Pálmi í snú - snú

Krakkar hafa gaman af að leika sér í snú - snú og sá vinnur leikinn sem lengst getur hoppað án þess að bandið flækist í fótum hans. Banka- og útrásargengin iðkuðu einskonar fjármálalegt snú - snú, sem fólst í alls kyns vafasömum lánavafningum, peningafærslum milli tuga eða hundraða leynifélaga um allan heim og milljarða arðgreiðslum til sjálfra sín, án þess að hafa nokkurn tíma lagt fram eigið fé eða ábyrgðir.

Pálmi í Iceland Express er enn að leika alls kyns fjármálalegt hopp og hí og eftir að hafa náð að "bjarga" IE og flugfélaginu Astraeus út úr Fons með laufléttu snú - snú, rétt fyrir gjaldþrot þess félags, hafa bæði félögin ásamt Ferðaskrifstofu Íslands hoppað í snúningsbandinu og tekist að halda sér á lofti þangað til Astreus flækist nú í sveifluspottanum og flýgur beint á hausinn.

Svo "heppilega" vill þó til að sama dag og Astraeus verður þessi fótaskortur hefur tékkneskt flugfélag áætlunarflug fyrir IE, en þar sem það félag hefur ekki leyfi til Ameríkuflugs er sú áætlunarleið "tekin til endurskoðunar" samdægurs og tilkynnt að allt sé óvíst um framhaldið og viðskiptavinir sem ætluðu með félaginu vestur um haf næstu mánuði, verði einfaldlega sendir með Icelandair.

Vonandi mun hrun Astraeus ekki koma illa niður á farþegum IE. Einhvern tíma hefði svona snúningur verið kallaður "handstýrt gjaldþrot", en líklega mun enginn kippa sér umm við svona leikfléttur lengur.


mbl.is Astraeus komið í slitameðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dexter Morgan

Er þetta "flugfélag" (IE) ekki bara í dauðaslitrunum líka. Það er í einhverskonar öndunarvél og menn, þar með taldir farþegar og viðskiptavinir félagsins, vita ekkert hvað er að gerast frá degi til dags. Einhverntímann hefði sú tilfinning verið nóg til að slátra svona viðskiptum og jafnvel þó minni væru í umsvifum. Ef þetta væri ekki fyrir samkeppnina og þessi lágu verð sem farþegar geta nýtt sé (svo fremi að það sé til flugvél), þá myndi ég óska þessu fyrirtæki beina leið norður og niður. Og þar er þessi "snú-snú" meistari, Pálmi í Fons aðal-leikarinn.

Svo ætti nú að vera spurning, fyrir sæmilega þroskað fólk að spyrja sig "vil ég fljúga með Tékknezkum flugvélum",,,,eee, NEI.

Dexter Morgan, 21.11.2011 kl. 21:55

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Aumkunnarverðir þóttu mér tilburðir blaðafulltrúa ferðaskrifstofunnar "Iceland Express" í að koma fyrir almenningssjónir og segja það kinnroðalaust, að gjaldþrot Astreus og "nýgerður" samdægurssamningur við tékkneskt flugfélag tengdust ekki með nokkru móti! Hélt að Heimir Már væri meiri maður en svo, að láta nota sig sem druslu í vonlausu plotti Pálma Haraldssonar um fjarstýrt peningaplokk á samlöndum sínum. Er þetta ekki barasta orðið nóg "mister Haraldsson"?

Markaðsátak IE næstu daga og vikur snýst um það eitt að reyna að selja sem flest sæti í ferðir sem aldrei verða farnar. Helst sem lengst fram í tímann. Er það virkilega svo, að hérlendingar séu ekki enn farnir að sjá í gegnum plottið? Ef ekki, góða ferð kæru landar, hvert svo sem ferðinni er heitið.

Halldór Egill Guðnason, 22.11.2011 kl. 02:55

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það var ekki verra fyrir IE að eiga þetta tékkneska flugfélag að, svona vel tímasett við gjaldþrot Astreus. Hverjir skyldu annars eiga hluti í því tékkneska?

Kolbrún Hilmars, 22.11.2011 kl. 13:32

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það voru ýmsir sem vöruðu við því að fólk keypti flugmiða með IE til Bandaríkjanna þegar félagið fór að auglýsa Ameríkuflugið með margra mánaða fyrirvara. Nú er komið í ljós að þær efasemda- og viðvörunarraddir áttu fullan rétt á sér.

Fólk, sem búið er að kaupa farmiða með IE til Bandaríkjanna n.k. Föstudag, fær engin svör frá félaginu um hvort, eða hvernig, það muni komast á leiðarenda. Þeir miðar voru keyptir með löngum fyrirvara, en í dag var engin svör að fá um hvort þetta fólk þarf að sitja heima, eða hvað IE hyggst gera í málinu. Svona viðskiptahættir eru auðvitað ekki boðlegir og reyndar algerlega til skammar.

Axel Jóhann Axelsson, 22.11.2011 kl. 19:21

5 Smámynd: Jón Óskarsson

Ég var að reyna að leita uppi upplýsingar um eigendur þessa Tékkneska félags en sá ekki.  Það væri fróðlegt að kafa nánar ofan í það.

Hins vegar vakti það athygli mína að meginhluti stjórnar félagsins sem sér um flug fyrir WOWair, er frá Litháen og restin frá Eistlandi.  Allir millistjórnendur koma sömuleiðis frá þeim slóðum.   Með fullri virðingu fyrir þeim og þessu félagi, þá gat maður ekki varist því að velta fyrir sér hvort Litháíska mafían sem hefur verið iðin við kolann hérna sé að koma sér upp þægilegum ferðamáta til og frá landinu ?

AvionExpress komst á árinu 2010 í eigu franskt fjárfestingarfélags sem heitir "Eyjafjoll SAS".    Skemmtileg tenging hér og gaman væri að skoða þetta líka dýpra..

http://avionexpress.lt/about-us

Jón Óskarsson, 23.11.2011 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband