Bráðnauðsynleg bankarannsókn

Ein af nefndum Alþingis, með langt og óþjálft nafn eins og vera ber hjá opinberum aðilum, Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, leggur enn og aftur til að einkavæðing bankanna fyrir tíu árum verði rannsökuð ofan í kjölinn, til þess að hægt verði að læra af henni og nýta þann lærdóm við einkavæðingar framtíðarinnar.

Þetta er auðvitað bráðnauðsynlegt, en það eina sem vantar í tillöguna er að í leiðinni verði aðkoma ríkisstjórnarinnar að málum SpKef og einkavæðing bankanna hin síðari verði rannsökuð í framhaldi af eldri einkavæðingunni, enda nýrri aðgerðir og ættu því að vera ennþá lærdómsríkari fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar en sú eldri, enda greinilegt að núverandi ríkisstjórn lærði ekkert af henni hvort sem er.

Að sleppa síðari tíma einkavæðingunni hlýtur að vera vegna smá athugunarleysis nefndarmanna í nefndinni með óþjála nafnið þannig að Alþingi sjálft hlýtur að betrumbæta tillöguna þegar hún kemur til afgreiðslu á þinginu.

Ekki væri verra að bæta yfirtöku ríkisins á Sjóvá og síðar tapsölu þess til einkaaðila við allar hinar einkavæðingarrannsóknirnar.

Vilji Alþingi láta taka sig alvarlega, eins og einhverjir þingmenn gætu viljað ennþá, þá verður þessi tillaga aldrei samþykkt í óbreyttri mynd.


mbl.is Leggja til að rannsókn verði samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Miklu þarfara væri að rannsaka þann skaða sem Seðlabanki Íslands hefur unnið á efnahagslífi landsins undanfarna áratugi.

Hvaða batterí skrúfaði upp stýrivexti á árunum fyrir hrun þannig að gengi krónunnar styrktist án þess að nokkur innistæða væri fyrir því? Hvað gerðist þegar óhjákvæmileg leiðrétting varð? Hverjum blæddi vegna mistaka ákveðinnar opinberrar stofnunar?

Hvaða fyrrverandi yfirhagfræðingur SÍ, og væntanlega einn þeirra sem báru ábyrgð á athöfnum SÍ á árunum fyrir hrun, var hækkaður í tign skömmu eftir hrun þrátt fyrir gífurlegan skaða sem athafnir SÍ á árunum fyrir hrun höfðu í för með sér fyrir efnahagslíf þjóðarinnar? Þessi sami yfirhagfræðingur gat engu svarað í fréttum þegar hann var spurður að því hvers vegna Seðlabankinn hefði ekki tekið veð í húsnæðislánum viðskiptabankanna frekar en í hlutabréfum þeirra (og tapaði þar með miklu fé). Var frammistaða þessa yfirhagfræðings slík að hann átti skilið að fá stöðuhækkun? Er þessi stöðuhækkun m.t.t. frammistöðu viðkomandi aðila í starfi nokkuð fordæmisgefandi fyrir aðrar opinberar stofnanir? 

Hvaða batterí sagði okkur geta greitt Icesave áður en um þann samning var kosið en breytti síðan mati sínu fljótlega eftir að samningurinn var felldur?

Ég veit ekki betur en laun starfsmanna SÍ hafi verið hækkuð á árunum fyrir hrun svo laun þeirra væru í samræmi við laun starfsmanna viðskiptabankanna. Leiðrétti mig einhver ef ég hef rangt fyrir mér.  Hafa laun starfsmanna SÍ verið lækkuð aftur?

Hefur einhverjum starfsmanni/starfsmönnum FME eða SÍ verið sagt upp störfum frá 2008 og til dagsins í dag (fyrir utan bankastjórana 3 og forstjóra FME)?

Er það hlutverk Seðlabanka að reka áróður fyrir því að einhver annar gjaldmiðill sé tekinn upp en sá er við notum núna? Sjá fína grein Lofts Þorsteins í mbl. 29. sept 2012.

Hvaða batterí heldur stýrivöxtum himinháum og hverjir græða á því að hafa þessa vexti svona háa og hverjir tapa á háum stýrivöxtum? Hverjir borga fyrir stýrivaxtaákvarðanir SÍ?

Hvernig stendur á því að SÍ hefur algerlega mistekist að halda verðbólgunni í skefjum (með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir almenning)?

Hvað kostar SÍ þjóðina á ári og hvað fáum við í staðinn?

Af hverju rannsakar þessi nefnd ekki þetta í staðinn? Hitt er löngu búið að rannsaka!!

Helgi (IP-tala skráð) 16.10.2012 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband