel, ég tel betra að þú svarir Púkanum hérna að ofan, enda kemur hann með mjög góða spurningu.

Reykjavík verður ekki að atlægi, heldur mun þetta vekja aðdáun um allan heim, hægt að líkja þessu við borgarauppreisn sem gengur mjög vel, og þarna er verið að ýta frá skítnum og viðbjóði síðstu ára.

RagnarH (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 19:19

7 identicon

Axel, fjórflokkurinn hefur nú þegar gert sig að athlægi á síðustu fjórum árum með vitneskju margra erlendra landa. Besti flokkurinn hefur engu þar við að bæta. Áfram Besti flokkurinn!!

Þórður Þ. Sigurjónsson (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 19:35

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir útlendingar sem vöruðu við þessu voru hrópaðir niður ekki síst af Seðlabankastjóra Davíð Oddssyni sem sagði skömmu fyrir hrun að engar áhyggjur þyrfti að hafa af islensku bönkunum. Og þetta er auðvitað staðfest. Þar á ofan fóru forystumenn ríkisstjórnarflokkanna í ímyndarherferð til útlanda til að styrkja orðspor bankanna.

Við skulum hafa þetta allt á hreinu og ekki gleyma þeim sem báru pólitíska ábyrgð.

Mér sýnist nú að kannski þurfi ekki mörg hnífasett til að mynda meirihluta í borgarstjórn haldi svo fram sem horfir.

Kannski verður hægt að setja hnífasettin á safn?

Árni Gunnarsson, 21.5.2010 kl. 19:40

9 Smámynd: Jón Arnar

Nei fólk er að grínast í símann

Jón Arnar, 21.5.2010 kl. 19:45

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rúnar, hafir þú ekki séð hvað var að gerast í kringum þig í þjóðfélaginu á "gróðæristímanum" er ég hræddur um að þú hafir verið með hausinn á þeim stað sem sólin nær sjaldnast að skína.  Af hverju er stór hluti þjóðarinnar á kafi í skuldavanda vegna kaupa á bílum, sumarhúsum, mótorhjólum, húsbílum og vögnum ásamt öllu hinu dótinu, sem keypt var fyrir lánsfé.

Þú þarft ekkert að segja mér um þessi mál, því ég fylgdist með þessari hjarðhegðan í forundran á þessum árum og ef þú ert með hausinn ennþá þarna niðri, er auðvelt fyrir þig að narta svolítið á meðan þú reynir að skýra á þér kollinn.

Þú og hinir héra fyrir ofan, sem haldið að það sé svakalega sniðugt að gera sig að fífli verðið bara að fá að gera það í friði, en ég a.m.k. skammast mín fyrir þessa þvælu.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 19:47

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, þú verður að fara að leita einhverrar lækningar við þessu Davíðsheilkenni sem hrjári þig svo mjög.  Á meðan þetta þjakar þig svona mikið, getur þú aldrei lagt neitt gagnlegt inn í nokkra umræðu.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 19:49

12 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Það að geta spilað á hljóðfæri - tekið einleik á sviði eða leikið í fangelsisfarsa er ekki ávísun á góða stjórnun - ekki síst ef viðkomandi hefur lotið stjórn annara við gjörningana.

Það er heldur ekki ávísun á það að fólk geti EKKi stjórnað.

Það verður hinsvegar að teljast ólíklegt - fái JG 8 borgarfulltrúa að hann taki að sér embætti borgarstjóra - frekar að hann fái Dag í starfið eða ráði Jón Ásgeir til starfsins - JÁ heldur jú Samfylkingunni uppi - ekki satt ??

Axel - Bröste verðlaunin eru þín - í ár og næstu ár - Að tala um að Árni verði að leita sér lækninga vegna Davíðsheilkennisins er ofboðsleg bjartsýni - það á ekki eftir að gerast

Annars var ég að velta því fyrir mér við lestur blogganna hér að ofan (sumra) hvort við værum að tala um þingkostningar eða Borgarstjórnarkosningar -

Meirihlutinn vill Hönnu Birnu sem borgarstjóra - það gerist ekki ef flokkurinn fær ekki nema 3-6 fulltrúa.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 21.5.2010 kl. 20:19

13 identicon

Ég hef skoðað mannskapinn á listunum og mér líst bara best á þann besta.

Flott fólk sem er ekki með þjálfun í spillingu.

Bestu kveðjur

e

Einar T (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 20:19

14 identicon

það er gaman að lesa hér það sem menn hafa að segja um BF og þá sem þar eru á lista. nú þekki ég ekkert af þessu fóli enn ég hef talað við Jón Gnarr. það að hann vinni við að vera grínisti virðist gera hann að fífli og kjána í augum margra. þetta er ekki kjáni eða fífl.

þetta er góður,duglegur og réttsýnn maður að mínu viti. þegar ég talaði við hann þá var hann ekki með fíflagang eða bull við mig. Hann VINNUR við að vera grínisti enn það gerir hann ekki að kjána. Ég mun kjósa hann og hans fólk. Ég veit það og trúi því að þarna fari duglegt og gott fólk framm. Gamla ruslið er búið að vera sem betur fer og svo eru það landsmálin næst og þar verður sigur Æ listans ekki minni enn í borgini! Og eitt enn fyrir alla að hugsa um. Ef að Lalli Jhons hefði verið í seðlabankanum halda þá eitthverjir að hann hefði getað klúðrað málum meir enn sá sem þar sat? X-Æ! og burt með fjórflokkinn!

óli (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 21:12

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óli, ekki veit ég til hvers var verið að setja á fót heila Rannsóknarnefnd Alþingis og láta hana eyða fimmtán mánuðum í að rannsaka hrunið og komast svo að því að það hefðu verið eigendur og stjórnendur bankanna sem ollu hruninu með hreinum glæpaverkum, þegar þú veist allt um málið og meira að segja hverjum þetta var allt saman raunverulega að kenna.

Þú verður endilega að birta þína skýrslu opinberlega, því svona merkar niðurstöður mega alls ekki liggja í þagnargildi og fara jafnvel með þér í gröfina.  Þegar þín rannsóknarniðurstaða birtist, skilur fólk líka betur hvernig þú velur lista í kosningum.  Það hljóta að liggja jafn vísindalega rök að baki því, eins og öðrum fullyrðingum þínum.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 21:23

16 identicon

Það er mér hulin ráðgáta hvers vegna menn sem svara bloggi og segjast styðja Jón Gnarr, geti ekki sýnt meiri kurteisi en raun ber vitni? þeim finns allt í lagi að hrauna yfir skoðanir hinna sem ekki vilja  sjá BF við völd? Kannski sýnir það bara þroskastig þeirra sem ætla að kjósa þennann flokk.

Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 21:47

17 Smámynd: Brattur

Það er a.m.k. betra að hlægja en gráta... það væri t.d. grátlegt ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi yfir 10% greiddra atkvæða...

Brattur, 21.5.2010 kl. 21:56

18 identicon

Fylgist heimurinn sérstaklega með íslenskum stjórnmálum eða sveitarstjórnar kosningum??

Fæstir jarðarbúar vita tæplega að Ísland sé til.

itg (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 22:12

19 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Silvía Nótt...Er upprisin!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 21.5.2010 kl. 22:25

20 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Axel Jóhann. Svona verður nýtt Ísland til!!!

Þú þarft að skilja að án breytinga með heiðarlegu og færu fólki eins og finnst í Besta flokknum, þá munu Íslendingar halda áfram að lepja dauðann úr skel svikara og þjófa!

Mér finnst þú og fleiri sýna þessum nýja og vel frambærilega flokki lítinn áhuga og skilning? Hvers vegna? Ekki ertu þó hræddur? Ef svo er ættir þú kannski að leita þér einhverrar lækningar ? Það er ekkert að óttast við þennan Besta flokk! Hafðu það annars sem best! M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.5.2010 kl. 22:32

21 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

itg, Ísland er í hverjum einasta fréttatíma allra sjónvarpsstöðva í Evrópu og CNN vegna eldgossins, þannig að svona fáráðlegar fréttir héðan myndu örugglega fljóta með sem hreint skemmti- og aðhlátursefni frá þessari stórfurðulegu þjóð, sem þykist vera að mótmæla stjórnmálum með því að stuðla að algerum glundroða á því sviði, til viðbótar við öll önnr vandræði, sem þjóðfélagið hér á við að glíma.

Guðrún, það er nákvæmlega það sem er að gerast.  Silvía nótt er að rísa upp og eins og áður, þjóðinni til skammar og háðungar.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 22:32

22 Smámynd: Dexter Morgan

REYKJAVÍK, og reyndar allt Ísland, var gert að athlægi í stjóranartíð Sjálfstæðismanna og Framsókarmanna í ríkisstjórn undanfarna 2 áratugi eða svo. Reykjavík var svo dreginn niður í svaðið þegar Sjálfstæðismenn drógu fársjúkan mann (Ólaf F Magg) upp á sviðið og settu undir hann Borgarstjórastól.

Hvað getur vesnað úr þessu ? Ég held ekkert. KJÓSUM BESTA-FLOKKINN 

Dexter Morgan, 21.5.2010 kl. 22:34

23 identicon

Axel það er mér vel ljóst eins og flestum öðrum að þeir sem ollu þessum hörmungum voru þeir sem sátu í stjórnum bankana og þeir sem þeim stýrðu. ENN það voru forustumenn Sjálfst,Framsóknar og Samfylgingar sem skópu farveg fyrir það sem gerðist ásamt vanhæfum og spiltum embætismönnum sem þeir sömu og stýrðu landinu settu í þær stöður sem þeir voru ekki hæfir til að sinna. Hér var seðlabanki og fjámálaeftirlit. D O varaði við hinu og þessu 2008 enn gerði ekkert og lagði ekkert til að gert yrði til að taka á því. Fjármálaeftirlitið var svo fjársvelt og þeir fáu sem þar voru réðu ekki við það sem þeim var trúað fyrir.

Enn svo þegar erlendar greiningarstofnanir fóru að vara við hinu og þessu og það árið 2006 þá var ekki hlustað enda voru það kjánar sem ekki skyldu þá snilli sem hér var í gangi! Spilling,vinagreiðar,frændsemi og mútur ásamt heimsku og drambi var það sem kom okkur til helvítis. Enn fólikið í BF ber ekki ábyrgð á því Axel og það skaltu muna. X-Æ! Burt með skílinn!

óli (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 22:51

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Dexter, þú ættir nú að tala varlega um sjúkdóma ákveðinna borgarfulltrúa, því ég veit ekki betur en sá sem þú nefnir taki það ákaflega óstinnt upp og telji illa að sér vegið með slíku tali.

Að öðru leyti er þetta sama öfgabullið hjá þér og virðist einkenna ansi marga, sem ætla að kjósa grínistana.  Vel á minnst, Jón Gnarr gerði grín að kjósendum sínum í fréttum Stöðvar2 í kvöld, enda trúði hann varla niðurstöðum skoðanakönnunarinnar, frekar en annað hugsandi fólk. 

Það er merkilegt að fólki ætli að kjósa lista, sem er undir forystu manns, sem hæðist að því fyrir einfeldnina.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 22:56

25 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óli, eins og reikna mátti með er þín rannsóknarskýrsla stutt, skýr og greinilega afar vísindalega unnin og á algerlega hlutlausan hátt, eins og vænta mátti af jafn vönduðum hugsuði.

Og nú sjá allir líka, hvernig þú kemst að niðurstöðu í öðrum málum, sem þú tekur að þér að greina og skýra út fyrir hinum, sem ekkert vita og kunna.  Lokaorðin hjá þér í altugasemd nr. 23 eiga örugglega að lýsa því hverjum augum þú lítur á veröldina og samborgara þína.  Þau eru þér til mikils sóma.

Axel Jóhann Axelsson, 21.5.2010 kl. 23:04

26 Smámynd: Nostradamus

Æ hvað það er nú gaman að sjá íhaldið engjast eins og orma á öngli. Merkilegt að menn eins og þú Axel og fleiri hægribloggarar skuli engan vegin átta sig á hvern hug meirihluti landsmanna ber til þess flokks sem þið gerið allt til að verja. Og þó, meira að segja Heimir Fjeldsted viðurkennir að sjálfstæðisflokkurinn sé með "lík í lestinni". Batnandi mönnum er best að lifa... Og jafnvel er enn merkilegra að sjá ykkur verja með kjafti og klóm fyrrum fyrirmenn flokksins. En einræðisherrum hefur reyndar alltaf heppnast að sannfæra hluta fylgjenda sinna um að þeir séu óskeikulir jafnvel þó annað sannist. Eins og við vitum eru enn til menn sem fullyrða að Hitler hafi verið mesti sómamaður og Stalín ljúfmenni sem vildi öllum vel. Og enn finnast sjálfstæðismenn sem kinnroðalaust halda því fram að DO sé það besta sem þessi þjóð hefur eignast. En vissulega hefur þeim fækkað og það hratt. Vinir mínir margir, harðir sjálfstæðismenn til margra ára, segjast gjarnan vilja að flokkurinn taki opinbert uppgjör við fortíð sína og geri hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar hrunið og valdatíma DO. En viðurkenna jafnframt að slíkt muni aldrei gerast meðan enn séu hér steingerfingar sem mega ekki heyra styggðaryrði um sinn mann. Það sem er að gerast í borginni og vonandi á landsvísu í næstu alþingiskosningum er óhjákvæmilegt. Hrunflokkunum verður að refsa, hvort heldur sem þeir bera bókstafina B, D eða S. Spillingarliðinu verður að ýta til hliðar, hvar í flokki sem það stendur. Ef hausar fjúka sem eiga það ekki skilið er það leitt en engin er rós án þyrna. Sagan mun svo vonandi dæma hrunfurstana, hvort sem þeir voru útrásarvíkingar eða seðlabankastjórar og fyrrverandi forsætisráðherrar. Og það að dæma Jón Gnarr úr leik af því hann sé grínisti er soldið undarlegt. DO var nú alltaf talið það til tekna á velmektarárunum hversu mikill húmoristi hann væri nú þó svo mín skoðun sé nú sú að menn hafi einfaldlega ekki áttað sig á að það sem þeir töldu vera húmor var einfaldlega hroki og dramb. Jón Gnarr og hans fólk er amk óspillt af flokksræði, einkavinavæðingu og pólitískum loddaraskap sem hefur einkennt íslensk stjórnmál alltof lengi og það sem er jafnvel enn betra er að þar fer fólk sem hefur amk einhverntíma unnið ærlegt dagsverk og þurft að hafa áhyggjur af því hvernig eigi að ná endum saman um næstu mánaðarmót. Gott væri ef fleira slíkt fólk gisti sjálfstæðisflokkinn.

 Góðar stundir og vonandi fær Reykjavík það sem hún á skilið, nýja leiðtoga sem eru óhræddir og ekki alltof innvinklaðir og innmúraðir!! 

Nostradamus, 21.5.2010 kl. 23:52

27 identicon

Ég er hér að setja fram mína skoðun Axel. þetta er ekki skýrsla. þú ert maður sem talar mikið enn segir fátt. þú skylur þig vonandi sjálfur er það ekki? Hvað ertu að reyna að segja hér? Ertu að reyna að mótmæla því að seðlabankinn og fjármálaeftirlitið hafi ekki staðið sig? Ertu að reyna að segja það að þeir sem voru við völd hafi staðið sína plikt? Og ertu að reyna að segja það að þeir sem vinna sem tónlistamenn eða grínistar geti ekki gert betur enn það fólk sem nú er við völd vegna þess að þau eru fæst með gráðu úr háskóla?? Ég bara skil ekki hvað þú ert að reyna að segja hérna kallinn minn.

óli (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 23:52

28 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nostradamus, sjálfsagt þýðir lítið að setja sig upp á móti skoðunum manns, sem velur sér þetta nafn, enda er ég sammála mörgu af því sem þú segir.  Ef þið Óli hefðuð lesið mín blogg undanfarið ár, þá hefðuð þið séð að ég hef margsagt að allir, stjórnmálamenn sem aðrir, sem til saka unnu í aðdraganda hrunsins, ættu að sæta ábyrgð, hver eftir sinni sök.

Ég hef hins vegar haldið því fram, sem staðfestist í rannsóknarskýrslunni, að það voru ekki stjórnmálamenn, fjármálaeftirlitið eða seðlabankinn, sem ollu hruninu, heldur eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækjanna, með aðstoð endurskoðenda og lögfræðinga, með skipulögðum og eindregnum glæpavilja sínum, græðgi og siðblindu.

Engar eftirlitsstofnanir gátu komið í veg fyrir bankaránin, enda svo um hnútana búið, að það mun taka færustu glæparannsóknardeildir margra landa mörg ár að komast til botns í því flækjuneti, sem riðið var í kringum þessi rán.

Ég hef líka haldið því fra, að pólitískar skoðanir glæpamanna skipti engu máli, því þeir fremji ekki glæpi sína í nafni þeirra flokka sem þeir styja, né í þeirra umboði.  Ég hef nefnt sem dæmi, að ekki sé annað vitað en að á Litla Hrauni sitji þverskurður af öllu pólitíska litrófinu, en stjórnmálaskoðanir skipti engu um ástæður veru manna þar.

Fyrir þessar skoðanir þarf ég að liggja undir alls kyns fúkyrðum hér á blogginu, en kippi mér ekkert upp við það, enda lýsa slík skrif mér ekki á nokkurn hátt, en segja mikið um þá sem slíkt orðbragð nota.

Undir það má taka heilshugar, að hver þjóð fær þá stjórnendur sem hún á skilið og svo mun verða nú, eins og áður.

Axel Jóhann Axelsson, 22.5.2010 kl. 00:12

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aths. 11. Umrætt heilkenni sýnist mér nú að hafi mest á orði þeir sem verst eru haldnir af því sjálfir.

Með þverstæðri merkingu þó að sjálfsögðu.

Árni Gunnarsson, 22.5.2010 kl. 00:24

30 identicon

Ég er sammála því og eins og allir sem hafa fylgst með umræðum undan farin ár að það voru bankastjórnendur sem frömdu glæpinn. Enn við erum með stofnanir hér sem eiga að passa uppá að svona hlutir gerist ekki. Fjármálaeftirlitið er lögregla fyrir fjármálastofnanir og það er seðlabankinn líka.

það er nú alveg ljóst í dag að þetta hefði ekki farið sem fór hefðu þær stofnanir sem þetta áttu að passa haft bæði dugnað,fjármagn sem og hæfa stjórnendur. það sem hér gerðist var að mínu mati blanda af meðvirkni,spillingu,siðblidu,glæpamensku sem og heimsku og skorti á hæfu og heiðarlegu fólki í æðstu stöðum í stjónsýsluni. það getur vel verið Axel að þú teljir að þetta sem gerðist sé bara óhepni og vondum mönnum í útlöndum að kenna sem og fólki sem er illa við D.O. það er þá bara þín skoðun sért þú á henni. Enn það er komin tími á nýtt fólk eins og þau í BF bæði á borgima sem og landsmálin. Enn ég er bara að segja mína skoðun hér og hún er ekki heilög.

óli (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 01:14

31 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Landsmál - borgarmál - -  Ég veit ekki um neinn borgarfulltrúa sem situr á þingi - ekki heldur neinn sem er í framboði -

Múgæsingin heldur áfram  fyrst var það vegna skýrslu sem virðist því miður ekki vera það merkisplagg sem ég svo sannarlega vonaði að hún yrði - eftir hrunið átti allt að lagast ef einn maður yrði sleginn af - DO - það var gert - og - stjórn ofbeldisins tók völdin - síðan hefur leiðin legið niður á við - og fólk hrópaði á afsagnir - og fangelsisvistir stjórnmálamannanna. Þá kom reiðarslagið - forsvarsmenn  banka og viðskiptalífs voru þeir sem rústuðu fjárhag landsins.

En það var búið að hrópa svo lengi á blóð Sjálfstæðismanna að hrópin urðu að halda áfram - fyrst voru það Alþingiskosningar og flokkurinn hrundi í fylgi - - andstæðingarnir fögnuðu - Varaformaður flokksins sagði af sér embætti og vék af Alþingi - formaður þingflokksins sömu leiðis - - áður höfðu margir horfið af þingi vegna hruns flokksins í kosningum -

Þá er komið að sveitarstjórnarkosningum og atvinnugrínarinn Jón Gnarr spilar á múgsefjunina eftir að hafa stutt Sjálfstæðisflokkin um langt skeið.

Hann setti af stað framboð - og múgsefjunin hélt áfram - hann dregur flokka og kjósendur sundur og sman í háði og talar niður til kjósenda - og þeir hrópa húrra Gnarr -

Hann kallar kjósendur fífl - og kjósendur kalla - halelúja Jón Gnarr -

Ég hef séð svona í þáttum Leno og hér áður fyrr í þáttum svarts málsóða ( man ekki nafnið ) sem kallaði áhorfendur hverskonar ónefnum og salurinn lá í krampahlátri.

Núna liggur helmingur Reykvíkinga í hláturskasti -  var einhver að tala um heimska Kana?

Fjölmiðlar hafa gjörsamlega brugðist skyldu sinni - skv. venju - Ögmundur og síðan SJS fengu frítt spil til þess að rakka niður Sjálfstæðisflokkinn og Árna Sigfússon í Reykjanesbæ enda er stjórninni og fulltrúum þeirra á RÚV illa við fjölgun atvinnutækifæra á Suðurnesjum -

Enginn fékk að svara fyrir Suðurnesjamenn og bæjarstjóranum NEITAÐ um færi á að tjá sig - ÞAÐ VÆRI SVO STUTT Í KOSNINGAR - Það var líka stutt í kosningar daginn áður.

Vissulega lítur út fyrir hrun flokksins í kosningunum - þá taka menn því -

En fólk skyldi aðeins hugsa áður en það kallar yfir sig ríkisstjórnarsamstarf í sveitarfélögunum - hvort sem það er í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 22.5.2010 kl. 02:37

32 Smámynd: Þór Sigurðsson

Í netheimum er ágætis vinnuregla til. Hún kallast „don't feed the troll“, og tekur til karaktera eins og Axels, sem láta „ljós sitt skína“ um viðkvæma eða mikilvæga hluti án þess að hafa raunverulega nokkuð til málanna að leggja - oftast til að skapa úlfúð og hnýtingar. Svona svipað og hefur gerst hér.

Þetta er ekki ósvipað því þegar maður hellir næringarsúpu í petridisk sem inniheldur myglusveppi (þótt hitt sé nú sennilega algengara að setja sveppina í eftirá).

Það að Axel skuli ekki skilja kaldhæðnina í því að Gnarrinn sé að fá langt í meirihluta atkvæða (sem er svo vísun í að fólk sé búið að fá meira en nóg af þeim óþverra sem í boði er frá fjórflokkunum, og því geti Gnarrinn ekki verið verri - sama hversu slæmur hann kann svo að vera) það er kaldhæðið í sjálfu sér.

Og sorglega fyndið. Eiginlega.

Og Óli, eftirlitsstofnanir eru gagnslitlar ef:

* þær hafa ekki vald í lagabókstafnum til að beita viðurlögum eða taka á málum

* þeim er gert lífið enn erfiðara með tvíræðum skilaboðum pólitíkusa, torskildum og margræðum lagatextum og sífeldum kröfum um endurskoðun sem hægir á og hamlar vinnu.

Þór Sigurðsson, 22.5.2010 kl. 02:49

33 Smámynd: Einhver Ágúst

Við erum menntað og harðduglegt fólk...en umræðan er opin og fín og menn eru harðfylgnir og skoðanasterkir hér.

ÞAð er ágætt.

En kynntu þér menntun fólksins á listanum og störf á áður en þú dæmir Axel minn og þessi tilfinning þín fyrir háði er kannski eitthvað hátt stillt.

Takk fyri stuðninginn gott fólk og góða nótt.

Einhver Ágúst 13 sæti Besta flokksins til borgarstjórnar í Reykjavík 2010

Einhver Ágúst, 22.5.2010 kl. 03:05

34 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þór, það er dálítið merkileg skoðun sem þú og margir fleiri haldið fram, þ.e. að ef einhver hefur önnur viðhorf til málanna en þið, þá er hann ekkert að leggja til málanna. 

Ég legg fram mínar skoðanir og þú þínar, en samt eru það mínar skoðanir, að þínu áliti, sem eru einskis verðar og eingöngu settar fram til að skapa úlfúð.

Kaldhæðnina í framboði Jóns Gnarr og félaga skil ég mæta vel og líka kaldhæðina í honum gagnvart kjósendum, þegar hann segir að þessi mikli stuðningur við framboðið sé ekki vegna óánægju með "gömlu" flokkana, heldur sjái kjósendur í sér nýjan leiðtoga og sameinignartákn fyrir þjóðina.  Með þessum ummælum er hann auðvitað að gera góðlátlegt grín að kjósendum sínum og því mikla fylgi sem listinn hans er að fá í könnunum og Jón reiknaði aldrei með, enda var framboðið eingöngu hugsað sem sprell í upphafi.

Ótrúlega stór hluti kjósenda virðist ætla að taka þátt í gríninu og skemmta sér konunglega og að sjálfsögðu er rétt að óska mönnum góðrar skemmtunar yfir þessu alvörumáli, sem stjórnmál eru.

Varðandi eftirlitið með fjármálastarfseminni, þá er það alþjóðlegt vandamál, því engin eftirlitsstofnun í heiminum gat komið í veg fyrir bankahrunið í sínu heimalandi og alls staðar er nú verið að ræða um leiðir til að svona hrun geti ekki endurtekið sig og verið er að reyna að finna leiðir til að mögulegt verði að fylgjast með bönkum og öðrum fjármálastofnunum í framtíðinni.  Þessar umræður eru í gangi í Bandaríkjunum og um alla Evrópu, þannig að slakt eftirlit er ekkert séríslenskt fyrirbæri.

Það sem gerðist hér á landi til viðbótar hinni alþjóðlegu bankakreppu, var að hér var búið að ræna allar fjármálastofnanir innanfrá og raunar öll helstu fyrirtæki landsins og slíkt gat enginn vitað á meðan á því stóð, enda slóðin falin svo vandlega, að hún verður ekki rakin nema á mörgum árum af færustu glæparannsókanarstofnunum.

Sennilega þýðir ekkert að reyna að rökræða þessi mál á rólegum og yfirveguðum nótum, vegna þess að það fellur ekki inn í hjarðhugsunina og því stimplað sem ómerkilegt blaður, sett fram til þess eins að skapa úlfúð.

Axel Jóhann Axelsson, 22.5.2010 kl. 03:39

35 Smámynd: Sigurður Heiðar Elíasson

ég get ekki neitað því að ég verði nokkuð leiður við það að lesa hjá þér svörin Axel, þau eru illkvittin og hafa ekkert endilega neitt með umræðuna að gera heldur bara að reyna að rakka niður athugasemdir annara. Ekki er það ætunarverk þitt að vera leiðinlegur? Því vill ég nefnilega ekki trúa. :/

Sigurður Heiðar Elíasson, 22.5.2010 kl. 04:23

36 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Sylvía Nótt í Eurovision er Jón Gnarr kosninganna - hefst með stæl og endar með hruni - en þetta hrun mun vara í 4 ár.

Eurovision gerði það ekki. Við urðum aðhlátursefni þá - góðlátlegt grín enda ekki mikið í húfi - - alvaran er hinsvegar núna -

Ólafur Ingi Hrólfsson, 22.5.2010 kl. 09:39

37 Smámynd: SeeingRed

Tek undir með þeim sem benda á að þótt Jón Gnarr sé grínari af guðs náð, þá er maðurinn gríðarvel gefinn og ég efast um að hann og hans ágæta lið gæti gert borgarpólitíkina mikið hlægilegri en hún hefur verið síðustu ár, þvílíkur farsi sem boðið hefur verið uppá í langan tíma. Þá fyrst yrði brandarinn súr ef að gamla spillingarliðið heldur flest sínum sætum áfram.

SeeingRed, 22.5.2010 kl. 11:04

38 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Fólk um víða veröld er ekki að fylgjast með kosningunni í Reykjavík. Þetta er það sem fólkið vill augsýnilega. Við skulum ekki vera með yfirlýsingar fyrirfram um það hvernig Besti flokkurinn spjarar sig. Látum verkin tala. Síðasta kjörtímabil er eitt stykki klúður frá upphafi til enda. Við viljum sterkan meirihluta en ekki samkrull mismunadi flokka með valdabaráttu fram yfir hagsmuni okkar.

Guðlaugur Hermannsson, 22.5.2010 kl. 11:11

39 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sigurður Heiðar:  Hvernig í ósköpunum getur þú komst að þeirri niðurstöðu að svör Axels séu illkvittin og hafi ekkert með umræðuna að gera ?  Pistill Axelser mjög góður, en langflestar athugasemdirnar snúast um eitthvað allt annað en vitsmunalega umræðu um stjórnmál, því miður.

Kannski, og þá í mjög eðlilegu framhaldi verður niðurstaðan í borgarstjórnarkosningunum sú sem allt stefnir í.   Og í beinu framhaldi, við tilvonandi fall ríkisstjórnarinnar, mun sama framboðið bjóða fram á landsvísu og gera sama uslann.

Lengi getur vont versnað, við sáum hvað búsáhaldabyltingin hafði í för með sér, algert stjórn- og sundurleysi ráðamanna nýrrar ríkisstjórnar, spillingu sem aldrei fyrr sbr. leyndarhyggjuna um nýja einkavæðingu bankanna, forsætisráðherra sem segir þjóð sinni ósatt um loforð til seðlabankastjóra, Steingrímur J. ESB andstæðingur sem segir JÁ við ESB umsókn, mesta leyndarmál síðari tíma - "SKJALDBORGINA UM HEIMILIN" ?? o.s.frv.  

Semsagt - þjóðarskútan er stödd í bullandi brælu en eingöngu hliðarskrúfan er í gangi og skipið snýst í hringi !!  Enda ekki nema von því skipstjórinn er með flugfreyjuréttindi ( sem enginn skilur, því hann kann ekki ensku ) 

Og nú vilja Reykvíkingar greinilega bæta um betur og toppa ruglið sem við fengum í síðustu Alþingiskosningum  !!

Verði þeim að góðu !!

Sigurður Sigurðsson, 22.5.2010 kl. 11:35

40 Smámynd: Friðrik Jónsson

Það er ótrúlegt að lesa aftur og aftur að það hafi ekki verið hægt að sjá fyrir að menn voru að stela,það er bara ekki satt þetta var gert fyrir opnum dyrum.

Gott dæmi er Sterling flakkaði milli manna og alltaf hækkaði verðið,Danir sáu hvað var verið að gera,það var veðsett aftur og aftur og færðir til peningar til Pálma og Fl-group.Bankamenn voru að fá fáráðanlegar upphæðir í laun og bónusa,þetta sáu allir,kvótinn seldur óveiddur það sáu það allir,bankar seldir og borgaðir með sér sjálfum það sáu það allir,lánaðir milljarðar til eigenda bankanna það sáu það allir,svona er hægt að halda áfram endalaust ÞETTA SÁST ALLT.

Það sáu þetta allir sem vildu sjá þetta,ég ákvað 2006 að losa mig við bílalán og hagræða öllu því ég trúði því að þetta gæti ekki gengið miklu lengur,því það var ekkert verið að framleiða þetta var bara pappírsbóla og ég er alinn upp við að það þurfi að hafa fyrir því að eignast hlutina einföld fræði en rökrétt.

Ég er enginn fjármálasnillingur og hef enga menntun á því sviði,en samt sá ég að þetta var bilun sem var í gangi hér og þess vegna trúi ég því ekki að lærðir einstaklingar í fjármálum,lögum og starfandi pólitíkusar hafi ekkert séð það bara stenst ekki.

Þetta er búinn að vera feluleikur í mörg ár og er enn,það má líkja þessu við spilafíkn menn kunna ekki að stoppa og til að fá að halda áfram þá ljúga þeir.Þess vegna er ég mjög hlynntur nýjum óháðum framboðum því ég vil fjórflokkana í langa pásu.

Friðrik Jónsson, 22.5.2010 kl. 11:44

41 Smámynd: SeeingRed

Fjórflokkarnir eru gegnrotið fyrirbæri eins og hefur fyrir löngu sannast og því ber að fagna því að allt stefni í að fólk sem líklega yrði ekki auðvelt að spilla komist til áhrifa. Ormahreinsunin verður að fara fram og fólk vill ekki sjá flokksdindlana auðspilltu við stjórnvölinn lengur...betra seint en aldrei!

SeeingRed, 22.5.2010 kl. 11:53

42 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það verður vala hlegið meira en orðið er, því ekki getur það versnað.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.5.2010 kl. 14:04

43 Smámynd: Tómas H Sveinsson

Vona að almenningur fari nú ekki að leika sama leikinn og þegar Sylvía Nótt, eða hvað hún nú kallaði sig, var send á söngvakeppnina. Það hneyksli stóð ekki lengi og vonandi hafa íbúar Evrópu gleymt þeim sorgarleik. Ef Gnarrarar komast nú inn í ráðhúsið, í stað leikhússins, stendur það hneyksli í 4 ár. Eru íbúar Reykjavíkur virkilega á svo lágu plani að Gnarrarar geta náð kostningu?

Munið að það þýðir ekkert, þegar allt er komið í tóma vitleysu, að segja "Þetta var nú bara djókur"

Tómas H Sveinsson, 22.5.2010 kl. 18:30

44 Smámynd: Finnur Bárðarson

Auðvitað erum við aðhlátursefni um allan heim þessi skrípaþjóð sem framleitt hefur mafíósa á færibandi. Reykjavík er ekki undanskilin.

Finnur Bárðarson, 22.5.2010 kl. 18:37

45 identicon

Mér finnst að við ættum að senda Silvíu Nótt í Eurovision á hverju ári!

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 19:15

46 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gaukur Úlfarsson, fjölmiðlafulltrúi "Besta" brandarans staðfestir í viðtali við DV, að Silvía Nótt hafi verið fyrirrennari og fyrirmynd brandaraframboðsins, en hann segir m.a. í viðtali við DV í tilefni af gagnrýni Hallgríms Helgasonsar, rithöfundar, á framboðið:

"Hallgrímur gagnrýndi frambjóðendur Besta flokksins fyrir að hafa ekkert gert á árunum fyrir hrun, og ekki hafi þau verið sýnileg í búsáhaldabyltingunni. Gaukur segist einungis geta tekið dæmi af sjálfum sér en hann hafi tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni og svo megi ekki gleyma því að Silvía Nótt hafi verið hrein ádeila á hvernig íslenskt samfélag hafi verið fyrir hrun. „Silvía nótt sýndi þjóðina, gráðuga, andlausa og lausa við öll gildi sem að gott fólk þarf að hafa, þetta var ekkert annað en gangrýni á góðærið,“ segir Gaukur."

Þar með er opinberlega staðfest hver hugmyndafræðingur brandaraframboðsins er og ekki nokkur ástæða til að draga þessa yfirlýsingu í efa.

Axel Jóhann Axelsson, 23.5.2010 kl. 11:11

47 Smámynd: Einhver Ágúst

Axel þetta er lélegasta greining á orðum annara eða lélegasti útúrsnúningur sem ég hef séð. Gaukur er að svara ásökunum Hallgrís um að við sem séum í Besta höfum aldrei mótmælt eða gagnrýnt ástandið í aðdraganda hrunsins eða í mótmælunum á Austurvelli. Gaukur gerði Sylvíu Nótt sérstaklega til að gagnrýna ruglið 2007, það þýðir ekki að einn né neinn sé hugmyndafræðingur brandaraframboðsins.

Við erum mörg þarna og að halda að Gaukur staðfesti að Sylvía sé fyrirrennari og fyrirmynd framboðsins er nú ekki það gáfulegasta sem þú hefur sagt, og hreinlega bara lygi þú fyrirgefur orðalagið.

Kv Einhver Ágúst 13 sæti Besta flokksins

P.S. Hefurðu orðið var við einhverja aðra frambjóðendur sem eyða tíma sínum í að tala við þig hér inni? Ég er ósammála þér í flestu og átta mig á að þú munt seint kjósa mig en það breytir því ekki að ég tala við þig og langar að skilja þig og hef ekkert á móti þér persónulega. En mér leiðist þegar logið er og snúið útur.

Einhver Ágúst, 23.5.2010 kl. 12:15

48 identicon

Hroki og stærilæti sumra Sjálfstæðismanna er ein af ástæðunum fyrir því að fleiri og fleiri hafa ákveðið að kjósa Besta flokkinn.

Að segja við Rúnar (komment 5) að hann hljóti að vera með hausinn í rassgatinu á sér, bara vegna þess að hann er ekki sammála eiganda bloggsins, og bæta svo við: "... og ef þú ert með hausinn ennþá þarna niðri, er auðvelt fyrir þig að narta svolítið á meðan þú reynir að skýra á þér kollinn" er auðvitað ekkert annað en hroki og virðingarleysi fyrir annarra manna skoðunum.

Hvaða heilbrigðu fólki dettur í hug að taka mark á manni sem talar svona við samborgara sína? Það er ekki undarlegt að fylgið hrynji af Sjálfstæðisflokknum þegar hann hefur svona talsmenn á blogginu

Jóhann (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 13:52

49 Smámynd: Einhver Ágúst

Ég tek það fram að "Hallgrís" var innsláttarvilla og átti ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr persónu Hallgríms Helgasonar enda er hann toppnáungi þó hann sé eitthvað að hlaupa á sig.

Einhver Ágúst, 23.5.2010 kl. 14:05

50 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhann, þetta svar til Rúnars var bara svar í þeirri sömu mynt og hann hafði sjálfur leyft sér að tala til mín.  Svar mitt var mun snyrtilegar orðað en hans og þú getur ekki einu sinni birt það orðrétt í þinni athugasemd.  Ef mitt svar var svona mikið virðingarleysi við hans skoðanir, hvað má þá segja um hans skrif í athugasemd nr. 5 ("Og blessaður bíttu í hann á þér...).  Það er alveg furðulegt að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og kjósenda hans skuli mega nota hvaða orðbragð og svívirðingar, sem þeim sýnist, en ef þeim er svarað í sömu mynt og á þeirra eigin plani, þá verður allt vitlaust.  Samt er nú auðvitað skiljanlegt að meiri kröfur séu gerðar til stuðningsmnna Sjálfstæðisflokksins en annarra.

Einhver Ágúst, það þýðir ekkert að ráðast að mér vegna opinbers viðtals við upplýsingafulltrúa brandaraframboðsins, hver sem er læs sér samhengið sem hann setur á milli framboðsins og Sylvíu Nætur.  Það er einkennilegt að afneita hugmyndafræði og fyrirmynd sinni, en ráðast að þeim sem benda á orð framámanna sjálfs framboðsins, án þess að túlka þau nokkuð nánar en gert er í viðtalinu.

Það væri stórmannlegra að viðurkenna bara hvernig í pottinn er búið.

Axel Jóhann Axelsson, 23.5.2010 kl. 14:23

51 Smámynd: Einhver Ágúst

Ráðast að þér? Ef þú upplifðir það þannig þá finst mér það rosalega leiðinlegt en það útskýrir líka betur hvernig þú túlka lesinn teksta Axel. 

Von sú og gleði sem við snúumst um og bjartsýnin sem breiðist út um borgina fer því miður eitthvað framhjá þér en vertu velkominn hvenær sem er, það er ótrúlega gaman í Besta flokknum og mikið af starfsfúsi fólki sem er að gera þetta mögulegt því að það vita allir að ekki eigum við peninga til að auglýsa. Framboðið rekur sig sjálft með sjálfboðavinnu og sölu varnings auk góðlegra gjafa stuðningsmanna í formi smápeninga, það er loforð um bjarta framtíð í stjórn fjárm´la Reykjavíkur og virkjun fólksins í borginni til góðra verka.

Við erum að eyða brotabroti af peningunum sem önnur framboð hafa til umráða en með örlítið betri árangri, að líma það allt á óánægju og Jón einann og nú Gauk Úlfarsson er einfeldnislegt og gamaldags.

Ég viðurkenni innilega fyrir þér Axel Jóhann að Besti flokkurinn er fullur af frambærilegu fólki sem bíður þess spennt að fá að vinna fyrr Reykjavík. Það er ekkert grín.

Hann setur ekkert samhengi milli framboðsins og Sylvíu, hann svarar gagnrýni HH um meint aðgerðaleysi sitt persónulega og bendir á hvernig hann reyndi að gagnrýna og benda á hvert stefndi, en finnst þér ekkert skrítið að þú hafir fundið sameiginlegann óvin með Hallgrími Helgasyni? Eruð þið skoðanabræður? Hvernig gerðist það Axel?

En takk fyrir að svara og þó ég geri mér alveg grein fyrir að þú munir aldrei kjósa mig þá virði ég þig og finnst gaman að tala við þig hér í tuðheimum, ég vil bara ekki að þú skrumskælir og snúir útúr fólki þegar það hentar málstað þínum.

Og einu sinni enn spyr ég, hve marga frambjóðendur sérðu hér að tala við fólk? Saknarðu ekki þinna eiginn liðsmanna?  Ef við viljum endilega halda með stjórnmálaflokkum einsog fótboltaklúbbum.

Kv Einhver Ágúst 13 sæti Besta flokksins

Og er sú afstaða að óska okkur slæms gengis á næsta kjörtímabili ekki soldið skrítin? Að óska þessa ð brogin okkar líði af því að við erum ekki alveg sammála fólkin sem rekur hana þykir mér pínu skrítið.

Einhver Ágúst, 23.5.2010 kl. 15:40

52 identicon

Það getur vel verið að Besti flokkurinn sé grín eitt og hafi eingöngu verið hugsaður sem slíkt en það kemur í ljós hvernig hann tekst á við hlutina og ekki hægt að dæma menn fyrirfram.

Axel hvað varðar "fyrirlitningu og hæðni" Jóns Gnarr á kjósendum, þá get ég ekki séð að stjórnmálamenn okkar i gegnum árin hafi verið betri eða borið meiri virðingu fyrir kjósendum.  Eða hvað kallar þú það að lofa hinu og þessu ár eftir ár og aldrei efna neitt?  Er það ekki að draga fólk á asnaeyrum eða er það bara eðlilegt og á heima í stjórnmálum að svíkja og pretta?

Kjósendur yrðu meira til gríns og athlægis ef þeir héldu áfram að kjósa yfir sig það sama sem þeir hafa gert hingað til. Það getur vel verið að Besti Flokkurinn valdi ekki hurðarásnum en það hafa hinir gamalreyndu heldur ekki gert.

Og á meðan ekki er alvarlegt framboð með ljósrauða drauma þá er Besti Flokkurinn eina rétta valið. Fáviska segir þú Axel en ég segi það vera enn verri fávisku að gera sömu gömlu mistökin eina ferðina enn eða eru Íslendingar of vitlausir til að læra af mistökum sínum.

Haraldur Axel Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 16:14

53 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta eru búnar að vera langar og að mestu skemmtilegar umræður, en greinilegt er á öllu, að svarið við spurningunni, sem fram kom í upphaflegu fyrirsögninni er alveg greinilega:  JÁ.

Axel Jóhann Axelsson, 23.5.2010 kl. 17:08

54 Smámynd: Tómas H Sveinsson

Af lestri á pistlum áhangenda Gnarrara kemur berlega í ljós á hvaða plani viðhkomandi eru. Gjörsamlega ábyrgðarlaust fólk sem hefur það eina til málanna að leggja að breyta en að ekkert komi í staðnn annað en fífl og trúðar sem enda aðra hvora setningu á "Ég var bara að djóka" (Kunna greinilega ekki einu sinni íslensku). Ef þessir stuðningsmenn settust nú niður og skýrðu frá því sem þeir vilja væri hugsanleg að hinn skynsami minnihluti borgabúa gæti tekið mark á þeim.

Tómas H Sveinsson, 23.5.2010 kl. 19:20

55 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Eg held ad tu oftulkir tetta storlega hvad island er mikid i frettum a erlendum frettastofum.Eg horfi a fettir a to nokkrum stodvum bædi norskum donskum sænskum og enskum og tad er odruhverju mynnst a gosid annad er tad ekki.

Þorvaldur Guðmundsson, 23.5.2010 kl. 20:00

56 identicon

Axel ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu að svarið sé já.

Í fyrsta lagi þá hefur fólk kosið það sama aftur og aftur og hver er útkoman?  Þjóðfélag í upplausn og stjórnkerfi og stjórnmálamenn sem enginn treystir.

Í öðru lagi þá væru 'islendingar fyrst hlægilegir ef þeir hjéldu áfram að endurtaka gömlu mistökin, það er einusinni einkenni vitiborna vera að þær læra af mistökum.

Í þriðja lagi þá er ekki um annað að velja en Besta Flokkinn hann er það eina nýja í Íslendskum stjórnmálum í dag. Það að allir skiluðu auðu myndi ekki leysa neitt, niðurstaðan væri annað hvort endurkostningar eða að minnihlutinn myndi ráða sem er alls ekki lýðræðislegt.

Haraldur Axel Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 20:47

57 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Haraldur, heldur þú að best sé að leysa einn vanda, með því að búa til annan verri?

Stjórn Reykjavíkurborgar hefur verið með mestu ágætum síðustu tvö ár, undir forystu Hönnu Birnu, borgarstjóra, þannig að ekki getur þetta upplausnartal þitt átt við borgarstjórn Reykjavíkur.

Þessari góðu stjórn vilt þú fórna fyrir góðan brandara.

Axel Jóhann Axelsson, 23.5.2010 kl. 20:57

58 Smámynd: Haukur Nikulásson

Eftir allar þessar rökræður stendur þetta eftir: Það þarf ekki að kjósa fjórflokkinn aftur. Það þarf heldur ekki að kjósa að koma með statement og kjósa bara djók næstu 4 ár. Reykjavíkurframboðið er jákvætt, lausnarmiðað og vill leysa málin af alvöru og ábyrgð. Veit hvernig hægt er að fjármagna borgina í gegnum mestu kreppuna.

Við getum öll þess vegna afneitað ÖLLUM fíflagangi hvort sem það voru síðustu 4 ár eða næstu 4 ár.

Haukur Nikulásson, 24.5.2010 kl. 08:12

59 identicon

Hvað er að því að leysa verkefni og stunda vinnu sína með bros á vör?  Ég veit ekki hvort Besti Flokkurinn verði starfinu vaxinn en ég get ekki séð hvað atvinna frambjóðenda hefur með nokkuð að gera, veit ekki betur enn að stjórnmálamenn í gegnum tíðirnar, hafi komið úr öllum starfstéttum og að við höfum haft trésmið sem forsætisráðherra og leikara sem forseta.

Við getum alveg verið sammála um að kostninga barátta BF hefur ekki verið sérlega málefnaleg en er það einhvað verra en að lofa einhverju sem maður hefur aldrei hugsað sér að efna eða veit að maður getur ekki efnt?

Ég get ekki dæmt BF og ákveðið að þeir séu asnar og fífl og vita ekki hvað þeir eru að gera fyrr en það reynist satt, það hafa ógrynni af sjórnmálamönnum í tímanna rás verið kosnir í embætti án þess að þeir hafi haft reynslu.

Þess fyrir utan þá gæti Reykjavík lifað lengi án stjórnmála manna enn ekki án allra starfsmanna borgarinnar sem eru í raun þeir sem halda hjólunum gangandi

Haraldur Axel Jóhannesson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 10:22

60 Smámynd: SeeingRed

Hinn dæmigerða stjórnmálafígúra hefur verið stórlega ofmetin, mín von er að BF muni fletta ofan af allskyns rugli og vafasamri fyrirgreiðslu í borgarmálunum og í framhaldinu verði tekið fyrir slíka spillingu af festu og að þeim verði ekki auðveldlega mútað.

SeeingRed, 24.5.2010 kl. 13:51

61 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nú er kominn upp ný færsla um þetta brandaraframboð, þar sem sýnd er tilvísun í útskýringu Jóns Grarr sjálfs á því hvers konar hugmyndafræði stendur á bak við framboðið, en það er stjórnleysi.  Hafi þessi keisari einhvern tíma verið í fötum, er hann búinn að berhátta sig núna, frammi fyrir alþjóð.  Þetta má sjá hérna

Axel Jóhann Axelsson, 24.5.2010 kl. 15:35

62 identicon

Sjálfgræðgisflokkurinn, sem stjórnaði Rvík. 60 ár samfleytt, gerði nú ekki allt gáfulegt.....Það komust að vísu ekki í framkvæmd allar áætlanir flokksins, en eitt, sem þeir ætluðu að gera var að rífa öll gömlu húsin í Kvosinni, (það var búið að teikna dæmið), og byggja þar allt upp á nýtt.  Glæsileg hugmynd!!!!!!!!  Hvernig hefði ykkur litist á að láta rífa öll fallegu timburhúsin í Tjarnargötunni og fá í staðinn fjórar blokkir 8 hæða, eins og stóð til.  Teikningin var meira að segja sýnd í Lesbókinni á sínum tíma.  Ég held alla vega að rétt sé að hvíla flokkana 4, og er ekkert hrædd um að Besti flokkurinn geti ekki klárað sig.  Sjáum til  - ekki hundrað í hættunni  

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 15:44

63 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Fáráðlegt að vísa í áratuga gamlar skipulagstillögur, sem aldrei komust á koppinn.  Tíðarandinn var allt annar þá og viðhorf til skipulagsmála allt önnur en á seinni árum.

Af hverju ekki að ræða frammistöðu flokksins í borgarstjórn á undanförnum árum, sérstaklega síðan Hanna Birna tók við borgarstjórnastólnum.  Síðan hefur nú verið annar bragur á borginni, heldur en t.d. á tímum R-listans.

Ef framboð, eins og "Besti" brandarinn fær hreinan meirihluta í borginni gætu hundrað verið í hættunni, um það er ekkert hægt að vita, ef enginn af frambjóðendunum fæst til að segja hvað á að gera á næsta kjörtímabili.  Hvað ef í ljós kemur að þeir ráði ekki við að stjórna þessu stærsta fyrirtæki landsins?  Það gæti reynst dýr tilraunastarfsemi.

Axel Jóhann Axelsson, 24.5.2010 kl. 17:59

64 Smámynd: Einhver Ágúst

Engar áhyggjur Axel, treystu mér...  KV Gústi

Einhver Ágúst, 24.5.2010 kl. 18:18

65 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Treysta þér til að gera hvað?  Stjórna borginni með súrrealísku stjórnleysi?  Útskýrðu stefnuskrána betur, svo ég og aðrir kjósendur getum áttað okkur á því, hvernig borginni verður stjórnað, ef svo ólíklega vill til, að þið komist til einhverra áhrifa í borgarstjórn.

Axel Jóhann Axelsson, 24.5.2010 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband