Tíðkast dýraníð virkilega við tamningar á Íslandi?

Í annað sinn á stuttum tíma berast fréttir af misþyrmingum hrossa við tamningu þeirra og í báðum tilfellum er framferðið afsakað með því að um "hefðbundnar tamningaaðferðir" sé að ræða.

Varla er hægt að trúa því að hestamönnum þyki sjálfsagt að kvelja hross og pína við tamningar og gera skepnurnar sér undirgefnar af skelfingu um að annars verði kvölunum fram haldið.

Opinberar stofnanir tala oftar en ekki undir rós og nota torskilið stofnanamál í þeim ályktunum sem þær senda frá sér, en Matvælastofnun tala óvenjuskýrt um þann níðingsskap við tamningar sem hún tók til skoðunar þegar hún segir:  "Það er niðurstaða Matvælastofnunar að tamningaraðferð þessi byggi á grófri valdbeitingu sem ekki er ásættanleg út frá sjónarmiði dýravelferðar. Aðrar mildari aðferðir eru enda vel þekktar til að ná sama markmiði við tamningar."

Dýraníð á hvergi að tíðkast né líðast og furðulegt að slíkum hrottaskap skuli beitt við tamningar hrossa á Íslandi á tuttugustuogfyrstu öldinni.  Slíkt hefði maður haldið að heyrði til myrkra miðalda en ekki nútíma. 


mbl.is Trippið barðist um í 45 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég er algjörlega sammála þér í þessu máli - og það er nauðsynlegt að tala um þetta

Rafn Guðmundsson, 25.10.2013 kl. 16:41

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Dýr hafa oft ríkari tilfinningar en menn og þó ég sé ekkert sérstaklega fróður að þessu leiti, þá veit ég að hundum og hestum líður ekkert vel hjá mönnum sem ekki gefa traust. 

Ef þú átt hund sem treystir þér,  þá sínir það vitsmunalega hæfileika, sem skila sér. 

Þetta sama á við um hesta.  Spurningin er bara um þolinmæði, biðlund eftir því að reglan, ástúðin skili árangri.

Það er sjálfsagt fljótlegra að aga dýr með harðri hendi, en það skapar ekki traust heldur undirlægni.

 

     

Hrólfur Þ Hraundal, 25.10.2013 kl. 17:14

3 identicon

Ég á virkilega bágt með að trúa þessu nema að fá að sjá umrætt myndband.

Steingrímur Viktorsson (IP-tala skráð) 25.10.2013 kl. 18:00

4 identicon

Ég er ekki hissa, hafið þið ekki séð "hestamenn" missa sig á hrossin með helv. písknum...

Sigurbjörg Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.10.2013 kl. 23:22

5 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Ég ætla að segja sem minnst um þessa aðferð, enda hef ég aldrei heyrt um hana. En aðferðin hljómar bæði kjánalega og gjörsamlega út úr kú, þegar kemur að velferð hestsins. Meira get ég ekki sagt. Við skulum muna að segja sem minnst, þegar við vitum sem minnst.

Siggi Lee Lewis, 26.10.2013 kl. 04:15

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Thetta kemur mér tví midur alls ekki á óvart. Ég veit um "goda" hestamenn, sem gerdu sér ferdir til ad lúberja hross sen höfdu ekki hlýdnast theim, eda gert eitthvad sem vidkomandi líkadi ekki vid. Ömurlegt svo ekki sé meira sagt!

Arnór Baldvinsson, 26.10.2013 kl. 06:16

7 identicon

Það er sjálfsagt að reyna að nota sem mest dýravænlegar aðferðir við tamningu. Þó getur stundum farið svo að vegna óvaningsháttar tamningamanns verði hrossið bólgið af frekju og þá þurfi að beita það nokkuð hörðu til að öðlast virðinguna aftur. Það er nefnilega líka hægt að eyðileggja hross með of "mildum" aðferðum.

Alveg sjálfsagt þó hjá matvælastofnun að taka í taumana og vara við ómannúðlegum aðferðum því lang oftast er hægt að leysa vandann án mikillar hörku.

Það hefur orðið algjör hugarfarsbreyting í þeim efnum síðustu 20 til 30 ár í hinum vestræna heimi, þó hestvænir tamningamenn hafi alltaf verið til.

Hér er t.d. einn ástralskur sem beitti þó ekki neinum vetlingatökum ef á þurfti að halda.  

http://www.youtube.com/watch?v=Oz2GWsKDo_0

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 07:25

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Besta tamningaaðferðin er að byggja upp traust með góðum tilfinningatengslum við hestinn: að hann geti treyst okkur og að við ofbjóðum honum ekki. Hann fær fóður og þjónustu á móti því að hann geri það sem við væntum af honum.

Valdbeiting er alltaf mjög umdeild. Og eitt er víst: hestar eru mjög minnisgóðir ef þeim er ofboðið og eiga sumir það til að ná sér niðri á þeim sem illa fer með.

Guðjón Sigþór Jensson, 26.10.2013 kl. 08:10

9 Smámynd: Rafn Guðmundsson

Bjarni Gunnlaugur: eftir lestur á þínu commenti (sem er gott að fá) er mitt mat að þú sért dýranýðingur. (verði hrossið bólgið af frekju og þá þurfi að beita það nokkuð hörðu til að öðlast virðinguna aftur) - í mannheimum er virðing EKKI fengin með 'hörðu' og sennilega líka í dýrameimum.

Rafn Guðmundsson, 26.10.2013 kl. 12:59

10 identicon

Þetta gerðist og þarf ekki að efast um það enda MAST ekki stofnun sem gefur út svona tilkynningar án ástæðu.

Það er rík ástæða til að fjalla um þetta og vekja fólk til vitundar um að það er oft farið illa með hesta í nafni fagmennsku; þeir eru kúgaðir til hlýðni með þessum og líkum aðferðum (oft inni í lokuðum húsum - munið myndbandið frá í fyrra þar sem stíft innbundinn hestur var hrekkjaður með svipu innan veggja reiðhallar). Og þeir eru þvingaðir í form sem þeir ekki valda og veldur þeim sársauka og áverkum. Má nefna nýlegar rannsóknir á munnáverkum á Landsmóti og fleiri mótum. Við skulum ekki stinga höfðinu í sandinn. ,,Fagmenn" eru að nota ljótar aðferðir og ná ,,árangri" með því.

Það er líka vont að raunverulegir fagmenn sem gera vel við hesta og vinna með þá af skilningi og samúð, þeir njóta ekki sannmælis í ati hinna. Staðan er ljót og það þarf að taka upp samtal um dýravelferð þegar kemur að hestum.

Þeir sem eyðileggja hesta með ,,mildum" aðferðum.... þeir bera þá ábyrgðina á því. Það á ekki að refsa hestum fyrir að vera ofdekraðir. Það á að leiðrétta þá með lagi og sanngirni. Hestar eru mjög félagsgreindir og - oft meira svo en sá sem temur.

Hallgerður Hauksdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 16:54

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er algjörlega ólíðandi að farið sé illa með varnarlaus dýr.

Það skiptir ekki höfuðmáli hverjir segja frá slíku opinberlega. Það skiptir höfuðmáli hvers vegna opinbera sveitarfélaga/ríkis-eftirlitið segir bara stundum frá því, og stundum ekki! Kannski eftir því hvar í pólitíkinni viðkomandi níðingur er skráður?

Eða hvers vegna?

Kannski vegna þess að samfélags-fjölmiðla-kerfisníð og barnaverndarrekið níð fær að þrífast óáreitt á Íslandi í áratugi, án þess að það sé stoppað?

Einhversstaðar brjótast afleiðingarnar út, þegar fólk er beitt endalausum órétti. Eða hvað segir landlæknirinn um það?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.10.2013 kl. 17:32

12 identicon

@9

Virðing í dýraheimum er oft fengin með hörðu.

T.d. eru stundum merar sem ekki kunna sig í hrossastóði, teknar illilega í gegn af stóðhestum. Ef þær sýna ekki virðingu þá getur farið svo að hesturinn stór slasi eða drepi þær.  Það verður að teljast að ná virðingu með hörðu.

      Kýr og hestar eru stórir gripir sem geta verið mönnum hættulegir ef virðinguna vantar.  Eftir því sem menn hafa betri tíma og aðstöðu til að sinna hestum, hafa menn farið að ná ótrúlegum árangri með mildum aðferðum.(Eru meira að segja oft fljótlegri til árangurs þegar upp er staðið) Hér áður fyrr var oft ekki um slíka aðstöðu að ræða og einnig skorti þekkingu.

Það er ekki síst það að menn hafa áttað sig betur á að það er ekki nóg að hafa bara virðinguna heldur þarf líka að skapa traust og umfram allt streitulausar aðstæður. Þá er hægt að láta hrossið gera ótrúlegustu hluti með manninum. Slíkst næst ekki með fautaskap eða harðneskju.

Hitt er annað mál að vel taminn hestur getur þolað keppnisóðum knapa  ótrúlega mikinn þjösnaskap. Þar mætti oft huga betur að um dýravelferð, frekar en þótt binda þurfi upp löpp á illa tömdum og ofdekruðum hesti! (sjá link í fyrri athugasemd)

En virðingin kemur fyrst og það er alveg sama hver tamningaaðferðin er þær byggja allar á því að hræða hestinn í upphafi. (það er að segja þær aðferðir sem virka) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 18:40

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bjarni, þó dýr ráðist oft með grimmd hvert á annað (og jafnvel á dýr annarra tegunda), þá er ekki þar með sagt að menn þurfi að sýna slíkan skepnuskap.

Einnig hefði maður haldið að mannskepnan ætti að hafa eitthvað meira vit í kollinum en flestar eða allar aðrar dýrategudir jarðarinnar og þá vitglóru ætti hann að nota á annan og þróaðri hátt en hinar skepnurnar.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2013 kl. 18:49

14 Smámynd: Rafn Guðmundsson

Bjarni Gunnlaugur: við erum ekki stóðhestar og það á ekki að líða vonda meðferð á dýrum frekar en mönnum.

þú segir - En virðingin kemur fyrst og það er alveg sama hver tamningaaðferðin er þær byggja allar á því að hræða hestinn í upphafi. hér held ég að þú þurfir að nota annað orð en 'virðing'

Rafn Guðmundsson, 26.10.2013 kl. 19:03

15 identicon

Axel og Rafn, þegar ég benti á að dýr geti verið harðneskjuleg hvert við annað þá var ég að mótmæla með rökum þeirri fullyrðingu að virðing í dýraheimum væri ekki fengin með hörðu.

Hvort það "réttlæti" harðneskjulega meðhöndlun við tamningar er allt annað mál,

Mikill áhrifavaldur í breyttum tamningaaðferðum á Íslandi er Hólaskóli. Þeir lágu þó undir því ámæli a.m.k. fyrstu árin að hrossin yrðu "steikt" í höfðinu.  Misstu allt frumkvæði og vilja í endalausu hringsóli inni í reiðhöll. 

Einnig liggur lúmsk hætta í þeirri sálfræði sem oft er notuð á hross sem tamin eru með "manneskjulegum" aðferðum að þeim er boðið upp á tvo kosti. Annar er sá að fara að vilja tamningamannsins en hinn er sá að gera það ekki en lenda þá í miklu meira puði en ella. Menn segja gjarnan að hrossin séu í eðli sínu að leita að auðveldustu leiðinni.    Þarna vill gleymast að hrossinu er eðlilegt að hlaupa. fá vind í faxið, keppa.

Þannig er alveg eins hægt að fara illa með hross með "manneskjulegu" tamningaaðferðunum,ef óvarlega er farið.  Munurinn er sá að þarna er nýðst á sálinni en ekki líkamanum.  

Ég hef enn ekki heyrt MAST eða yfirdýralækni nefna þetta einu orði. 

Það er semsagt hægt að ofgera öllum aðferðum og hæpið að taka eina útúr en skoða ekki allt dæmið.  

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 19:34

16 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég var að sjá þessa mynd á ruv.is (http://ruv.is/frett/yfirdyralaeknir-gagnrynir-tamningaadferd) - mannvonska á háu stig sýnist mér og svo situr fólk þarna og horfir bara á

Rafn Guðmundsson, 26.10.2013 kl. 20:16

17 identicon

Gagna rökræður hér? Myndum við t.d. rökræða fara svona með barn sem við værum að ,,kenna" að sýna virðingu?

Ég held að áhorfendum hljóti að hafa liðið illa að horfa upp á þetta. Enginn þorði að standa upp og stöðva atið, en einn sendi þó myndband til MAST - og hafi hann þökk fyrir. Því hefur verið borið við að það hafi verið svo mikil truflun af áhorfendum sem sátu í kring um hringgerðið. Áhorfendum sem var raðað þar - af þeim sem héldu námskeiðið.

Þetta er kallað að axla ekki ábyrgð á gjörðum sínum.

Hvort það eru fimm mínútur, fimmtán eða fjöritíu og fimm sem ofbeldinu er beitt skiptir ekki heldur meginmáli. Það er ofbeldið.

Nú er í tísku að koma með ,,lausnir" sem hægt er að sýna á einu kvöldi; gagnvart dýrum sem þurfa að fá tíma til að átta sig - og velja síðan sjálf að vinna með manninum.

Með eðlilegum og sangjörnum aðferðum tekur það meira en eitt kvöld - eða tvö.

Ég hef átt og haldið hesta í 39 ár og þar af haft í 35 vetur hesta mína hjá mér og umgengist daglega.

Aldrei - aldrei - myndi ég beita jafn heimskulegri og niðurlægjandi nálgun. Alveg sama hvað hestur væri ,,spenntur" eða ,,erfiður". Þetta er líkamlegt ofbeldi og niðurlægjandi andleg kúgun.

Jú annars heyrið - svona væri beitt í Guantanamo. Það skilar vissulega ,,árangri" að brjóta niður sálir og já, jafnvel ,,byggja" þær svo upp aftur... ganga ekki rökin út á slíka vitleysu?

Ég held að þessi stúlka viti hreinlega ekki betur. Ég trúi því bara ekki að hún láti sig hafa gegn betri vitund að beita ofbeldi, til að öðlast frama eða viðurkenningu. Ef hún verður svo lánsöm að vaxa til eðlilegs þroska sem fullorðin manneskja þá verður það gæfa hennar að geta einn daginn skammast sín - ærlega. Og þá gæti hún orðið að góðum málsvara gegn ofbeldi á hestum.

Óskum henni þess.

Hallgerður Hauksdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2013 kl. 22:38

18 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður er meðvitund Íslendinga ekki í nógu góðu ástandi þegar um dýrnavernd og náttúruvernd viðkemur. Sumum fannst allt í lagi að kvelja og eyðileggja meðan öðrum þykir nóg um.

Tryggva Gunnarssonar (1835-1917) verður einna mest hampað fyrir að vera einn af fyrstu Íslendingum sem lét sig dýravernd varða. Hann var auk þess smiður ágætur og ber að minnast hans sem eins af fyrstu verktökum Íslandssögunnar þegar hann reisti fyrstu brúna yfir Ölfussá við Selfoss. Af bankastjórastörfum hans og stjórnmálamanns fer misjöfnum sögum en dýraverndarinn og garðyrkjumaðurinn Tryggvi stendur í dag einna hæst í huga mínum.

því miður eru ekki allir Íslendingar komnir jafnlangt og samtímamenn Tryggva í umgengni sinni við dýr og náttúru. Mættu þeir athuga betur sinn gang.

Guðjón Sigþór Jensson, 28.10.2013 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband