Ótrúlegur kosningasigur Trumps

Sá sem hér skrifar hefði ekki kosið Trump hefði hann haft rétt til að taka þátt í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og átti alls ekki von á því að hann myndi standa þar uppi sem sigurvegari, enda bentu skoðanakannanir til þess að hann ætti litla von í þeirri baráttu og tap hans yrði afgerandi.

Framkoma hans og ýmsar yfirlýsingar í kosningabaráttunni gengu gjörsamlega fram af fólki og lýstu þær margar ruddaskap í garð kvenna, ólöglegra innflytjenda, ýmissa trúarhópa og ekki síst "kerfisins", sem hann lagði mikla áherslu á að hefði brugðist verkafólki í iðnaði með auknu atvinnuleysi og fjárhagsvandræðum.  Ekki síður hefði staða millistéttarinnar í landinu versnað undanfarin ár og lofaði Trump nánast byltingu í opinberri stjórnsýslu til að endurreisa landið og gera það sterkt á nýjan leik.

Allir helstu skemmtikraftar Bandaríkjanna tóku stöðu með Hillary Clinton og komu fram á kosningafundum henni til stuðnings, helstu spallþáttastjórnendur í sjónvarpi börðust gegn Trump og spöruðu ekki stóryrðin og virtust þeir keppa um hver gæti verið andstyggilegastur í háðinu og svívirðingunum um persónu hans og allt sem honum viðkom.

Ennfremur sneru flestir framámenn í Rebúblikanaflokknum við honum baki og neituðu að styðja hann og var jafnvel sagt að fyrrverandi forsetar flokksins hefðu kosið Hillary eða skilað auðu.  Trump rak örsmáa kosningamaskínu í samanburði við Hillary, sem hafði yfir að ráða gríðarlegu kosningabatteríi og eyddi tugum milljónum dollara meira í sína baráttu en Trump gerði.

Að teknu tilliti til alls þess sem á gekk í þessari löngu og miskunnarlausu kosningabaráttu verður ekki annað sagt en að Donald Trump hafi unnið ótrúlegan kosningasigur og svo verður fróðlegt að fylgjast með því í framhaldinu hvernig forseti þessi kjafthákur verður á komandi árum.

 


mbl.is 42% kvenna kusu Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband