Bjarni og Katrín hljóta að enda saman í ríkisstjórn

Eins og búast mátti við sleit Bjarni Benediktsson stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í dag, enda aldrei grundvöllur fyrir slíka stjórn.  

Augljósasta ástæðan er auðvitað að slík ríkisstjórn hefði aðeins haft eins manns meirihluta á þingi og það er algerlega óásættanleg aðstaða fyrir þriggja flokka stjórn ólíkra flokka með ólíkar stefnuskrár og áherslur í flestum mikilvægum málum.

Líklega felur forsetinn Katrínu Jakobsdóttur næst að reyna stjórnarmyndun, en engum heilvita manni getur dottið í hug að raunhæft sé að mynda ríkisstjórn, sem ætti líf sitt undir fimm smáflokkum með fjöldann allan af "villiköttum" innanborðs.  Ekki má heldur gleyma því að allt sem slíkri ríkisstjórn dytti í hug að leggja fyrir Alþingi þyrfti að fara í gegn um tölvuspjallkerfi Pírata sem bæði er seinvirkt og óútreiknanlegt um niðurstöður.

Eina raunhæfa leiðin til að mynda sæmilega starfhæfa ríkisstjórn í landinu er að Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Björt framtíð brjóti odd af oflæti sínu og komist að viðunandi stjórnarsáttmála sem dygði til að hægt yrði að stjórna með sæmilegum friði í landinu á næstu árum, eða a.m.k. fram á vorið.

Lítill tími er til stefnu til að koma slíkri ríkisstjórn á koppinn því fjárlög verður að leggja fyrir þingið og samþykkja fyrir áramót ásamt fleiri stórum málum eins og samræmingu lífeyrisréttinda, sem ku vera grundvallarmál ef ekki á allt að sjóða upp úr á vinnumarkaði með vorinu.

Vonandi eyðir Katrín ekki löngum tíma í drauminn um fimm flokka vinstri stjórn, enda óraunhæf hugmynd og þjóðarhagur og lífskjör þjóðarinnar eiga ekki að vera lögð undir í pólitískum hráskinnaleik.


mbl.is Katrín og Bjarni ræddu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband