Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Aðlögun atvinnuleysis að ESB?

Atvinnuleysið hér á landi er í þeim hæstu hæðum, sem það hefur nokkurn tíma verið í og með einarðri baráttu ríkisstjórnarinnar til að viðhalda því er ekki mikil von til þess að ástandið batni á næstunni.

Stjórnin hefur barist af öllum sínum mætti gegn allri þeirri atvinnuuppbyggingu sem þó hefur verið í boði frá hruninu 2008 og nægir þar að nefna lögbrot Svandísar Svavarsdóttur vegna virkjanamála, baráttuna gegn stóriðju við Húsavík og í Helguvík og nú síðast harkalega framgöngu til að koma í veg fyrir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Í fréttinni er þetta m.a. haft eftir Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar: "Þetta er mjög óvenjulegt. Þetta hefur að líkindum ekki gerst síðan 1930, eða þar um bil. Það voru margir án atvinnu á árunum frá 1993 til 1995 en þá fór meðaltalsatvinnuleysið hins vegar aldrei yfir 5%."

Viðvarandi meðaltalsatvinnuleysi í ESB hefur verið um 8-10%, í sumum löndunum minna og alveg upp í 20% og sá grunur fer að læðast að, að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar með baráttu sinni fyrir viðhaldi svona mikils atvinnuleysis hér á landi sé liður í að aðlaga íslenskan vinnumarkað að ástandinu eins og það er og hefur verið í ESB.

Það væri eftir öðru, að þessi stefna í atvinnumálunum sé hluti af aðlögunarferlinu, sem Samfylkingin er að reyna að troða upp á Íslendinga. 


mbl.is Jafnast á við ástandið 1930
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hortug Jóhanna - eins og venjulega

Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði vantrauststillögunni á ríkisstjórnina ákaflega í þinginu í dag, enda sagði hún tillöguna þjappa stjórnarflokkunum saman og þar með myndi stjórnin jafnvel styrkjast nógu mikið til að koma einhverju máli í gegn um þingið á næstu vikum og mánuðum.

Þessi yfirlýsing Jóhönnu var auðvitað fyrst og fremst beint að "villiköttunum" í VG, en sú spurning vaknar reyndar hvort svona ögranir virkji ekki öfugt þegar til kemur, eins og fór með ógnar- og hræðsluáróður stjórnarinnar gegn þjóðinni vegna þrælalaganna.

Annað sem kemur fram í fréttinni er ekki minna áhugavert, en það er eftirfarandi klausa:  "Hún sagði jafnframt, að með því að krefjast nýrra kosninga væri formaður Sjálfstæðisflokksins að kalla eftir pólitískri upplausn í landinu á erfiðum tímum. Framundan væru erfiðar viðræður í kjarasamningum og það skipti miklu fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og efnahagsþróun á næstu árum hvernig þeim viðræðum lyktaði."

Eftir hrunið á haustdögum 2008 ráðlögðu allir sérfræðingar, innlendir sem erlendir, að ekki yrði bætt við þann efnahagslega glundroða sem hrunið olli með pólitískri upplausn og þingkosningum.

Samfylkingin hljópst þá undan merkjum, sleit ríkisstjórninni og boðar var til kosninga vorið 2009.

Frá þeim tíma hefur verið pólitísk upplausn í landinu og óstjórnhæf ríkisstjórn verið við "völd".

Breytist þetta ástand með nýjum kosningum, getur það aldrei orðið annað en breyting til góðs.


mbl.is Loksins, loksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gera "villikettirnir"?

Bjarni Benediktsson, forðmaður Sjálfstæðisflokksins, boðar flutning vantrauststillögu á ríkisstjórnina og setur þar með mikla pressu á "órólegu deildina" innan VG, að ekki sé talað um þá þingmenn VG sem þegar hafa yfirgefið þingflokkinn.

Afar fróðlegt verður einnig að sjá hvernig Siv Friðleifsdóttir mun greiða tillögunni atkvæði, en hún hefur marg lýst áhuga sínum á að ganga inn í ríkisstjórnina, henni til styrktar.  Guðmundur Steingrímsson, einkavinur varaformanns Samfylkingarinnar, hefur ekki verið harður í stjórnarandstöðunni og gaman verður að sjá hvort samúð hans vinarþel til Samfylkingarinnar leiði til hjásetu við þessa vantrauststillögu.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um þrælalögin snerist ekkert um ríkisstjórnina sem slíka, en meðferð hennar á því máli er að sjálfsögðu algert hneyksli og eftir afgreiðslu þjóðarinnar á vinnubrögðunum í því máli, myndi hvaða önnur ríkisstjórn en þessi, segja af sér umsvifalaust.  Burtséð frá Icesavemálinu ætti stjórnin að vera löngu farin frá, enda hefur ríkisstjórnin nánast eingöngu verið til stórskaða fyrir efnahag landsins, enda barist hart gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu og með gerðum sínum dýpkað kreppuna og lengt og með skattahækkanabrjálæði sínu sett bæði heimili og atvinnulíf í þumalskrúfu.

Vonandi verður vantrauststillagan samþykkt í þinginu, boðað verði til kosninga strax og ný ríkisstjórn mynduð af flokkum sem treysta sér og geta leyst úr þeim vandamálum sem að steðja í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Tillaga um vantraust lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur ríkisstjórnin aldrei mark á landslögum?

Steingrímur J. upplýsti á Alþingi í dag, að ríkissjóður hefði alls ekki haft efni á því að greiða út þá vexti til Breta og Hollendinga, sem greiða hefði átt núna í vikunni, hefði ríkisstjórnin fengið sínu framgengt og þjóðin samþykkt þrælasamninginn um Icesave.

Hortugur eins og venjulega, svaraði Steingrímur því til, að hugmyndin hefði verið að nota eignir Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta til að greiða vextina, eftir því sem þær hefðu hrokkið til og ríkissjóður svo greitt mismuninn.

Tryggingasjóðurinn hefði hins vegar alls ekki haft lagalega heimild til að greiða þessa vexti, enda á hann að borga lágmarkstryggingu hvers innlánsreiknings, eftir getu sinni og annað ekki. Því er í raun furðulegt að eignir sjóðsins skuli ekki nú þegar hafa verið greiddar upp í kröfu Breta og Hollendina og þannig grynnkað á höfuðstól skuldarinnar á meðan beðið er eftir uppgjöri á búi Landsbankans.

Lögin um tryggingasjóðinn taka af allan vafa um hvað má og skal greiða úr sjóðnum, en vextir eru ekki þar á meðal, samkv. eftirfarandi grein laganna um sjóðinn:

10. gr.

Fjárhæð til greiðslu.

Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum. Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.

Það verður að teljast með ólíkindum, hve frjálslega ráðherrar telja sig geta farið eftir lögum landsins og halda að auki að þeir geti ráðstafað eignum sjálfstæðra stofnana eftir sínu höfði, burtséð frá þeim lögum sem um þær gilda.

 

 


mbl.is Á ekki 26 milljarða inni á bankabók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekaðar árásir Íslands á varnarlaust Bretland

Bresku dagblöðin bregðast misjafnlega við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um þrælalögin, sum segja að Bretar eigi að skammast sín og önnur eru harðorð í garð Íslendinga fyrir að standa á rétti sínum.

Fyndnast er þó þetta, sem mbl.is tekur upp úr leiðarasíðu Daily Mirror:  "Þar segir, að nærri 40 ár séu liðin frá þorskastríðunum en Ísland hafi ekkert breyst. Þeir hafi þá farið og rænt fiskimiðum Breta á Norður-Atlantshafi, siglt á breska togara og skorið ítrekað á net þeirra.

Nú eru þeir með sama yfirganginn í garð Breta vegna peninga, sem töpuðust þegar bankakerfið þeirra hrundi og tvívegis neitað í þjóðaratkvæðagreiðslu að endurgreiða féð. Ráðherrarnir okkar verða að sýna samskonar staðfestu og leggja áherslu á, að við viljum fá peningana okkar til baka... með vöxtum."

Það á ekki af smáríkinu Bretlandi að ganga, að þurfa á nokkurra áratuga fresti að verjast árásum og yfirgangi annars eins risaveldis og Ísland er.

Daily Mirror vonast greinilega eftir samúð umheimsins með lítilmagnanum.


mbl.is Misjöfn viðbrögð breskra blaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vita Hollendingar, sem við vitum ekki?

Sylvester Eijffinger, prófessor í hagfræði við Tilburg-háskóla og einn ráðgjafa Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni, segir að eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna muni Íslendingar ekki með nokkru móti fá inngöngu í ESB og ef það er rétt, þá verður slík niðurstaða að teljast mikill bónus til viðbótar öðrum ávinningi þjóðarinnar af höfnun þrælasamningsins.

Annað er þó enn athyglisverðara við það sem maðurinn sagði, en í fréttinni kemur m.a. eftirfarandi fram hjá þessum ágæta manni: "Spurður um það sjónarmið að þrotabú Landsbankans eigi að duga til að bæta Hollendingum og Bretum tjón vegna tapaðra innistæðna á Icesave-reikningnum svarar Eijffinger að þeir hinir sömu lifi í „blekkingu“".

Áður hefur komið fram, að Bretar og Hollengingar hafi hafnar 47 milljarða króna eingreiðslu, sem boðin var til að ljúka Icesavemálinu í eitt skipti fyrir öll, en þeir hafi hafnað slíkum málalokum vegna þess að með því væru ÞEIR að taka allt of mikla áhættu, enda reiknuðu þeir með miklu hærri upphæð frá ríkissjóði, bæði vegna höfuðstóls og ekki síður vegna vaxta á næstu árum og jafnvel áratugum.

Skilanefnd landsbankans hefur haldið því fram, að innheimtuhlutföll útistandandi krafna búsins fari síbatnandi og allar líkur séu til að nægilega góðar heimtur verði til að greiða forgangskröfur Breta og Hollendinga algerlega að fullu.

Hvað vita Bretar og Hollendingar um innheimturnar, sem við fáum ekki að vita?

Í hvaða "blekkingum" lifir skilanefnd Landsbankans? 

 


mbl.is Hóta að standa í vegi aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur byrjaður að draga úr dómsdagsspánum

Ein helsta röksemd Steingríms J., ríkisstjórnarinnar og annarra talsmanna samþykktar þrælalaganna var sú, að stór hætta væri á því að Moody's myndi lækka lánshæfismat Íslands og þar með yrði nánast lokað fyrir aðgang ríkisins að erlendum fjármálamörkuðum.

Nú, á fyrsta degi eftir kosningar, þar sem þjóðin hafnaði með afgerandi hætti að selja sig í skattaáþján vegna brota óheiðarlegra fjármógúla, dregur Steingrímur J. í land með fyrri fullyrðingar en staðfestir það sem NEIsinnar héldu fram allan tímann, þ.e. að Moody's og lánshæfiseinkunnir þess hefðu ekki mikil áhrif á næstunni.

Samkvæmt fréttinni sagði Steingrímur t.d. þetta, á blaðamannafundi í morgun: "Íslenska ríkið mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að greiða skuldir sínar. Gjaldeyrisforðinn nægir fullkomlega fyrir afborgunum á næstu árum."

Það er auðvitað hárrétt afstaða hjá Steingrími J., að hætta nú bölmóðinum og hrakspánum um framtíðina og fara að segja þjóðinni sannleikann um þau baráttutæki sem þjóðin hefur yfir að ráða í glímunni við endurreisn efnahagslífsins, byrja að tala kjark í þjóðina og máli hennar gagnvart innlendum og erlendum yfirgangsöflum.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er að baki og þar með ætti að leggja til hliðar allar umræður um Icesave, enda mun það mál einfaldlega hafa sinn eðlilega gang, hvort sem það fer fyrir dómstóla eða ekki og Bretar og Hollendingar munu fá nánast allt sitt úr búi Landsbankans vegna Neyðarlanganna. 

Framtíð lands og þjóðar er björt, en það mun þurfa að hafa fyrir hlutunum, eins og jafnan áður. 


mbl.is Ísland getur greitt skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð niðurstaða kosninga

Ástæða er til að óska þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um þrælalögin sem felld voru með afgerandi hætti, svo afgerandi, að varla mun verða reynt frekar að troða þeim ofan í kok landsmanna með ógnunum og ofbeldi af hálfu Breta, Hollendinga, ESB og íslensku ríkisstjórnarinnar.

Afstaða kjósenda var eindregin gegn lögunum í öllum kjördæmum, nema Reykjavík suður og verða það að teljast ein af merkum niðurstöðum kosningannna, að þær sýna að hugsunarháttur manna breytist nokkuð, því nær sem dregur 101 Reykjavík.

Eftir þessa niðurstöðu mun þjóðin vonandi leggja niður allar deilur um þetta mál og snúa sér óskipt og sameinuð að uppbyggingu og endurreisn atvinnulífsins og taka á þeim erfiðleikum sem þessari niðurstöðu fylgir, ef þeir þá einhverjir verða. Viðbrögð forystumanna ríkisstjórnarinnar í sjónvarpssal við úrslitunum gefa þó ekki góðar vonir um baráttuvilja og - þrek ráðherranna.

Þessi úrslit kosninganna munu án vafa vekja heimsathygli og almenningur í öðrum löndum mun taka þeim sem hvatningu til aðgerða gegn hvers kyns tilraunum til að velta skuldum glæpsamlega rekins fjármálakerfis yfir á skattgreiðendur. Vonadi breytir þetta einnig því hugarfari ráðamanna, að sjálfsagt sé að gera skattgreiðendur að vinnu- og afplánunardýrum fyrir glæpagengi.

Risinn er nýr dagur, með nýjum áskorunum og markmiðum.


mbl.is Yfir 58% hafna Icesave-lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæði - Þorskastríð - Icesave

Árið 1944 var samstaða þjóðarinnar um að lýsa yfir sjálfstæði Íslands alger og allir Íslendingar tilbúnir til að takast á við að berjast fyrir lýðveldið Ísland, þrátt fyrir fyrirséða erfiðleika, fátækt og basl, sem því yrði samfara til að byrja með. Sjálfstæðinu var lýst yfir í óþökk Dana, sem áður voru herrar landsins og tók þá nokkra áratugi að fyrirgefa "svik" Íslendinga.

Eftir miðja síðustu öld færðu Íslendingar út landhelgina í nokkrum skrefum, fyrst úr fjórum mílum í fimmtíu og síðar úr fimmtíu í tvöhundruð mílna fiskveiðilögsögu. Í bæði skiptin var það gert í algerri óþökk annarra þjóða, t.d. Þjóðverja, Hollendinga, Belga, Breta o.fl. Í bæði skiptin sendu Bretar flota sinn á Íslandsmið til verndar togurum sínum og við lá að þeir stórslösuðu og jafnvel dræpu íslenska varðskipsmenn í tilraunum sínum við að sökkva skipunum undan þeim, en svo er forsjóninni fyrir að þakka að það tóks ekki, en skipin voru hins vegar stórlöskuð eftir þau átök.

Í Þorskastríðunum stóðu Íslendingar þétt saman gegn yfirgangi og ofbeldi Breta og tóku á sig ýmsa efnahagslega erfiðleika sem fylgdu þessari réttindabaráttu. Bretar, sem áður voru helsti innflytjandi fisks frá Íslandi, settu löndunarbann á Íslensk fiskiskip og settu þar með gríðarlega efnahagslega pressu á afkomu Íslendinga, sem þó létu ekki kúga sig til uppgjafar og þrátt fyrir mun lægra útflutningsverð fundust aðrir markaðir fyrir fiskinn og þá aðallega í vöruskiptum við Sovétríkin sálugu.

Í dag gefst Íslendingum enn á ný tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, þegar þeir standa frammi fyrir þvingunum og hótunum um efnahagslegar refsiaðgerðir, verði þeir ekki við ólöglegum kröfum erlendra kúgunarþjóða, þar sem Bretar eru í broddi fylkingar eins og áður og hafa meðal annars beitt hryðjuverkalögum í þeim tilgangi að koma íslensku efnahagslífi endanlega á kné.

Í kosningunum í dag velur þjóðin um að sýna stolt sitt, sjálfstæði og baráttuvilja fyrir réttindum sínum með því að seja NEI við að selja sig í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu ára- eða áratuga vegna skulda óreiðumanna, sem skattgreiðendur bera enga ábyrgð á. Kjósendur hafa einnig þann valkost að segja JÁ í þessari atkvæðagreiðslu, en með því er umheiminum sýnt fram á að sá baráttuandi sem áður einkenndi þessa þjóð er henni horfinn úr brjósti og ný kynslóð sé ekki tilbúinn til að leggja á sig nokkurt erfiði þjóð sinni og landi til varnar á örlagastundu.

Valið í dag stendur á milli þess að sýna umheiminum að hér búi ennþá sjálfstæð og stolt þjóð, sem ekki lætur troða á rétti sínum, eða baráttusnauðar undirlægjur sem öllu eru tilbúnar að fórna vegna ótta við einhverja erfiðleika sem þjónkunarsinnar erlendra kúgara hóta að beita þá, gangi þeir ekki skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfunum.

Þessu verður best svarað með því að merkja við NEI á kjörseðlinum.


mbl.is Stefnir í mikla kosningaþátttöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar sýni ábyrgð og fyrirmynd

Ef ríkisábyrgð á ólöglegar kröfur vegna glæpsamlegs reksturs Landsbankans verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun mun verða skrifaður stór og áhrifamikill kafli í Íslandssöguna.

Þá munu Íslendingar sýna umheiminum að þeir láta ekki fjárkúgara ógna sér til að selja sjálfa sig og börn sín í skattaþrælkun vegna tilbúinna krafna, sem koma rekstri ríkisins og velferðarkerfi þjóðarinnar ekkert við.Íslenskur almenningur lét bankagengin blekkja sig með fagurgala til að taka erlend lán, með "afar hagstæðum kjörum" til íbúða- bíla- og neyslukaupa allskonar og eru enn að glíma við afleiðingar þeirra mistaka.

Sá sami almenningur mun varla fara að samþykkja að taka á sig ábyrgð á nýjum erlendum kröfum, sem honum kemur ekki á nokkurn hátt við, með áhættu upp á mörg hundruð milljarða og jafnvel þó ekkert af höfuðstólnum félli á skattgreiðendur, þá yrðu þeir a.m.k. látnir greiða tugi milljarða í vexti af gegnistryggðum höfuðstól, sem þeir skulda ekki.

Almenningur í öðrum löndum lítur til Íslands í þeirri von að héðan komi fordæmi fyrir aðra í baráttunni gegn þeirri einkennilegu áráttu stjórnmálamanna að taka þátt í því að skella mistökum og glæpum fjármálageirans í veröldinni á skattgreiðendur og líta á þá eins og hver önnur vinnu- og afplánunardýr fyrir glæpagengi.

Að endingu skal tekið heilshugar undir þessi orð Evu Joly: „Augu heimsins hvíla nú á íslensku þjóðinni, sem hefur hingað til hafnað öllum Icesave-kröfum; kröfum um að ganga í skilyrðislausar ábyrgðir fyrir fjármálageirann. Það er mín von að þessi jákvæði baráttuandi muni hafa yfirhöndina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.“


mbl.is Augu umheimsins á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband