"Lygari og rógtunga"

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, hyggst kæra Davíð Þór Jónsson, guðfræðing, fyrir meiðyrði vegna greinar á bloggi Davíðs Þórs sem hann birti daginn fyrir forsetakosningarnar undir heitinu "Að kjósa lygara og rógtungu" og var beint gegn framboði ÓRG.

Eftir langa reynslu úr pólitíkinni verður að segjast að Guðni er orðinn ansi meir og viðkvæmur fyrst þessi skrif, þó harðorð séu, fara svona fyrir brjóstið á honum og virðist umhyggjan ekki síst vera vegna ótrúlegs dálætis Guðna á átrúnaðargoðinu Ólafi Ragnari Grímssyni.

Ekki verður séð í fljótu bragði hvað það er í grein Davíðs Þórs sem flokka mætti undir meiðyrði, en þar er bent á nokkrar staðreyndir um kosningabaráttu ÓRG og ýmsa framgöngu í embætti forseta og þó skýrt sé til orða tekið verður áreiðanlega erfitt að fella innihald greinarinnar undir meiðyrðalöggjöfina.

Hægt er að taka undir flest sem Davíð Þór segir, þó ekki allt, en framganga ÓRG allan hans stjórnmála- og forsetaferil hlýtur að mega ræða á ómengaðri íslensku, enda býður ferill þessa kamelljóns upp á kjarnyrtar umræður.

Því verður illa trúað að Guðni láti verða af hótun sinni um málaferli og enn síður að Davíð Þór fengi dóm á sig fyrir þessa grein.


mbl.is Davíð svarar Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefði verið til þæginda ef þú hefðir gefið tengil á þessa umtöluðu grein.

Þakkir fyrir færsluna

Agla (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 14:41

2 identicon

"Batnandi manni er best að lifa", kom upp í huga mér þegar ég las þennan pistil Axels.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 14:49

4 identicon

Maðurinn sem ber áfram lygar og rógburð er jafn sekur þeim sem býr hann upphaflega til. Þetta veit hinn siðfræði- og guðfræðimenntaði, en siðlausi, Davíð Þór. Að halda öðru fram er eins og að segja að þjófsnautur sé ekki sekur, aðeins þjófurinn, eða að vitorðsmaður morðingja sé alsaklaus. Sá sem elskar sannleikann, fer ekki með ljót orð hvers sannleiksgildi hann hefur ekki fullreynt, og elski hann ekki sannleikan skal hann ekki þyggja tekjur frá ríkinu fyrir að þykjast boða hann. Slíkan mann á að svipta lifibrauði sínu, og afþví hann svipti annan mann því, er rétt að svipta hann mannorði sínu, og kallist hann héðan af mannorðsmorðingi og lygari og rógberi sjálfur. Því það er það sem hann er. Hann sá ekki bjálkann í eigin auga, og sannaði þannig hann gengi ekki á vegum Krists.

Guðmundur Jónsson (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 16:29

5 identicon

Auk þess að þakka Guðna Ágústssyni röggsemina að kæra slúðurberann og lygarann, þá vil ég skora á hinn nýkjörna biskup Íslands að Frú Biskup sýni og sanni fyrir alþjóð að hin gamla þjóðkirkja, sem leyfði siðleysi og spillingu að grassera innan sinna veggja, tilheyri fortíðinni, en nú hafi tekið við endurnýjuð, hreinsuð og öflug kirkja, sem geri háar siðferðilegar kröfur til starfsmanna sinna og ætli að vera það siðferðilega leiðarljósi í lífi landsmanna sem Guð ætlaði kirkju sinni að vera. Það gerir hún með því að reka þennan mann. Geri hún það ekki, þá sýnir hún að hún líður spillingu líkt og fyrrverandi biskup, og fátt hafi breyst, og rænir þjóðina þannig vonarneista sínum. Megi hún velja það sem rétt er, og hafa djörfung og heiðarleika til að reka þann sem hefur brotið siðareglur kirkjunnar, boðorð Guðs og gegn siðferðiskennd allra góðra manna.

Guðmundur Jónsson (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 16:36

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, hefur þú lesið pistil Davíðs Þórs? Hann rökstyður einmitt mál sitt með ýmsum dæmum. Þú hrekur ekkert þeirra í þínum athugasemdum, en staðhæfir bara að hann sé lygari og rógberi. Á hverju byggir þú það?

Axel Jóhann Axelsson, 6.7.2012 kl. 18:19

7 identicon

Ég las pistil Davíðs Þórs Axel Jóhann. Hef oft verið sammála þér og stundum Davíð Þór en þarna fannst mér hann fara yfir strikið. Ég kann aldrei við svona ljótan og illgjarnan málflutning, hvað þá hjá kirkjunnar þjóni sem sinnir ungmennum að auki.

Það má deila um hvort kæra er rétta leiðin en full ástæða er til að vekja athygli á að svona framkoma er óásættanleg sómakæru fólki.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 20:25

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Forseti Íslands er samkvæmt stjórnarskrá verndari þjóðkirkjunnar.Þegar einhver starfsmaður þjóðkirkjunnar segir þennan verndara þjóðkirkjunnar lygara og rógtungu án nokkurs tilefnis, þá hlýtur þeim starfsmanni að verða sagt upp strax.Að öðrum kosti er íslenska þjóðkirkjan aðhlátursefni.En að þessi maður skyldi vera ráðinn, með tilliti til fortíðar hans og fyrri starfa er ekki síður umhugsunarefni.Biskupinn hlýtur að ganga í það að maðurinn verði rekinn og það strax.

Sigurgeir Jónsson, 6.7.2012 kl. 21:11

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ekki þarf að spyrja að því hvernig dómur myndi falla af forsetinn kærði þennan  starfsmann kirkjunnar fyrir meiðyrði.En að sjálfsögðu leggst forsetinn ekki svo lágt að kæra þennan auma starfsmann, sem hann sjálfur á að vernda sem verndari þjóðkirjunnar.Davíð Þór á að sjá sóma sinn í því að segja sjálfur upp áður en hann verður rekinn.

Sigurgeir Jónsson, 6.7.2012 kl. 21:17

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurgeir (og fleiri), hvað er það í þessum skrifum Davíðs Þórs um ÓRG er rógur og lygi. Hann bendir á nokkur dæmi í pistli sínum um það sem ÓRG hefur sagt og gert og sýnir fram á að hann hefur í þeim tilfellum orðið tvísaga, eða hreinlega farið með rangt mál.

Hvernig á að vera hægt að dæma Davíð Þór fyrir meiðyrði? Með hvaða rökum ætti að vera hægt að reka hann úr starfi?

Axel Jóhann Axelsson, 6.7.2012 kl. 21:55

11 identicon

Þú hefur greinilega kosið Þóru í forsetakosningunum Axel Jóhann. Það er hægt að virða og þarf ekki að ræða frekar.

En að andstæðingur eins frambjóðanda, hvort sem sá frambjóðandi er sitjandi forseti eður ei skrifi pistil daginn fyrir kosningar og tali um að viðkomadi sé ljúgandi skunkur og rógtunga sem sparki í fæðandi konur o.s.frv. er of langt gengið. Punktur.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 22:19

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigrún, ég kaus Þóru ekki og ÓRG ekki heldur. Það kemur hins vegar þessu máli ekki við. Ef því er haldið fram að Davíð Þór hafi farið með meiðyrði verður að benda á þau og sýna fram á að um róg hafi verið að ræða. Tilfinningar skipta engu í slíku, staðreyndirnar gilda.

Axel Jóhann Axelsson, 6.7.2012 kl. 22:48

13 Smámynd: Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson

Greinilegt að það fólk sem tjáir sig mest um þetta mál hefur ekki nennið í að lesa grein Davíðs í heild sinni og slengir fram sleggjudómum. Og síðan hvenær varð ÓRG svona heilagur?

Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson, 6.7.2012 kl. 23:19

14 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Eðvarð, maður þarf ekki að vera heilagur ,þótt farið sé fram á að henn njóti sannmælis.

Helga Kristjánsdóttir, 7.7.2012 kl. 01:36

15 identicon

Ég vona að Guðni fari í mál til þess eins að sjá hann gera sig að fífli.

Það yrði enn vandræðalegra en þegar hann var myndaður við óvenjuleg atlot við beljur.

valdimar (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 02:54

16 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Helga, það vantar alveg að ummælum Davíðs Þórs sé andmælt efnislega, a.m.k. hafa ekki birst hér neitt til að sýna fram á að hann hafi sagt eitthvað beinlínis rangt um ÓRG, orð hans og gerðir. Svör virðast aðallega byggjast á einhverri tilfinningasemi og að ekki megi gagnrýna ÓRG eins og aðra dauðlega menn.

Að sjálfsögðu þarf umræðan að fara fram án gífuryrða og auðvitað má segja að Davíð Þór hafi þar dansað á línunni, en varla hægt að segja að hann hafi farið út af henni.

Greinin var harðorð en í fljótu bragði er ekki hægt að sjá annað en það sem hann segir um ÓRG sé rétt og byggt á staðreyndum.

Axel Jóhann Axelsson, 7.7.2012 kl. 08:52

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Eðvarð, það er auðvitað leitt ef fólk tjáir sig um grein Davíðs án þess að hafa lesið hana, en aftur á móti er greinin þvílíkur sori að ég vara alla sem er annt um geðheilsu sína við því að lesa hana. Það er auðvelt að hrekja rökvillur Davíðs og ekki rétt að enginn hafi gert það. Hér er t.d. athugasemd sem ég leyfi mér að birta af bloggsíðu Davíðs Þórs, þar sem dellan er hrakin ágætlega.

Brynjólfur Þorvarðarson

Davíð, ég skrifaði innlegg við fyrri hugleiðingu þína um umræðuna og er núna búinn að hlusta/horfa á fréttir Svavars og annarra varðandi ummæli ÓRG um að hætta hugsanlega áður en kjörtímabili lýkur.

Ein frétt Svavars (í útvarpsfréttum 4. mars) er vægast sagt furðuleg, sérstaklega í ljósi þess að eiginkonan átti eftir að bjóða sig fram. Nú má vel vera að slík ákvörðun hafi ekki legið fyrir 4. mars, væntanlega hefur hún þó verið uppi á borðinu. En jafnvel án þess er frétt Svavars mjög furðuleg og áróðurskennd. Aðrar fréttir Svavars um þetta mál, t.d. 20. mars, sýnist mér í góðu lagi.

En ég get ekki séð neinn grundvöll stóryrða þinna í pistli þínum frá 29. júni þar sem þú kallar ÓRG “lygara”, “rógtungu”, að hann “byggir kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi”, “óvefengjanlegt að hann [byggir] kosningabaráttu sína á lygum og rógi”, líkir starfsaðferðum hans við að “sparka í fæðandi konu”, hann hafi “ráðist að starfsheiðri” Svavars með “bláköldum lygum” og annað eftir þessu. Stórar fullyrðingar og auðvitað alvarlega ærumeiðand (var einhver að nefna Kvíabryggju?) og, við nánari lestur, einstaklega illa rökstuddar.

Varðandi það sem þú nefnir í lið 2) í pistli frá 29. júní þá er það frétt Svavars frá 4. mars sem stillir framboði ÓRG upp sem andóf við sitjandi ríkisstjórn. Fréttin byggir á getgátum einhverra spekinga. Í ljósi síðari atburða virðist þessi tiltekna “klípa” vera komin frá “herbúðum” Þóru – ef hún hefur snúist upp í andstöðu sína síðar þá er það varla ÓRG einum að kenna? Þetta kallar þú “lygi” frá ÓRG, orðaval sem dæmir sig sjálft.

Í lið 3) vísarðu í þriðja aðila sem á að hafa “rekið öfugt ofan í ÓRG” það sem þú kallar árás á starfsheiður Svavars með “bláköldum lygum”. Eftir að hafa hlustað á umræddan þátt sé ég engar lygar, en vissulega gagnrýni á hlutleysi maka forsetaframbjóðanda. Fréttaflutningur Svavars frá 4. mars er vægast sagt furðulegur.

Í lið 3) vísar þú ennfremur til liðar 5) til að rökstyðja að Ólafur hafi gerst sekur um að ljúga varðandi fullyrðingu um að hafa ætlað að sitja “í tvö ár”. Liður 5) staðfestir ekki að um “lygar” sé að ræða. Hann opnaði fyrir það að sitja ekki út kjörtímabilið í upprunalegri yfirlýsingu en lýsti því aldrei yfir að hann myndi ekki sitja út kjörtímabilið. Tvö ár eru aldrei nefnd af honum í yfirlýsingunni (og heldur ekki í fréttum Svavars). Orð ÓRG í viðtali í Sprengisandi eru ekki lygar í neinum skilningi þess orðs.

Í lið 4) beitirðu ómerkilegri brellu. Hér er ekki um lygar að ræða í neinum skilningi þess orðs heldur fullyrðing sem stenst allar sannleikskröfur. ÓRG segir ekki meira en að hann geti vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú staðreynd að sum lög þurfi hvort eð er að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu gerir hann ekki að lygara. Vantar þig kannski orðabók, Davíð?

Þú mátt auðvitað skrifa það sem þig sýnist og þó þú farir, að því er virðist, vel út fyrir þau mörk sem löggjafinn setur varðandi ærumeiðingar þá vona ég svo sannarlega að þú fáir að halda áfram að skrifa eins og þú gerir. En ekki verða hissa á því að menn bregðist við skítkasti með skítkasti.

Theódór Norðkvist, 7.7.2012 kl. 10:20

18 identicon

Það er langt síðan ég fékk upp í kok af pistlum frá Davíð Þór sem sýndu hann sem sjálfumglaðan besservisser sem talar með rassgatinu á sér.

Hef því ekki lesið þennan fræga pistil og ætla mér ekki að gera það.

Skjöldur (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 10:54

19 Smámynd: Elle_

Pistillinn var ógeðsleg lyga- og rógsaga út í gegn.  Og kemur ekki á óvart frá hinum svokallaða rithöfundi.  Höfundi sorans.

Elle_, 16.7.2012 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband