Glæsilegt varðskip, en hefur Gæslan efni á að reka það?

Varðskipið Þór, sem var að koma til landsins, er stórglæsilegt og vel útbúið skip og með komu þess er í raun stigið risaskref inn i nútímann, því hátt í fjörutíu ár eru síðan nýtt varðskip bættist í flotann.

Þó gömlu varðskipunum hafi verið vel við haldið og séu í ágætu ástandi, eru þau börn síns tíma og standast ekki lengur þær kröfur sem gera þarf til eftirlits- og björgunarstarfa við landið, enda þau skip sem hugsanlega þarf að aðstoða miklu stærri og þyngri en skip voru almennt fyir nokkrum áratugum.

Aðalvandamálið við útgerð varðskipanna undanfarin ár hefur verið fjárskortur Landhelgisgæslunnar og stundum hafa skipin legið við bryggju í Reykjavík vikum, eða mánuðum, saman af þeim sökum. Undanfarin sumur hafa skipin verið leigð til verkefna í suðurhöfum, af þeirri einföldu ástæðu að gæslan hefur ekki haft fjárveitingar til þess að gera þau út sjálf.

Landhelgisgæslan hefur í raun verið í algeru fjársvelti og hvorki haft efni á að gera varðskipin út, eða halda þyrlum sínum gangandi. Fram til þessa hefur þessi rekstrarmáti sloppið fyrir horn án þess að skaði eða manntjón hafi hlotist af, en enginn getur þó sagt fyrir hvað gæti gerst með sama áframhaldi.

Vonandi þarf Þór, nýja og glæsilega varðskipið, ekki að prýða bryggjur Reykjavíkur mánuðum saman ár hvert í framtíðinni.


mbl.is Um borð í Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Axel, líst þér á að vinna á afturenda þessa skips, í stormi og stórsjó, gömlu skipunum

var lokað að aftan vegna slys við björgun Vikartinds.

Aðalsteinn Agnarsson, 28.10.2011 kl. 20:22

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Við skoðun á skipinu undraði ég mig reyndar á því, hvað þetta var stórt, opið og óvarið. Einhver skýring gæti þó verið á því, sem landkrabbi eins og ég átta mig ekki á.

Axel Jóhann Axelsson, 28.10.2011 kl. 20:28

3 identicon

Kannski er vandinn sá að við erum enn með sömu viðmið bæði um viðbúnaðarstig og kostnað og við höfðum þegar herinn var á landinu. Hann sá þó að mestu um þyrluviðbúnað, sem er kostnaðarsamasti þátturinn og að hluta um eftirlitsflug.

Það er áhugavert að bera saman viðbúnað landhelgisgæslunnar hér og strandgæslunnar í Noregi. Norðmenn eru (eftir því sem ég kemst næst) með 6 eftirlitsflugvélar (P-3) og 16 (Lynx og Sea King) björgunarþyrlur fyrir alla landhelgina, auk þess sem grípa má til þyrla hersins ef mikið liggur við. Þeir ætla brátt að endurnýja þyrluflotann og fjölga þyrlum upp í allt að 22 en við munum þá kaupa þyrlu í samfloti og koma flotanum upp í heilar þrjár.

Skipakostur norðurdeildar norsku strandgæslunnar telur svo níu skip: Einn ísbrjót sem getur borðið tvær þyrlur um borð (Svalbard), tvö björgunarskip sem líkjast Þór (Harstad og Barentshav), þrjú 3000 tonna eftirlitsskip sem geta borið þyrlu (Nordkapp-flokkur) og þrjú 750 tonna eftirlits- og björgunarskip til að nota nær ströndum (Nornen flokkur).

Það segir sig sjálft að annað hvort eru Norðmenn að ofmeta þörfina fyrir viðbúnað eða við að vanmeta.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 21:37

4 identicon

Tek undir orð Axels Jóhanns um rekstur og rekstrarkostnað Gæslunnar. Ef maður ræðir við sjómenn, einkum á þeim skipum, sem gerð eru út allt árið, svo sem togurum, línuveiðurum og öðrum ámóta, þá er einróma álit þeirra það, að "við þurfum ekki á herskipi að halda hér við land, við þurfum að hafa tryggt að alltaf séu tvær þyrlur tilbúnar, allan sólarhringinn". Skip er svo miklu takmarkaðra við björgunarstörf en góð og öflug þyrla.

Ellilífeyrisþegi (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 21:39

5 identicon

Ég skoðaði skipið í gær og ég verð að segja að þetta er glæsilegt skip og  mjög fullkomið. Skipið er alls ekki takmarkað við björgunarstörf, það er í því mjög öflugt spil sem getur skipt sköpum í strandi  eða til að draga vélavana skip. Þarna er einnig stórt spil sem er með olíuflotgirðingu sem og einskonar ryksugur eða kústar sem dæla olíunni upp í skipið. Í brúnnir er hitamyndavél sem sér allt í sjónum sem gefur frá sér hita og var gaman að sjá hitamyndir af bílunum sem keyrðu framhjá. En auðvitað þurfum við líka að hafa þyrlur. En skip er líka nauðsyn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband