Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Það verður aldrei nein sátt um lánamálin

Eftir að dómur Hæstaréttar féll um ólögmæti gengistryggingar á lán með höfuðstól í íslenskum krónum, eru ýmsir að kalla eftir einhvers konar "þjóðarsátt" um einhverja nýja leið til endurgreiðslu á lánum af hinum ýmsu og margvíslegustu lánaformum.  Hins vegar er ekki nokkurt einasta útlit fyrir því, að nokkur sátt náist um nokkurn hlut í þessum efnum, því sjónarmiðin eru svo ólík og mikill hiti í umræðunni.

Fjármálastofnanir hafa látið út ganga, að ekki sé grundvöllur til að láta 2-3% vexti gilda á "gengislánunum" eftir að þau breytast í óverðtryggð lán og ekki einn einasti skuldari slíkra lána, hefur svo mikið sem gefið í skyn, að hann væri tilbúinn til að taka á sig hærri vexti, en skráð er í upphaflega lánasamninginn, þó allir viti að slík vaxtakjör á óverðtryggð lán eru algjörlega galin.

Einnig hafa heyrst kröfur um að húsnæðislán með erlendum höfuðstól verði meðhöndluð á sama hátt og "gengislánin", en engin lánastofnun hefur tekið slíkt í mál, enda gildi allt önnur lög um þannig lán og enginn vafi sé á, að þau myndu standast fyrir dómstólum.

Þá eru farnar að heyrast kröfur um að þeir sem tóku verðtryggð bílalán, fái verðtrygginguna fellda niður, eins og gengistrygginguna og þeirra lánum verði einnig breytt í óverðtryggð lán á lágum vöxtum.

Allir skuldarar landsins eru þó sammála um eitt og það er að fjandans lánafyrirtækin eigi ekkert betra skilið, en taka á sig stórtap vegna allra þessara lána og grétu það ekki þó þau færu öll lóðbeint á hausinn.

Hvernig eigi að sætta þessi sjónarmið, er a.m.k. ennþá hulin ráðgáta og miklu líklegra er, að allt logi í málaferlum, bótakröfum og kærum næstu mánuði og ár.


mbl.is Skapi þjóðarsátt um lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungur dómur yfir forysturíkjum ESB

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri ESB, fellir þungan dóm yfir lélegri efnahagsstjórn forysturíkja ESB, Þýskalands og Frakklands, með því að segja að efnahagsvandræði evrusvæðisins skrifuðust fyrst og fremst á þeirra reikning.

Þetta rökstyður seðlabankastjórinn með því að þær hafi stuðlað að skuldavanda svæðisins með arfaslakri efnahagsstefnu og lítið gert með stöðugleikasáttmála svæðisins, sem kveður á um að fjárlagahalli megi ekki vera meiri en sem nemur 3% af landsframleiðslu.  Þessi harði dómur kemur nokkuð á óvart, þar sem álitið hefur verið að Þjóðverjar a.m.k., séu aðhaldssamir í fjármálum.

Ekki fá stjórnendur banka í Evrópu skárri umsögn frá Jear-Claude Trichet, því hann gagnrýnir háar bónusgreiðslur harðlega og segið öruggt að evrópskir bankar hefðu allir hrunið eins og spilaborg, ef þeim hefði ekki verið komið til bjargar.

Þar með er það staðfest, að bankahrun er ekki séríslenskt fyrirbrigði, þar sem allt bankakerfi Evrópu hrundi í raun, þó því hafi verið bjargað fyrir horn með gífurlegum fjárframlögum frá skattgreiðendum ESBlandanna.

Munurinn virðist aðallega vera sá, að íslensku bankarnir voru reknir á glæpsamlegan hátt og stjórnendur þeirra og eigendur eru til meðferðar hjá glæparannsóknurum um alla Evrópu, en engin slíkrannsókn hefur farið fram vegna bankanna í ESB.


mbl.is Vandræði evrunnar sök Þjóðverja og Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru erlendu höfuðstólarnir löglegir?

Hæstiréttur hefur kveðið upp þann dóm, að lán, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í íslenskum krónum, sé ekki heimilt að verðtryggja með viðmiðun við dagsgengi erlendra gjaldmiðla og hlýtur sá dómur að vera fordæmisgefandi fyrir allar lánveitingar með þeim hætti, hvort sem lánað var til bílakaupa, eða fasteignakaupa.

Mörg mál vegna gengistryggða húsnæðislána munu bíða þess, að verða tekin fyrir í dómskerfinu, en ætla hefði mátt, að slíkt væri algerlega óþarft, eftir Hæstaréttardóminn.  Ef til vill er nauðsynlegt að fá einn dóm um slíka tegund fasteignalána, til þess að eyða allri óvissu um, að sama gildi um þau og bílalánin.

Álitið hefur verið, að lán þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum séu fullkomlega lögleg, enda hafa þau viðgengist hér á landi áratugum saman, ekki síst í atvinnurekstri og kannski lengst hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum.  Farið er að bera á þeim röksemdum, að þeir sem hafi tekið slík erlend lán til húsnæðiskaupa hafi aldrei móttekið erlendan gjaldeyri, heldur aðeins íslenskar krónur og því geti þessi lán ekki heldur talist vera erlend lán, heldur einungis önnur gerð af lánum í íslenskum krónum með gengisviðmiði.

Til þess að eyða öllum vafa og komast hjá endalausu þrasi og ósamkomulagi um þessi lán, væri bráðnauðsynlegt, að mál þeirra vegna færi fyrir dómstóla og Hæstiréttur myndi svo endanlega skera úr um, hvort þau séu lögleg eða ekki.  Í slíku máli yrði einnig að taka fyrir hvort "venjuleg" verðtrygging ætti þá að koma í staðinn, verði lánin ekki talin standast lög, sem og um vaxtaþáttinn.

Fyrr en þessir þættir hafa farið fyrir Hæstarétt, verður engin sátt í þjóðfélaginu vegna þessara lána, enda töldu margir, ranglega, að dómurinn um gengistrygginguna næði einnig til erlendu lánanna.


mbl.is Mál vegna gengistryggðra húsnæðislána bíða fyrirtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gengislánin" voru verðtryggð lán

Mikil óvissa ríkir um uppgjör "gengislánanna" svokölluðu eftir úrskurð Hæstaréttar um að verðtrygging lána í íslenskum krónum með viðmiði við dagsgengi erlendra gjaldmiðla væri ekki löglegt form verðtryggingar, þar sem lögin gerðu einungis ráð fyrir verðtryggingu, sem miðaðist við neysluverðsvísitölu, útreiknaða af Hagstofu Íslands.

Engin varakrafa var gerð fyrir dómi, um að dæmdist gengistryggingin ólögmæt, þá reiknaðist lögleg verðtrygging í staðinn og því tóku hvorki Héraðsdómur né Hæstiréttur afstöðu til þess, enda dæma dómstólar einungis á grundvelli þeirra krafna, sem fyrir þá eru lagðar.

Í tilfelli "gengislánanna" voru bæði lánveitandi og lántaki sammála um að lánin skyldu vera verðtryggð, með lágum vöxtum, og því vaknar sú spurning hvort ekki liggi beint við að álykta, að hefði varakrafan um venjulega verðtryggingu verið lögð fyrir dómstólana, hefði hún verið samþykkt, enda vilji beggja aðila í upphafi til að verðtryggja höfuðstól lánanna.

Allt er í óvissu ennþá um hvernig þessi lán verða gerð upp, en líklegast virðist vera, að þau verði meðhöndluð sem óverðtryggð lán, með vöxtum Seðlabankans á slíkum lánum á hverjum tíma.  Hér á blogginu a.m.k. virðist sú skoðun ríkja hjá flestum skuldurum þessara lána, að upphaflegu lágu vextirnir, sem miðaðir voru við gengistrygginguna, verði látnir standa og höfuðstóllinn vera óverðtryggður.  Verði það niðurstaðan, verður um að ræða einhverja stærstu gjöf til einstaklinga, sem sögur fara af frá upphafi landnáms og spurning hvort sú gjöf yrði ekki að lokum hálfgerð hefndargjöf, því aðrir lántakendur yrðu látnir greiða fyrir hana, óviljugir, með hærri vöxum á öðrum lánum.

Greinilegt er að a.m.k. margir skuldarar lánanna eru í miklum hefndarhug gagnvart lánastofnunum og ekki allir tilbúnir til sanngjarnar sáttar um uppgjör.


mbl.is Ríkið gæti orðið bótaskylt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur viðurkennir getuleysi ríkisstjórnarinnar

Í viðtali við Fréttablaðið viðurkennir Össur Skarphéðinsson að ríkisstjórnin sé í raun sprungin og ráði ekki við þau vandamál, sem við er að fást í þjóðfélaginu.  Það var kominn tími til, að ráðherrarnir viðurkenndu þetta, því ástandið er orðið svo skelfilegt í atvinnu- og efnahagsmálunum, að hver dagur sem þjóðin situr uppi með þessa óhæfu ríkisstjórn er of dýr, til að unað verði við það lengur.

Hver höndin er upp á móti annarri innan ríkisstjórnarinnar og ekki síður innan flokkanna og á milli þeirra og engar ýkjur að segja að allt logi þar stafnanna á milli.  Nú er fjárlagavinnan fyrir næsta ár komin í fullan gang og löngu fyrirséð, að stjórnarflokkarnir myndu aldrei ná neinni samstöðu um þær aðgerðir sem grípa þarf til vegna niðurskurðar og sparnaðar í opinbera kerfinu.  Óánægja VG eykst dag frá degi með algert getuleysi Jóhönnu Sigurðardóttur á stóli forsætisráðherra og ekki bætti úr skák tillaga hennar um að koma Jóni Bjarnasynir út úr ríkisstjórninni bakdyramengin.

Það er nánast sama í hvaða máli það er, samstaða stjórnarflokkanna er engin orðin og í stað þess að viðurkenna staðreyndir og boða til kosninga, er reynt að halda feluleiknum áfram, en farið að ræða um að kippa stjórnarandstöðunni inn í ríkisstjórnina til að bjarga málunum.

Haft er eftir Össuri:  „Ég er þingræðissinni og vil efla veg þingsins. Ég er æ meira að verða þeirrar skoðunar að mál eigi að leiða til lykta í samráði stjórnar og stjórnarandstöðu."

Hugmyndir Hönnu Birnu laða greinilega að sér æ fleiri fylgismenn.


mbl.is Össur hlynntur þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngjörn niðurstaða vegna "gengislánanna"

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, telur líklegt að vextir seðlabankans vegna óverðtryggðra lána verði látnir gilda við uppreikning á lánum með gengistryggingu, sem Hæstiréttur hefur nú dæmt ólöglega.

Þetta verður að teljast eðlileg og sanngjörn niðurstaða, þar sem engum dettur í hug, að óverðtryggð lán geti verið með 2-3% vöxtum í þeirri verðbólgu, sem plagað hefur þjóðfélagið undanfanin ár.  Ástæða er til að óska þeim lántakendum, sem þetta nær til, til hamingju með þá miklu lækkun höfuðstóls lánanna, sem þetta hefur í för með sér.

Þessi lækkun höfuðstóls "gengislánanna" og afborgana af þeim mun hafa mikil og góð áhrif á efnahagslífið, þar sem þeir sem hafa verið í spennitryju þessara lána undanfarin ár, geta nú farið að veita sér eitthvað annað en stanslaust strit fyrir afborgunum þessara lána.

Væntanlega er þetta upphaf blómlegri verslunar á næstunni, að ekki sé minnst á þann kipp, sem hlýtur að koma í viðskipti með notaða bíla.


mbl.is Líklegt að vextir Seðlabanka gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfit lögfræðistétt landsins og þeim "forsjálu" í fjármálum

 

 Steingrímur J. Sigfússon, segir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána vera mikinn áfellisdóm fyrir íslenska fjármálakerfið og má það til sanns vegar færa.  Þetta er ekki síður mikill áfellisdómur yfir allri lögfræði í landinu, sem aldrei hefur gert athugasemd við þetta lánaform, fyrr en eftir Hæstaréttardóminn. 

Nú koma fram á sjónarsviðið allir lögfræðingar og fræðimenn, sem vettlingi geta valdið og segja, að algerlega sé ljóst, að það hafi verið skýlaus vilji löggjafans, að ekki mætti tengja lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra mynta, þó ekki hafi tekist að orða það nógu skýrt í lagatextanum sjálfum.  Skuldarar lánanna gerðu heldur enga athugasemd við þau á meðan gengið var að styrkjast óeðlilega og fóru ekki að draga löglegt gildi þeirra í efa, fyrr en eftir gengishrun. 

Auðvitað vissu allir, sem tóku þessi lán, að þeir væru að skrifa undir verðtryggðan höfuðstól, þó enginn ætti von á því að gengið hryndi eins mikið og raun varð og engum datt í hug á þessum tíma að gengistryggingin væri ólögleg.  Allir lögfræðingar landsins virðast hafa brugðist gjörsamlega í málinu, þeir sem starfa hjá lánastofnunum og sömdu skilmálana, lögmenn Fjármálaeftirlitsins, sem annað hvort heimiluðu þessi lán, eða gerðu a.m.k. ekki athugasemdir við þau, lögmenn sýslumannsembætta, sem samþykkt hafa vörslusviptingu og jafnvel úrskurðað fólk gjaldþrota á grundvelli vanskila á þessum lánum.  Síðast en ekki síst er þetta áfellisdómur yfir lögfræðiprófessorum og öðrum lagakennurum háskólanna, en aldrei hefur heyrst frá þeim efasemdarrödd um lögmæti þessarar gerðar útlána og eignaleigusamninga.

Þannig að ef ekki kemur lögleg verðtrygging í stað ólöglegrar gengistryggingarinnar munu væntanlega margir þurfa að þola málshöfðun vegna afglapa í starfi og verða jafnvel krafðir skaðabóta vegna tjóns, sem fólk hefur orðið fyrir vegna þessa. 

Allir vita, að lán hefðu aldrei verið veitt með þessum vaxtakjörum, nema vegna verðtryggingarinnar og þess vegna hlýtur sú spurning að vakna, hvort þau gildi, verði niðurstaðan sú að höfuðstóll lánanna skuli talinn vera óverðtryggt lán.  Ýmsir lagaspekinganna, sem ekkert höfðu um þessi lán að segja fyrir Hæstaréttardóminn, túlka hann nú sem svo að þetta séu bara óverðtryggð lán með lágum vöxtum, þ.e. að segja nánast gjöf, en ekki lán.

Standi þetta þannig að þeir sem tóku glannalegustu lán sem fyrirfundust á markaðinum, standi uppi með hagstæðustu lán, sem sögur fara af á vesturlöndum, þá mega þeir fara að naga sig í handarbökin, sem forðuðust þessi lán eins og heitan eldinn og völdu að taka verðtryggð lán í íslenskum krónum.  Þeir munu þá tapa á "forsjálni" sinni en glannarnir græða vel. 

Þá er þessi niðurstaða á við góðan lottóvinning fyrir þá sem óvarlega fóru í fjármálum, en að sama skapi áfellisdómur yfir hinum "forsjálu" í fjármálum.


mbl.is Meiriháttar áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr verðlaunar framkvæmdastjóra hjá Lýsingu

Lýsing hf. er eitt af fjármögnunarfyrirtækjunum sem hefur verið í fararbroddi þeirra fyrirtækja, sem útdeilt hefur ólöglegum gengisbundnum lánum til bíla- og vélakaupenda og hefur verið fyrirtækja harðast í innheimtuaðgerðum slíkra lána, hafi þau lent í vanskilum.

Nú grætur Halldór Jörgensen, forstjóri Lýsingar, yfir því hvað dómur Hæstaréttar komi sér illa fyrir fyrirtækið og aðspurður um hvort fyrirtækið sé í stakk búið, til að standa af sér miklar afskriftir vegna dómsins, segir hann:  "Já, ég tel það. Ég tel að það sé leið út úr þessu en það er annarra að taka þá ákvörðun.

Þarna hlýtur Halldór að eiga við ríkisstjórnina, eða Alþingi, en að sjálfsögðu hlýtur það að vera í verkahring hans sjálfs og annarra þeirra, sem ábyrgð bera á veitingu ólöglegu lánanna, að klóra sig sjálfir út úr málunum.

Hitt er svo afar merkilegt, að Jón Gnarr hefur séð ástæðu til að verðlauna einn af framkvæmdastjórum Lýsingar, Harald Flosa Tryggvason, sérstaklega með því að skipa hann í eitt af feitustu embættum borgarkerfisins, þ.e. að gera hann að stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, en í það embætti var hann skipaður strax og búið var að ráða kosningastjóra Besta flokksins sem aðstoðarmann og ræðuskrifara Jóns Gnarrs.

AMX vefurinn fjallaði um þessa skipun Haraldar í embættið fyrir nokkrum dögum  og sagði þar m.a:

"Haraldur var framkvæmdastjóri útgáfufélags Viðskiptablaðsins á þeim tíma sem Exista hélt á stjórnartaumum í félaginu og keyrði Haraldur félagið í rúmlega 110 milljón króna gjaldþrot. Starfsmenn blaðsins þurftu að sækja laun sín til ábyrgðasjóðs launa og verktakar sem unnið höfðu fyrir blaðið fengu aldrei laun sín greidd þrátt fyrir loforð Harladar þar um.

Haraldur var framkvæmdastjóri útgáfufélags Viðskiptablaðsins í umboði Exista og var Halldór Jörgensen stjórnarformaður og yfirmaður Haraldar. Þegar útgáfufélagið var tekið til gjaldþrotaskipta var Haraldi Flosa fengið starf hjá í öðru félagi Exista, Lýsingu hf., þar sem hann starfaði aftur undir Halldóri Jörgensen sem var forstjóri. Ekki vita smáfuglarnir hvert hlutverk Haraldar Flosa var hjá Lýsingu en ekki tók langan tíma fyrir Harald að fá sig lausan þaðan til að taka við stjórnataumum Orkuveitunnar."

Aðrar eins mannaráðningar og þetta hefðu valdið stórhneyksli, hefði einhver annar flokkur en Besti flokkurinn staðið svona að málum.

Nú eru breyttir tímar og Jóni Gnarr leyfist allt, sem öðrum leyfist ekki.


mbl.is Dómurinn kemur Lýsingu illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er réttlátt í kjölfar Hæstaréttardóms?

Mikið uppnám er í fjármálfyrirtækjum landsins eftir dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána í íslenskum krónum og hefur verið lítið um svefn hjá starfsmönnum þeirra, síðan dómurinn var kveðinn upp.  Svefnvana vita þeir ekki ennþá hvernig eigi að bregðast við og ef að líkum lætur, gerist heldur ekki neitt næstu daga a.m.k.

Talsmaður Lýsingar hefur látið hafa það eftir sér, að það sé annarra að taka ákvörðun um framhaldið og á þar væntanlega við stjórnvöld, en vandséð er hvað þau eigi að gera í stöðunni.  Ekki getur verið möguleiki að setja afturvirk lög um þetta frekar en annað, enda getur varla verið í verkahring ríkisstjórnar eða Alþingis að skipta sér af þessu máli.  Með því að reyna að skera lánafyritækin niður úr snörunni myndi ríkisstjórnin grafa sér svo djúpa gröf, að hún kæmist aldrei upp úr henni aftur, enda myndu látakendur bílalánanna moka yfir þá gröf, ef ekki strax, þá a.m.k. í þingkosningum, sem hugsanlega verða strax í haust.

Líklegustu viðbrögð lánafyrirtækjanna eru að skella verðbótum á lánin og láta svo stefna sér aftur, ef lánþegar sætta sig ekki við slíka niðurstöðu.  Í ýtarlegri fréttaskýringu um málið í Mogganum í dag segir m.a:  "Er hæpið að lánþegar hefðu á sínum tíma fengið lán á slíkum kostakjörum. Ekki er fjarri lagi að álykta að lánasamningarnir hefðu með réttum forsendum frá upphafi kveðið á um lögmæta verðtryggingu, tengingu við vísitölu neysluverðs, og eftir atvikum hærri vexti."

Allir vita, að enginn hefði fengið lán til bílakaupa, eða annars, án verðtryggingar eða óverðtryggt lán án hárra vaxta, en núna eftir dóm Hæstaréttar snúast viðbrögðin ekki um sanngirni eða réttlæti, heldur lítur fólk á niðurstöðu réttarins sem svo, að nú skuldi það bara óverðtryggðan höfuðstól með afar lágum vöxtum og því sé niðurstaðan rétt mátulega hefnd gegn óbilgjörnum, ósanngjörnum og harkalegum innheimtufyrirtækjum.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og réttlátt og því er nánast öruggt, að ekki sé búið að segja síðustu orðin vegna gengistryggðu lánanna.


mbl.is Lausir endar þrátt fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging á morgun í stað gengistrygginar?

Andrés Magnússon, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir í viðtali við mbl.is að eftir dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána, ríki mikil óvissa um framhaldið, enda hafi rétturinn ekki tekið á efnisatriði málsins, heldur einungis formsatriði, þ.e. einungis þessa ákveðnu tegund verðtryggingar.

Einnig segir Andrés að stjórnvöld verði að grípa inn í og "höggva á hnútinn" í samstarfi við lánastofnanirnar og leggja línu um framhaldið.  Ekki verður séð hvernig stjórnvöld eiga að leggja einhverjar línur um þetta, því ekki geta þau sett lög sem virka aftur í tímann og eitthvað sem ráðherra myndi segja eða gera í málinu, hefði varla meiri þýðingu en það sem hvaða Jón Jónsson sem væri, myndi segja og gera.

Andrés telur engan tíma vera til að bíða nýs dómsmáls, en segir samt:  "Það eru engir aðrir en stjórnvöld í samvinnu við fjármálastofnanir sem geta komist að einhverri niðurstöðu um það hvaða viðmið eigi að viðhafa. Væru menn ekki sáttir við það mætti sjá fyrir sér að slíkt mál endi líka fyrir dómi.“

Kannski að þetta verði lausnin, sem fjármálafyrirtækin detti niður á og tilkynni á morgun að öll lán, sem áður voru gengistryggð, verði uppreiknuð frá útgáfudegi með neysluverðsvísitölu og vöxtum í samræmi við það og þeir, sem ekki sætti sig við það, verði bara að fara í mál og kæra aftur.

Víst er að lánastofnanirnar munu ekki reikna lánin upp, miðað við óverðtryggðan höfuðstól og þá lágu vexti, sem á lánunum voru miðað við gengistrygginguna.  Þau munu beita öllum ráðum til þess að ná sínu til baka, sem þau gera auðvitað ekki með óbreyttum vaxtakjörum á óverðtryggð lán.

Dómar Hæstaréttar frá í gær voru ekki endir á neinu ferli.

Þeir voru upphaf að mörgum, löngum og ströngum málaferlum. 


mbl.is Sleppa ekki frá skuldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband