Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Jóhanna og ESB

Ekki verður annað skilið af yfirlýsingu Jóhönnu, ríkisverkstjóra, um að hægt verði að sækja um ESB aðild strax í júní og bera síðan málið undir þjóðaratkvæði, að hún telji að líf væntanlegrar ríkisstjórnar Smáflokkafylkingarinnar og VG verði afar stutt.  Til þess að ganga í ESB þarf að gera breytingar á stjórnarskrá og það verður ekki gert nema með því að eftir að Alþingi samþykkir slíkt, þarf að rjúfa þing og boða til kosninga og samþykkja stjórnarskrárbreytinguna aftur á nýju þingi.

Smáflokkafylkingin var ekki til viðtals um sátt við Sjálfstæðisflokkinn um breytingar á 79. grein stjórnarskrárinnar nú fyrir þinglok, en sú sáttatillaga gekk út á að hægt yrði að gera breytingar á stjórnarskránni í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að rjúfa þing á milli.  Þetta sýnir að Smáflokkafylkingin hefur enga trú á að ríkisstjórn með VG geti orðið langlíf, eða að þessi ESB áróður er meiningarlaus og á ekki að framfylgja eftir kosningar. 

"Jóhanna sagði að það gæti tekið 1-1½ ár að fá aðild að Evrópusambandinu og þá væru Íslendingar komnir í skjól með krónuna. Það gæti tekið 1½ ár tilviðbótar að uppfylla Maastricht skilyrðin. Ég spái því að eftir fjögur ár yrðum við búin að taka að fullu upp evru," sagði Jóhanna."  

Er ekki kominn tími til að Smáflokkafylkingin geri þjóðinni grein fyrir því hvernig á að ná að uppfylla Maastricht skilyrðin og hvernig á að styrkja krónuna á þessum fjórum árum.

Slagorðaglamur og blekkingar duga Smáflokkafylkingunni ekki lengur.


mbl.is ESB-viðræður í júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn niðurskurður ríkisútgjalda

Fram til þessa hefur verið rætt um að fjárvöntun ríkissjóðs á næsta ári yrði um 80 milljarðar króna, sem að mestu verður að brúa með niðurskurði ríkisútgjalda, þar með talið (og að mestu) vegna velferðar- og menntamála.  Þetta fást vinstri flokkarnir til að ræða af neinni alvöru, en hins vegar hefur kvisast að nú þegar sé hafinn undirbúiningur neyðarfjárlaga fyrir þetta ár, sem kynnt verður strax eftir kosningar.  Þá, en ekki fyrr, mun almenningur fá að vita af alvöru þessa máls.

Nú koma fréttir af því að Atvinnuleysistryggingasjóður tæmist í nóvember, þannig að fjárvöntun hans á árinu verði 3,5 milljarðar og rúmir tuttugu milljarðar árlega eftir það, á meðan atvinnuleysi minnkar ekki.  Þetta fjármagn fæst ekki annarsstaðar en með enn meiri niðurskurði ríkisútgjalda og hafi einhvern tíma verið talað um blóðugan níðurskurð, þá mun sá niðurskurður blikna og blána í samanburði við það sem koma skal.

Hafi einhver haldið að stjórnarmyndun verði auðveld eftir kosningar, þá veður hinn sami í villu og svíma.  Að minnsta kosti munu Smáflokkafylkingin og VG ekki eiga auðvelt með að ná samkomulagi um hvernig skal beita hnífnum.


mbl.is Þurrausinn í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki Icesave

Ef rétt er munað var Hertiable Bank, dótturfélag Landsbanka Íslands en ekki útibú.  Hertiable Bank var því í raun breskur banki og kemur Icesave reikningum í útibúi Landsbankans í Englandi ekkert við. 

Hertiable Bank var yfirtekinn af breska fjármálaeftirlitinu á sama tíma og Frider & Singlander, banki Kaupþings í London.  Þetta eru sem sagt bankar sem störfuðu sjálfstætt undir breskum lögum og reglum (sem voru svipaðar þeim íslensku), en voru keyrðir í gjaldþrot með hryðjuverkalögunum.

Uppgjör þessara banka kemur því Icesave reikningunum ekkert við og við Íslendingar verðum að halda áfram baráttunni við að klóra okkur út úr því vandamáli.  Vonandi kemur það mikið út úr eignum Landsbankans, að þær dugi að mestu fyrir Icesave,  en botn fæst sjálfsagt ekki í það fyrr en að einhverjum árum liðnum.

Aðrar erlendar skuldir íslensku bankanna munu að mestu lenda á erlendum lánadrottnum þeirra, sem auðvitað munu hugsa Íslendingum þegjandi þörfina í framtíðinni, þannig að ekki verður við að búast, að aðgangur íslensku þjóðarinnar að erlendu lánsfé verði mikill á næstu árum.

Íslendingar munu verða að lifa á eigin aflafé um langa framtíð og það verður mikil breyting fyrir þetta þjóðfélag okkar.


mbl.is Óvænt fé í íslenskum banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór ósigur

Ef fer sem nú horfir með stuðning við stjórnmálaflokkana í komandi kosningum, mun þjóðin bíða sinn stærsta ósigur í langan tíma.  Sigur vinstri flokkanna í kosningunum mun koma þjóðinni í enn verri stöðu, en hún nú er í.

Vinstri flokkarnir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda leyndu fyrir kjósendum hvað þeir hyggjast gera eftir kosningar, annað en að lækka laun og hækka skatta.  Hugmyndaflug í skattpíningu hefur aldrei brugðist þessum flokkum.  Vandamálið er hinsvegar að heimilin í landinu hafa ekkert bolmagn til þess að taka á sig aukna skattbyrði um þessar mundir og ekki heldur launalækkanir.  VG reynir að draga úr tali sínu um launalækkanir og er nú farið að boða aukinn launajöfnuð, án þess að útskýra það frekar og án þess að gefa upp hverjir skuli lækka.

Ennfremur forðast þeir eins og heitan eldinn, að skýra frá því hvernig þeir ætli að skera niður ríkisútgjöld.  Þeir vilja ekki einu sinni ræða um hvernig á að spara á þessu ári, hvað þá á næstu þrem árum, en þá verður að skila hallalausum fjárlögum.  Gefið er í skyn að neyðarfjárlög verði sett strax eftir kosningar, en enginn fær að vita hvað þau eiga að innihalda, enda er engin samstaða milli VG og Smáflokkafylkingarinnar um hvar skal skera niður.

Takist þeim að tóra út árið og nái að setja saman fjárlög fyrir árið 2010, með 80 milljarða niðurskurði í bland við skattahækkanir, skal því spáð hér og nú, að ríkisstjórnin mun í síðasta lagi springa seinni hluta ársins 2011, vegna ósamkomulags um ríkisfjármálin.

Þá verður ósigur þjóðarinnar orðinn að hreinni niðurlægingu.


mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið að þakka

Þá er loksins búið að slíta þinginu og þinmenn farnir í alvöru kosningabaráttu, þ.e.a.s. þeir sem vilja halda áfram þingsetu.  Ríkisstjórnin, sem mynduð var til að koma á nauðsynlegum hjálparaðgerðum fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu, fer frá án þess að hafa komið nánast nokkrum björgunaraðgerðum frá sér. 

Sá spádómur, sem hér hefur nokkrum sinnum verið settur fram, gekk eftir, að stjórnin myndi selja stjórnlagafrumvarpsbastarðinn fyrir samþykki álversins í Straumsvík og á síðustu stundu krafðist VG að fá samþykki fyrir banni við vændiskaupum.  Þetta er einhver ódýrasta hugsjónasala sem sögur fara af í seinni tíð.

Ef þjóðin fer ekki að vakna, er stórhætta á að VG verði stærsti flokkurinn eftir kosningar og þá mun stjórnarmyndun verða erfið, því Steingrímur J. mun krefjast þess að verða forsætisráðherra.  Smáflokkafylkingin, eins ósamstæð og hún er, getur ekki sætt sig við að aðrir flokkar skipi forsæti í ríkisstjórn, sem hún tekur þátt í, eins og sannaðist í samstarfi hennar við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki batnar ástandið í þjóðfélaginu við það að bíða þurfi í margar vikur eftir að samstaða náist um næsta forsætisráðherra, hvað þá samkomulagi um efnahagsaðgerðir og niðurskurð ríkisfjármála.

Mesta hættan er sú, að þjóðin sofi á verðinum og draumarnir verði að martröð.


mbl.is Takk fyrir, búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slegið á útrétta hendi

Undarlegt er að fylgjast með umræðunum á Alþingi, nú eftir hádegi, þar sem stjórnarþingmenn halda uppi nokkurs konar málþófi, vegna breytinga sjálfstæðismanna við stjórnarskrárfrumvarpsskrípið.  Sjálfstæðismenn hafa rétt út sáttarhönd, til þess að reyna að koma einhverju viti í frumvarpið, en á þá sáttarhönd er slegið af stjórnarliðum.

Með þessu málþófi virðast stjórnarþingmenn vera að setja frumvarpið um vændiskaupabannið í stórhættu með að komast ekki á dagskrá þingsins og þar með til afgreiðslu.  Annað "bjargráðafrumvarp" ríkisverkstjórans og vinnuflokksins virðist alveg vera gufað upp, en það er frumvarpið um bann við nektardansi.  Alveg er með ólíkindum, að þessi þjóðþrifamál skuli ekki fást afgreidd frá Alþingi, eins og ástandið er núna í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Þau hljóta að vera hugsuð til bjargar, a.m.k. til bjargar heimilunum.

Örlög þessara frumvarpa virðist ætla að vera að þau að þau muni daga uppi.

Það er svo sem eftir öðru, hjá nátttröllunum í vinnuflokki ríkisverkstjórans.


mbl.is Flóknara að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin selur vændið

Loksins hafa stjórnarflokkarnir séð að sér og hætt við að keyra stjórlagafrumvarpsbastarðinn í gegnum þingið fyrir kosningar.  Nánast allir umsagnaraðilar, sem komu fyrir þingnefnd eða sendu inn umsagnir, mæltu á móti breytingunum og ráðlögðu meiri og betri vinnu við frumvarpsgerðina og að stjórnarskráin yrði ekki gerð að pólitísku bitbeini, sem stjórnarmeirihluti hverju sinni hringlaði með að eigin geðþótta.

Samfylkingin keypti Framsóknarflokkinn til að verja ríkisstjórn sína og VG vantrausti, með því að lofa þeim að koma þessu illa undirbúna máli í gegnum þingið fyrir kosningar.  Jóhanna, ríkisverkstjóri, hafði þó í raun engan sérstakan áhuga á málinu, en vegna sinnar einstöku þrjósku, að ekki sé sagt frekju, hefur þessu máli verið haldið í umræðunni á meðan ríkisverkstjórinn hefur verið að vinna sér tíma til að koma öðrum málum í gegnum þingið.  Alvaran með þetta mál var engin, það var ljóst frá upphafi.

Hér hafði því verið spáð, að eftir að ríkisvinnuflokkurinn hefði tafið þingstörfin nægilega lengi, í sína þágu, myndi Smáflokkafylkingin selja stjórnarskrárfrumvarpið gegn samþykkt álvers í Helguvík.  Það er nú komið á daginn.

Hins vegar þurftu VG að fá eitthvað fyrir sinn snúð líka, en því er sleppt í þessari frétt mbl.is, þó hún sé byggð á frétt úr Fréttablaðinu.  Málið sem VG seldi stjórnarskrárfrumvarpið fyrir, er nefnilega frumvarp VG um bann við kaupum á vændi.

VG hlýtur að vera stolt af þessari vændissölu.

 


mbl.is Stjórnarskrá ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneyti og Líf

Það er óborganlegt að fylgjast með þessu spennandi umhverfisslysi, sem Kolbrún Halldórsdóttir og hennar lið er búið að uppgötva austur á landi.  Þó að áður sé búið að blogga hér um þessa miklu frétt, vakna ýmsar spurningar í framhaldinu.

Ef maður finnur rjúpuunga á víðanangi, má hann þá taka hann með sér heim og bjarga lífi hans?  Hvað um vængbrotna álft?  Hvað um lóu?  Er það borgaraleg skylda að snúa fuglinn umsvifalaust úr háls?  Þarf að kalla til sérfræðing Kolbrúar Halldórsdóttur til að líta á fuglinn og aðstoða við að fylla út eyðublöð?

Er virkilega ekkert þarfara að gera í þjóðfélaginu þessa dagana, annað en senda "sérfræðinga" út um land til þess að skoða kálfa?  Hvað er hann annars að skoða?  Var ekki nóg að skoða myndina í Mogganum?  Það hefði verið talsvert ódýrara.  Er hann kannski að athuga hvort hægt sé að kæra bóndann fyrir að bjarga kálfinum?  Er hann að athuga hvort dýrið sé haldið einhverjum sjúkdómi?  Var skoðað, þegar Kolbrún kom í ráðuneytið, hvort hún væri haldinn stórhættulegum smitsjúkdómi, öðrum en hugmyndsfræðilegum?

Lokaorð fréttarinnar segja allt sem segja þarf um kerfið:

"Karl er kominn að Sléttu til að skoða hreindýrskálfinn. Jafnframt mun hann leiðbeina ábúendum með umsóknina. Leyfisveitingin er í höndum umhverfisráðherra en samkvæmt upplýsingum mbl.is eru fá fordæmi fyrir leyfisveitingum af þessu tagi."

 


mbl.is Líf Lífar í höndum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneytiskálfar

Loksins fékk Umhverfisráðuneytið, undir stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur, verðugt verkefni, en það hefur nú komist á snoðir um það að bóndi á bæ við Reyðarfjörð var svo bíræfinn í fyrrahaust að bjarga hreindýrskálfi frá bráðum bana.  Svona stórkostlegt umhverfisslys fer að náttúrulega ekki fram hjá vökulum augum umhverfisverndarsinnans Kollu.

Í bréfi sérfræðings Kollu í þessum málum segir m.a:

 „Þar sem við vitum af þessum kálfi er ekki hægt annað en að benda formlega á lögin. Ef þau ætla að halda kálfinn áfram verða þau að sækja um leyfi. Neiti ráðuneytið um leyfi mun það væntanlega útskýra hvað það vilji að gert verði."

Þetta er stofnanamál, sem þýðir á íslensku að bóndinn verður að lóga kálfinum, nema að hann sæki um leyfi, en ef ráðuneytið neitar um leyfið, þá mun ráðuneytið væntanlega útskýra hvað á að gera í framhaldinu.  (Þetta er ekki góð þýðing yfir á íslensku, en þar sem stuttur tími gafst til uppflettinga í orðsifjabækur, verður þetta að duga.)

Það sem stendur uppúr í þessu máli er að ráðuneytin starfa, án truflana, þrátt fyrir óróleika í pólitíkinni.

Með áframhaldandi vinstri stjórn í landinu verður vonandi skerpt á lögum um hreindýrskálfa.

Ekki er líklegt að slík stjórn hafi burði til að ráða við flóknari mál.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanir

Álfheiður Ingadóttir, VG, segir að bæði þurfi að hækka skatta og skera niður ríkisútgjöld.  Eins og aðrir vinstri liðar, segir hún ekkert um hvaða skatta á að hækka og hvar á að skera niður.  Slagorðin um "breiðu bökin", "þá sem bera mest úr býtum" og "þá sem eiga miklar eignir" eru notuð af öllu vinstra liðinu, eins og það leggur sig, en nánari skýringar fylgja aldrei.

Í fréttinni kemur þetta fram m.a:

„Það þarf að verja þau störf sem fyrir eru og sérstaklega störfin í velferðarþjónustunni, heilbrigðistþjónustunni, félagsþjónustunni, menntakerfinu. Þar þarf að jafna kjörin þannig að menn haldi ekki sínum ofurlaunum en aðrir missi vinnuna," sagði Álfheiður.

Ekki útskýrir Álfheiður hverjir í velferðarþjónustunni hafa þessi ofurlaun, ekki hve há þau eru, ekki hvað á að lækka þau mikið og ekki hvað það muni spara mikið í útgjöldum.  Svona ruglmálflutningur dæmir sig algerlega sjálfur og þarf ekki að hafa mörg orð um hann.

Ofangreindir málaflokkar taka til sín a.m.k. tvo þriðju af heildarútgjöldum ríkissjóðs, svo það þarf engan stjarneðlisfræðing til þess að reikna út, að þetta er innantómur áróður.  Þessi áróður gengur að vísu alltaf vel í almenning, þangað til hann áttar sig á því, að hann er einmitt þessi breiðu bök, sem vinstra liðið talar alltaf um.

Spilin á borðið, núna.  Ekkert svona rugl lengur. 


mbl.is Tekist á um skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband