Hrikalegur misskilningur eða hvað?

Guðbjört Gylfadóttir, starfsmaður Bloomberg í New York, hefur sent frá sér gagnrýni á álframleiðslu þar sem hún finnur greininni allt til foráttu og segir hana á fallanda fæti, ekki síst þar sem framleiðslukostnaður á hvert áltonn sé á þriðjaþúsund dollara en heimsmarkaðsverðið sé nú innan við nítjánhundruð dollarar á tonnið.

Guðbjört heldur því jafnframt fram að Alcoa sé nánast á grafarbakkanum vegna taps á framleiðslu sinni, sem hún segir að sé 30 milljón tonn á ári, en í svari Samtaka álframleiðenda kemur m.a. fram samkvæmt fréttinni:  "Þá segir Samál að Alcoa framleiði 4,2 milljónir tonna af áli á ári en ekki 30 milljón tonn, líkt og fram komi í greininni. „Það munar 26 milljónum tonna og augljóst að greinarhöfundur misskilur algerlega þær upplýsingar sem verið er að skoða.""

Um framleiðslukostnaðinn segir í athugsemdunum:  "Þannig eru um 30 milljón tonn í heiminum framleidd með tilkostnaði sem er undir 2.000 dollurum. Álverið með lægsta framleiðslukostnað í heiminum framleiðir tonn af áli fyrir 1.400 dollara. Það er því ekki um það að ræða að það kosti 1.400 dollara að framleiða ekkert – það er misskilningur hjá höfundi greinarinnar. Reyndar byggir nánast öll umfjöllun hennar í greininni á misskilningi og þekkingarskorti sem er ótrúlegur miðað við menntun höfundar."

Ekkert er við því að segja að fólk hafi mismunandi skoðanir á álverum og annarri stóriðju, en lágmarkskrafa er að gagnrýni sé a.m.k. byggð á lágmarksstaðreyndum og helst réttri túlkun upplýsinga sem fyrir hendi eru, en ekki á misskilningi, rangfærslum og staðreyndafölsunum vegna vanþekkingar á málefninu eða einfaldlega vegna þess að viðkomandi er stóriðjuandstæðingur.

Vonandi kemur Guðbjört með nánari skýringar og rökfærslu fyrir sinni túlkun á málinu fljótlega því annars verður ekkert mark tekið á gagnrýni hennar og hún dæmd dauð og ómerk. 


mbl.is „Nánast allt byggt á misskilningi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samstaða þjóðar

Guðbjört hefur greinilega ekki mikið vit á álframleiðslu. Það er ekki rétt að orkuverð fari hækkandi, því að orkuverð í Bandaríkjunum hefur hrað-lækkað við aukna gas-framleiðslu með “hydraulic fracturing”.

 

Á undanförnum árum hefur notkun á áli aukist hlutfallslega meira en á nokkrum öðrum málmi. Möguleikar áls eru nær ótakmarkaðir og líklega hentar engin málmur betur til endurvinnslu. Á nærstu 10 árum, gerir Alcoa ráð fyrir 6,5% árlegri aukningu í eftirspurn eftir áli. Alcoa er þriðji stærsti álframleiðandi í heimi og ætla má að þeir þekki markaðinn.

 

Það er sérkennilegt við grein Guðbjartrar, að hún leggur fram sönnun þess að hún hafi greitt kr.100.000 til Landverndar, daginn áður en hún skilaði frá sér því sem hún nefnir “massíva rannsóknarvinnu”. Ætlar Landvernd að ráða starfsmann ?

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 29.5.2013 kl. 18:09

2 identicon

úps Moodys var að setja Alcoa í ruslflokk.

Hörður (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 21:34

3 identicon

Rangfærslur, misskilningur, staðreyndafalsanir. þetta segir þú Axel og þá spyr ég, hefur þú legið yfir skýrslum og öðrum gögnum um þessi mál eða tekur þú skýrslu frá álfélugunum eins og einhverjum stórasannleik ég hef séð í öðrum greinum hvernig félögin fegra sitt á allan hátt enda veist þú það eflaust líka. Þannig að best er að segja sem minnst um hverjir fara með rétt eða rangt mál nema fá áliti frá óvilhöllum sem til málsins þekkja og spara stóru orðin þa meðan.

Oli Mar (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 21:53

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í fréttum nú klukkan tíu var sagt að búið væri að setja lánshæfi Alcoa niður í ruslflokk vegna taps fyrirtækisins af völdum verðfalls á áli og offramboðs. Eru þessar fréttir "rangfærslur, misskilningur og staðreyndafalsanir"?

Ómar Ragnarsson, 29.5.2013 kl. 22:37

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Axel,

Álfyrirtækin eiga í erfiðleikum núna vegna fallandi verðs á áli. Rio Tinto, móðurfyrirtæki ÍSAL ákvað fyrir skemmstu að minnka framleiðsluaukningu úr 40 þúsund tonnum í 15 þúsund tonn. Alcoa hefur lýst yfir að þeir ætli að minnka framleiðs...lu álvera fyrirtækisins um 460 þúsund tonn næstu 15 mánuði. Þeir hafa farið í stækkun á verksmiðju í Tennessee sem framleiðir álhluti fyrir bílaiðnaðinn og mun nota um 420 þúsund tonn af áli á ári. Undanfarna mánuði hefur álsala staðið í stað eða minnkað á heimsmarkaði og hefur dregist hvað mest saman í Evrópu. Vonast er til þess að lágt verð á áli hvetji til meiri notkunar og nýjum mörkuðum en það hefur látið standa á sér.

Persónulega finnst mér orðið hættulegt hvað er verið að setja mikið af fjöreggjum Íslands í sömu körfu með sífeldri aukningu á álframleiðslu á Íslandi. Hún skilar ekki verulegum hagnaði til landsins, sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu og er ekki stór atvinnurekandi þegar heildar myndin er skoðuð. Þó svo að það séu miklar útflutningstekjur af áli, þá kemur á móti hár innflutningskostnaður á hráefnum og rekstrarvörum.

Önnur iðnaðartækifæri sem nýta talsverða til mikla orku eru til staðar og geta ekki síður hentað, sérstaklega þar sem orkan er megnið af sölutekjum til viðkomandi iðnaðar, s.s. gagna- og netþjónavera. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki á Íslandi að gera mjög góða hluti á erlendum mörkuðum og ég hef trú á að fleiri munu feta í fótspor þeirra og byggja upp hátækni iðnað til útflutnings hægt og bítandi enda er það besta leiðin til framtíðarhagsældar. Skjótur gróði er ekki alltaf af hinu góða.  Í því sem hefur komið fram, þá sæe ég ekki betur en að Guðbjört hafi haft rétt fyrir sér. 

Loftur:  Ég hef hvergi séð þessa hríðlækkun á orkuverði hérna í Bandaríkjunum.  Bensín og díselolía er að verða eins dýr núna eins og 2008 þegar verðið fór upp úr öllu valdi.  Það er núna komið yfir 4 dollara á gallon hérna, en var hæst rétt undir 5 dollurum um haustið 2008.  Fór reyndar í rúma 5 dollara í Kaliforníu.  Það er hægt að fá nokkuð nákvæmar upplýsingar um orkuframleiðslu og orkuverð hjá US Energy Information Administration.  Alcoa hefur stöðvað framleiðsluaukningu næstu 15 mánuði, þó svo að framleiðendur vonist til að eftirspurn aukist með lækkuðu verði.

Það er alveg hárrétt að fólk verður að afla sér upplýsinga og það gildir um ALLA sem fjalla um málefni líðandi stundar.  Því miður er alltof mikið um að folk gaspri eitthvað út í loftið án þess að hafa nokkrar staðreyndir á bakvið það sem er haldið fram. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 30.5.2013 kl. 03:40

6 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Rétt skal vera rétt.Álverð hefur lækkað að undanförnu vegna minnkandi eftirspurnar (Það er kreppa í heiminum) og eins hafa stórir aðilar eins og Kínverjar verið að auka framleiðslu.Þessi grein er óstöðug en þegar til lengri tíma er litið er áliðnaðurinn í miklum vexti sem skýrist af aukinni notkun í bíla- og flugvélasmíði og fleiri greinum sem aftur kemur til út af aukinni umhverfis og náttúruvernd í heiminum.Ísal hefur dregið úr framleiðslu tímabundið til að mæta stöðunni.Það þýðir ekki að greinin sé á leiðinni í þrot.Olíuríkin hafa líka notað það þegar olíverðið er orðið of lágt að draga úr framleiðslu og ekki eru þessi olíuríki eins og Soudi Arabía og Noregur á hausnum,er það?Mér finnst þessi grein Doktorsins vera full af ónákvæmni.En hins vegar er rétt að huga að fleiru en Álverum í framtíðinni til að hafa ekki öll eggin í sömu körfu.En það þarf að virkja,alveg sama hvað menn gera.

Jósef Smári Ásmundsson, 30.5.2013 kl. 07:55

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Eins og við er að búast, þegar minnst er á álver og aðra stóriðju, eru viðbrögð "rétttrúaðra" hörð og sá sem ekki tekur afdráttarlausa afstöðu gegn hvers kyns virkjunum og iðnaðaruppbyggingu er tekinn föstum tökum í athugasemdum og hinum sama jafnvel gerðar upp skoðanir sem alls ekki ætti að vera hægt að lesa út úr texta hans.

Hvergi var fullyrt að grein Guðbjartrar væri uppfull af "misskilningi, rangfærslum og staðreyndafölsunum" en vegna svars og fullyrðinga Samáls var sagt að umfjallanir um svona stórmál þyrftu að vera lausar við allt slíkt. Eins var sagt að beðið væri eftir nánari útskýringum frá henni vegna þeirra athugasemda sem Samál hefði gert og hrekti hún þær ekki væri hún minni maður en ella. Hún hefur nú gert það og útskýrt ýmislegt af því sem hún sagði í upphaflegum athugasemdum sínum og einnig viðurkennt að hafa misskilið og rangtúlkað línurit sem hún vitnaði til.

Auðvitað á ekki að einblína á álver og aðra stóriðju til atvinnuuppbyggingar á Íslandi, en það á heldur ekki að útiloka allt slíkt því öllum dyrum verður að halda opnum þar sem slíkir vinnustaðir skapa mörg hálaunastörf og mikla þjónustu í kringum reksturinn, jafnvel það mikinn að heilu byggðalögin eiga nánast allt sitt undir slíkum rekstri.

Stóriðja og tilheyrandi virkjanir þurfa að vera inni í umræðunni á hverjum tíma til jafns við "eitthvað annað".

Axel Jóhann Axelsson, 30.5.2013 kl. 09:00

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Arnór,ég er sammála þér að það á að ræða þessi mál af meiri skynsemi en hingað til,af báðum aðilum.En Þetta "eitthvað annað" gæti t.d. verið Stóriðja sem byggist á Ál og Stáliðnaðinum sem fyrir er í landinu,þ.e. fullvinnsla.Kosturinn við slíkt er að þar er ekki verið að flytja inn hráefnið heldur auka virðisaukann á álinu og stálinu áður en það er flutt út.Annar kostur ,að það styður við undirstoðir Álveranna og járnblendifélagið.

Jósef Smári Ásmundsson, 30.5.2013 kl. 09:17

9 identicon

"Eins og við er að búast, þegar minnst er á álver og aðra stóriðju, eru viðbrögð "rétttrúaðra" hörð og sá sem ekki tekur afdráttarlausa afstöðu gegn hvers kyns virkjunum og iðnaðaruppbyggingu er tekinn föstum tökum í athugasemdum og hinum sama jafnvel gerðar upp skoðanir sem alls ekki ætti að vera hægt að lesa út úr texta hans."

Það er nú ekki mikið betra á hinn veginn heldur, Axel. Umræðan er að miklu leyti mjög óskynsöm og heiftarleg á hvorn veginn sem er, t.d. eru umhverfisverndarsinnar oftar en ekki kallaðir hryðjuverkamenn, öfgamenn o.s.frv. Ég hef ekki séð jafn mikið um uppnefni á hinn veginn þó umræðan geti verið mjög óvægin.

Skúli (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 14:19

10 Smámynd: Samstaða þjóðar

Hvað segir meðfylgjandi línurit um breytingar á raforkuverði ?

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 1.6.2013 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband