Á að efla atvinnu með því að loka öllum fyrirtækjum?

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lög að mæla þegar hann segir að ríkisstjórnin sé að gera minna en ekkert til að koma einhverri hreyfingu á atvinnulífið með þeim ráðum, sem hún hefur þó yfir að ráða, svo sem að greiða fyrir virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, þ.e. byggingu álvera, kísilverksmiðju, gagnavera o.fl. fyrirtækja, sem erlendir aðilar hafa áhuga á að fjárfesta í hér á landi.

Einnig er alveg rétt hjá Gylfa að þjóðin er orðin uppgefin á ríkisstjórninni, sem er dauðþreytt af því að gera ekki neitt annað en þvælast fyrir þeim málum, sem gætu orðið til að stytta kreppuna og minnka atvinnuleysið, sem Gylfi spáir að muni aukast svo um munar, fari stjórnin ekki að reka af sér slyðruorðið.  Ekki hefur verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin lofaði að greiða fyrir með undirritun sinni og samþykki á stöðugleikasáttmálanum fyrir tæpu ári síðan.

Hins vega er ráð Gylfa við þessum doða ríkisstjórnarinnar meira en lítið einkennilegt, því hann telur vænsta kostinn til að sparka stjórnarflokkunum af stað vera þann, að boða til verkfalla og loka þar með öllum vinnustöðum landsins.

Hvernig það á að vera til að auka atvinnu, verður forseti ASÍ að útskýra nánar,  því algerlega er öruggt, að mörg fyrirtæki myndu ekki þola svo mikið sem tveggja daga verkfall í því fjárhagsumhverfi sem þau starfa í nú til dags.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.


mbl.is Íhuga verkföll í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband