"Gjöf" sem þjóðin mun sameinast um að hafna

Gömul speki segir að æ sé gjöf til gjalda og sú "góða gjöf" sem Steingrímur J. er að vonast til að þing og þjóð færi honum og ríkisstjórninni vegna Icesave, mun verða þjóðinni dýrkeypt og það svo, að íslenskir skattgreiðendur munu þurfa að þræla fyrir erlenda húsbændur Steingríms næstu áratugina til að greiða fyrir "gjöfina góðu".

Hins vegar er allt önnur hlið á þessu máli heldur en kostnaðurinn við "gjöfina" en það er fordæmið sem svona "gjöf" skapar, en aðaltilgangur Evrópuhrottanna sem sent hafa þessa fjárkúgunarkröfu á íslenska skattgreiðendur er ekki fyrst og fremst fjárhagslegur, heldur er aðalatriðið að þvinga fram ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, þrátt fyrir að regluverk ESB geri ekki ráð fyrir slíku.

Mogginn birtir í dag stórfróðlegt og merkilegt viðtal við Martins Wolfs, aðstoðarritstjóra Financial Times, en hann er virtur um allan heim vegna umfjöllunar sinnar um fjármál þjóðríkja undanfarna áratugi, en viðtalið má sjá HÉRNA

Í viðtalinu kemur m.a. þetta fram:

"- "Þú minntist á að þetta skapi hættulegt fordæmi. Hvers vegna?"

Það gæti þýtt að í tilviki annarra svipaðra gjaldþrota í framtíðinni verði skattgreiðendur annarra fullvalda ríkja gerðir ábyrgir fyrir því að borga út sparifjáreigendur hjá stofnunum sem starfa erlendis, mögulega í mjög miklu mæli og það gæti átt við breska ríkið og önnur ríki.  Sú regla að ríkisstjórnir skuli ganga í ábyrgð fyrir skuldir fjármálastofnana sem starfa erlendis virðist mér ótrúlega hættuleg og óheppileg fyrir fjármálakerfið. Það er fordæmið sem ég hef áhyggjur af. Mín skoðun er þessi: Innistæðutryggingasjóði var komið á og hann ætti að vera nægilegur og með fullnægjandi fjármögnun. Ef hann bregst tapa sparifjáreigendur og þeir verða þá að sætta sig við það.""

Það er einmitt þetta atriði sem marg oft hefur verið bent á hérna á þessu bloggi.  Upphæðin sem verið er að reyna að pína íslenska skattgreiðendur skiptir ekki máli, heldur fordæmið sem er verið að gefa með þessari auðvirðilegu uppgjöf fyrir þessum Evrópuribböldum, sem hér ætla að vaða yfir smáþjóð til að setja fordæmi fyrir því að hægt verði að hneppa skattgreiðendur annarra landa í sambærilega þrælavist til greiðslu á glæparekstri bankastofnana álfunnar í framtíðinni.

Besta jólagjöfin, sem þjóðin og þingið getur gefið sjálfum sér, er að alger einhugur og samstaða verði um að hrinda þessari fjárkúgun með jafn eftirminnilegum hætti og gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.


mbl.is Góð gjöf að sameinast um málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einmitt, þetta er innifalið í orðinu hvað "tryggingarsjóður" er, þetta er bara eins og hver annar bótasjóður tryggingafélaga. Menn borga iðgjald inn í sjóðinn og fá tryggingu á móti.

Stóra vandamálið og ein helst ástæðan, held ég, fyrir öllu ruglinu er að ESB er að reyna bæði að eiga kökuna og borða hana.

Þeir vita alveg, og eru búnir að vita lengi, að tryggingarkerfið verður að vera sameiginlegt fjármálamarkaðnum. Fjármálamarkaðurinn er "sameiginlegur" og því verður tryggingarkerfið að vera það líka. Það veitir hins vegar stóru löndunum samkeppnisforskot að búa yfir eigin tryggingarstjóðum (eða vera sterkt bakland fyrir þá), þeir vilja ekki láta það af hendi.

Evrópuþjóðir ESB hafa síðan bara ekki meiri trú á framtíð sambandsins en svo að þær vilji ganga alla leið í samruna fjármálamarkaðarins.

Björn (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband