Tilvera lands og þjóðar er í húfi

Eva Joly hefur verið ötul við að leggja málstað Íslands lið í baráttunni við fjárkúgarana bresku og hollensku vegna Icesave og því betur sem liðsinni hennar er þegið, er hroðalegra að horfa og hlusta á íslenska ráðherra reyna að sannfæra þjóðina um að ganga að kröfum kúgaranna.

Nú síðast var Össur Skarphéðinsson á ferð í Eystrasaltslöndunum og notaði tækifærið til að lýsa yfir uppgjöf sinni gagnvart fjárkúgurunum og allir þekkja baráttu Steingríms J. fyrir málstað hinna erlendu kúgara, sem hann hefur kosið að selja þjóð sína í skattalega ánauð næstu áratugina.

Eva Joly segir, sem rétt er, að sjálf tilvera Íslands sé í húfi vegna þessa glæpsamlega efnahagsstríð gegn íslenskum skattgreiðendum og ábyrgð á þessum Icesavereikningum sé ekki Íslendinga, heldur þeirra lánastofnana, sem gerðu bankakerfinu að blása út, eins og raunin varð, með endalausum austri erlendra lána til þeirra og gistiríkja Icesavereikninganna, sem sjálf áttu að annast eftirlit með þeim.

Eva nefnir að 8.000 manns hafi þegar flutt úr landi vegna ástandsins hér á landi og er sú tala hennar talsvert vanmetin og nokkrar fjölskyldur flytja erlendis í hverjum mánuði, enda virðist það vera skýr vilji Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar að búa svo um hnútana, að engin atvinnuuppbygging verði á landinu á næstu árum og með fjárlagafrumvarpinu er engu líkara en sú stefna hafi verið mótuð að koma sem mestu af heilbrigðisstéttunum úr landi, á sem skemmstum tíma.

Tilvera lands og þjóðar er undir því komin að ríkisstjórnin fari frá strax og ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar taki til starfa og komi þjóðinni upp úr kreppunni með kröftugri uppbyggingu atvinnutækifæra, minnkun atvinnuleysinsins og aðstoð við þá sem eru að missa heimili sín vegna skulda.

Kreppan leysist ekki fyrr en verðmætasköpun eykst og meðfylgjandi verður tekjuaukning einstaklinga, sem með því einu verða færir til að greiða neyslu sína og skuldir. 

Icesave er hins vegar ekki skuld þjóðarinnar og fjárkúgun Breta og Hollendinga verður hrundið, þrátt fyrir samvinnu íslenskra ráðherra við erlend kúgunarríki.


mbl.is Joly: Tilvera Íslands í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Sveinsson

Það hefur gleymst að segja Evu að hún ætti ekki að sega sannleikan, Því það erum við Jóhanna og Steingrímur sem segjum þjóðinni það sem er rétt og rangt því að öll spil eru á borðinu.

Já það verður ekki af þeim skafið þessum valda sjúkum þjóðníðingum.

Jón Sveinsson, 11.10.2010 kl. 14:03

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég held að Össur sé endanlega genginn af göflunum. Í hvaða umboði talar hann? Er ekki hægt að bera fram vantrausttillögu á hann á Alþingi.

Sigurður I B Guðmundsson, 11.10.2010 kl. 16:16

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Bjarni Benediktsson, ok., mætti reyna, hann er óþekkt stærð. EN, á svo Þorgerður K. Gunnarsdóttir og allt hitt uppgjafaliðið sem svaf á verðinum að fylgja með, líklega ásamt Framsókn  í ofanálag og megum við þá eiga von á drekadrottningunni Jónínu BjartmarZ, með fastherpta brosið sitt?  Ne. ei.

Annars er ástandið þannig að flestir sem ég tala við myndu bara ekkert kjósa. Skoðanakannanir eru alltaf settar upp þannig að spurt er hvaða flokk myndirðu kjósa. Síðan eru flokkarnir, eða viðeigandi framboð talin upp. Mér fyndist áhugavert að setja í gang skoðanakönnun sem einum valkosti væri bætt við, sem sagt engan þessara . Ég er þess fullviss að langflestir myndu velja það svar.

Það er búið að ganga svo lengi fram af almenningi, að þó margir séu sagðir með gullfiskaheila, held ég að það séu aðallega Sjálfstæðismenn sem hafa þá gerð heilabús.  Þeir virðast algerlega utangátta um verk flokksins í undanfara hrunsins og má þar heldur ekki gleyma Davíð og félögum sem hleyptu darraðadansinum af stað með frjálshyggjuhorrorinn í farabroddi, eins og hann hefur nú reynst heiminum vel, ásamt því að einkavinavæða þjóðarbúið, og það með Framsóknarnefnuna í bandi. 

Ég hef oft undrast hvernig Jóni Ásgeiri og Co. tókst að efnast líka, hann hlýtur að vera alveg rosalega klár að komast komast hjá vökulu auga flokksleiðtogans og hans manna. Ég er ekki að bera í bætifláka fyrir Jón, hann er bara eins og við vitum öll, sami svindlarinn og flestir þeirra sem Sjáfstæðisflokkurinn nánast gaf ríkiseignirnar, þó hann sé sá eini sem flokksformaðurinn fyrrverandi hefur hatast við.

En hverjir eiga svo að setjast á Alþingi með drengnum sem nú þarf að rísa undir nafni ef svo fer sem þú óskar. Eru þeir til? Þetta er allt orðið útjaskað lið sem enginn treystir, nema kannski þú Axel minn, þ.e. bara ef þeir eru eyrnamerktir flokknum þínum og drengsins, að eilífu, amen.

Ég segi nú bara, hvað skal nú til varnar verða vorum sóma. Allir vilja stjórnina burt og það helst í gær, en hverjir eiga að taka við? Spyr sá sem því miður ekki veit.  Mér finnst það hljóða eins og dauðadómur að fá þetta yfir sig, ef ekki er nýr og valinn maður í hverju þingsæti.

Bergljót Gunnarsdóttir, 11.10.2010 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband