Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Ríkisstjórnin þvinguð til aðgerða

Sá lánlausi ríkisvinnuflokkur, sem nú er að störfum í landinu, getur ekki komið sér saman um niðurskurð og sparnað í ríkisrekstrinum, frekar en nokkuð annað, t.d. Icesave, ESB o.fl.  Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að pína aðgerðir út úr fjármálajarðfræðingnum, til þess að mögulegt sé að ljúka kjarasamningum.

Í fréttinni er haft eftir forseta ASÍ:  "Gylfi sagði að allt hefði verið undir á fundinum. Menn hefðu rætt um gjaldeyrishöft og stefnu í vaxtamálum. Einnig hefði verið rætt um ríkisfjármál á árunum 2011 og 2012."  Ómögulegt hefur verið að fá fram fyrirhugaðar aðgerðir í ríkisfjármálum, öðruvísi en með þvingunum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda.

Ekki tekst ríkisvinnuflokknum að koma sér saman um aðgerðir, aðrar en niðurskurð verklegra framkvæmda, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Á fundinum var m.a. rætt um mikinn niðurskurð í verklegum framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur boðað, en í honum felst m.a. 3,5 milljarða niðurskurður til vegamála á þessu ári og 8,2 milljarða niðurskurður á næsta ári." 

Í stað þess að spara í rekstri, á að spara allar framkvæmdir, sem gætu skapað störf á almennum vinnumarkaði og þar með á ekki að gera neitt til þess að reyna að minnka atvinnuleysi hjá verkafólki og iðnaðarmönnum.

Í stað þess að ríkissjóður spari í rekstri, á að "þjóðnýta" lífeyrissjóðina til verklegra framkvæmda.

Verklegar framkvæmdir eru verkefni ríkissjóðs en ekki lífeyrissjóðanna.


mbl.is Halda áfram viðræðum í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóðasukkið endurvakið

Á árum áður, þegar vinstri stjórnir voru við völd í landinu, var lausn á öllum vandamálum, að búa til sérstakar stofnanir og sjóði, til að "fylgjast með" og millifæra fjármuni milli fyrirtækja og atvinnugreina.

Sjálfsagt eru allir búnir að gleyma, Bjargráðasjóði, Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, Iðnlánasjóði, Stofnfjársjóði landbúnaðarins, Stofnsjóði verslunarinnar, Byggðastofnun (sem enn er við lýði og lánar til vonlausra fyrirtækja) o.s.frv., o.sfrv.  Þessum stofnunum öllum, þar sem fjöldi fólks vann, var ætlað að bjarga atvinnulífinu, sem alltaf var á hausnum, en manna á meðal var þessi starfsemi yfirleitt ekki kölluð annað en "sjóðasukk".

Nú á að endurvekja þessa drauga undir nýjum nöfnum:  Bankasýsla ríkisins, Eignaumsýslufélag ríkisins,  og áfram mun hugmyndaflug vinstri manna blómstra á þessu sviði.  Á sama tíma og talað er um niðurskurð í ríkisfjármálum, á nú að stofna ótal nýjar stofnanir, nefndir og ráð, til að fylgjast með  og aðstoða atvinnulífið.  Sagt er að í Bankasýslu ríkisins eigi að starfa 3-5 menn og stofnunin verði lögð niður eftir fimm ár.  Trúi því hver sem vill, að ríkisstofnun verði lögð niður, bara rétt sí svona, og að ekki verði komnir þangað 50 starfsmenn, eftir tvö ár, vegna "aukinna verkefna".

Þetta verða gósentímar fyrir ríkissósíalistana.

Hver skyldi verða ráðinn "sýslumaður" í þessari nýjustu sýslu landsins? 


mbl.is Stofna Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðugur niðurskurður í fjármálum heimilanna

Ríkisvinnuflokkurinn, með Steingrím Jong Sig., er blóðugur upp fyrir axlir þessa dagana í niðurskurði.  Hann er ekki að skera niður í rekstri ríkissjóðs, heldur í rekstri heimila og fyrirtækja í landinu og í þeim efnum eru hendur látnar standa fram úr ermum.

Samkvæmt fréttinni, telur Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans ekki miklar líkur á stýrivaxtalækkun þann 02. júlí n.k., enda hefur ekkert gengið með nokkurn skapaðan hlut hjá ríkisvinnuflokknum, annað en skattahækkanir.  T.d. kemur fram að:  "Ljóst sé að nýir efnahagsreikningar ríkisbankanna og uppgjör við gömlu bankanna muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir 17. júlí. Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi ekki afgreitt næstu greiðslu á láni sjóðsins og tvíhliða lánasamningum við vinaþjóðir sé ekki lokið. Þá ríki nokkur óvissa um hvenær lög um Icesave samningana við Hollendinga og Breta verði samþykkt af Alþingi."

Hvað síðasta liðinn í þessari upptalningu varðar, þá verður hann líkast til aldrei samþykktur af Alþingi, enda engin ástæða til að veita ríkisábyrgð á þessa skuldbindingu gömlu einkabankanna.

Hugsun vinstri manna er ávalt sú, að almenningur kunni ekkert með peningana sína að fara og þeir séu betur komnir í ríkissjóði, þar sem útvaldir kommisarar útdeili þeim, sama almenningi til heilla.

Þeir sem ennþá hafa vinnu, aldraðir og öryrkjar, eru ekki of góðir til að halda uppi hítinni, sem er svo vel rekin, að hvergi er hægt að spara eina krónu.


mbl.is 130 þúsund á fjölskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattaæði án sparnaðar

Rekstrarhalli ríkissjóðs stefndi í að fara tuttugumilljörðum fram úr áður áætluðum halla fjárlaga, að upphæð 153 milljarða króna.  Er þar kennt um meira tekjufalli en reiknað var með og auknum útgjöldum vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs.  Þessi skýring með Atvinnuleysistryggingasjóð hlýtur að vera hæpin, þar sem inneignir sjóðsins eiga að duga a.m.k. út Októbermánuð, þannig að halli hans vegna getur varla orðið meiri en 4 - 5 milljarðar. 

Alls ekki virðist mega skera nokkurn skapaðan hlut í ríkisrekstrinum, heldur skal ná öllum viðbótarhallanum með skattahækkunum, þar á meðal að ná inn tólf milljörðum til áramóta í hækkuðu Tryggingagjaldi.  Það verkur upp spurningu hvort eigi að nota þá tekjuaukningu sjóðsins til að greiða niður almenn rekstrarútgjöld ríkissjóðs.  Þessi hækkun Tryggingagjalds er sótt beint í vasa launþega, þar sem atvinnulífið mun greiða minni kauphækkanir til launafólks, sem nemur þessari hækkun.

Hækkun á bumbuskattinum, þ.e. hækkun virðisaukaskatts á gosdrykkjum og mæru ýmisskonar, fer beint inn í vísitölu neysluverðs og hækkar þar með verðtryggð lán heimila og fyrirtækja.

Það er ekki hægt að segja að ríkisvinnuflokkurinn sé skattaglaður.  Hann er skattaóður.


mbl.is Hallinn stefndi í 193 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ábyrgð almennings

Samkvæmt ESB reglum, sem Íslendingar innleiddu á sínum tíma, bar bönkum að greiða í Innistæðutryggingasjóð sparifjáreigenda ákveðið hlutfall af innistæðum í bönkunum á hverjum tíma og það gerðu íslensku bankarnir, eins og aðrir bankar í Evrópu gerðu sjálfsagt.  Þessir innistæðutryggingasjóðir áttu að ábyrgjast hverjum innistæðueiganda a.m.k. rúmar tuttugu þúsund Evrur af innistæðu sinni, ef banki færi í þrot.  Aldrei var gert ráð fyrir neinum ríkisábyrgðum á þessum sjóðum, enda eru þeir ekki ríkistryggðir neins staðar í Evrópu.

Við náttúruhamfarir eru oft samþykkt neyðarlög fyrir einstök lönd, héruð, eða einstök fylki, t.d. í Bandaríkjunum.  Þá lúta þau lög oftast að því að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki, sem orðið hafa fyrir tjóni á þessu tiltekna svæði, án þess að sambærileg aðstoð nái til annarra landsmanna, í krafti einhvers jöfnuðar milli þegnanna.

Eftir Vestmannaeyjagosið og aðrar náttúruhamfarir á Íslandi hafa þeim sem orðið hafa fyrir tjóni verið veitt aðstoð, án þess að samskonar aðstoðar hafi verið krafist um allt Evrópska efnahagssvæðið.  Með neyðarlögunum í haust ákvað ríkisstjórnin að tryggja innistæður innanlands að fullu, en ekki verður séð að það þýði það að íslendingar ábyrgist þar með allar bankainnistæður í Evrópu, jafnvel ekki innistæður útlendinga í íslenskum bönkum.

Ef ætlunin hefði verið að hafa ríkisábyrgð á þessum innistæðutryggingastjóðum, hefði ESB gert ráð fyrir því, strax í upphaflegri löggjöf.  Það var ekki gert og því er engin ríkisábyrgð á íslenska sjóðnum, frekar en öðrum evrópskum innistæðutryggingasjóðum.

Nú er hinsvegar verið að neyða Íslendinga til þess að láta ríkið ábyrgjast innistæður útlendinga, umfram það sem tryggingasjóðurinn ræður við.  Það er hreint ofbeldi af hálfu Evrópubandalagsins og á ekki að líðast.

Væru Íslendingar skyldugir til þess að borga þetta, þá þyrfti ekki að setja um það sérstök lög á Alþingi núna.

Þetta eru eins og stríðsskaðabætur, sem undirokaðar þjóðir eftir styrjaldir eru stundum neyddar til að greiða. 


mbl.is Icesave: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikastjórn

Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, hafa haldið því fram, frá því að þau tilkynntu trúlofun sína, að meginmarkmið þeirra væri að standa vörð um verlferðarkerfið í þeim efnahagsþrengingum sem nú er við að eiga.

Um nokkurt skeið hefur verið tekist á um sparnaðartillögur milli og innan stjórnarflokkanna og niðurstöður orðið nánast engar.  Aðallega hefur náðst sátt um aukna skattpíningu á almenning og fyrirtæki og þar með kynnt undir verðbólgu, sem aftur hækkar húsnæðislán heimilanna.

Þrátt fyrir margtuggin loforð um að ráðstafanir í efnahagsmálum yrðu ekki látnar bitna á elli- og örorkulífeyrisþegum, kemst ríkisvinnuflokkurinn að því góða samkomulagi, að byrja sparnað í ríkiskerfinu með því að skerða lífeyri elli- og örorkulífeyrisþega.  Svo er þessi skerðing fegruð með því að hnýta fögrum fyrirheitum inn í frumvarpið, eins og segir í fréttinni:  "Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga," segir í frumvarpinu."

Fáum ríkisstjórnum hefur tekist að svíkja sín helstu loforð á jafn skömmum tíma og þessi svikastjórn sem nú situr.


mbl.is Skref til baka í réttindum aldraðra og öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra á hausnum

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisstarfsmaður, fór á hausinn í bókstaflegri merkingu, þegar hún datt af hjólinu sínu á leið í vinnuna.  Það er virðingarvert, að vilja sýna gott fordæmi, með því að hjóla í vinnuna, en aftur á móti er það óafsakanlegt gagnvart öðrum börnum landsins, að hjóla um allar trissur, án þess að vera með hjálm.  Ef hún vill ekki nota ráðherrabílinn, þá væri kannski ráð að láta ráðherrabílstjórann stjórna hjólinu og reiða Svandísi og bæði yrðu með hjálm auðvitað.

Svandís telur sig hafa verið heppnari en hún ætti skilið, að hafa dottið á höfuðið.  Það minnir á manninn, sem sagði, þegar planki datt á höfuðið á honum, að hann hefði verið heppinn að þetta skyldi einmitt detta á hausinn á honum, en ekki á annað, því þá hefði getað farið illa.

Svandís fékk stóra kúlu á hausinn og vegfarandi sagði að ekki væri vit í öðru, en að láta athuga á henni höfuðið. 

Ekki er víst, að hann hafi verið að meina kúluna.


mbl.is Svandís: Heppnari en ég á skilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðislán og bankarnir

Íbúðalánasjóður hefur tilkynnt um smávægilega vaxtalækkun, þ.e. vextir sjóðsins verða 4,6% með uppgreiðsluákvæði og 5,10% án þeirra skilmála.  Þetta leiðir hugann, enn og aftur, að ákvæði margra húsnæðislána bankanna, um endurskoðun vaxta á fimm ára fresti.  Í haust verða fimm ár liðin frá því að bankarnir ruddust með látum inn á húsnæðislánamarkaðinn með nánast ótakmörkuð lán á lágum vöxtum.

Nú eru húsnæðislánavextir bankanna á bilinu 5,9% - 7,8% eftir "tegundum" viðskiptavina.  Ef bankarnir hækka vexti á íbúðalánum sínum í haust og stýrivextir hafi þá ekki lækkað verulega, mun greiðslubyrði þeirra, sem keyptu íbúðir með lánum bankanna hækka umtalsvert.  Sem dæmi má nefna að skuldari, sem tók lán með vaxtaendurskoðunarákvæði með 4,15% vöxtum, haustið 2004, gæti átt von á allt að fimmtíuþúsund króna hækkun mánaðargreiðslna, ef bankarnir beita þessu ákvæði og núverandi vaxtakjör verða ennþá við lýði.

Annarsstaðar á mbl.is birtist  þessi frétt, um að Íbúðalánasjóður hefði óskað eftir því fyrir þrem vikum, að fá að hækka sín hámarkslán úr 20 milljónum króna í 30 milljónir.  Árni ESB Árnason, félagsmálavinnumaður, hefur ekki haft tíma ennþá til að svara sjóðnum og er líklegasta skýringin talin sú, að slík hækkun gæti ýtt undir þenslu.

Nú er akkúrat engin þensla í þjóðfélaginu og það eina sem heldur verðbólgu á floti, er hækkun innfluttrar vöru vegna aumingjaskapar ríkisvinnuflokksins í því verki að styrkja gengi krónunnar.

Íbúðamarkaðurinn er algerlega frosinn og því gæti hækkun lána Íbúðalánasjóðs komið einhverjum viðskiptum af stað og lífgað þar með upp á stöðnunina sem ríkir á öllum sviðum þjóðlífsins.

Ríkisvinnuflokkurinn þyrfti að líta upp úr ESB ruglinu og fara að snúa sér að áríðandi málum.


mbl.is Vextir Íbúðalánasjóðs lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrakin úr einu víginu í annað

Í upphafi stjórnarsáttmála Smáflokkafylkingarinnar og Vinstri grænna er þessi grein feitletruð og undirstrikuð:

"Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Ríkisstjórnin mun kappkosta að byggja upp á Íslandi opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum horfum við sérstaklega til frændþjóða okkar á Norðurlöndum."

Frá því að þetta var sett á blað, hefur öll stjórnsýsla einkennst af leynd, hálfsannleik, blekkingum og jafnvel hreinum ósannindum.  Ríkisvinnuflokkurinn reynir eins og kostur er, að halda öllum upplýsingum um gerðir sínar og fyrirætlanir leyndum fyrir almenningi og ef kemst upp um einstaka fyrirætlanir er reynt að snúa út úr málum, segja hálfsannleik eða beita algerum blekkingum.

Oft verða ráðherrar og æðstu embættismenn þeirra tví- og þrísaga um málin og til að púsla saman réttum upplýsingum, þarf að toga allt út úr þessu fólki með töngum.

Þannig hrekst ríkisvinnuflokkurinn úr einu víginu í annað.

Að endingu verður ekkert vígi eftir.


mbl.is Icesave-samningar birtir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brussel á hraða snigilsins

Leiðtogar ESB eru á fundi í Brussel í dag til að ræða framtíð Lissabonsáttmálans og munu í örvæntingu reyna að finna leið til þess að fá Íra til þess að samþykkja sáttmálann, sem allra fyrst, því þeir eru skelfingu lostnir yfir því að ef Íhaldsflokkurinn komist til valda í Bretlandi, þá muni hann vísa sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slíkt líðræði er illa liðið í Brussel.

Í fréttinni segir:  "Fundurinn er haldinn í kjölfar Evrópuþingskosninga sem leiddu í ljós töluverða hægrisveiflu og mótstöðu við nánari sameiningu innan sambandsins. Fréttaskýrendur segja það auka þrýsting á framkvæmdastjórn sambandsins að fá fram staðfestingu Lissabonsáttmálans en hann var felldur í þjóðaatkvæðagreiðslu á Írlandi á síðasta ári."  

Samþykkt Lissabonsáttmálans er skref á þeirri leið, að gera ESB að stórríki, með eigin her, en það er einmitt ein ástæða þess, að Írar felldu sáttmálann.

Áróðursmeistarar ESB og íslenskir taglhnýtingar þeirra, tala nú fjálglega um að gott væri að fá Íslendinga inn í sambandið, til þess að vinna að breytingum á sjávarútvegsstefnu ESB, vegna þess hve Íslendinar hafi mikla og góða reynslu af verndun fiskistofna.  Ef ESB vantar ráðgjöf á því sviði, á sambandið einfaldlega að óska eftir sérfræðiráðgjöf Íslendinga, án þess að landið gangi í ESB. 

Lok fréttarinnar upplýsir hvað allar breytingar taka langan tíma innan ESB, en þar segir:  "Leiðtogar sambandsins segja sáttmálann nauðsynlegan til þess að sambandið geti starfað með árangursríkum hætti. Hann er niðurstaða samningaviðræðna sem fram fóru í kjölfar þess að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992."

Vandræðagangurinn í kringum Lissabon sáttmálann er sem sagt búinn að taka sautján ár og niðurstaða ekki fengin ennþá.

Breyting sjávarútvegsstefnunnar mun gerast á þessum sama hraða. 

Hraða snigilsins.


mbl.is Leiðtogafundur í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband