Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Ráðdeildarmaður

Ef satt reynist, að Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, haldi fyrirtækinu, einkum vegna þess, að hann hafi getað farið undir koddann og talið þaðan fram nokkra milljarða króna, jafnvel tugmilljarða, sem hann gat lagt fram, sem nýtt hlutafé, þá er ekki hægt annað, en dást að slíkum ráðdeildarmanni, sem hefur tekist, þrátt fyrir erfiða tíma, að hafa svolítinn tekjuafgang til að leggja fyrir.

Eins og allir vita, vilja bankarnir enda helst starfa með mönnum sem eru "trausts verðir" og hverjum er betur treystandi en vammlausum ráðdeildarmönnum.  Sennilega eru þessir aurar afrakstur góðrar vinnu á útrásartímanum, t.d. vegna ýmissa smágreiða, sem hann var allur af vilja gerður að gera vinum sínum, t.d. Al-Thani,  arabahöfðingja, og öðrum góðkunningjum lögreglunnar.

Einn og einn milljarður hefur sjálfsagt bæst í sparibaukinn vegna arðgreiðslna, sem til hafa fallið úr rekstri ýmissa fyrirtækja, sem efni höfðu á ríflegum arðgreiðslum, áður en þau fóru á hausinn, illu heilli.

Það eru einmitt svona menn, sem þjóðin  þarfnast á erfiðum tímum.  Næsta mál á dagskrá, til að koma fótunum aftur undir menn, sem "njóta fyllsta trausts", er að fella niður nokkra tugi milljarða króna af fyrirtækinu 1998 ehf., svo hægt verði að koma Högum í öruggar hendur Baugsfeðga.

Þetta eru brýnustu verkefnin og svo verða önnur afgreidd, eftir því sem tími vinnst til.

Smámunir úr fortíðinni mega ekki flækjast fyrir nauðsynlegri uppbyggingu til framtíðar.


mbl.is Ólafur heldur Samskipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast menn að

Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun að hann myndi lækka stýrivexti úr 10% í 9,5% og þóttist vera að gera góða hluti.  Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti á sama tíma, að hann ætlaði að halda sínum stýrivöxtum óbreyttum, eða á bilinu 0-0,25%.

Stýrivextir í Bandaríkjunum hafa verið óbreyttir í heilt ár og telur seðlabankinn þar í landi, að nú séu þeir að byrja að virka á atvinnulífið, þar sem nú hafi dregið úr uppsögnum á vinnumarkaði og útlit sé fyrir að neysla sé að byrja að aukast.  Vegna þessa telja seðlabankamenn vestanhafs sig sjá, að efnahagsbati fari að gera vart við sig.

Hérlendis er efnahagslífið gjörsamlega frosið og enginn í atvinnulífinu treystir sér til að taka lán á þeim kjörum, sem bjóðast, enda engin eftirspurn eftir lánsfé, enginn að fjárfesta í neinu og atvinnuleysi eykst, en minnkar ekki.  Neysla dregst stöðugt saman og með sama áframhaldi verður kreppan sífellt alvarlegri, fyrirtækjum fækkar, neysla minnkar enn og þannig mun vítahringurinn sífellt þrengjast um háls efnahagslífsins.

Hvers vegna íslenskir ráðamenn halda alltaf að önnur efnahagslögmál gildi hér á landi, en annars staðar, er hulin ráðgáta og enginn virðist læra af reynslunni, allra síst reynslu annarra þjóða.

Er ekki tímabært að fara að taka upp ný vinnubrögð, ekki hafa þau gömlu reynst svo vel?


mbl.is Óbreyttir stýrivextir í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki Húsdýragarðurinn?

Þegar síðast sást til Ísbjarnar hérlendis, var rokið til og fengið sérhannað búr frá Danmörku, því ætlunin var að flytja bangsann aftur "heim" með miklum tilkostnaði og umhverfisráðherrann flaug í skyndi vestur á firði, til þess að líta skepnuna augum.

Svo þegar kvikindið hreyfði sig eitthvað, urðu viðstattir svo hræddir, að það var skotið umsvifalaust og búrið auðvitað ekkert notað.  Danirnir munu ekki hafa haft áhuga á, að fá búrið til baka, enda lítið um ísbirni í Danmörku og því er búrið víst ennþá hér á landi og bíður eftir að verða notað.

Núna skreppur smá húnn í land fyrir austan og án nokkurs hiks, rjúka menn til og fella dýrið, hungrað og illa til reika, eftir langt ferðalag og enginn man eftir búrinu góða, sem átti að verða bjargvættur ísbjarna, sem rækju loppurnar í land í framtíðinni.

Væri nú ekki ráð, að útbúa aðstöðu í Húsdýragarðinum til þess að "hýsa" næsta og þarnæsta ísbjarnarhún, sem slæðist hér á land og halda þá þar, gestum og gangandi til ánægju og yndisauka.

Svona dýr eru í öllum alvöru dýragörðum og þeir tilbúnir til þess að greiða hátt verð fyrir gripina.

Það er eitthvað svo 2007, að fara svona með verðmæti.


mbl.is Búið að skjóta ísbjörninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hverju liggur tapreksturinn

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur sagt í fjölmiðlum, að kaup sjónvarpsins á erlendu dagskrárefni nemi um 300 milljónum króna á ári og því sé ekki hægt að spara neitt á þeim lið.  Tekjur RÚV á árinu 2010 eru áætlaðar rúmlega 3,2 milljarðar króna, þannig að erlenda efnið er innan við 10% af rekstrarkostnaðinum.

Því vaknar sú spurning í hvað hinir 2,9 milljarðarnir eigi að fara, fyrst fyrirtækið ætlar að skera niður það efni, sem vinsælast er í sjónvarpinu, svo sem fréttatengda þætti, seinni fréttir kvöldsins, íslenskar kvikmyndir og fræðslumyndir, beinar útsendingar frá ýmsum verðlaunaafhendingum, landsleikjum, ásamt fleiru íslensku efni, sem á að lenda undir hnífnum.

Þessu til viðbótar á að skera niður leikið efni í útvarpinu, ásamt því að hætta svæðisútvörpunum og fella niður ýmsa þætti, sem vinsælir hafa verið, en þó á ekkert að hrófla við Áróðurs - Speglinum.

Páll hlýtur að birta sundurliðaða kostnaðaráætlun fyrir útvarp og sjónvarp og sýna hlutfallslegan niðurskurð á hverjum lið fyrir sig, því reksturskostnaðurinn hlýtur að vekja furðu og áhuga allra, sem áhuga hafa á íslensku efni í ríkisreknum fjölmiðli.

Ætlar Páll líka að hætta útsendingum frá stórmótum, sem íslenska handboltalandsliðið tekur þátt í?


mbl.is Taprekstur RÚV tengist ekki þjónustusamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræddur, fyrir sína hönd og vina sinna

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, leggur mikla áherslu á, að allir sem nefndir eru á nafn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, eigi andmælarétt og sinni nefndin því ekki, teljist niðurstaða nefndarinnar ógild.

Sigurður G. sat í stjórn Glitnis við hrunið,  og er því orðinn hræddur um niðurstöðu nefndarinnar, varðandi sjálfan sig og Baugsliðið, sem var aðaleigandi bankans og raunar fjarstýrt af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eins og starfslokasamningur Bjarna Ármannssonar vitnar um, en hann var gerður milli Bjarna og Jóns Ásgeirs, en ekki stjórnar bankans, eins og eðlilegt hefði verið.

Því nær sem dregur útkomu skýrslunnar, því meiri taugaveiklunar gætir hjá ýmsum aðilum, bæði innan banka- og útrásarmafíunnar, stjórnmálamanna og ýmissa embættismanna.  Steingrímur J. ætlar að reyna að nota frestun skýrslunnar til þess að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave þrælalögin um óákveðinn tíma, því úrslit hennar hræðist hann meira en nokkuð annað.  Meira að segja heimsendirinn, sem hann hefur boðað, getur vel beðið í nokkrar vikur, ef mögulegt væri að nota skýrsluna til þess að snúa einhverjum, sem annars ætlar að greiða atkvæði gegn lögunum.

Auðvitað þarf ekki að fresta atkvæðagreiðslunni skýrslunnar vegna, því það liggur ljóst fyrir, um hvað á að kjósa og kemur skýrslunni ekkert við, né hvers vegna þjóðin ætti að taka á sig skattaánauð fyrir Breta og Hollendinga, án nokkurrar lagastoðar.

Ef stjórnvöld eru hrædd um að birting skýrslunnar trufli atkvæðagreiðsluna, þá á einfaldlega að fresta útkomu hennar fram í miðjan mars, ekki síst ef eitthvað skortir á andmælarétt Sigurðar G. og vina hans. 

Svo einfalt er það nú.


mbl.is Allir hafa andmælarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslitaleikur á morgun

"Strákarnir okkar" hafa staðið sig eins og hetjur á EM í handbolta og hafa sannarlega glött hjörtu Íslendinga, nú þegar lítið annað er til að gleðjast yfir, eins og ástandið er á flestum sviðum nú um stundir.

Leikirnir á morgun eru hreinir úrslitaleikir fyrir Ísland, Noreg, Danmörku og Króatíu, um sæti í undanúrslitum mótsins og því verður hart barist fram á lokasekúndur leikjanna.  Allt getur gerst í þessari æsispennandi keppni og úrslitin í hörkuspennandi leik Norðmanna og Dana sýna, að ekkert er öruggt, fyrr en búið er að flauta leikinn af og jafnvel ekki fyrr en nokkrum sekúndum síðar.

Vegna útkomunnar í þeim leik, munu Norðmenn koma gjörsamlega brjálaðir til leiks á móti Íslendingum, því þeir eiga möguleika á að komast í milliriðilinn, ef þeir vinna Ísland með fjórum mörkum, eða fleirum, en Íslendingum dugir jafntefli.

Á morgun, á meðan á leiknum stendur, mun varla sjást bíll á götum og atvinnulífið mun verða meira og minna lamað, svo mikil spenna hefur myndast fyrir leiknum.  Eftir því sem heyrist frá Noregi, er áhuginn fyrir leiknum lítið minni en hérlendis, þannig að vel verður fylgst með bardaganum í báðum löndum.

ÁFRAM ÍSLAND.


mbl.is Enginn meiðsli í herbúðum Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bretar að lenda í meiri vanda en Íslendingar?

AGS telur efnahagshorfur heimsins fara batnandi á næstu árum, en samt séu nokkur hætta á bakslagi, vegna ýmissa erfiðleika, sem bæði bankar og ríkissjóðir standi frammi fyrir, vegna gífurlegs skuldavanda.

Stórmerkileg er þessi klausa úr The Telegraph um skýrslu AGS:  "Fram kemur í frétt The Telegraph að sjóðurinn telji að mikil lánsfjárþörf stjórnvalda í ríkjum á borð við Bretland og Bandaríkin kunni að auka hættuna á að eitthvert fullvalda ríki lendi í skuldakreppu með tilheyrandi fárviðri á fjármálamörkuðum í kjölfarið. The Telegraph segir að breska ríkið sé nefnt sérstaklega í þessu samhengi og líklegt sé að fjárfesta skoði vandlega hversu sjálfbær skuldasöfnun þess sé um þessar mundir. Fram kemur að þrátt fyrir að bresk stjórnvöldum takist að fjármagna sig með eðlilegum hætti á skuldabréfamörkuðum muni það hafa takmarkandi áhrif á aðgengi einkageirans að lánsfjármagni þar sem að fjármagnskostnaður hans mun hækka og það muni hamla hagvexti."

Íslenska þjóðarbúið er yfirskuldsett og stórir gjalddagar lána ríkissjóðs eru á árunum 2011 og 2012 og gæti orðið erfitt, miðað við ástand fjármálamarkaða og annarra ríkissjóða, að endurfjármagna þau lán, þegar þar að kemur, nema á okurvöxtum.

Icesave skuldum Landsbankans er ekki bætandi á ríkissjóð við þessar aðstæður, enda ber ríkissjóði alls ekki að taka þær á sig.


mbl.is AGS sér hættur víða en segir horfurnar betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagt gjaldþrot

Nú er búið að ganga frá enn einu skipulögðu gjaldþroti Baugsfélags, en það er Landic Property, sem búið var að færa úr allar eignir, setja þær inn í nýtt félag, Reiti, og breyta Landic Property úr fasteignafélagi í eignarhaldsfélag.  Í eignarhaldsfélaginu voru, samkvæmt Baugsuppskriftinni, skildar eftir 120 milljarða króna skuldir og svo var félagið lýst gjaldþrota og skuldirnar þannig látnar lenda á erlendum lánadrottnum og líklega að hluta á íslenskum lífeyrissjóðum.

Samkvæmt þessari uppskrift, hlýtur næsti leikur að vera sá, að eftir afskriftir skuldanna verði Baugsfeðgum gert kleyft að eignast félagið aftur, enda "bestu rekstrarmenn landsins" eins og Jón Ásgeir sagði sjálfur í viðtali í Mogganum fyrir nokkrum dögum.

Það er ömurlegt að horfa upp á "endurskipulagt bankakerfi" starfa eftir nákvæmlega sömu formúlu og gömlu bankarnir gerðu, gagnvart útrásartöpururnum, en öll áhersla er á að þeir komist skaðlaust frá öllum sínum glæfraverkum, enda ekki nema einn þeirra verið lýstur gjaldþrota persónulega og flestir virðast njóta sérstakarar fyrigreiðslu og velvildar í nýju bönkunum.

Sú vlvild og gæði bankanna er vegna þess, að nýju bankarnir vilja eingöngu vinna með mönnum, "sem njóta fyllsta trausts" þeirra. 


mbl.is Landic Property gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólasteikin hefur farið vel í fólk

Svartsýnisvísitalan hefur lækkð lítillega í janúar og er það túlkað þannig að fólk almennt líti framtíðina bjartari augum en áður.  Þetta er greinilega oftúlkun, þó örfáar manneskjur hafi svarað á jákvæðari nótum en áður og liggur við að segja megi að munurinn sé innan skekkjumarka.

Þó jólasteikin hafi farið svona vel í nokkrar fjölskyldur, benda helstu niðurstöður ekki til þess, að margir líti bjartsýnum augum fram á veginn, miðað við þessa lýsingu:  "Rúmlega 78% svarenda telja að efnahagsástandið sé slæmt um þessar mundir og rúm 54% þeirra telur að atvinnumöguleikar séu litlir. Þá telja um 44% svarenda að efnahagsástandið verði verra eftir 6 mánuði og um 31% að atvinnumöguleikarnir verði minni eftir þann tíma. Einnig telja rúm 39% svarenda að heildartekjur þeirra muni lækka á næstu sex mánuðum."

Þetta bendir svo sem ekki til þess, að almenningur skríki beinlínis af ánægju með útlitið næstu mánuði, enda gera flestir sér grein fyrir því, að langur tími getur liðið, áður en það fer að birta til.

Ekki síst er það vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.


mbl.is Dregur úr svartsýni neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær kemur að Baugum og Bjöggum?

Húsleitir Sérstaks saksóknara virðast hingað til, mestmegnis hafa beinst að smærri löxunum, sem stukku um fjármálalífið á útrásarruglárunum, en í seinni tíð sýnist þó,  að farið sé að leggja út fyrir stærri og stærri fiskum, þannig að á endanum gæti embættið krækt í raunverulega stórlaxa.

Í dag stendur yfir húsleit hjá Bakkabræðrum, sem eru með þeim stærstu í útrásarlaxagöngunni, þannig að ætla má, að rannsóknir Sérstaks saksóknara séu komnar á það stig, að hringurinn sé farinn að þrengjast um þá stóru.

Þá hlýtur næsta rassía að snúa að Baugsveldinu og Bjöggunum, en því lengra sem líður frá hruni, hafa þessir aðilar betri möguleika til að reyna að fela slóðir sínar um skattaparadísir, en eins og kunnugt er liggur slóð fyrirtækja þeirra kringum hnöttinn og til baka aftur.

Alla slóðina verður örugglega hægt að rekja, áður en yfir lýkur, en það mun taka mun lengri tíma, en ella, eftir því sem þessir ævintýramenn fá að leika lausum hala lengur.

Útboð nýrrar fangelsisbyggingar hlýtur að fara að komast ofarlega á verkefnalista ríkisins.


mbl.is Leit tengd Exista og Bakkavör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband