Áfellisdómur yfit lögfræðistétt landsins og þeim "forsjálu" í fjármálum

 

 Steingrímur J. Sigfússon, segir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána vera mikinn áfellisdóm fyrir íslenska fjármálakerfið og má það til sanns vegar færa.  Þetta er ekki síður mikill áfellisdómur yfir allri lögfræði í landinu, sem aldrei hefur gert athugasemd við þetta lánaform, fyrr en eftir Hæstaréttardóminn. 

Nú koma fram á sjónarsviðið allir lögfræðingar og fræðimenn, sem vettlingi geta valdið og segja, að algerlega sé ljóst, að það hafi verið skýlaus vilji löggjafans, að ekki mætti tengja lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra mynta, þó ekki hafi tekist að orða það nógu skýrt í lagatextanum sjálfum.  Skuldarar lánanna gerðu heldur enga athugasemd við þau á meðan gengið var að styrkjast óeðlilega og fóru ekki að draga löglegt gildi þeirra í efa, fyrr en eftir gengishrun. 

Auðvitað vissu allir, sem tóku þessi lán, að þeir væru að skrifa undir verðtryggðan höfuðstól, þó enginn ætti von á því að gengið hryndi eins mikið og raun varð og engum datt í hug á þessum tíma að gengistryggingin væri ólögleg.  Allir lögfræðingar landsins virðast hafa brugðist gjörsamlega í málinu, þeir sem starfa hjá lánastofnunum og sömdu skilmálana, lögmenn Fjármálaeftirlitsins, sem annað hvort heimiluðu þessi lán, eða gerðu a.m.k. ekki athugasemdir við þau, lögmenn sýslumannsembætta, sem samþykkt hafa vörslusviptingu og jafnvel úrskurðað fólk gjaldþrota á grundvelli vanskila á þessum lánum.  Síðast en ekki síst er þetta áfellisdómur yfir lögfræðiprófessorum og öðrum lagakennurum háskólanna, en aldrei hefur heyrst frá þeim efasemdarrödd um lögmæti þessarar gerðar útlána og eignaleigusamninga.

Þannig að ef ekki kemur lögleg verðtrygging í stað ólöglegrar gengistryggingarinnar munu væntanlega margir þurfa að þola málshöfðun vegna afglapa í starfi og verða jafnvel krafðir skaðabóta vegna tjóns, sem fólk hefur orðið fyrir vegna þessa. 

Allir vita, að lán hefðu aldrei verið veitt með þessum vaxtakjörum, nema vegna verðtryggingarinnar og þess vegna hlýtur sú spurning að vakna, hvort þau gildi, verði niðurstaðan sú að höfuðstóll lánanna skuli talinn vera óverðtryggt lán.  Ýmsir lagaspekinganna, sem ekkert höfðu um þessi lán að segja fyrir Hæstaréttardóminn, túlka hann nú sem svo að þetta séu bara óverðtryggð lán með lágum vöxtum, þ.e. að segja nánast gjöf, en ekki lán.

Standi þetta þannig að þeir sem tóku glannalegustu lán sem fyrirfundust á markaðinum, standi uppi með hagstæðustu lán, sem sögur fara af á vesturlöndum, þá mega þeir fara að naga sig í handarbökin, sem forðuðust þessi lán eins og heitan eldinn og völdu að taka verðtryggð lán í íslenskum krónum.  Þeir munu þá tapa á "forsjálni" sinni en glannarnir græða vel. 

Þá er þessi niðurstaða á við góðan lottóvinning fyrir þá sem óvarlega fóru í fjármálum, en að sama skapi áfellisdómur yfir hinum "forsjálu" í fjármálum.


mbl.is Meiriháttar áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sammála þér nafni.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.6.2010 kl. 14:22

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Axel mér finnst þú fara full mikinn í þessari færslu. Það vill svo til að ég var einn þeirra sem leitað var til til þess að meta lögmæti gengistryggðra lána. Ástæða þess var reglugerð með lögunum sem ég áður hafði ekki séð. Mér fannst þessi reglugerð afdráttarlaus. Ég er nokkuð viss um að meginþorri lögmanna hafði áður ekki lesið reglugerðina, sem eflaust er hægt að gagnrýna lögmenn í lánastofnunum fyrir.

Önnur ástæða fyrir því að gera athugasemd við hækkun lána af hendi lántakenda er hvernig bankarnir sjálfir tóku stöðu gegn  krónunni. 

Flestir þeir sem tóku gengislán hafa verið varaðir við að einhver hækkun gæti komið á gengislánin. 10-30 % vegna breytinga á gengi. Ef þú hefur séð hrunið fyrir þá ert þú einn fárra sem slíkt hefur séð, og að hækkun yrði á gengi yfir 100% sáu enginn fyrir sem ég hef heyrt um. 

Sigurður Þorsteinsson, 18.6.2010 kl. 14:42

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, ég sá ekki fyrir að allt bankakerfið myndi hrynja á einu bretti, en ég gerði mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því, að gengi krónunnar væri allt of hátt og átti von á allt að 50% falli.  Það dugði mér algerlega til að láta mér ekki detta í hug að taka gengistryggt lán, allra síst lán til fárra ára.  Húsnæðislán til 40 ára, með gengistryggingu, var ekki eins mikil áhætta, þar sem gengið fer alltaf að lokum í "raungengi", en sveiflurnar geta hins vegar verið miklar, en allt jafnast þetta út að lokum, þannig að löngu lánin gátu verið í lagi, en nokkurra ára bílalán voru algerlega galin.

Þú nefnir ekki hvenær þú varst fenginn til að meta lögmæti gengistryggðu lánanna og þú telur að meginþorri lögmanna hafi ekki lesið reglugerðina, ekki einu sinni lögmenn lánastofnananna.  Það var nú akkúrat það sem ég var að gagnrýna lögfræðistéttina fyrir.  Hún hafði greinileg ekkert kynnt sér þessi mál, ekki einu sinni Lögfræðistofnun Háskóla Íslands, að því er virðist, a.m.k. lét hún ekkert álit í ljós, frekar en prófessorar, lektorar og hvað annað lögfræðikennarar eru titlaðir við háskóla landsins.  Ekki einn einasti lögfræðingur lét frá sér heyra um málið síðustu níu ár, þó allir hafi þeir gluggað í lögin og reglugerðirnar núna síðustu dagana.

Þess vegna er þessi dómur áfellisdómur af alvarlegra taginu yfir lögfræðistétt landsins.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 14:55

4 identicon

Vissulega sagði enginn neitt við þessu á meðan allt lét í lyndi.  Staðreyndin er hinsvegar sú að þessi lán hérlendis voru fjármögnuð með erlendum lánum frá bönkum út í heim.  Þau lán báru mjög lága vexti og gáfu bönkum svigrúm til að leggja ennþá meiri vexti á lánin.

Tökum einfallt dæmi.  

Ég á lánafyrirtæki sem heitir pottur.  Potti stendur til boða að taka lán
a) erlendisfrá með 2% vöxtum og lána þau hérlendis með 10% vöxtum.
b) lán frá viðskiptabönkum hérlendis á 4-5% vöxtum verðtryggð og selja þau svo áfram með 8-10% vöxtum sum verðtryggð og sum ekki.

Ég hefði því val á milli þess að lána með 8% vaxtaálagi og taka ekki neina áhættu á gengi eða verðlagi eða lána á 4-6% og taka á mig áhættu vegna verðtryggingar í þeim tilfellum sem ég lánaði óverðtryggt ( en raunin var að þorri bílalána voru óverðtryggð .

Hvor möguleikinn væri meiri freistandi fyrir þig ?

Bankarnir og lánafyrirtækin seldu erlendulánin sem það flottasta síðan skorið brauð var fundið upp því þau græddu á tá og fingri á þeim á meðan allt gekk upp og ráðgjafar og starfsmenn fyrirtækjanna blekktu viðskiptavini og töldu þeim  trú um að þau væru hægkvæmastaog besta lausnin.

Þar liggur síðan ábyrgð bankanna að þeir brutu lög til þess að auðgast á þeim.  Þetta kallast með öðrum orðum efnahags og auðgunnarbrot og þau gætu varðað sektum og/eða fangavist í sumum tilfellum.

Vissulega hefðu lánin ekki verið veitt þar sem forsendan fyrir því að þau gætu gengið upp var ekki fyrir hendi öðruvísi.  En aðferðin sem þurfti að beita til að lánin gætu gengið upp var ólögleg.  Hún var ólögleg afþví að stjórnvöld töldu ríka ástæðu fyrir því að vernda almenning sem ekki þekkir hagfræði og lög jafn vel og þú fyrir því að gera slíkgrundvallar mistök.

Engar lagalegar forsendur eru fyrir því að breyta lánunum í verðtryggð lán og slík aðgerð væri aðför gegn tilgangi bannsins í sjálfum lögunum.  Þetta klúður skrifast því alfarið á bankanna og ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni ekki grípa til aðgerða þeim til bjargar.

Ábirgðin ( semsagt þeir sem taka svo skellin af þessu ) eru lánveitendur erlendisfrá sem lánuðu peningana til landsins ss. Deutche Bank og fleiri en þeir munu þurfa að bera ábyrgð á því að hafa ekki kannað hvort tilætluð notkun á lánsfé frá þeim væri lögleg.

Þeir lánveitendur hafa í flestum tilfellum nú þegar afskrifað skuldirnar og selt ríkisbönkunum kröfurnar á um 30-40% af upphaflegu virði þeirra og því hefur tapið þegar verið bókfært.

Að ætla að verðtrygging eða annað form tryggingar taki við er því óþarfi þar sem fjárhæðin sem það myndi skila færi ekki í neitt nema vasan á lánafyrirtækjum og bönkunum.  Og villtu núna fara að verðlauna þá sem brutu lögin með því að verðtryggja skuldirnar fyrir þá ?

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 16:51

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Arnar, þessir vaxtamunaútreikningar eru algjört rugl, því enginn banki hefði grætt á því að taka erlent lán með 2% vöxtum og endurlána það með 8-10% vöxtum á óverðtryggt lán og ekki heldur á verðtryggð lán, því bankinn hefði þurft a.m.k. 100-200% fleiri krónur til að kaupa þann gjaldeyri, sem hann hefði þurft til að endurgreiða sínum erlenda lánadrottni.

Það, að núna skuli vera búið að dæma gengistryggingu lána ólöglega, skapar gífulegt gengistap fyrir lánafyrirtækin, svo ekki er víst að þau öll þoli það og verða jafnvel gjaldþrota.

Að öðru leyti tekur því ekki að eyða fleiri orðum í þessar hugrenningar þínar, enda byggðar á algjörlega snarvitlausum forsendum.

Axel Jóhann Axelsson, 18.6.2010 kl. 18:55

6 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég sé að skáldskapurinn hjá Arnari Geir bara lengst og lengist. Það eru vissulega forsendur fyrir breytingu vandalausu lánanna í lán með neytsluvísitölu. Fyrir slíkum breytingum er skýr lagabókstafur. Grundvallaratriði er sanngirni gagnvart báðum samningsaðilum og gagnvart öðrum lánsformum.

Hvað varðar ábyrgð á stöðunni, þá er Alþingi fyrst og fremst ábyrgt og síðan þær ríkisstjórnir sem ekkert hafa gert til að færa kjör lánanna til rétts forms, eða breyta lögunum til samræmis við það sem var í gangi á markaðnum.

Þegar gengistryggingin var afnumin, virðist eina ástæðan hafa verið sú, að fáir notfærðu sér þetta lánaform. Hvers vegna var þá ekki aftur heimilað að nota gengisvísitöluna þegar tug-þúsundir voru að nota hana ? Tómt klúður hjá Alþingi og ríkisstjórninni.

Loftur Altice Þorsteinsson, 18.6.2010 kl. 20:35

7 identicon

"...Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla....Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna..."  -Þetta er úr niðurstöðu Hæstaréttar.

Hæstiréttur telur að löggjafinn hafi ætlað að banna þetta og þó svo hann hafi ekki beinlínis gert það þá sé réttara að fara eftir ætluðum vilja löggjafans frekar en lögunum sjálfum.  Jafnvel þó svo að löggjafinn hafi haft 9 ár til að laga lögin hafi þau ekki virkað eins og hann ætlaðist til. Það er ekki þannig að það hafi verið eitthvað leyndarmál hvernig lán var verið að bjóða. Og ég efast ekkert um það að margir þeirra sem settu lögin hafa fengið svona lán og vissu fullvel hvernig lögin þeirra voru að virka. Margir þeirra sem áttu að sjá um eftirlit og rétta framkvæmd laganna sömu leiðis. Jafnvel Hæstaréttardómarar og þeirra nánustu.

Hverju á að fara eftir ef ætlaður vilji löggjafans er rétthærri en lögin sem hann setur? Hvernig er hægt að ásaka lögfræðinga eða fjármálakerfið þegar Hæstiréttur fer bara eftir einhverju huglægu mati á ætluðum vilja löggjafans?

sigkja (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 17:02

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er hárétt sem þú bendir á sigkj. Hvernig má það vera, að athugasemdir með lagafrumvarpi séu rétthærri en lögin sjálf. Athugasemdirnar eru bara athugasemdir þess sem leggur fram frumvarpið, í þessu tilviki viðskiptaráðherra, en það er Alþingi sem setti lögin. Alþingi hefur líklega breytt ýmsu frá upphaflegu frumvarpi og hugsanlega snúið ýmsu hreinlega á haus. Hvers virði eru þá athugasemdirnar ?

  • Vanhæfur Hæstaréttur !
  • Vanhæf ríkisstjórn !
  • Vanhæft Alþingi ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 19.6.2010 kl. 18:55

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Svo kemur Valgerður Sverrisdóttir, sem var viðskiptaráðherra þegar lögunum var breytt 2001 og segir að það hafi alltaf verið álit ráðuneytisins, að gengistrygging væri bönnuð og segist bara alls ekki skilja, að þetta hafi viðgengist allan þennan tíma.  Þessi yfirlýsing hennar er algjörlega með ólíkindum, því aldrei nokkurn tíma gerði viðskiptaráðuneytið athugasemdir við þessar lánveitingar, en ef þetta er rétt hjá frúnni hefur hún, allir viðskiptaráðherrar á eftir henni og starfsfólk ráðuneytisins gerst sek um stólkostleg afglöp í starfi.

Það þýðin einfaldlega, að starfsmennirnir eru allir óhæfir og alli sem hafa gengt embætti viðskiptaráðherra ættu að fara beina leið fyrirLandsdóm.

Axel Jóhann Axelsson, 19.6.2010 kl. 21:46

10 identicon

Auðvitað ber að taka tillit til athugasemda um lögin og þess sem stendur í frumvarpinu.

Frumvarpið og athugasemdir þar um segja hver tilgangur laganna er og gefur betri hugmynd um hvernig eigi að túlka lögin.

Ég held að þið báðir Loftur og Axel séuð svo uppteknir afþví að hafa ykkar eigin skoðun í þessu máli að ykkur er alveg sama um venjur og lög ég ætla ekki að eyða frekari orðum á þessari blogg síðu þinni sérstalega í ljósi þess að þú sakar mig um skáldskap en gerir lítið annað en að bulla sjálfur.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 12:25

11 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Vissulega geta athugasemdir með lagafrumvörpum hjálpað til við skilning, á því hvað flytjendur frumvarpsins ætluðust fyrir. Hins vegar taka frumvörp oft breytingum í meðförum Alþingis og í sumum ariðum getur útkoman orðið þver-öfug við fyrirætlanirnar. Hvers virði eru þá athugasemdirnar ?

Það er því fjarstæða sem Arnar Geir vill meina, að túlkunargildi athugasemda sé mikið. Hæstiréttur er greinilega á sömu skoðun og Arnar Geir og þess vegna tekur dómurinn ekkert mark á lögunum sjálfum, heldur bindur sig alfarið við athugasemdirnar. Er þá ekki óþarfi að Alþingi komi að lagasetningunni ? Er ekki nóg að ráðherrarnir gefi bara út reglugerðir, eins og þeim sýnist ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 20.6.2010 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband