Úttekt séreignarlífeyris

Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar er ekki annað að sjá en jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin gróflega, því í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að rétturinn til að nýta sér heimildina til úttektar á allt að einni milljón króna á tímbilinu 01/03 - 31/10 2009, skuli ekki skerða réttindi til barna- og vaxtabóta og ekki skerða heldur atvinnuleysisbætur, sjá frumvarpiðFólk þarf ekki að vera í sérstökum fjárhagsvanda til þess að fá þessa heimild til úttektar á sparnaðinum, heldur eiga þetta að vera almenn réttindi.

Ekki verður þetta skilið á annan hátt en þann, að þeir sem nú þegar hafa byrjað mánaðarlega úttekt á séreignarsparnaði sínum njóti ekki þeirra fríðinda að fá a.m.k. óskertar vaxtabætur, en fæstir þeirra eru líklega með ung börn á framfæri, en gætu skuldað umtalsverðar upphæðir í húsnæði.  Ekki hafa þeir heldur rétt til atvinnuleysisbóta vegna lífeyristeknanna. 

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að ekki sé reiknað með því að þeir sem ekki eigi í fjárhagsvanda muni notfæra sér þessa heimild.  Það er líklega mikill misskilningur, vegna þess að allir sem eiga séreignarsparnað hljóta að sjá sér hag í því að taka út milljón á þessu tímabili, vegna þeirra réttinda til óskertra bóta sem þetta veitir þeim.

Þetta er enn eitt dæmið um hroðvirknisleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ber vott um að mál séu ekki hugsuð til enda, áður en þau eru lögð fram.

Nær hefði verið að láta þessi fyrirhuguðu lög ná eingöngu til þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðislána, og láta þá séreignarlífeyrissparnað þeirra ganga til lækkunar á skuldahöfuðstól og þá sérstaklega þeirra einstaklinga sem ekki eru í verulegri hættu á að verða gjaldþrota hvort sem er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband